Lífeyrissjóðir hafa lánað tvöfalt meira en allt árið 2015...á fjórum mánuðum
Lífeyrissjóðir verða sífellt umfangsmeiri á íbúðalánamarkaði. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins lánuðu þeir rúma 40 milljarða króna. Allt árið 2015 námu sjóðsfélagalán þeirra 21,6 milljarði króna.
Umfang lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaði heldur áfram að aukast hratt. Í fyrra lánuðu þeir rúmlega fjórfalt hærri upphæð en árið 2015 og á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2017 hafa þeir lánað nánast helming þeirrar upphæðar sem þeir lánuðu til íbúðarkaupa allt árið í fyrra. Haldi sama þróun áfram má ætla að íbúðalán lífeyrissjóða verði sex sinnum hærri upphæð árið 2017 en þau voru allt árið 2015.
Lífeyrissjóðir landsins hafa þegar lánað sjóðsfélögum sínum 40,5 milljarða króna á fjórum fyrstu mánuðum ársins 2017. Til samanburðar lánuðu sjóðirnir í heild 21,6 milljarða króna allt árið 2015. Í fyrra tóku sjóðsfélagalánin risastóran kipp. Alls námu þau 89 milljörðum króna.
Umrædd lán eru nær einvörðungu lán til íbúðarkaupa. Hlutdeild lífeyrissjóða á þeim markaði hefur aukist verulega eftir að nokkrir stórir sjóðir hófu að bjóða allt að 75 prósent íbúðalán, betri vaxtakjör en bankarnir, óverðtryggð lán og lægri lántökugjöld á síðari hluta ársins 2015.
Met sett í mars
Nýtt met var sett í útlánum í mars síðastliðnum, þegar lífeyrissjóðirnir lánuðu sjóðsfélögum sínum alls 13,6 milljarða króna. Það þýðir að útlán í mars 2017 voru um 63 prósent af heildarútlánum sjóðanna til sjóðsfélaga á árinu 2015.
Fjöldi lána hefur líka rokið upp. Árið 2015 veittu lífeyrissjóðirnir 1.913 lán og meðalútlán var 11,3 milljónir króna. Í fyrra voru veitt lán 5.628 talsins og meðalútlán fór í 15,8 milljónir króna. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2017 hafa lífeyrissjóðirnir veitt 2.173 lán og meðalupphæð hvers láns er 18,6 prósent.
Húsnæðisverð hækkað um 87 prósent
Á Íslandi er að eiga sér stað gríðarlega hröð hækkun á húsnæðisverði. Frá byrjun árs 2010, þegar verðið náði sínum lægsta botni eftir hrun, hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu til að mynda hækkað um 87 prósent. Verðið hefur hækkað um 25 prósent frá byrjun árs 2016 og um heil 9,4 prósent frá síðustu áramótum og til loka aprílmánaðar 2017.
Þessar miklu hækkanir hafa leitt til þess að eigið fé landsmanna hefur aukist mikið. Í lok árs 2015 var það 2.813 milljarðar króna. Ári áður var það 2.443 milljarðar króna. Það jókst því um 370 milljarða króna á árinu 2015. Helsta ástæða þess að eigið fé flestra Íslendinga hefur aukist hratt á síðustu árum er gríðarleg hækkun á húsnæðisverði. Sú hækkun hefur haft áhrif á alla hópa samfélagsins, en þó hlutfallslega mest áhrif á þá sem höfðu eignast fasteignir en áttu lítið eða ekkert í þeim. Þorri eigna venjulegra íslenskra launamanna eru enda bundnar í fasteignum, þegar eign þeirra í lífeyrissjóðum er undanskilin.
Margþættar ástæður skapa neyðarástand
Ástæður þessa eru margþættar. Lítil fjárfesting í íbúðarhúsnæði á sama tíma og eftirspurn eftir slíku hefur stóraukist – bæði vegna innlendrar eftirspurnar og stóraukins ferðamannastraums – spilar þar stóra rullu. Ruðningsáhrif vegna Leiðréttingarinnar, niðurgreiðsla ríkisstjórnar Íslands á völdum verðtryggðum lánum, hefur einnig haft áhrif. Og svo hefur lág verðbólga í næstum þrjú ár og kaupmáttaraukning undanfarinnar ára skipt sköpum.
Allt þetta, ásamt því að leiga hefur hækkað um 74 prósent frá byrjun árs 2011, hefur skapað miklar aðgangshindranir inn á húsnæðismarkað. Stórir hópar eru einfaldlega ekki í stöðu til að koma þaki yfir höfuðið. Vegna þessa var skipaður aðgerðarhópur ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum sem kynnti aðgerðir sínar í byrjun júní. Markmið aðgerðanna er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu þremur árum en þörf er á um níu þúsund nýjum íbúðum til að það markmið náist.
Innreiðin hófst af alvöru á ný 2015
Lífeyrissjóðir landsins hafa lengi lánað sjóðfélögum sínum til íbúðarkaupa. Þau lán hafa þó verið þannig að mun lægra lánshlutfall hefur verið í boði sem gerði það að verkum að fólk sem átti lítið eigið fé gat illa nýtt sér þau lán. Það breyttist allt haustið 2015 þegar sjóðirnir hækkuðu lánshlutfall sitt og bjóða upp á enn hagstæðari kjör.
Það var erfitt fyrir íslensku viðskiptabankanna, sem höfðu nær einokað íslenska íbúðalánamarkaðinn eftir hrun, að bregðast við þessu. Þeir töldu sig ekki geta lækkað kjör á húsnæðislánum sínum meira en þeir höfðu þegar gert og báru fyrir sig tvenns konar ástæður sem skertu samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum lánveitendum á markaðnum. Í fyrsta lagi eru þeir skyldugir samkvæmt lögum til að eiga mun meira eigið fé en lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóðirnir þurfa ekki að sitja á svona miklu eigin fé. Raunar eiga þeir ekkert eigið fé.
Í öðru lagi þurfa stóru viðskiptabankarnir að greiða bankaskatt og sérstakan fjársýslukatt. Þeir skattar hafa ekki verið afnumdir þótt að íslensku bankarnir séu nær allir komnir í eigu íslenska ríkisins og búið sé að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um slit þrotabúa þeirra. Í fjárlögum er til að mynda gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs á árinu 2017 af bankaskatti, sem er 0,376 prósent af skuldum banka, verði 9,2 milljarðar króna. Bankarnir hafa haldið því fram að þessi skattur sé ekkert annað en álag ofan á útlán, sem almenningur þurfi á endanum að borga.
Þess vegna er staðan enn þannig í dag að þeir vextir á íbúðalánum sem bankarnir bjóða eru í langflestum tilvikum ekki jafn góðir og þeir sem lífeyrissjóðir geta boðið.
Þetta ástand hafa lífeyrissjóðirnir nýtt sér út í ystu æsar. Og skóflað til sín viðskiptum.
Lægstu vextirnir nálgast þrjú prósent
Kjarninn greindi frá því í gær að kjörin sem sjóðirnir bjóða eru sífellt að batna. Vextir á breytilegum íbúðalánum hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru nú 3,06 prósent. Vextirnir á lánunum sem sjóðurinn býður upp á taka breytingum 15. hvers mánaðar og ákvarðast þannig að þeir eru 0,75 prósent hærri en meðalávöxtun síðasta mánaðar á ákveðnum flokki íbúðabréfa, sem skráður er í kauphöll Nasdaq OMX. Lækkun meginvaxta Seðlabanka Íslands skilar sér því nær alltaf beint í lækkun breytilegra vaxta í sjóðfélagslánum hans, en slíkir vextir voru lækkaðir um 0,25 prósent í gær. Þeir vextir sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna er að bjóða sínum sjóðsfélögum eru lægstu vexti sem hægt er að fá á verðtryggðum íbúðalánum á Íslandi í dag.
Ýmsir aðrir lífeyrissjóðir bjóða líka upp á mjög samkeppnishæfa vexti. Þannig eru breytilegir vextir lána hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) t.d. nú 3,26 prósent og hjá Gildi eru þeir 3,35 prósent. Vert er að taka fram að sjóðirnir bjóða upp á mismunandi veðhlutfall. LSR býður upp á allt að 75 prósent veðhlutfall en Gildi upp að 65 prósent. Lífeyrissjóður verzlunarmanna bauð upp á 75 prósent veðhlutfall þar til í síðasta mánuði þegar það var lækkað niður í 70 prósent, vegna mikilla hækkana á húsnæðismarkaði. Samhliða tilkynnti sjóðurinn að hann miði ekki lengur við matsverð fasteigna við útreikninga útlána heldur einungis við markaðsverð samkvæmt kaupsamningi eða fasteignamat. Það gerir það að verkum að erfiðara verður fyrir ýmsa, sérstaklega þá sem eru að kaupa fyrstu fasteign, að taka lán hjá sjóðnum.
Íslensku viðskiptabankarnir geta ekki boðið upp á sambærileg kjör og lífeyrissjóðirnir. Á „stóru“ lánum þeirra, sem veitt eru á skaplegri vöxtum upp að 70 prósent veðhlutfalli, eru lægstu breytilegu vextir 3,65 prósent hjá Landsbankanum og Arion banka. Íslandsbanki býður ekki upp á breytilega vexti en þar er hægt að fá fasta verðtryggða vexti til fimm ára á 3,95 prósent kjörum.