Þrír á lista Sigríðar með minni dómarareynslu en Eiríkur
Sá sem dómnefnd taldi sjöunda hæfastan til að sitja í Landsrétt náði ekki á tilnefningarlista dómsmálaráðherra yfir þá 15 sem hún vill skipa í embættin. Þrír umsækjendur sem hlutu náð fyrir augum ráðherra eru með minni dómarareynslu en hann. Hæstaréttarlögmaður segist vera „í áfalli“ yfir rökstuðningi ráðherra í umsögn.
Eiríkur Jónsson, sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að tilnefna ekki í Landsrétt, var talinn sjöundi hæfasti umsækjandinn af dómnefnd. Þess í stað ákvað Sigríður að leggja til að meðal annars Jón Finnbjörnsson, sem lenti í 30. sæti á hæfislista dómnefndarinnar, verði einn af þeim 15 sem skipaðir verða í dómaraembættin. Í rökstuðningi sínum fyrir þessari, og fleiri, breytingum á röðun umsækjenda tiltók Sigríður að niðurstaða hennar væru sú að fleiri en þeir 15 sem dómnefndin hefði mælt með væru hæfir til að verða dómarar við Landsrétt, og að hún telji að dómarareynsla ætti að hafa meira vægi en nefndin hafi ákveðið.
Vandamálið við þennan rökstuðning er sá að í 117 blaðsíðna ítarlegri umsögn dómnefndar um umsækjendur um embætti 15 dómara við Landsrétt, sem er aðgengileg á vef dómsmálaráðuneytisins, er reynsla umsækjenda af dómsstörfum meðal annars borin saman. Þar kemur í ljós að þrír umsækjendur sem lentu neðar en Eiríkur í heildarhæfnismati dómnefndar voru með minni dómarareynslu en hann, en rötuðu samt sem áður inn á lista Sigríðar yfir þá sem hún vill skipa í dómarasætin 15.
Í umsögn sem hæstaréttarlögmaður sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í gær vegna málsins, og Kjarninn hefur undir höndum, segir að hann hafi fengið áfall við að lesa rökstuðning ráðherrans fyrir breyttri röðun umsækjenda. Þar segir enn fremur: „Þau uppfylla engar lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og standast auk þess enga efnislega skoðun. [...]Engin rök eru færð fram fyrir því að velja þá 15 sem hún leggur nú til við Alþingi[...]Þegar svona forkastanleg vinnubrögð sjást þá leita menn annarra skýringa. Lét dómari stjórnmálaskoðanir (fortíðar) ráða þegar tilteknir umsækjendur voru látnir gossa út af dómnefndarlistanum? Urðu vina- og pólitísk tengsl til þess að aðrir voru teknir inn í þeirra stað o.s.frv. Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt. Alþingi er skylt að taka málið til gaumgæfilegrar skoðunar og má ekki taka að sér hlutverk stimpilpúða fyrir framkvæmdavaldið í þetta sinn. Það er allt of mikið í húfi!“
Þrír með lægri einkunn og minni dómarareynslu
Í skýrslu dómnefndar um hæfi umsækjenda koma fram upplýsingar þar sem reynsla af dómsstörfum umsækjenda er borin saman. Þar er Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, settur í 18. sæti. Fyrir neðan hann, og þar af leiðandi með minni dómarareynslu, eru nokkrir umsækjendur sem dómsmálaráðherra vill skipa í Landsrétt. Þeirra á meðal eru Oddný Mjöll Arnardóttir, Jóhannes Sigurðsson og Kristbjörg Stephensen, sem hefur enga dómarareynslu. Öll þrjú lentu einnig neðar í heildarmati dómnefndar á umsækjendum. Þar var Eiríkur í sjöunda sæti, Kristbjörg í því áttunda, Jóhannes í því níunda og Oddný Mjöll í þrettánda sæti. Samt ákvað ráðherra að skipa þau öll þrjú eftir að dómsmálaráðherra ákvað að gefa dómarareynslu aukið vægi við skipan dómara, og víkja þar með frá niðurstöðu dómnefndar.
Með ákvörðun sinni ákvað Sigríður að skipa ekki fjóra af þeim 15 sem dómnefnd hafði talið hæfasta til að sitja í Landsrétti. Einn þeirra var Eiríkur, sem lenti líkt og áður sagði í sjöunda sæti á lista dómnefndar yfir þá sem hún taldi hæfasta til að sitja í réttinum. Jón Höskuldsson, sem hefur áralanga reynslu sem dómari, lenti í 11. sæti á lista dómnefndar, en hlaut heldur ekki náð fyrir augum Sigríðar. Það gerðu heldur ekki Jóhannes Rúnar Jóhannsson (12. sæti) eða Ástráður Haraldsson (14. sæti).
Þess í stað bætti Sigríður fjórum inn á listann. Þar ber fyrst að nefna Ásmund Helgason, sem var númer 17 á lista dómnefndar um hæfi umsækjenda og í 13. sæti þegar samanburður var gerður á umsækjendum á grundvelli reynslu af dómsstörfum. Arnfríður Einarsdóttir var í 18. sæti á lista dómnefndar um hæfi umsækjenda en Sigríður gerði samt sem áður tillögu um hana í eitt af embættunum 15. Arnfríður er eiginkona Brynjars Níelssonar, samflokksmanns Sigríðar og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Ragnheiður Bragadóttir var líka valin af Sigríði þrátt fyrir að hafa lent í 23. sæti á hæfislista dómnefndar. Bæði Ragnheiður og Arnfríður eru reynslumiklir dómarar.
Sá síðasti sem hlaut ekki náð fyrir augum dómnefndar en Sigríður ákvað að gera tillögu um í Landsrétt er Jón Finnbjörnsson. Hann lenti í 30. sæti af 33 á hæfislista dómnefndar. Hann hefur enga reynslu af lögmannsstörfum né stjórnsýslustörfum en hefur gegnt dómarastörfum um árabil. Jón er eiginmaður Erlu S. Árnadóttur, eins eiganda lögmannsstofunnar LEX. Sigríður Á. Andersen starfaði sem héraðsdómslögmaður hjá LEX frá 2007 til 2015, þegar hún tók sæti Péturs H. Blöndal á Alþingi við andlát hans.
Fékk áfall þegar hann las rökstuðning ráðherra
Það er gríðarlegur titringur í lögmannastéttinni, í háskólasamfélaginu og hjá dómurum landsins vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að víkja frá tillögu dómnefndar um skipun dómara í Landsrétt. Sá titringur birtist meðal annars í umsögnum sem sendar hafa verið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um málið.
Ein þeirra umsagna er frá Jóhannesi Karli Sveinssyni, hæstaréttarlögmanni með 24 ára starfsreynslu innan réttarkerfisins, sem unnið hefur mörg trúnaðarstörf fyrir íslenska ríkið á undanförnum árum. Jóhannes Karl sat meðal annars í samninganefnd íslenska ríkisins um Icesave-samninganna sem Lee C. Buchheit stýrði. Hann kom einnig að samningum við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna um endurreisn íslenska bankakerfisins á árinu 2009 fyrir hönd íslenska ríkisins.
Umsögn Jóhannesar Karls, sem er dagsett 30. maí og Kjarninn hefur undir höndum, er afar harðorð. Þar segir hann að tillaga dómsmálaráðherra stefni í að verða dýr fyrir ríkið vegna mögulegs bótaréttar nokkurra umsækjenda en „ennþá fremur vegna þess að í uppsiglingu er hneyksli sem á eftir að valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu sjálfu“.
Jóhannes Karl segir í umsögninni að það sé „alþekkt að sumir ráða ekki við freistinguna að skipa vini sína, skoðanabræður og systur eða jafnvel ættingja í embætti. Þeir ganga framhjá þeim sem þeir telja með óheilbrigðar skoðanir á þjóðmálum eða þeir telja sig eiga eftir að jafna einhverjar sakir við. Síðustu 10 árin hefur réttarkerfið glímt við afleiðingar af skipunum af þessum toga í embætti dómara. Vantraust og tortryggni gripu um sig eftir skipanir í lok árs 2007 með dapurlegum afleiðingum fyrir alla sem í hlut áttu“.
Það hafi því verið mikið fagnaðarefni þegar ráðist var í endurbætur á dómstólaskipan, meðal annars með stofnun Landsréttar. Jóhannes Karl segir það líka hafa verið gleðilegt hversu margir hæfir umsækjendur sóttu um þau 15 störf sem auglýst voru. „Það er því einstaklega sorglegt að við skipun fyrstu dómara þess réttar hafi verið farið niður á það plan sem endurvekur tortryggni og vantraust“.
Hann segir það ekki algjörlega bannað að víkja í verulegum mæli frá niðurstöðum dómnefndar, líkt og Sigríður Á. Andersen ákvað að gera. Það sé þó lágmarkskrafa að fyrir því séu færð frambærileg rök sem dugi til að sannfæra Alþingi og aðra um að nefndin hafi komist að rangri niðurstöðu. „Með þetta í huga las ég rökstuðning ráðherra fyrir breyttri röðun. Eins og fleiri fékk ég áfall við að lesa þau skrif. Þau uppfylla engar lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og standast auk þess enga efnislega skoðun. Ráðherra virðist bara segja að hún telji að dómarareynsla eigi að hafa meira vægi en nefndin ákvað og að því sögðu eru einhverjir 24 ónefndir umsækjendur á sama báti. Engin rök eru færð fram fyrir því að velja þá 15 sem hún leggur nú til við Alþingi.“
Jóhannes Karl segir að vandamálið við röksemdir Sigríðar séu að hrókeringar ráðherrans geti alls ekki byggt á þessum forsendum. Þannig hafi umsækjanda sem metinn var númer sjö í mati hæfinefndar, Eiríki Jónssyni, til dæmis verið hent út úr hópi kandídata en aðrir með minni dómarareynslu látnir í friði. Dómnefndin sé því virt að vettugi og allar almennar stjórnsýslureglur látnar lönd og leið. Þá hafi svör Sigríðar í fjölmiðlum ekki vakið traust.
Vina- og pólitísk tengsl?
Dómnefndin hafði lagt til að skipaðir yrðu tíu karlar og fimm konur í Landsrétt. Í breyttri röðun dómsmálaráðherra eru karlarnir átta en konurnar sjö. Jóhannes Karl bendir í umsögn sinni á að ráðherra hafi ekki minnst einu orði í rökstuðningi sínum á að jafna hafi þurft kynjahlutföll á meðal dómara. Því þurfi ekki að velta því frekar fyrir sér í málinu, enda augljóslega ekki rökstuðningur fyrir breyttri röðun.
Síðan segir í umsögninni: „Þegar svona forkastanleg vinnubrögð sjást þá leita menn annarra skýringa. Lét dómari stjórnmálaskoðanir (fortíðar) ráða þegar tilteknir umsækjendur voru látnir gossa út af dómnefndarlistanum? Urðu vina- og pólitísk tengsl til þess að aðrir voru teknir inn í þeirra stað o.s.frv. Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt. Alþingi er skylt að taka málið til gaumgæfilegrar skoðunar og má ekki taka að sér hlutverk stimpilpúða fyrir framkvæmdavaldið í þetta sinn. Það er allt of mikið í húfi!“