aðgöngumiði að innri markaði

Er Evrópusambandið brennandi hús, draumaheimur eða hvorugt?

Evrópumál eru oftast nær rædd á forsendum öfga á sitthvorum enda umræðunnar. Þeirra sem eru staðfastastir á móti og þeirra sem eru blindaðir af kostum aðildar. Vegna þessa fer umræðan oftast nær fram á grundvelli tilfinninga, ekki staðreynda. Í nýjasta þætti Kjarnans er það reynt.

Þrátt fyrir óumdeilanlegt mikilvægi Evrópu sem markaðar fyrir Ísland, og þau ríku sögulegu og menningarlegu tengsl sem landið hefur við aðildarríki sambandsins, þá hefur pólitísk umræða um Evrópumál á Íslandi verið fremur rýr. Hún hefur að mestu farið fram á forsendum þeirra tveggja hópa sem eru staðfastastir í afstöðu sinni, annað hvort með eða á móti. Öskrað er úr byrgjunum sitt hvoru megin að Evrópusambandið sé annað hvort brennandi hús sem beri augljóslega að forðast með öllu eða einhverskonar alltumlykjandi draumaland sem muni leysa öll vandamál lítillar þjóðar á eyju úti í Ballarhafi. Umræðunni fylgir því mikil heift og hún byggir að stóru leyti á tilfinningu og upphrópunum, frekar en staðreyndum. Þess vegna reynist almenningi oft erfitt að átta sig á hvað sé rétt og hvað ekki.

Þegar í það er rýnt er mjög auðvelt að komast að einni grundvallarafstöðu: Evrópusambandið og aðild að því hefur bæði kosti og galla. Það þarf síðan að vega og meta þá kosti og þá galla út frá staðreyndum til að móta sér skynsamlega afstöðu gagnvart því hvort Ísland eigi heima innan þess eða ekki. Sú staðreyndamiðaða umræða fær því miður allt of sjaldan að eiga sér stað vegna fyrirferðar ofangreindra hópa á umræðuvettvangnum.

Evrópumál voru til umræðu í nýjasta þætti Kjarnans á sjónvarpstöðinni Hringbraut. Gestur þáttarins er Lilja Alfreðsdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra. Hægt er að horfa á viðtalið við Lilju hér að neðan.

Staða Evrópumála á Íslandi

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009. Það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem það gerði. Á þeim tíma var Ísland að glíma við ótrúlegt magn vandamála.  Gengi krón­unnar hafði fallið um nálægt 50 pró­sent, atvinnu­leysi stefndi í tveggja stafa tölu, verð­bólga topp­aði skömmu síðar í tæp­lega 20 pró­sent­um, stýrivextir voru 18 pró­sent og hall­inn á rekstri rík­is­sjóðs var yfir 200 millj­arðar króna. Með neyð­ar­lög­unum hafði ríkið til við­bótar búið til nýtt banka­kerfi – byggt á inn­stæðum og völdum eignum sem átti eftir að greiða fyrir – sem var að öllu ófjár­magn­að. Fjár­mögnun þess var talið kosta allt að 385 millj­arða króna, sem voru ekki til í rík­is­sjóði. Rúmur helm­ingur fyr­ir­tækja í land­inu var í van­skilum og talið var að um 70 pró­sent þeirra væru með nei­kvætt eigið fé, og þar með tækni­lega gjald­þrota. Tug­þús­undir heim­ila voru með fjár­mál sín í algjöru upp­námi af ýmsum ástæð­um. Sum höfðu skuld­sett sig of mikið til að hraða sér í lífs­gæða­kapp­hlaup­inu, (ís­lenskum heim­ilum tókst að verða þau skuld­sett­ustu í heimi á árunum fyrir hrun), sum voru með geng­is­tryggð eða verð­tryggð lán sem hækk­uðu tíma­bundið mikið við fall krónu og verð­bólgu­skot og sum glímdu við þann skyndi­lega veru­leika að fyr­ir­vinnan varð atvinnu­laus.

Það mátti því færa góð rök, einvörðungu út frá þessum aðstæðum, um að það ætti kannski ekki að vera forgangsatriði að reyna að semja um aðild að Evrópusambandinu á nákvæmlega þessum tíma. Þegar við bættist að annar stjórnarflokkurinn – Vinstri græn – var andsnúin aðild, að ekki var meirihluti fyrir aðild innan þings og að skoðanakannanir sýndu að slíkur meirihluti var heldur ekki til staðar hjá þjóðinni þá er eðlilegt að fólk klóri sér í höfðinu yfir því af hverju var lagt í þessa vegferð. Það er skoðun margra Evrópusambandssinna – meðal annars fyrrverandi lykilmanna innan Samfylkingarinnar – að engin ein gjörð hafi eyðilagt meira fyrir möguleikum Íslands á að ganga í Evrópusambandið á næstu áratugum en sú ákvörðun að sækja um á þessum tíma.

Þrátt fyrir að Íslandi hefði verið lofað flýtimeðferð var viðræðum ekki lokið þegar leið að kosningum 2013. Ástæður þess voru margþættar og bæði heimatilbúnar sem utanaðkomandi. Icesave-deilan spilaði þar stóra rullu en það gerði líka mikil andstaða hluta þingmanna og ráðherra Vinstri grænna gagnvart ferlinu. Á endanum setti ríkisstjórnin sem sótti um umsóknarferlið á ís. Og sú sem tók við, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sendi bréf til Brussel þar sem kom fram að Ísland liti svo á að viðræðum væri hætt, þótt þeim hafi aldrei formlega verið slitið. Þannig er staðan enn í dag.

Afdrifaríkt bréf

Bréfasending þáverandi utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, átti eftir að draga verulegan og ófyrirséðan dilk á eftir sér. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði nefnilega lofað því í aðdraganda kosninga 2013 að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um aðildarviðræðurnar áður en þeim yrði hætt. Það gerði hann til að friða stóran hóp Evrópusinna innan síns flokks.

Benedikt Jóhannesson flytur ræðu á mótmælafundi í kjölfar þess að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lauk aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hann leiddi síðar Viðreisn í gegnum kosningar og situr nú í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sama flokki og hann var að mótmæla á myndinni.

Þegar á hólminn kom sagði Bjarni að það hefði verið „pólitískur ómöguleiki“ að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem ráðamenn beggja stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, væru á móti aðild. Það varð til þess að lykilmenn úr ranni Evrópusinna yfirgáfu Sjálfstæðisflokkinn. Og stofnuðu Viðreisn.

Sá flokkur var formlega stofnaður í júní 2014 og hafði undirbúningur þá staðið yfir mánuðum saman. Markmiðið var framboð í næstu þingkosningum og eitt helsta stefnumálið yrði aðild að Evrópusambandinu.

Viðreisn gekk vel í kosningunum í október 2016 undir forystu Benedikts Jóhannessonar, frænda Bjarna Benediktssonar. Flokkurinn fékk 10,5 prósent atkvæða og sjö þingmenn kjörna. Annar flokkur sem var með Evrópusambandsaðild á stefnuskrá sinni, Björt framtíð, náði í 7,2 prósent atkvæða og fjóra þingmenn. Sá þriðji, Samfylkingin, beið hins vegar afhroð og hlaut einungis 5,7 prósent atkvæða, sjö árum eftir að flokkurinn hafði hlotið 29,8 prósent atkvæða í kosningum.

Viðreisn og Björt framtíð mynduðu samstundis bandalag sem þau kenndu við frjálslynda miðju og hófu stjórnarmyndunarviðræður við flest alla nema Framsóknarflokkinn. Fyrsta lota slíkra viðræðna var við Evrópuandstöðuflokkinn Sjálfstæðisflokk og strandaði m.a. á Evrópumálum. Eftir nokkra dansa flokkanna þriggja við aðra náðu þeir aftur saman í janúar og mynduðu ríkisstjórn.

Í stefnuskrá hennar var ein skuldbinding í Evrópumálum skjalfest: að Við­reisn og Björt fram­tíð, báðir Evr­ópu­sinn­aðir flokkar sem vilja þjóð­ar­at­kvæði um áfram­hald­andi við­ræð­ur, sam­þykktu að taka ekki afstöðu til þess máls komið það upp í þing­inu fyrr en undir lok kjör­tíma­bils­ins.

Það er í algjörri and­stöðu við stefnu beggja flokka. Í grunnstefnu Við­reisnar seg­ir: „Þjóðin kjósi strax um hvort ljúka skuli við­ræðum um fulla aðild að Evr­ópu­sam­band­inu til þess að ná megi aðild­ar­samn­ingi sem bor­inn verði undir þjóð­ina.“ Í áherslum Bjartar fram­tíðar seg­ir: „Löndum góðum samn­ingi við ESB sem þjóðin getur eftir upp­lýsta umræðu sam­þykkt í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu.“

Ljóst er að reyna mun mjög á afar viðkvæmt stjórnarsamstarfið á næstunni vegna þessara mála, enda hafa Píratar lagt fram þingsályktunartillögu um að fram farið þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort óska eigi eft­ir nýj­um viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið um inn­göngu Íslands í sam­bandið. Þjóðar­at­kvæðið á samkvæmt tillöguna að fara fram vorið 2018.

Þegar tillagan verður tekin til efnislegrar umræðu þurfa Viðreisn og Björt framtíð annað hvort að fara gegn eigin stefnu og hafna henni, til að verja stjórnarsamstarfið, eða vera samkvæm sjálfum sér og stefna þar með stjórnarsamstarfinu í hættu.

Borgum fyrir aðgöngumiðann að innri markaði Evrópu

En hver er staða Íslands í Evrópumálum sem stendur? Ísland er með nokkurs konar aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem tók gildi í byrjun árs 1994. Aðrir aðilar að þeim samningi eru Evrópusambandið, Noregur og Liechtenstein. Samningurinn veitir Íslandi aðgang að innri markaði Evrópu á flestum sviðum án tolla og gjalda, en þorri alls útflutnings okkar fer á það svæði. Og raunar flytjum við mest innan þaðan líka.

Samningsviðræður um framlög Íslands og hinna EES-ríkjanna fyrir aðgang að innri markaði Evrópu hafa oft verið erfiðar. Síðast hafði verið ósamið í fimmtán mánuði þegar náðist saman.

Það er líkast til ekki ofmælt að segja að fátt, ef nokkuð, hefur fært Íslandi jafn mikla hröðun á lífsgæðum og vexti og EES-samningurinn. Hann var gífurlega umdeildur þegar hann var gerður og mikill þrýstingur var á Vigdísi Finnbogadóttur, þáverandi forseta landsins, að synja honum undirskriftar og senda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af því varð þó ekki.  

Ísland þarf að undirgangast regluverk Evrópusambandsins að stórum hluta vegna samningsins, með nokkrum vel skilgreindum undanþágum. Þar á meðal er hið svokallaða fjórfrelsi um frjálsa för vinnuafls, fjármagns, vöru og þjónustu um innri markaðinn. Ísland hefur hins vegar enga aðkomu að mótun þess regluverks sem landið er skuldbundið til að innleiða, þar sem það er ekki aðili að Evrópusambandinu.

Ísland, og hin EES-löndin, greiða fyrir þessa aukaaðild að Evrópusambandinu með framlögum í Uppbyggingasjóð EES. Þær greiðslur eru oft kallaðar aðgöngumiðinn að innri markaðnum. Samið er um greiðslur á nokkurra ára fresti, en síðast var samið sumarið 2015 eftir langar og strangar viðræður. Þá voru fimmtán mánuðir liðnir frá því að fyrri samningur rann út og mjög erfiðlega gekk að semja, aðallega vegna þess að Evrópusambandið hafði farið fram á allt að þriðjungshækkun í sjóðinn.

Ef gengið hefði verið að upp­haf­legum kröfum Evr­ópu­sam­bands­ins myndi Ísland þurfa að greiða um 6,5 millj­arða króna í sjóð­inn vegna tíma­bils­ins 2014-2019. Fyrir síð­asta samn­ings­tíma­bil, sem stóð frá 2009-2014, greiddu Íslend­ingar 4,9 millj­arða króna. Því yrði um hækkun upp á 1,6 millj­arða króna að ræða. Ekk­ert EFTA-­ríkj­anna þriggja sem greiða í sjóð­inn voru til­búin til að ganga að þessum kröfum og taka á sig hækk­anir af þess­ari stærð­argráðu.

Nið­ur­staða við­ræðn­anna varð á end­anum sú að greiðslur Íslands hækkuðu um ell­efu pró­sent, sem taldist innan marka verðlagsbreytinga frá 2009. Auk þess yrði inn­flutn­ings­kvóti toll­frjálsra sjáv­ar­af­urða frá Íslandi til Evrópusambandsins aukin veru­lega. Samn­ing­ur­inn gildir í sjö ár, en fyrri tveir samn­ingar giltu í fimm ár.

Norðmenn greiða þorra þeirra framlaga sem far í Uppbyggingarsjóðinn, enda reiknast framlag út frá landsframleiðslu og höfðatölu.

Enn Evrópumeistarar í innleiðingarhalla

Líkt og áður sagði þá skuldbindur Íslands sig til að taka upp í lögum sínum obba regluverks Evrópusambandsins með aðild sinni að EES. Sú innleiðing á að gerast innan tiltekinna tímamarka. Ef ekki tekst að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins innan þeirra verður til það sem kallast innleiðinarhalli. Þ.e. hversu stórt hlutfall innleiðinga land hefur ekki innleitt innan þeirra tímamarka sem gefin voru.

Ísland er það aðildarríki EES sem stendur sig verst í því að innleiða þessar skipanir. Eftir að frammi­staða Íslands í því að inn­leiða reglur frá Evr­ópu hafði batnað fram stöðugt frá nóv­em­ber 2013 til nóv­em­ber 2015 hefur frammi­staðan nú versnað í tveimur frammi­stöðu­mötum í röð. Nú eru 18 til­skip­anir sem Ísland hefur ekki inn­leitt innan tíma­marka, sem gerir inn­leið­ing­ar­halla upp á 2,2 prósent. Hin ríkin í EFTA, Liechten­stein og Nor­eg­ur, standa sig mun bet­ur. Inn­leið­ing­ar­halli Nor­egs er 0,4 prósent og Liechten­stein er með 0,9 prósent halla. Meðal inn­­­leið­ing­­ar­halli í Evr­­ópu­­sam­­bands­­ríkjum er 0,7 pró­­sent.

Þetta hefur ekki einungis þau áhrif að Ísland er ekki að standa við samning sem landið hefur gert heldur þýðir þetta líka að íslenskir rík­is­borg­ar­ar, og rík­is­borg­arar innan alls EES svæð­is­ins, njóta ekki að fullu kosta innri mark­að­ar­ins.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ítrekað sagt að Ísland þurfi að standa sig miklu betur til að standa við skuld­bind­ingar sínar gagn­vart inn­­­leið­ingu á lögum og reglum EES-samningsins.

Síð­asta rík­is­stjórn var með Evr­ópu­stefnu, þar sem meðal ann­ars var lýst yfir að ráð­ast ætti í mikið átak til að bæta inn­leið­ing­ar­hall­ann. Á fyrri hluta árs­ins 2015 átti hall­inn að vera kom­inn undir 1 prósent. Það varð hins vegar aldrei, og lægst fór hall­inn í 1,8 prósent áður en hann tók að aukast á ný.

Á móti aðild en fylgjandi þjóðaratkvæði

Skoðanakannanir um Evrópumál sýna nokkuð flókna stöðu. Meirihluti landsmanna hefur verið á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið í nær öllum könnunum sem gerðar hafa verið frá því að sótt var um aðild sumarið 2009. Í nýlegri könnun MMR kom fram að 54 prósent hennar væri á móti aðild, 25,9 prósent væru fylgjandi en restin hefði ekki fastmótaða skoðun á málinu.

Afstaða íslensks almennings til Evrópusambandsins er að mörgu leyti sérkennileg. Meirihluti er á móti aðild en fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara eigi í aðildarviðræður.

Þegar spurt er hvort þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram um hvort fara eigi fram aðildarviðræður við Evrópusambandið þá breytist afstaðan hins vegar. Í slíkum könnunum hefur um langt skeið verið afgerandi meirihluti fyrir því að þjóðin fái að kjósa um hvort farið sé í viðræður eða ekki.

Draga má þá ályktun af ofangreindu að stór hluti þjóðarinnar sé tortryggin gagnvart aðild að Evrópusambandinu, en vilji fá betri upplýsingar um hvað felist í aðild í stað þess að láta harðlínufólk á sitthvorum væng afstöðunnar til aðildar segja sér hvað sé um að ræða.

Mörg krefjandi vandamál Evrópusambandsins

En hver er staðan innan Evrópusambandsins um þessar mundir? Af umræðu hérlendis mætti ætla að hún sé afleit. Sambandið er að ganga í gegnum erfiðleikatímabil, um það er engin vafi. Hröð stækkun hefur leitt af sér mikla vaxtarverki, sérstaklega vegna þess að höfuðáhersla var lögð á að búa til eitt myntsvæði evru úr afar ólíkum efnahagslegum kerfum aðildarríkja. Í þeirri vegferð leit Evrópusambandið meðvitað fram hjá augljósum veikleikum sumra aðildarríkja, t.d. Grikklands, sem hefðu átt að koma í veg fyrir að þau uppfylltu þau skilyrði sem sett voru fyrir aðild að evrunni. Á barnalegu bjartsýnistímum nánast ókeypis fjármagns fyrir efnahagskreppuna sem skall á árið 2008, gátu þessi ríki því gefið út gríðarlegt magn skuldabréfa á baki lánshæfi Evrópusambandsins. Bréf sem þau gátu aldrei raunhæft greitt til baka. Ósveigjanleiki stærstu ríkja Evrópusambandsins til að taka á gríðarlegum vanda t.d. Grikkja og Ítala eftir efnahagskreppuna, hefur opinberað veikleika hjá sambandinu.

Flóttamannamál hafa líka valdið miklum vanda. Flóttamenn hafa á undanförnum árum flykkst til Evrópu frá stríðsátökum í miðausturlöndum og Norður-Afríku aðallega, í leit að betra lífi fyrir sig og sína. Evrópusambandið hefur nálgast flóttamannastöðuna með afstöðu sem holdgervist í Dyflinnar-reglugerðinni. Í henni felst að flóttamenn eigi að sækja um hæli í því landi álfunnar sem þeir koma fyrst til. Í ljósi þess að flestir flóttamennirnir eru að koma frá sömu vandræðasvæðunum þá verður vandi sumra Evrópulanda – t.d. Grikklands og Ítalíu – vegna flóttamannastraums mun stórtækari en t.d. Þýskalands. Ljóst var að þegar flóttamenn streymdu inn í Evrópu í fyrra að þetta kerfi myndi ekki halda. Fátækari lönd álfunnar, sem áttu landamæri að helstu flóttamannasvæðum, myndu einfaldlega ekki geta tekið við öllu þessu fólki. Og mörg önnur lönd í námunda við þau, t.d. Ungverjaland og Búlgaría, ætluðu einfaldlega ekki að gera það. Þess vegna ákváðu þýsk stjórnvöld að opna landamæri sín tímabundið í fyrra fyrir straumnum sem lá frá Grikklandi og í gegnum Austur- og Mið-Evrópu.

Þjóðflutningar flóttamanna sem hófust til Evrópu árið 2015 hafa reynt mjög á stoðir Evrópusambandsins.
Mynd:EPA

Evrópusambandsþjóðirnar hafa ekki enn komið sér saman um hvernig eigi að leysa flóttamannavandann. Fjögur lönd: Þýskaland, Svíþjóð, Ítalía og Frakkland hafa tekið við langflestum þeirra flóttamanna sem hafa komið yfir Miðjarðarhafið frá árinu 2015, eða ⅔ hluta þeirra. Lagt hefur verið til að lönd sambandsins dreifi flóttamönnunum um svæði sín, en um að hefur ekki nást sátt.

Þá á auðvitað eftir að telja til Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Nær ómögulegt er að ráða í hvernig hún mun verða, en ljóst er að útgangan mun hafa dramatískt áhrif á þróun og stöðu Evrópusambandsins annars vegar og Bretlands hins vegar. Hvort sú þróun verður til góðs eða ills fyrir aðila máls á einfaldlega eftir að koma í ljós. En um verður að ræða flóknasta hjónaskilnað í sögu alþjóðavædds heims.

Vöxtur og sífellt batnandi efnahagsaðstæður

Það fer ekki jafnt hátt og bölsýnin, en Evrópusambandinu gengur líka mjög vel á mörgum sviðum. Í fyrra var til að mynda meiri hagvöxtur á evrusvæðinu en í Bandaríkjunum, í fyrsta sinn frá hruni. Atvinnuleysi hefur minnkað hratt og er komið undir tíu prósent, störfum fjölgað mikið og jákvæðni gagnvart hagkerfinu er meiri en hún hefur mælst í sex ár.

Nú hefur mælst hagvöxtur á evrusvæðinu í fjórtán ársfjórðunga í röð og spár gera ráð fyrir að árið í ár verði betra en öll síðust ár. Hag­vöxtur hefur farið batn­andi um allt evrusvæðið, nema á Ítal­íu, og til að mynda var 3,2 prósent vöxtur á Spáni í fyrra. Focus Economics, sem tekur saman ýmiss konar hag­spár, hefur vakið athygli á því að mesta hækk­unin í hag­vaxt­ar­spám fyrir þetta ár sé í Evr­ópu. Jafn­vel árið 2018, þegar skatta­lækk­anir og aðrar efna­hags­að­gerðir Don­alds Trump eiga að hafa sem mest áhrif, eru nýj­ustu spár fyrir evrusvæðið á pari við Banda­rík­in.

Þá heldur Evrópusambandið áfram að bæta stöðu neytenda þvert á landamæri. Frá og með júní næstkomandi munu til að mynda reikigjöld vegna snjallsímanotkunar leggjast af innan Evrópusambandsins. Það þýðir að notendur snjallsíma, sem eru nánast allt nútímafólk, þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af því að kostnaður vegna netnotkunar eða símtala í gegnum símann eða önnur sambærileg tæki taki nokkrum breytingum þegar viðkomandi ferðast á milli landa sambandsins. Fjarskiptafyrirtækjum verður óheimilt að taka af þeim viðbótargjald.

Það blasir því við að staðan Evrópusambandsins er, líkt og oft áður, flókin. Margt gengur afar vel en annað síður.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar