Tvö prósent fjölskyldna skiptu með sér tug milljarða söluhagnaði
3.682 fjölskyldur, tæplega tvö prósent fjölskyldna, fengu hagnað vegna hlutabréfasölu í fyrra upp á 28,7 milljarða króna. Tekjur vegna hlutabréfasölu jukust um 38,3 prósent milli ára en fjölskyldum sem nutu slíks hagnaðar fjölgaði einungis um 3,7 prósent.
Tekjur einstaklinga á Íslandi af arði námu 43,3 milljörðum króna í fyrra. Þær jukust um 24,6 prósent milli ára og er arður nú orðin stærsti einstaki liður fjármagnstekja ríkissjóðs. Fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2016 var 14.545 og fjölgaði um 685 milli ára, eða um tæplega fimm prósent. Þetta kemur fram í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2017.
Söluhagnaður jókst um 39,1 prósent milli ára þrátt fyrir að fjölskyldum sem töldu fram söluhagnað hafi einungis fjölgað um 5,4 prósent. Það bendir til þess að fámennur hópur sé að taka til sín þorra þess arðs sem verður til í íslensku samfélagi.
Söluhagnaður var alls 32,3 milljarðar króna í fyrra og þar af nam sala hlutabréfa 28,7 milljörðum króna og hækkaði um 38,3 prósent á milli ára. Á sama tíma fjölgaði fjölskyldum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa um einungis 3,7 prósent í 3.682 alls. Fjölskyldur á Íslandi voru um 197 þúsund í fyrra. Það þýðir að tæplega tvö prósent fjölskyldna landsins greiði fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar á hlutabréfum.
Hagtölur sýna að 86 prósent verðbréfa, sem eru meðal annars hlutabréf, eru í eigu ríkasta tíu prósent Íslendinga. Samandregið liggur því fyrir að nokkur þúsund Íslendingar, undir fimm prósent þjóðarinnar, tekur til sín nær allan söluhagnað vegna hlutabréfa hérlendis.
Eigið fé heimila jókst um 415 milljarða milli ára
Nettóeign heimila landsins, sem skilgreind sem heildareignir þeirra að frádregnum heildarskuldum, einnig kallað eigið fé, var samtals 3.194 milljarðar króna í lok árs 2016. Það jókst um 415,2 milljarða króna, eða 13,4 prósent á milli ára en ekki hafa verið birtar tölur um hvernig það nýja fé sem varð til skiptist á milli tekju- eða eignahópa samfélagsins. Á verðlagi þess árs námu nettóeignir heimila landsins um 1.830 milljörðum króna í árslok 2011. Frá þeim tíma hafa þær því aukist um 1.364 milljarðar króna í krónum talið, eða um 74,5 prósent. Að teknu tilliti til verðbólgu nemur raungildisauking á nettóeign heimila tæplega 1.100 milljörðum króna, eða um 52 prósent.
Tölur Hagstofu Íslands fyrir árið 2015 sýndu þó að ríkasta tíund landsmanna átti um 64 prósent af öllu eigin fé hérlendis í lok þess árs. Efnuðustu 20 prósent landsmanna áttu 87 prósent af öllu eigin fé á sama tíma.
Tekjur vegna hlutabréfasölu jukust um 38,3 prósent
Tekjur vegna arðgreiðslna hafa aukist mjög á undanförnum árum. Árið 2012 námu þær 16,7 milljörðum króna og hafa nálægt því þrefaldast í krónum talið síðan þá. Árið 2014 voru tekjur vegna arðgreiðslna tæplega 30 milljarðar króna og árið 2015 34,8 milljarðar króna. Þá var hagnaður af sölu hlutabréfa 20,8 milljarðar króna og því ljóst að hann jókst um 7,9 milljarða króna á milli ára, eða um 38,3 prósent. Söluhagnaðurinn lækkaði þó milli áranna 2014 og 2015 og var sú skýring gefin í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2016 að nokkrir einstaklingar hefðu verið með „óvenjulega háan söluhagnað“ á árinu 2014.