Fjölmiðlar

Íslenskur fjölmiðlamarkaður gjörbreyttist á einum mánuði

Björn Ingi Hrafnsson er ekki lengur ráðandi í Pressusamstæðunni. Útgerðarmenn hafa selt fjórðung af hlut sínum í Árvakri. Fréttatíminn er í rekstrarstöðvun og 365 miðlar verða brotnir upp ef kaup Vodafone á stærstum hluta þeirra ganga í gegn.

Síðastliðinn mánuð hefur íslenskur fjölmiðlamarkaður gengið í gegnum miklar breytingar. Fréttatíminn stefnir í gjaldþrot eftir 151 milljóna króna tap á árinu 2016 og starfsmenn hans hafa ekki mætt til vinnu í tæpar tvær vikur. Eyþór Arnalds keypti rúmlega fjórðungshlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, fyrir ótilgreinda upphæð af stórum útgerðarfyrirtækjum. Í gær var svo greint frá því að nýir aðilar séu að taka við fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar, sem oftast er kennt við Pressuna. Innan þeirrar samstæðu eru tæplega 30 miðlar sem birta efni á vef, á dagblaða- og tímaritaformi og í sjónvarpi. Þeirra þekktastir eru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.

Þegar við bætist að fyrir dyrum er frágangur á kaupum Vodafone á nær öllum miðlum 365 utan Fréttablaðsins blasir við að árið 2017 virðist ætla að verða ár breytinga í íslenskum fjölmiðlum. Líklega mestu breytingar sem orðið hafa á þeim markaði árum saman.

Björn Ingi stígur til hliðar

Tilkynnt var um það í gær að hlutafé útgáfufélagsins Pressunnar verði aukið um 300 milljónir króna. Samhliða stígur Björn Ingi Hrafnsson, stofnandi Pressunnar og sá sem leitt hefur skuldsettar yfirtökur hennar á öðrum miðlum undanfarin ár, til hliðar.

Hann hefur verið bæði stjórnarformaður og útgefandi Pressusamstæðunnar fram að þessu auk þess sem hann stýrir sjónvarpsþættinum Eyjunni, sem var um nokkurra ára skeið á Stöð 2 en er nú sýndur á ÍNN. Björn Ingi mun láta af öllum stjórnunarstörfum fyrir Pressuna samhliða hlutafjáraukningunni. Hann mun þó áfram stýra sjónvarpsþættinum. Hann mun því hvorki vera í stjórn né koma að ritstjórn miðla samstæðunnar lengur.

Auglýsing

Ný stjórn var kosin á hluthafafundi í gær og verður Gunnlaugur Árnason stjórnarformaður. Aðrir í stjórn verða Þorvarður Gunnarsson, Sesselja Vilhjálmsdóttir og Halldór Kristmannsson. Halldór, sem er yfirmaður samskipta- og markaðssviðs Alvogen, er sá eini sem situr í stjórninni sem er líka eigandi. Hann er á meðal þeirra sem standa að Fjárfestingafélaginu Dalurinn, ásamt m.a. Róberti Wessman og Árna Harðarsyni. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans stendur til að bæta einum stjórnarmanni til viðbótar við, svo oddatala verði í stjórninni.

Núverandi framkvæmdastjóri Birtings, Karl Steinar Óskarsson verður framkvæmdastjóri Pressu-samstæðunnar og Matthías Björnsson, fjármálastjóri Birtings, mun gegna sama starfi á samstæðugrundvelli. Sigurvin Ólafsson verður framkvæmdastjóri DV, en hann tók við því starfi fyrr á þessu ári.

Umfangsmikil endurskipulagning

Vinna við endurskipulagningu á Pressunni og tengdum miðlum hefur staðið yfir mánuðum saman. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er ekki einungis um hlutafjáraukningu að ræða. Samhliða var einnig tekið umtalsvert til í skuldum samstæðunnar, og fer hluti hlutafjáraukningarinnar í að gera slíkar upp. Skuldir Pressunnar hafa verið töluvert til umræðu á undanförnum árum. Í janúar greindi Kjarninn frá því að skuldir samstæðunnar hefðu sexfaldast frá árslokum 2013 og til loka árs 2015. Þá stóðu þær í 444 milljónum króna. Augljóst var að hluti skuldanna var vegna þess að fjölmiðlar voru teknir inn í samstæðuna gegn seljendalánum. Þ.e. þeir sem áttu fjölmiðlanna áður lánuðu Pressunni fyrir kaupverðinu. Þannig var málum til að mynda háttað þegar DV var keypt seint á árinu 2014.

Ljóst var þó að allar þær skuldir sem söfnuðust saman innan Pressusamstæðunnar voru ekki af þeim toga. Einnig þurfti að fjármagna rekstur og umbreytingakostnað í samstæðu sem var sífellt að bæta við sig fleiri fjölmiðlum. Þeir eru nú orðnir tæplega 30 talsins, þegar öll landsbyggðarblöðin og tímaritin sem fylgja Birtingi eru talin með. Aldrei var uppljóstrað um hverjir það hefðu verið sem hefðu lánað annað hvort stærstu eigendurm Pressusamstæðunnar –Birni Inga Hrafnsyni og Arnari Ægissyni – eða samstæðunni sjálfri það fé sem kom inn í hana. Þeir vildu sjálfir ekki upplýsa um það og Fjölmiðlanefnd taldi sig ekki hafa heimild í lögum til að kalla eftir upplýsingum um lánveitendur.

Kvika framseldi skuld sína

Ein skuld vakti meiri athygli en önnur. Það var yfirdráttur sem Pressan var með hjá MP banka, sem í dag heitir Kvika. Hann var upp á rúmlega 60 milljónir króna í lok árs 2013. Ástæða þess að sú skuld vakti athygli var sú að tvær systur, Malín Brand og Hlín Einarsdóttir, reyndu að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, snemma sumars 2015. Í fjár­kúg­un­ar­bréfi sem þær sendu hót­uðu þær að gera opin­ber­ar ­upp­lýs­ingar sem áttu að koma ráð­herr­anum illa. Þær snér­ust um að Sig­mundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan ehf. hafi fengið lána­fyr­ir­greiðslu hjá MP banka þegar félagið keypti DV. Sig­mundur Davíð hefur hafnað því að hann hafi fjár­hags­leg tengsl við Björn Inga Hrafns­son og að hann hafi komið að kaupum á DV á nokkurn hátt. Björn Ingi sagði sömuleiðis að for­sæt­is­ráð­herra hafi ekki fjár­magnað kaup Pressunnar á DV og að hann eigi ekki hlut í blað­inu. Bankinn vildi sjálfur ekki tjá sig um málið efnislega þar sem hann taldi sig ekki geta rofið trúnað við viðskiptavini sína.

Kvika framseldi skuldabréf á Pressusamstæðuna til þeirra sem standa að FÓ eignarhaldi ehf. sem hluta af öðru viðskiptauppgjöri. Sigurður Atli Jónsson er forstjóri Kviku.
Mynd: Kvika

Einn nýrra eigenda Pressunnar er félagið eignarhald ehf. Á meðal þeirra eigenda þess er Fannar Ólafsson. Hann segir í samtali við Kjarnann að aðkomu megi rekja til þess að félagið hafi fengið skuldabréf á Pressusamstæðuna framselt frá Kviku banka sem hluta af öðru viðskiptauppgjöri. Það sé hans aðkoma að málinu. Hann sé að reyna að fá umrætt skuldabréf greitt.

Kjarninn beindi fyrirspurn til Kviku um framsal á kröfu bankans á Pressusamstæðuna. Í svari frá Kviku við fyrirspurn Kjarnans segir að bankinn ekki geta tjáð sig um málið. Hann sagðist auk þess ekki geta tjáð sig um hvort Kvika hefði afskrifað einhverjar skuldir Pressunnar.

Félag Róberts og Árna verður stærsti hluthafinn

Sá aðili sem kemur með mest fé inn í reksturinn er Fjárfestingafélagið Dalurinn., félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og þriggja annarra manna. Róbert og Árni hafa verið viðskiptafélagar árum saman og eru burðarrásirnar í Alvogen í dag. Áður störfuðu þeir m.a. hjá Actavis. Báðir eru sterkefnaðir. Árni var til að mynda skattakongur Íslands árið 2016, þegar hann greiddi samtals 265,3 milljónir króna í opinber gjöld. Árni var líka áberandi í kringum hópmálsókn fyrrverandi hluthafa Landsbanka Íslands gegn Björgólfii Thor Björgólfssyni sem þingfest var í október 2015. Félag í eigu Árna átti um 60 prósent af hlutabréfunum sem stóðu á bakvið málsóknina en hann hafði keypt þau fyrir 25-30 milljónir krona af íslenskum lífeyrissjóðum vikuna áður en málsóknin var þingfest. Auk þess greiddi Árni sinn hluta málskostnaðar. Málið var einungis einn af mörgum öngum langvarandi deilna og orðaskaks milli Árna og Róberts annars vegar og Björgólfs Thors hins vegar. Deilna sem hófust að alvöru þegar Björgólfur Thor rak Róbert úr stóli forstjóra Actavis.

Róbert Wessman er einn þeirra sem standa að félaginu sem verður stærsti einstaki eigandi Pressusamstæðunnar.

Alls setja Árni, Róbert og félagar þeirra 155 milljónir króna inn í rekstur Pressunnar og verða stærstu hluthafar fyrirtækisins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Róbert Wessman kemur að samstæðunni. Hann tók þátt að fjármagna Vefpressuna, upphaflegt móðurfyrirtæki vefmiðilsins Pressunnar, þegar það félag var stofnað 2009. Samkvæmt ársreikningi þess árs átti Salt Investments, félag Róberts, 23,08 prósent hlut í Vefpressunni í lok þess árs. Auk þess var starfsemi hennar til húsa á skrifstofum Salts framan af.

Eigendur Eyktar og Subway bætast í hópinn

Næst hæsta upphæðin kemur frá Kringluturninum ehf., félagi í eigu Björns Inga og Arnars Ægissonar. Þeir setja um 50 milljónir króna af nýju hlutafé inn í reksturinn en það skilar þeim þó ekki nema um 14-16 prósent eignarhlut, samkvæmt upplýsingum Kjarnans. Auk þess eiga þeir kauprétt á meiru hlutafé, sem ekki hefur verið gefið upp hver er. Björn Ingi og Arnar áttu um 82 prósent hlut í Pressunni í upphafi árs.

Þriðji stóri hluthafinn í hópnum eru fyrrverandi eigendur Birtings. Greint var frá því í lok nóvember 2016 að Pressan hefði keypt Birting, stærstu tímaritaútgáfu landsins. Síðar kom í ljós að ekki var um klippt og skorin kaup að ræða. Í febrúar síðastliðinn var tilkynnt um að Pressan hefði eignast allt hlutafé í Birtingi en að fyrrverandi eigendur Birtings myndu koma inn í hluthafahóp Pressunnar. Þessi hópur leggur nú til 47 milljónir króna af nýju hlutafé til Pressusamstæðunnar.

Aðrir sem taka þátt í hlutafjáraukningunni leggja minna fé til. Mest leggur félagið eignarhald – eigu Fannars Ólafssonar, Andra Gunnarssonar og Gests Breiðfjörð Gestssonar – til, eða 20 milljónir króna. Þar á eftir kemur verktakarisinn Eykt ehf., í eigu Péturs Guðmundssonar, með 15 milljóna króna framlag. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans stendur til að flytja starfsemi allra Pressumiðlanna í húsnæði í Borgartúni sem Eykt er að byggja um komandi áramót. Skúli Gunnar Sigfússon, oftast kenndur við Subway, leggur til tíu milljónir króna og Sigurvin Ólafsson, lögmaður og framkvæmdastjóri DV, leggur tvær milljónir króna í púkkið. Viggó Einar Hilmarsson leggur svo fram eina milljón króna.

Eyþór kemur inn í eigendahóp Árvakurs

Á mánudag var upplýsingum um eignarhald á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og Mbl.is, breytt á heimasíðu Fjölmiðlanefndar. Félagið Ramses II, í eigu Eyþórs Arnalds, er nú skrað með 26,62 prósent eignarhlut og er stærsti einstaki eigandi Þórsmerkur ehf., eiganda Árvakurs. Engar upplýsingar hafa verið gefnar um kaupverð á hlutnum, en Eyþór keypti hann af Samherja, Vísi og Síldarvinnslunni.

Eyþór er þar með orðinn stærsti einstaki eigandi Árvakurs. Félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru hins vegar enn með samanlagt stærstan eignarhlut. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,38 prósent hlut. Auk þess á félagið Legalis 12,37 prósent hlut. Eigendur þess eru m.a. Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs og stjórnarmaður í Ísfélaginu, og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins. Samanlagður hlutur þessarar blokkar í Árvakri er 42,18 prósent. Gunnlaugur Sævar er einnig eigandi að hlut í Lýsi ehf., sem á 1,97 prósent hlut í Árvakri. Bæði Gunnlaugur Sævar og Sigurbjörn sitja í stjórn þess fyrirtækis.

Undanfarin misseri hefur Morgunblaðið verið nær einvörðungu í eigu aðila í sjávarútvegi. Nú verður breyting á. Eyþór Arnalds hefur eignast rúman fjórðung í Árvakri, útgáfufélagi blaðsins.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Aðrir eigendur eru að mestu aðilar tengdir íslenskum sjávarútvegi. Á meðal Þeirra eru Kaupfélag Skagfirðinga, Rammi hf. og Skinney-Þinganes.

Kaup félags Eyþórs á hlut í Þórsmörk eru háð þeim fyrirvara að aðrir eigendur nýti sér ekki forkaupsrétt.

Samkvæmt heimildum Kjarnans er hlutafjáraukning í Árvakri fram undan og er aðkoma Eyþórs að félaginu tengd henni. Árvakur tapaði 1,5 millj­arði króna frá því að nýir eig­endur tóku við félag­inu 2009 og fram til loka árs 2015. Á þeim tíma hafa þeir eig­endur sett að minnsta kosti 1,2 millj­arða króna í rekstur félags­ins og voru 4,5 millj­arðar króna afskrif­aði hjá Íslands­banka í því ferli þegar nýir eigendur komu að félaginu. Tap Árvak­urs var 164 millj­ónir króna á árinu 2015.

Árs­reikn­ingur fyrir árið 2016 hefur ekki verið birtur en Har­aldur Johannessen, fram­kvæmda­stjóri Árvak­urs og rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins, sagði í til­kynn­ingu í fyrra­haust að líkur væru á halla­rekstri á árinu 2016 líka. Sam­kvæmt til­kynn­ingu til fyr­ir­tækja­skráar var hlutafé Árvak­urs aukið um 7,4 pró­sent í nóv­em­ber í fyrra og hækk­unin öll greidd með pen­ing­um.

Tífalt tap og reksturinn stöðvaður

Fríblaðið Fréttatíminn kom síðast út föstudaginn 7. apríl. Ekki hefur formlega verið tilkynnt um hver afdrif þess verða en starfsmenn blaðsins hafa ekki verið boðaðir til vinnu síðan að gerð þess tölublaðs lauk. Hluti starfsmanna, um tugur, hefur enn ekki fengið greidd laun sem áttu að greiðast um síðustu mánaðamót.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir skemmstu að tap Fréttatímans, samkvæmt rekstrarreikningi, hefði verið 151 milljón króna á árinu 2016. Tapið tífaldaðist á milli ára.

Gunnar Smári Egilsson, sem leiddi hóp sem keypti útgáfufélag Fréttatímans síðla árs 2015, hætti afskiptum af útgáfunni í byrjun apríl. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hann það hafa verið gert á „meðan lán­ar­drottn­ar, aðrir hlut­haf­ar, starfs­fólk og mögu­legir kaup­endur leit­uðu nýrra lausna.“

Engar nýjar fréttir hafa borist af afdrifum Fréttatímans á síðustu dögum.

Stærsta einkarekna fjölmiðlasamsteypan brotin upp

Stærstu tíðindin á fjölmiðlamarkaði það sem af er þessu mikla breytingarári urðu þó líkast til um miðjan mars síðastliðinn, þegar tilkynnt var um að Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, hefði und­ir­ritað samn­ing um kaup á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að und­an­skildum eignum er varða útgáfu Frétta­blaðs­ins. Kaup­verðið er 7.725-7.875 millj­ónir króna. Það greið­ist í reiðu­fé, með útgáfu nýrra hluta í Fjar­skiptum og yfir­töku á 4,6 millj­arða króna skuld­um.

Sú breyt­ing var gerð á fyrra sam­komu­lagi að Fjar­skipti eru ekki bara að kaupa ljós­vaka- og fjar­skipta­eignir 365 miðla. Nú bæt­tust bæði frétta­vef­ur­inn Vísir.is og frétta­stofa 365, að und­an­skil­inni rit­stjórn og rekstri Frétta­blaðs­ins, í kaup­in. Áður ætl­aði Fjar­skipti ein­ungis að kaupa sjón­varps- og útvarps­stöðvar 365 auk fjar­skipta­hluta fyr­ir­tæk­is­ins. Helstu sjón­varps­stöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórás­in. Helstu útvarps­stöðvar eru Bylgj­an, FM957 og X-ið.

Frétta­blaðið verður áfram í eigu 365 miðla. Það verður tíma­ritið Glamour einnig. Engar breyt­ingar verða á eign­ar­haldi þess félags. Eftirlitsaðilar fara nú yfir viðskiptin og er búist við niðurstöðu þeirra síðsumars eða í haust.

Núver­andi hlut­hafar 365 miðla munu eign­­ast 10,9 pró­sent hlut í Fjar­­skipt­um eftir ef greitt verður með nýju hluta­fé, líkt og stefnt er að. Það þýðir að stærsti eig­andi 365 miðla, aflands­­fé­lög í eigu Ing­i­­bjargar S. Pálma­dótt­­ur, munu eign­­ast um átta pró­­sent í Fjar­­skipt­­um. Sam­an­lagt verða félög hennar stærsti ein­staki einka­fjár­­­fest­ir­inn í hlut­hafa­hópi félags­­ins. Í dag er það Ursus, félag Heið­­ars Guð­jóns­­son­­ar, sem á 6,4 pró­­sent hlut. Í krafti þess eign­­ar­hlutar er Heiðar stjórn­­­ar­­for­­maður Fjar­­skipta. Stærstu eig­endur Fjar­­skipta eru þrír stærstu líf­eyr­is­­sjóðir lands­ins: Líf­eyr­is­­sjóður starfs­­manna rík­­is­ins, Líf­eyr­is­­sjóður versl­un­­ar­­manna og Gildi líf­eyr­is­­sjóð­­ur. Sam­an­lagt eiga þeir 32,13 pró­­sent eign­­ar­hlut í félag­inu.

Kanntu vel við Kjarnann?

Við á Kjarnanum þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar