Mynd: Birgir Þór Harðarson

Íslensk stjórnmál eru gjörbreytt... og hrunið breytti þeim

Á síðustu árum hefur fjórflokkurinn svokallaði misst yfirburðastöðu sína í íslenskum stjórnmálum. Flokkarnir sem smíðuðu kerfin ná ekki lengur nægilegu fylgi til að verja þau. Öfl stofnuð eftir 2012 taka til sín nær sama magn atkvæða og þeir. Breytingarnar sem orðið hafa á íslensku stjórnmálalandslagi á síðasta tæpa áratug eru viðfangsefni nýjasta þáttar Kjarnans á Hringbraut.

Fyrir bankahrun var stjórnmálakerfi til staðar hérlendis sem kalla má 4+1. Hér voru fjórir stjórnmálaflokkar sem röðuðu sér niður á mismunandi stöðum í hinu hefðbundna pólitíska litrófi, frá vinstri til hægri. Einn sósíalískur flokkur (lengi vel Alþýðubandalagið), einn sósíaldemókratískur flokkur (lengi vel Alþýðuflokkurinn), einn íhaldssamur bændaflokkur (Framsóknarflokkurinn) og einn stór íhaldsflokkur (Sjálfstæðisflokkurinn) sem hafði mjög breiða skírskotun þótt hann skilgreindi sig á tyllidögum sem hægri flokk.

Til viðbótar var oft einn flokkur til viðbótar á þingi sem endurspeglaði nýjar áherslur í samfélaginu hverju sinni. Skýrasta dæmið um slíkan flokk var Kvennalistinn á níunda áratugnum, sem lyfti grettistaki í jafnréttisbaráttu kvenna og rann á endanum inn í meginstraumsstjórnmál þegar áherslur hans voru að hluta orðnar norm en ekki jaðarskoðanir.

Á tíunda áratugnum og eftir aldarmót breyttist landslagið lítillega með tvennum hætti. Í fyrsta lagi má segja að Sjálfstæðisflokkurinn færði sig frá því að vera flokkur allra stétta og í átt að nýfrjálshyggju og auðræði. Flokkurinn umfaðmaði hugmyndafræðina um lága skatta á fjármagn og eigendur þess og hélt því fram að þannig myndi kakan stækka. Vissulega myndi sneið fjármagnseigendanna gera það líka en mylsnan sem félli af myndi auðga allt samfélagið samhliða og bæta lífsgæða annarra. Hin stóra breytingin var tilraunin til að sameina vinstri væng stjórnmálanna í Samfylkingunni. Þangað inn var runnu Alþýðuflokkurinn, klofningsframboðið Þjóðvaki, Alþýðubandalagið og Kvennalistinn. Til átti að verða jafnaðarmannaflokkur sem yrði svipaður að stærð og á hinum Norðurlöndunum. Ljóst varð þó tiltölulega snemma að Samfylkingin leit líka mjög til þeirrar þróunar sem var að eiga sér stað hjá Verkamannaflokknum í Bretlandi undir stjórn Tony Blair varðandi áherslur. Þar var verið að vinna með „þriðju leiðina“. Hugmyndin þar var að samþætta og umfaðma markaðsáherslur kapítalismans á sama tíma og lögð yrði áhersla á sósíalískar áherslur í ríkisrekstri og sterkt velferðarkerfi.

Það var mikil jafnvægislist að reyna að valda þessum andstæðum og skiptar skoðanir eru um hversu vel til tókst. Margir vinstrimenn eru þeirrar skoðunar að Samfylkingin hafi algjörlega yfirgefið hlutverk jafnaðarmannaflokkanna sem flokks launafólks og vinnumarkaðsréttinda til að hlýja sér hjá auðvaldinu og boða aukna alþjóðahyggju og viðskiptafrelsi sem leiðir til að bæta kjör verkalýðsins. Strax í byrjun ákváðu enda lykilmenn úr flokkunum fjórum sem stofnuðu Samfylkinguna um aldarmótin að taka ekki þátt heldur að stofna eigið nýtt vinstriafl, Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Hinn mikli samruni á vinstri vængnum breytti því 4+1 kerfinu ekki á neinn hátt. Fjórflokkurinn sem raðaði sér frá vinstri til hægri var enn til staðar og var kjölfestan í íslenskum stjórnmálum áfram sem áður með yfir 90 prósent atkvæða og þorra þingmanna.

Kerfið skilaði nánast alltaf sömu flokkunum við stýrið

Kerfið sem var til staðar skilaði nánast alltaf þeirri niðurstöðu að annað hvort Sjálfstæðisflokkur eða Framsóknarflokkur voru við völd, og oftast saman. Það gerðist fyrst árið 2009 að hvorugur þessara flokka ætti sæti í meirihlutastjórn á Íslandi. Frá lýðveldisstofnun hefur Sjálfstæðisflokkurinn stýrt landinu í þrjú af hverjum fjórum árum sem liðið hafa og Framsóknarflokkurinn í tvö af hverjum þremur. Þeir hafa því mótað kerfin sem Ísland hvílir á og sniðið stjórnsýslu landsins og lagaumhverfi að sínum áherslum. Í aðdraganda bankahrunsins var Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda í ríkisstjórn samfleytt frá árinu 1991. Í tólf þeirra ára – frá 1995 til 2007 – stýrði hann með Framsóknarflokknum.

Við hrunið breyttist allt. Á einni nóttu hvarf traust almennings til flestra stofnana samfélagsins, þar með talið stjórnmálanna. Það var mjög almenn skoðun að stjórnmál, stjórnsýsla, og auðvitað banka- og viðskiptamennirnir sem nýtt höfðu sér kerfið sem skapað hafði verið til að valda sínum skaða, hefðu saman valdið því tjóni sem almenningur stóð frammi fyrir. Gengishruni, atvinnuleysi, eignamissi, verðbólguskoti, skuldafangelsi og svo framvegis. Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, ræðir það í nýjasta þætti Kjarnans á Hringbraut, sem fjallar um breytingar í íslenskum stjórnmálum eftir hrun.

Samfylkingin slapp ansi vel frá því að vera kennt um, þrátt fyrir að hafa setið í ríkisstjórn frá 2007 og fram yfir hrun með Sjálfstæðisflokknum. Þegar fjöldamótmæli felldu ríkisstjórnina snemma árs 2009 gat hún myndað minnihlutastjórn með Vinstri grænum og selt þá hugmynd að þar væri komin tiltektarstjórn sem ætlaði að hreinsa upp eftir partýið. Partý sem Samfylkingin hafði sannarlega tekið þátt í, og bar að hluta til ábyrgð á hvernig endaði.

Í kosningunum 2009 var því kerfisvarnarflokkunum, sem stýrt höfðu Íslandi að mestu á lýðveldistímanum, refsað mest allra. Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína verstu útreið í sögunni og einungis 23,7 prósent atkvæða. Hann tapaði níu þingmönnum. Framsóknarflokknum gekk ögn betur og náði 14,8 prósent atkvæða, sem þýddi að hann bætti við sig tveimur þingmönnum milli kosningar. En sigurvegararnir voru Vinstri græn (21,7 prósent) og Samfylkingin sem nú var farin að flagga vinstriáherslum í stað þriðju leiðarinnar (29,8 prósent). Saman náðu þessir tveir flokkar á vinstri væng stjórnmálanna 34 þingmönnum og meirihluta. Til varð fyrsta hreina tveggja flokka vinstristjórnin í Íslandssögunni.

En fjórflokkakerfið lifði góðu lífi. Saman fékk það 90 prósent atkvæða. Plúsflokkur þess tíma – andófsflokkurinn Borgarahreyfingin sem spratt upp úr fjöldamótmælum vegna hrunsins – náði að krækja sér í 7,2 prósent atkvæða og fjóra þingmenn.

Traust hverfur í miðri tækni- og upplýsingabyltingu

Þótt 4+1 kerfið virtist lifa góðu lífi var ljóst að eðlisbreytingar voru í farvatninu. Mikil hreyfing var á þingmönnum milli flokka á kjörtímabilinu og átökin milli stjórnar og stjórnarandstöðu voru ein þau hörðustu sem sést hafa. Það skýrist auðvitað að einhverju leyti af því að viðfangsefnin voru fordæmalaus. Samhliða var að eiga sér stað tækni- og upplýsingabylting sem mun breyta því hvernig við lifum meira en iðnbyltingin. Hún hefur t.d. þegar breytt því algjörlega hvernig fólk nálgast upplýsingar og getu þess til að taka þátt í þjóðfélagsumræðu.

Þetta andrúmsloft skilaði af sér ótrúlegum kosningum árið 2013. Þar má segja að Framsóknarflokkurinn hafi náð að stela kosningunum með því að eigna sér Icesave-niðurstöðuna, sem fallið hafði skömmu áður, og með því að bjóðast til að gefa ákveðnum hópi, verðtryggðum húsnæðislántökum, ævintýralegar fjárhæðir ef þeir myndu kjósa flokkinn. Það er fordæmalaust í íslenskri stjórnmálasögu að flokkur bjóði fólki beinlínis reiðufé úr ríkissjóði fyrir að kjósa sig.

Árangur Pírata, sem nú eru með tíu manna þingflokk, hefur vakið heimsathygli.
Mynd: Birgir Þór

Þetta svínvirkaði hins vegar og Framsóknarflokkurinn náði í 24,4 prósent atkvæða. Kostnaðurinn vegna þessa kosningasigurs reyndist á endanum vera 72,2 milljarðar króna sem runnu úr ríkissjóði til hluta þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009, undir hatti Leiðréttingarinnar. Þorri upphæðarinnar fór til hópa sem áttu miklar eignir og voru með háar tekjur. Aðgerðin gerði stöðu þeirra sem virkilega þurftu á aðstoð að halda, eignalausra, tekjulágra og ungs fólks, mun verri en hún hefði verið ella. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn bætti örlítið við sig í kosningunum var fylgi hans enn einungis 26,7 prósent, sem er langt frá því sem áður þótti ásættanlegt. Raunar var þetta einungis í þriðja sinn sem flokkurinn fékk undir 30 prósent atkvæða.

Stjórnarflokkunum tveimur var refsað illilega. Samtals töpuðu þeir 27,7 prósent atkvæða og voru einungis með 16 þingmenn samanlagt að loknum kosningunum. Þau undur gerðust þó að tveir aðrir flokkar utan fjórflokksins náðu inn á þing. Annars vegar Píratar (5,1 prósent) og hins vegar Björt framtíð (8,2 prósent), systurflokkur Besta flokksins sem þá stýrði Reykjavíkurborg. 4+1 mynstrið var því brotið. Það hafði vissulega gerst áður en þá vegna klofningsframboða úr hefðbundnu flokkunum. Píratar og Björt framtíð voru hvorugt. Samanlagt fylgi fjórflokksins dróst líka umtalsvert saman milli kosninga, og var nú 74,9 prósent. Alls fengu ellefu aðrir flokkar atkvæði í kosningunum. Það var augljóslega eitthvað í loftinu.

Mestu breytingarkosningar í Íslandssögunni

Kosningarnar haustið 2016 urðu svo mestu breytingarkosningar í Íslandssögunni. Aðdragandi þeirra var auðvitað einstakur: afsagnir tveggja lykilráðherra á kjörtímabilinu, Panamaskjölin sem opinberuðu að Íslendingar, þar á meðal íslenskir stjórnmálamenn, voru heimsmeistarar miðað við höfðatölu í að nýta sér aflandsfélög til að koma sér undan skattgreiðslum eða til að fela eignir og stærstu mótmæli sem haldin hafa verið hérlendis þegar 26 þúsund manns kröfðust kosninga og afsagnar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það er vægt til að orða tekið að sú ríkisstjórn sem sat á árunum 2013 til 2016 hafi mistekist að endurvekja það traust í samfélaginu sem glataðist í hruninu og tiltekinni eftir það.

Samfylkingunni vegnaði ekki vel á meðan að fyrst Árni Páll Árnason og síðan Oddný Harðardóttir stýrðu henni. Flokkurinn rétt skreið inn á þing í kosningunum 2016 með 5,7 prósent atkvæða og þrjá þingmenn.

Það segir ýmislegt um síðustu kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn var álitinn sigurvegari þeirra þrátt fyrir að hann hafi einungis fengið 29 prósent atkvæða. Í þriðju kosningunum í röð fékk þessi stærsti, og skipulagðasti flokkur landsins, undir 30 prósent atkvæða. Samfylkingin, breiðfylking jafnaðarmanna, var næstum því þurrkuð út og fékk einungis 5,7 prósent atkvæða. Framsóknarflokkurinn fékk sína verstu niðurstöðu í 100 ára sögu sinni, einungis 12,7 prósent atkvæða. Eini fjórflokkurinn sem bætti meira en fimm prósentum við sig voru Vinstri græn, sem fengu 15,9 prósent atkvæða. Samanlagt fylgi fjórflokksins, sem hafði verið allsráðandi í íslenskum stjórnmálum alltaf, var nú komið niður í 62 prósent. Ríkisstjórn kerfisvarnarflokkanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kolféll og nú vildu einungis fjórir af hverjum tíu kjósendum þessa tvo flokka.

Hvert fór allt þetta fylgi? Jú, það fór til flokka sem stofnaðir voru eftir árið 2012. Í eftirhruns-Íslandi. Slíkir fengu 38 prósent atkvæða. Þrír þeirra náðu mönnum inn á þing og þeir fengu samtals 21 þingmann, eða þriðjung þeirra. Alls fengu átta flokkar sem stofnaðir eru eftir árið 2012 atkvæði í kosningunum.

Nú eru því sjö flokkar á Alþingi og þeir þrír sem stofnaðir voru á síðustu árum fengu ekki mikið minna fylgi en kerfisvarnarflokkarnir tveir þegar talið var upp úr kjörkössunum. Konur hafa aldrei verið fleiri á þingi og þingmannaflóran hefur aldrei endurspeglað jafn vel fjölbreytileika íslensku þjóðarinnar.

Allir flokkarnir þrír, Björt framtíð, Viðreisn og Píratar, eiga það sameiginlegt að vera andkerfisflokkar, að minnsta kosti í orði, og leggja mikla áherslu á frjálslyndi. Þeir vilja breytingar sem byggja á jákvæðni, meira gagnsæi og meira vald til fólksins samkvæmt stefnuskrám. Og þeir eru allir alþjóðlega og lýðræðislega sinnaðir. Vilja minni spillingu og minni frændhygli. Opnara samfélag.

Það er athyglisverð þróun því í öðrum löndum í kringum okkur hefur breytingarfylgið verið að fara mun meira til flokka sem boða þjóðernispopúlisma og hafa lagt áherslu á mismunun, hræðslu, minni alþjóðavæðingu og einangrunarhyggju í málflutningi sínum, sérstaklega þegar kemur að málefnum innflytjenda. Einn slíkur flokkur, Íslenska þjóðfylkingin, bauð fram í kosningunum 2016 og fékk 0,2 prósent. 303 manns kusu hann.

Fordæmalausar óvinsældir ríkisstjórnar sem fáir vildu

Þrátt fyrir þessar miklu breytingar má segja að nær enginn hafi verið ánægður með niðurstöðu kosninganna. Mjög erfitt var að mynda ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn þurfti að róa á ný mið eftir makker í ljósi þess að Framsókn dugði ekki lengur til ein og sér og enginn hinna flokkanna vildi mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokknum. Það þurfti ansi margar tilraunir til að klístra saman ríkisstjórn og á endanum varð til þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Flokkarnir þrír eru ekki með meirihluta atkvæða á bak við sig og minnsta mögulega meirihluta þingmanna, 32 talsins.

Það er ekki óvarlegt að segja að þetta hafi verið ríkisstjórn sem fáir voru ánægðir með. Ágreiningur innan hennar og stuðningur almennings við hana síðan að hún tók við völdum í janúar sýnir það svart á hvítu.

Engin ríkisstjórn hefur notið jafn lítils stuðnings meðal almennings á fyrstu starfsdögum sínum og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Og stuðningur við hana hefur dregist saman eftir því sem frá líður.
Mynd: Birgir Þór

Í nýjustu skoðanakönnun MMR, sem birt var á þriðjudag, kom fram að einungis 31,4 prósent landsmanna styður ríkisstjórnina. Engin ríkisstjórn hefur nokkru sinni, frá því að mælingar hófust, farið af stað með jafn lítinn stuðning og sú sem nú situr. Allir stjórnarflokkarnir þrír tapa fylgi á samstarfinu. Björt framtíð mælist nú með 3,2 prósent fylgi – jafn mikið og Flokkur fólksins – og er því langt frá því að ná inn þingmanni ef kosið yrði nú. Viðreisn, sem fékk 10,5 prósent atkvæða í síðustu kosningum, mælist nú með fimm prósent fylgi og er við það að detta út af þingi ef kosið yrði í dag. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,2 prósent, sem yrði næst versta kosning hans frá upphafi ef það væri niðurstaða kosninga.

Fylgið er fyrst og fremst að færast yfir á gömlu vinstri flokkanna, Vinstri græn og Samfylkingu samkvæmt könnuninni. Samt er samanlagt fylgi fjórflokksins einungis 70 prósent og kerfisvarnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, mælast einungis með rúmlega 36 prósent fylgi.

Kannanir sýna því skýrt að breytingaskeiði íslenska stjórnmála er fjarri því lokið. Tryggð kjósenda við einn flokk er á miklu undanhaldi og fylgið stanslaust á fleygiferð. Sífellt bætast ný framboð í flóruna, nú síðast Sósíalistaflokkur Íslands sem stofnaður var 1. maí. Ef sá flokkur nær fótfestu er ljóst að hann mun fyrst og síðast taka fylgi af Vinstri grænum og Samfylkingu. Þá er hópur Framsóknarmanna að máta sig við nýtt framboð sem myndi hverfast í kringum Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formann flokksins sem ýtt var til hliðar í kjölfar Wintris-málsins.

Það má því segja að það eina sem við vitum um þróunina í íslenskum stjórnmálum á næstu misserum er að við vitum ekki neitt. Að öðru leyti en það að tími 4+1 kerfisins er liðinn. Og kemur líklega aldrei aftur.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar