Eyðslumet verður sett í Englandi...og verðmiðarnir eiga bara eftir að hækka
Ensku úrvaldsdeildarfélögin hafa eytt um 1.100 milljónum punda í leikmenn og hafa enn tvær vikur til að bæta við. Fjögur lið hafa eytt yfir 130 milljónum punda og tíu lið hafa bætt eyðslumet sitt. Ekkert bendir til þess að bólan sé að springa.
Ensku úrvaldsdeildarfélögin hafa eytt um 1.100 milljónum punda í leikmenn og hafa enn tvær vikur til að bæta við. Fjögur lið hafa eytt yfir 130 milljónum punda og tíu lið hafa bætt eyðslumet sitt. Ekkert bendir til þess að bólan sé að springa.
Félögin í efstu deild í Englandi hafa þegar eytt tæplega 1.100 milljónum punda, um 150 milljörðum króna, í nýja leikmenn í yfirstandandi félagaskiptaglugga. Það þýðir að þau hafa nú þegar eytt nánast jafn miklu og félögin gerðu í sumarglugganum 2016, þegar heildareyðslan fór í fyrsta sinn yfir milljarð pund og endaði í 1.194 milljónum punda. Og það eru enn tæpar tvær vikur eftir þar til glugginn lokar.
Á þessum tíma í fyrra voru félögin ekki búin að eyða nærri því svona hárri fjárhæð. Þekkt er að mestum fjárhæðum er iðulega eytt á endasprettinum, rétt áður en glugganum er lokað. Sumarið 2015 var til að mynda fimmtungur allra kaupverða greiddur út í síðustu vikunni. Það breyttist lítið í fyrra.
Stór viðskipti eins og kaup PSG á Neymar fyrir 200 milljónir punda, eða kaup Everton á Gylfa Sigurðssyni fyrir alls um 45 milljónir punda, hrinda vanalega af stað keðjuverkun. Barcelona þarf að kaupa leikmenn í stað Neymars og ef þeir ná í Philippe Couinho frá Liverpool þarf Liverpool að kaupa sterkan leikmann í hans stað. Swansea þarf að gera slíkt hið sama til að fylla skarð Gylfa. Og svo koll af kolli. Við slíkar aðstæður, og þegar nær dregur enda gluggans, hefur verðmiðinn á leikmönnum, sem þegar er orðinn klikkaður í sumar, tilhneigingu til að hækka enn frekar.
Það blasir því við að nýtt eyðslumet verður sett þetta sumarið.
Eyða margfalt meira en fyrir áratug
Mikil verðbólga hefur verið í eyðslu liðanna í ensku úrvalsdeildinni á undanförnum árum. Fyrir áratug eyddu þau til að mynda samtals 260 milljónum punda í nýja leikmenn í sumarglugganum. Nú stefnir í að eyðslan verði fjórum sinnum meiri og þetta sumar er það fimmta í röð sem nýtt eyðslumet er sett.
Alls hafa tíu félög í ensku úrvalsdeildinni bætt eyðslumetið sitt í sumar:
- Chelsea borgaði 58 milljónir punda fyrir Álvaro Morata
- Arsenal, borgaði 52 milljónir punda fyrir Alexandre Lacazette
- Everton,borgaði 45 milljónir punda fyrir Gylfi Sigurdsson
- Liverpool borgaði 39 milljónir punda fyrir Mohamed Salah
- West Ham borgaði 24 milljónir punda fyrir Marko Arnautovic
- Bournemouth borgaði 19,4 milljónir punda fyrir Nathan Aké
- Watford, borgaði 18,5 milljónir punda fyrir Andre Gray
- Southampton, borgaði 18 milljónir punda fyrir Mario Lemina
- Brighton, borgaði 11,7 milljónir punda fyrir Davy Pröpper
- Huddersfield, borgaði 11 milljónir punda fyrir Steve Mounié
Dýrasti leikmaðurinn sem enskt lið hefur hins vegar keypt er Romelu Lukaku, sem fór frá Everton til Manchester United fyrir 75 milljónir punda. Sá verðmiði gæti reyndar hækkað um 20 milljónir punda ef vel gengur hjá Lukaku og Manchester United á næstu árum.
Það lið sem hefur eytt langmestum peningum er Manchester City. Þeir hafa keypt leikmenn fyrir 220 milljónir punda, mestmegnis bakverði. Samtals hefur Pep Guardiola eytt yfir 400 milljónum punda í nýja leikmenn frá því að hann tók við stjórnartaumunum hjá liðunum fyrir rúmu ári siðan. Þrjú önnur lið hafa eytt vel yfir 100 milljónum punda í leikmenn það sem af er sumri. Það kemur kannski ekki á óvart að tvö þeirra eru Manchester United og Chelsea, en óvenjulegra er að Everton, sem er frekar þekkt fyrir að eyða nánast engum peningi nettó, hefur keypt leikmenn fyrir 133 milljónir punda. Reyndar verður að fylgja sögunni að liðið hefur líka selt leikmenn fyrir nálægt 100 milljónum punda og á enn eftir að selja nokkra leikmenn til viðbótar.
Og vert er að benda á að liðin í efstu deild hafa aldrei fengið jafn mikið fé fyrir leikmenn sem hafa verið seldir eins og í yfirstandandi glugga, eða um 525 milljónir punda. Nettó eyðslan er því rúmlega 500 milljónir punda eins og stendur.
Risavaxnir sjónvarpssamningar
Ástæðan fyrir þessari miklu eyðslu er augljós. Það eru rosalegir fjárhagslegir hagsmunir undir í því að halda sæti sínu á meðal þeirra bestu í Englandi og fyrir betri liðin aukast þeir hagsmunir eftir því sem þau lenda ofar á töflunni í lok tímabils.
Ástæða ástæðunnar er umfang sjónvarpsréttarsamning, sem hefur aukist gríðarlega samhliða auknum vinsældum ensku úrvalsdeildarinnar og fleiri keppast nú um að komast yfir réttinn en áður. Í byrjun árs 2015 var gerður nýr samningur sem er að mörgum talin nærri galin. Þá var rétturinn fyrir árin 2016-2019 seldur fyrir 5,2 milljarða punda. Það þýðir að Sky Sports og BT Sport, sem keyptu réttinn, borga meira en tíu milljón pund fyrir hvern leik sem stöðvarnar sýna.
Til samanburðar má nefna að samningurinn sem var í gildi fyrir árin 2013 til 2016 kostaði um þrjá milljarða punda. Og þegar úrvalsdeildin var sett á fót árið 1992 var sjónvarpsrétturinn seldur til sex ára fyrir 191 milljón punda. Til að setja þann vöxt á sölutekjum sjónvarpsréttar í samhengi þá fengu liðin í deildinni samtals 32 milljónir punda á meðaltali á árið á tímabilinu 1992 til 1997. Á árunum 2016 til 2019 fá þau um 1,3 milljarða punda til skiptanna.
Til viðbótar segja enskir fjölmiðlar að salan á alþjóðlegum sýningarrétti á enska boltanum skili ensku úrvalsdeildinni þremur milljörðum punda á samningstímanum. Samtals verður rétturinn því seldur fyrir um eitt þúsund og fjögur hundruð milljarða íslenskra króna. Eina íþróttadeildin í heiminum sem þénar meira vegna seldra sjónvarpsrétta er bandaríska NFL-deildin.
Nú standa yfir viðræður um samning sem tekur gildi eftir 2019. Og samkvæmt fréttum breskra miðla verður hann enn hærri. Það er því ekkert sem bendir til þess að tími gölnu kaupanna sé að renna sitt skeið. Þvert á móti er viðbúið að verðmiðarnir muni hækka enn frekar á næstu árum.
Keðjuverkun
Enska úrvalsdeildin er alveg sér á báti þegar kemur að vinsældum og peningaflæði. Þetta vita önnur lið í öðrum deildum, hvort sem um er að ræða neðri deildirnar í Englandi eða aðrar deildarkeppnir í heiminum.
Það eru því í gangi tvenns konar verðstrúktúrar á félagaskiptamarkaðnum, sá sem gildir fyrir ensku félögin og felur í sér mun hærra verð, og sá sem gildir fyrir hina. Í praktík virkar þetta þannig að ef enskt félag setur inn tilboð í leikmann hækkar verðið ósjálfrátt, vegna þess að seljendafélagið vita að öll ensku úrvalsdeildarfélögin eiga ótrúlegt magn af peningum. Af öllum þessum innkaupum verður síðan keðjuverkun, þar sem kaupverðin sem minni lið innheimta nýtast þeim í að styrkja sig. Því má segja að hinn mikli auður ensku úrvalsdeildarinnar sé orðinn helsti drifkrafturinn í viðskiptahlið nútímaknattspyrnunnar.