Copyright: ryanking999 / 123RF Stock Photo

Fjárfestingarleiðin: Meira en þriðjungur kom frá Lúxemborg og Sviss

Af þeim 72 milljörðum sem Íslendingar komu með í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands komu 42 milljarðar frá innlendum aðilum með búsetu annars staðar en á Íslandi. Þeir sem fjárfestu mest á forsendum fjárfestingarleiðarinnar voru með skráða búsetu í Lúxemborg og Sviss.

Meirihluti þess fjár sem íslenskir fjárfestar fluttu inn til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands kom frá Íslendingum búsettum erlendis. Af þeim 72 milljörðum króna sem Íslendingar fengu fyrir gjaldeyri sem þeir skiptu í gegnum leiðina komu um 42 milljarðar króna frá innlendum aðilum með búsetu annars staðar en á Íslandi. Þar af komu fimm milljarðar króna beint frá skilgreindum lágskattasvæðum og 15,4 milljarða króna frá íslenskum aðilum skráðum í Lúxemborg, á Möltu eða Kýpur. Þeir sem fjárfestu mest á forsendum fjárfestingarleiðarinnar voru aðilar með skráða búsetu í annars vegar Lúxemborg og hins vegar Sviss.  

Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

Alls komu um 1.100 milljónir evra, um 206 milljarðar króna, til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina á meðan að hún var í boði á árunum 2012 til 2015, en síðasta útboðið fór fram í febrúar það ár. Þeir sem nýttu sér leiðina gátu skipt evrum í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en almenn var í boði gegn því að þeir nýttu krónurnar til að fjárfesta á Íslandi. Seðlabankinn var milligönguaðili í viðskiptunum og hannaði leiðina, en þeir sem létu krónur frá sér með afslætti voru svokallaðir aflandskrónueigendur, sem annars sátu fastir í íslenskum höftum.

Virð­is­aukn­ingin sem fjár­fest­inga­leiðin færði eig­endur gjald­eyr­is­ins í íslenskum krónum var samkvæmt svarinu 31 milljarður króna. Skil­yrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fast­eign­um, verð­bréf­um, fyr­ir­tækjum eða öðrum fjár­fest­inga­kost­um. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina hafi fengið, samkvæmt svarinu, um 15 pró­sent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.

Fengu 72 milljarða

Kjarninn hefur áður greint frá því að 794 innlendir aðilar hafi nýtt sér leiðina. Voru þá erlend félög í eigu innlendra aðila talin sem innlendir fjárfestar.

Pen­ingar þeirra námu 35 pró­sent þeirrar fjár­hæðar sem alls komu inn í landið með þess­ari leið. Þeir fengu alls 72 milljarða króna fyrir þær evrur sem þeir skiptu í gegnum leiðina. Virðisaukningin er því um ellefu milljarðar króna.

Í svarinu við fyrirspurn Björns Leví er þessi hópur brotinn frekar niður í fyrsta sinn. Þar kemur fram að einungis hluti þeirra innlendu aðila sem nýttu sér leiðina hafi verið búsettir hérlendis. Raunar er minnihluti þeirra sem flokkaðir eru þannig með heimilisfesti á Íslandi. Af þeim 795 innlendu aðilum sem komu með fé í gegnum leiðina og keyptu eignir með afslætti voru 301 búsettir hérlendis. Þeir komu samtals með 160 milljónir evra af þeim 385 milljónum evra sem innlendir aðilar komu með inn í landið í gegnum leiðina, eða um 42 prósent heildarupphæðarinnar.

Restin, alls 225 milljónir evra, kom frá innlendum aðilum sem búa erlendis. Ekki er gerður greinarmunur á einstaklingum eða lögaðilum í þeim tölum sem birtar eru í svarinu og því eru góðar líkur á því að einhver þeirra aðila sem skráðir eru með búsetu erlendis séu félög í eigu aðila sem sannarlega eiga heima á Íslandi. Í svarinu kemur hins vegar fram að 170 af þeim 206 milljörðum króna sem komu til landsins í gegnum leiðina hafi komið frá lögaðilum, eða 36 milljarðar króna frá einstaklingum.

Mest frá Lúxemborg og Sviss

Íslendingar komu sér vel fyrir í Lúxemborg fyrir hrun. Þar ráku íslensku bankarnir umsvifamikla einkabanka- og eignastýringarstarfsemi fyrir vel setta viðskiptavini. Hluti af þjónustu þeirra var að setja upp félög fyrir þá viðskiptavini í löndum þar sem skattahagræði var að finna. Það fé sem rann í gegnum það skattahagræði endaði oft í aflandsfélögum á stöðum eins og Tortóla, sem tilheyrir Bresku Jómfrúareyjunum. Þau félög sem Íslendingar stofnuðu með þessum hætti skipta þúsundum. Hluti þeirra var opinberaður í Panama-skjölunum svokölluðu. Þá hafa fjársterkir Íslendingar líka lengi verið gjarnir á að geyma peninganna sína í Sviss.

Í svari ráðherrans kemur fram að þessi tvö lönd, Lúxemborg og Sviss, eru búsetulönd þeirra fjárfesta sem komu með mest fé til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina. Fjárfestar, þ.e. einstaklingar eða félög, með skráða búsetu í Lúxemborg komu með 207 milljónir evra, eða um 19 prósent heildarupphæðarinnar sem flæddi til Íslands vegna leiðarinnar. Þeir sem voru með skráða búsetu í Sviss komu með 17 prósent heildarupphæðarinnar.

Í svarinu segir að bein kaup lögaðila frá lágskattarsvæðum, eins og t.d. Bresku Jómfrúareyjunum, í meirihlutaeigu Íslendinga hefðu numið 26 milljónum evra, eða um fimm milljörðum króna. Frá Lúxemborg, Kýpur og Möltu, sem eru ekki skilgreind sem lágskattarsvæði samkvæmt lista fjármála- og efnahagsráðuneytisins, tóku 12 lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt og komu samtals með 15,2 milljarða króna inn í landið. 

Ekki upplýst hverjir nýttu sér leiðina

Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir Kjarnans hefur Seðlabankinn né fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki viljað upplýsa um hvaða aðilar þetta eru. Seðlabankinn telur sér það ekki heimilt vegna þagn­ar­skyldu­á­kvæðis í lögum um Seðla­banka Íslands.

Ólafur Ólafsson er á meðal þeirra sem hafa nýtt sér fjárfestingarleiðina til að koma peningum með virðisaukningu inn í landið.

Fjöl­miðlar hafa hins vegar verið dug­legir við að segja fréttir af þeim aðilum sem blasað hefur við að hafi nýtt sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina við að flytja pen­inga erlendis frá til lands­ins. Félög í eigu þeirra aðila hafa þá oftar en ekki ráð­ist í skulda­bréfa­út­gáfu sem sömu aðilar hafa keypt fyrir krón­urnar sem þeir fá fyrir gjald­eyr­inn sinn, og þar með hefur ákvæði um bind­ingu í verð­bréfum verið full­nægt. Með því að skoða gögn sem send eru inn til fyrirtækjaskráar vegna slíkra viðskipta er hægt að sjá hverjir hafi nýtt sér leiðina. En þær upplýsingar eru bundnar við að viðkomandi viti af hverju hann er að leita. Því má líkja leitinni við leit að nál í heystakki.

Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðr­anna Lýðs og Ágústs Guð­munds­sona, Hreið­ars Más Sig­urðs­son­ar, Jóns Ólafs­son­ar, Jóns Von Tetzchner, knatt­spyrnu­manns­ins Gylfa Þórs Sig­urðs­son­ar, Ólafs Ólafs­son­ar, Hjör­leifs Jak­obs­son­ar, Ármanns Þor­valds­son­ar, Kjart­ans Gunn­ars­son­ar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Stein­gríms Wern­ers­sona og danskra eig­enda Húsa­smiðj­unn­ar.

Mikill gengishagnaður

Í ljósi þess að sami aðili gat gefið út skuldabréf og keypt þau með fjármunum félags síns í útlöndum og samt uppfyllt skilyrði fjárfestingarleiðarinnar kemur ekki á óvart að stærstur hluti þess fjármagnsinnstreymis sem kom inn til landsins í gegnum leiðina, eða 47 prósent, runnu til kaupa á skuldabréfum. Um 40 prósent fóru í að kaupa hlutabréf, 12 prósent til kaupa á fasteignum og tæplega eitt prósent til kaupa hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða.

Það skilyrði var sett að binda þyrfti fjárfestinguna í fimm ára áður en hún yrði laus til ráðstöfunar. Þeir sem komu með fé í gegnum leiðina í fyrstu fimm útboðum Seðlabankans hafa því þegar uppfyllt þá kvöð og geta þess vegna farið með féð aftur út ef þeir vilja. Heildarupphæðin sem kom í gegnum fyrstu fjögur útboðin var 122,6 miljónir evra. Þeir aðilar sem nýtt sér þau fengu alls 9,5 milljarða íslenskra króna í virðisaukningu. Meðalmiðgengi evru í þessum útboðum var um 241 króna. Það þýðir að þeir sem tóku þátt fengi 241 krónur fyrir hverja evru sem þeir skiptu. Þeir fengu því samtals um 29,5 milljarða króna fyrir evrurnar sínar.

Ofan á það sem þessir aðilar græddu bara við að ferja peninganna inn í landið þá verður að ætla að þeir hafi fengið ávöxtun á það fé hér innanlands á síðustu fimm árum. Hlutabréfaverð hefur til að mynda hækkað mikið og fasteignaverð hefur hækkað um tugi prósenta. En án tillits til slíkrar ávöxtunar hafa þessir aðilar samt sem áður fengið mjög fína ávöxtun vegna gengisbreytinga. Ef þeir myndu skipta öllum krónunum sínum sem þeir fengu í útboðunum fjórum árið 2012 í evrur í dag myndu þeir fá 249 milljónir evra. Þeir hafa því rúmlega tvöfaldað fjárfestingu sína.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar