Fjölmiðlar seldir fyrir rimlagjöldum án vitundar stærsta eiganda
Nær allir fjölmiðlar Pressunnar voru seldir í byrjun viku fyrir nokkur hundruð milljónir króna. Kaupverðinu var ráðstafað í vangreidd opinber gjöld og greiðslu krafna með sjálfskuldarábyrgð. Stærsti eigandi Pressunnar vissi ekkert fyrr en eftir að kaupin voru frágengin.
Flestir fjölmiðlar Pressusamsteypunnar hafa verið seldir til nýs félags, Frjálsrar fjölmiðlunar. Um er að ræða DV, DV.is, Pressuna, Eyjuna, Bleikt, ÍNN og tengda vefi. Eftir í gamla eignarhaldsfélaginu voru skildir héraðsfréttamiðlar og nokkur hundruð milljóna króna skuldir sem erfitt er að sjá hvernig eigi að fást greiddar.
Forsvarsmenn Dalsins, þess félags sem meirihluta í Pressusamstæðunni (alls 68 prósent) segja að þeir hafi ekki vitað um að Sigurður hefði gert kauptilboð í nær allar eignir samstæðunnar fyrr en eftir að stjórn Pressunnar hefði samþykkt það tilboð. Dalurinn, félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og þriggja viðskiptafélaga þeirra, hafði opinberlega eignast félagið að mestu í lok ágúst. Hins vegar hafði ekki verið haldinn hluthafafundur eða stjórnarfundur þar sem Dalurinn gat fengið stjórnarmenn í takti við eign sína. Það var því stjórn Pressunnar, sem í sitja meðal annars Björn Ingi Hrafnsson og Arnar Ægisson, stærstu minnihlutaeigendur samstæðunnar, sem samþykkti kauptilboðið.
Skornir niður úr snörunni
Fjármununum sem greiddir voru fyrir fjölmiðla Pressunnar, einu raunverulegu verðmæti félagsins, hefur þegar verið ráðstafað. Ekkert af söluandvirðinu er eftir til að mæta öðrum skuldbindingum Pressusamstæðunnar. Greiddar voru upp opinberar skuldir Pressunnar við Tollstjóra sem hlupu á hundruðum milljóna króna. Um var að ræða vangreidda staðgreiðslu skatta, vanskil á virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum sem félagið hafði ekki staðið skil á á undanförnum árum. Tollstjórinn í Reykjavík hafði lagt fram gjaldþrotabeiðni á hendur Pressunni fyrir héraðsdómi vegna þess og átti að taka hana fyrir í gærmorgun. Sú beiðni var hins vegar afturkölluð eftir að Sigurður G. Guðjónsson gerði upp opinberu gjöldin. Slík gjöld eru oft kölluð rimlagjöld, enda þýða vanskil á þeim vanalega að ábyrgðarmenn félaga sem halda eftir fjármunum sem eru með réttu ríkisins hljóta refsidóma fyrir vikið, sem gæti jafnvel þýtt fangelsisvist. Skyndileg kaup Frjálsrar fjölmiðlunar á fjölmiðlum Pressunnar komu í veg fyrir að ábyrgðarmenn félagsins þyrftu að mæta þeim örlögum.
Til viðbótar voru gerðar upp kröfur þar sem Björn Ingi Hrafnsson, fyrirsvarsmaður Pressunnar, var í sjálfskuldarábyrgð og prentskuldir við Árvakur, sem prentar og dreifir DV.
Aðrar skuldir, meðal annars viðskiptaskuldir, krafa fyrrverandi eigenda DV upp á 91 milljón króna sem er verið að reyna að sækja fyrir dómstólum, einhverjar lífeyrissjóðaskuldir og tug milljóna króna skuldir við sænskt markaðsrannsóknarfyrirtæki eru sem stendur enn inni í Pressusamstæðunni og óuppgerðar. Þær hlaupa samtals á hundruð milljóna króna enda voru sameiginlegar skuldir Pressunnar og tengdra fyrirtækja orðnar rúmlega 700 milljónir króna í byrjun sumars, samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem komu að málum hennar á þeim tíma.
Einn viðmælandi Kjarnans orðaði það þannig að Frjáls fjölmiðlun hafi greitt nákvæmlega þá upphæð sem þurfti til að „skera Björn Inga niður úr snörunni“. Annað hafi verið skilið eftir.
Þá hafi ekkert komið fram um hvort Frjáls fjölmiðlun ætli sér að fjárfesta meira fé í uppbyggingu fjölmiðlarekstursins. En ljóst sé að sú fjárhæð sem greidd var fyrir fjölmiðla Pressusamstæðunnar sé „sokkinn kostnaður“. Þ.e. hún fór öll í að hreinsa upp skuldir en ekki að neinu leyti í að fjárfesta í eignunum.
Vita ekkert hver borgaði fyrir miðlana
Dalurinn fékk engar upplýsingar um að kaupin væru að fara að eiga sér stað, og vissi ekki að þeim fyrr en þau voru um garð gengin. Sala eigna Pressunnar, félags sem Dalurinn á meirihluta í, fór því fram án vitundar og vilja stærsta eiganda félagsins.
Í yfirlýsingu sem Dalurinn sendi frá sér í dag segir: „Kaupsamningur Frjálsrar Fjölmiðlunar um kaup á nánast öllum eignum Pressunar og tengdum félögum var kynntur fyrir eigendum Dalsins eftir að hann var frágenginn. Ef marka má yfirlýsingar kaupanda þá verða allar skuldir félagsins gerðar upp og þá sérstaklega skuldir við tollstjóra og lífeyrisskuldbindingar starfsmanna. Við fögnum því ef þetta verður niðurstaðan.
Dalurinn er áfram eigandi að 68 prósent hlut í Pressunni og ekki er ákveðið hvað verður um þann eignarhlut. En í ljósi umræddra viðskipta má telja að sá hlutur hafi lítið verðmæti þar sem eignir hafa verið seldar úr félaginu. Forsvarsmenn Dalsins eru jafn forvitnir og aðrir um að heyra hverjir standi að baki kaupunum.“
Sitja uppi með Svarta Pétur
Í raun má segja að Dalurinn sitji uppi með Svarta Pétur. Félagið hafði ætlað sér að eignast alla Pressusamstæðuna og fjölmiðlafyrirtækið Birting, ásamt meðfjárfestum, í vor. Raunar var tilkynnt um yfirtökuna og á sama tíma greint frá því að Björn Ingi Hrafnsson myndi að mestu hverfa frá fyrirtækinu. Þegar Dalurinn undirbjó yfirtökuna kom hins vegar í ljós að staða Pressusamstæðunnar var mun verri en af hafði verið látið. Mörg hundruð milljóna króna skuldir komu í ljós auk þess sem launakjör æðstu stjórnenda, sérstaklega Björns Inga og Arnars, komu væntanlegum nýjum hluthöfum í opna skjöldu. Um var að ræða margar milljónir króna á mánuði á meðan að samstæðan var öll rekin í tapi og fjölmiðlarnir sjálfir voru verulega undirmannaðir. Dalurinn dró sig á endanum út úr yfirtökunni og lét nægja að eignast Birting, sem gefur út þrjú tímarit. Dalurinn hafði hins vegar þegar sett milljónir króna í Pressuna til að gera upp viðkvæmustu skuldir hennar. Og eignaðist með því, að eigin mati, kröfu sem var umbreytanleg í hlutafé. Auk þess töldu Dalsmenn reyndar að þeir ættu allsherjarveð í öllum helstu eignum félagsins, t.d. DV og Eyjunni.
Í ágústlok var tilkynnt um að hlutur Dalsins í Pressunni væri 68 prósent.
Ber að upplýsa Fjölmiðlanefnd um eignarhaldið
Viðmælendur Kjarnans telja nær ómögulegt að Sigurður G. Guðjónsson hafi greitt þá upphæð sem var greidd var fyrir fjölmiðlanna sem nú hafa verið færðir á nýja kennitölu úr eigin vasa. Ekkert hefur hins vegar verið uppgefið um hverjir það séu sem lögðu til það fjármagn.
Í 22. grein laga um fjölmiðla er fjallað um tilkynningarskyldu um eigendaskipti að fjölmiðlaveitu. Þar segir: „Við sölu á hlut í fjölmiðlaveitu bera seljandi og kaupandi ábyrgð á því að tilkynning um söluna sé send fjölmiðlanefnd. Tilkynning um söluna skal hafa borist fjölmiðlanefnd innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings“.
Í lögunum segir einnig að Fjölmiðlanefnd skuli leggja stjórnvaldssekt á bæði seljanda og kaupanda komi í ljós að þeir hafi vanrækt að tilkynna um eigendaskipti á hlut í fjölmiðli.
Frjáls fjölmiðlun hefur ekki verið skráð hjá Fjölmiðlanefnd. Til að vera í samræmi við lög ætti slík skráning að eiga sér stað í dag eða á morgun.
Birni Inga gríðarlega létt
Starfsmenn Pressusamstæðunnar vita lítið sem ekkert um hvernig starfsemin verður héðan í frá, né hverjir komi til með að stýra henni. Í tölvupósti sem Björn Ingi sendi þeim fyrr í dag sagði hann að með viðskiptunum væri tryggt að DV og Pressan myndu greiða „allar sínar helstu skuldir, t.d. við Tollstjóra og lífeyrissjóði. Jafnframt tryggja viðskiptin á sjötta tug starfa og treysta mikilvæga fjölmiðla áfram í sessi.“ Ekki er skilgreint sérstaklega hvað sé átt við með helstu skuldir.
Í tölvupósti hans kemur einnig fram að á næstu dögum verði greint frá helstu breytingum sem hið nýja samkomulag hafi í för með sér. „Á persónulegum nótum vil ég segja að, að baki er gríðarleg vinna og andvökunætur. Að ljúka þessu með farsælum hætti er gríðarlegur léttir og umfang þessara viðskipta sýnir hve mikilvægir fjölmiðlarnir eru og hve möguleikar þeirra eru miklir til framtíðar,“ segir hann enn fremur í póstinum.
Viðbót 8.9.2017
Í upprunalegu skýringunni stóð að Dalurinn hefði greitt inn 155 milljónir króna. Það var ekki nákvæmt og hefur verið leiðrétt. Þar stóð líka að Dalurinn hafi upprunalega átt 89 prósent en sá hlutur síðar minnkað í 68 prósent. Í ljós hefur komið að um ranga tilkynningu til Fjölmiðlanefndar var að ræða og því hefur þetta verið leiðrétt. Þá kom fram að Sigurður G. Guðjónsson hefði fundað með forsvarsmönnum Dalsins, og var það samkvæmt heimildamönnum Kjarnans. Slíkt hefur verið borið til baka og fréttaskýringunni breytt í samræmi við það.