Tíu ár frá því að iPhone var settur í sölu... og breytti öllu
Fyrsti iPhone-síminn var seldur á þessum degi fyrir áratug, 29. júní 2007. Síminn var langt á undan sinni samtíð og hefur markað djúp spor í söguna. Gunnlaugur Reynir Sverrisson fjallar um þessi tímamót á tölvuöld.
Á þessum degi fyrir réttum 10 árum var fyrsti iPhone-sími bandaríska tölvufyrirtækisins Apple settur í sölu. Símans hafði þá verið beðið með mikilli eftirvæntingu frá því hann var kynntur í janúar þetta ár 2007.
Langar biðraðir mynduðust á sölustöðum og fengu færri símann en vildu. Apple hafði sett sér markmið um að selja eina milljón síma fyrir lok september 2007 og tíu milljón síma fyrir lok ársins 2008. Þau markmið stóðust og rúmlega það. Í lok árs 2008 höfðu rúmlega 13 milljón símar selst. Til samanburðar má geta að, átta árum síðar, á árinu 2016 seldi Apple rúmlega 211 milljón síma.
Tæknirýnar voru flestir jákvæðir. Helsta gagnrýnin beindist þó að takmörkunum tækisins því listinn yfir það sem síminn gat ekki gert var nokkuð langur: Ekkert 3G, enginn myndbandsupptaka með myndavélinni og enginn stuðningur við Adobe Flash sem flestar betri síður studdust við fyrir um áratug. Þá var ekki í boði að bæta við forritum á símann.
Þrátt fyrir gagnrýnina voru flestir þeirrar skoðunar að síminn væri tímamótatæki sem myndi hafa víðtæk áhrif á markaðinn. Upplifun notenda var frábær, sem skipti öllu þegar upp er staðið, ekki samanburður á vélbúnaði í Excel-skjali.
Viðbrögð samkeppnisaðila voru talsvert neikvæðari en almennings og tæknipressunar. Skortur á lyklaborði og stuðningi við Microsoft Exchange-þjónustuna var talin helsta fyrirstaðan á fyrirtækjamarkaði, auk þess að ekki var hægt að klippa, afrita og líma texta eða myndir í tækinu. Einnig voru efasemdir um skilning Apple á símamarkaðnum.
Ed Colligan, forstjóri Palm sem var í sterkri stöðu með snjallsímann Tréo árið 2007, hafði takmarkaða trú á getu tölvufyrirtækjanna til að framleiða góðan snjallsíma. „Við höfum stritað í mörg ár og lært hvernig á að smíða þokkalegan síma. PC-gaurarnir munu ekki finna út úr þessu sí svona, þeir munu ekki bara labba inn”.
Rúmum tveimur árum síðar var Colligan rekinn og fyrirtækið var lagt niður árið 2011.
Sömu sögu má í raun segja um alla sem voru stærstir á símamarkaðnum áður en iPhone kom til sögunnar. Má þar nefna Nokia, Blackberry, Palm og Windows Mobile. Það sem varð öllum þessum fyrirtækjum að falli var ekki aðeins að iPhone væri betri – sem hann sannarlega var – heldur að hann var mörgum árum á undan öllu öðru sem í boði var.
Það er óhætt að segja að samkeppnisaðilar Apple hafi vanmetið iPhone verulega. Að þeirra mati var lausnin aðeins snertivæðing gamla stýrikerfisins; Svínið varalitað. Það leiddi til þess að næstu árin komu alls konar Frankenstein-símar á markað. Þetta voru jafnan símar sem keyrðu á úreltum stýrikerfum, hræðilegu viðmóti og ömurlegri upplifun. Salan á þessum símum gekk ávallt út á það sama: „Sjáðu hvað við getum gert miklu meira en iPhone,“ jafnvel þótt símarnir hafi ekki getað leyst verkefnin vel af hendi.
Þegar litið er til baka er augljóst að aðeins eitt fyrirtæki mat stöðuna rétt og brást við samkvæmt því; Google.
Google spáð því lengi að snjallsímar væru það næsta stóra og með snjallsímum kæmu nýir vafrar og ný netupplifun á snjalltækjum. Og Google vildi vera „Google snjallsímanna“. Til að geta brugðist við snjalltækjaþróuninni keypti Google lítið fyrirtæki, Android, árið 2005 á 50 milljónir dala (tæpir 3,2 milljarðar króna miðað við gengisskráningu Seðlabanka Íslands 17. ágúst 2005).
Þegar iPhone var fyrst kynntur í janúar 2007 hafði Google unnið að smíði Android í rúm tvö ár. Prófanir á tækjum gengu vel og fyrirtækið var á góðri leið með að gefa út fyrstu Android-símtækin sama ár.
Í bók Fred Vogelstein, Dogfight: How Apple and Google Went to War and Started a Revolution, sagði Chris DeSalvo, einn af verkfræðingum Google sem vann að Android, um iPhone-símann: „Sem neytandi þá var ég dolfallinn, ég vildi eignast hann strax. Sem Google-starfsmaður þá hugsaði ég: við þurfum að byrja upp á nýtt.“
Staðreyndin var sú að þótt Google sá tækifærið og ógnina þá hafði fyrirtækið miðað of lágt. Sú útgáfa af Android sem Google hafði unnið að var mun líkari þeim snjallsímum sem í boði voru á þessum tíma. Áhersla á litla snertilausa skjái, lyklaborð og aðgerðir framkvæmdar með örvahnappi. Það sem Apple hafði kynnt var í annarri deild.
Ólíkt Nokia og öðrum símaframleiðendum þá hafði Google ekki selt neina snjallsíma, og ætlaði raunar hvorki að selja farsíma né stýrikerfið fyrir þá. Fyrirtækið var því í kjörstöðu til að henda öllu í ruslið og byrja upp á nýtt. Smíði á Android-stýrikerfinu eins og við þekkjum það í dag hófst strax í upphafi árs 2007. Ákvörðun Google var hárrétt og með því að gefa framleiðendum stýrikerfið og viðhalda stöðugri þróun er Android nú vinsælasta stýrikerfi heims.
Í hvert skipti sem ég segi í Tæknivarpinu að Apple hafi fundið upp snjallsímann fæ ég vinsamlegar ábendingar að þessi eða hinn síminn – sem enginn keypti – hafi nú verið á undan iPhone á markað. Þetta er auðvitað dagsatt en það er líka staðreynd að Apple fann upp snjallsímann… eins og við þekkjum hann.
Eitt af því sem Apple gerði rétt var AppStore-verslunin. Snjallsíminn er einkatölvan sem við fengum aldrei í æsku. Stóri snertiskjárinn í fyrsta iPhone-símanum var frábær tómur strigi fyrir hvað sem okkur og milljón fyrirtækjum dettur í hug.
Það vær full djarft (og jafnvel rangt) að halda því fram að án iPhone hefðu snjallsímar aldrei orðið eins útbreidd vara og raun ber vitni. Flestir sem fylgdust náið með markaðnum upp úr 2004 sáu í hvað stefndi. En þegar samkeppnin árið 2007 er skoðuð þá virkaði innkoma Apple sem amfetamínsterasprauta á markaðinn. Við sem neytendur, hvort sem við notum iPhone- eða Android-síma, njótum góðs af því. Því ber að fagna á þessu stórafmæli.