Mynd: Birgir Þór

Fjölmiðlar seldir fyrir rimlagjöldum án vitundar stærsta eiganda

Nær allir fjölmiðlar Pressunnar voru seldir í byrjun viku fyrir nokkur hundruð milljónir króna. Kaupverðinu var ráðstafað í vangreidd opinber gjöld og greiðslu krafna með sjálfskuldarábyrgð. Stærsti eigandi Pressunnar vissi ekkert fyrr en eftir að kaupin voru frágengin.

Flestir fjöl­miðlar Pressu­sam­steypunnar hafa verið seldir til nýs félags, Frjálsrar fjöl­miðl­un­ar. Um er að ræða DV, DV.is, Press­una, Eyj­una, Bleikt, ÍNN og tengda vefi. Eftir í gamla eign­ar­halds­fé­lag­inu voru skildir hér­aðs­frétta­miðlar og nokkur hund­ruð millj­óna króna skuldir sem erfitt er að sjá hvernig eigi að fást greidd­ar.

For­svars­menn Dals­ins, þess félags sem meiri­hluta í Pressu­sam­stæð­unni (alls 68 pró­sent) segja að þeir hafi ekki vitað um að Sig­urður hefði gert kauptil­boð í nær allar eignir sam­stæð­unnar fyrr en eftir að stjórn Pressunnar hefði sam­þykkt það til­boð. Dal­ur­inn, félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harð­ar­sonar og þriggja við­skipta­fé­laga þeirra, hafði opin­ber­lega eign­ast félagið að mestu í lok ágúst. Hins vegar hafði ekki verið hald­inn hlut­hafa­fundur eða stjórn­ar­fundur þar sem Dal­ur­inn gat fengið stjórn­ar­menn í takti við eign sína. Það var því stjórn Pressunn­ar, sem í sitja meðal ann­ars Björn Ingi Hrafns­son og Arnar Ægis­son, stærstu minni­hluta­eig­endur sam­stæð­unn­ar, sem sam­þykkti kauptil­boð­ið.

Skornir niður úr snör­unni

Fjár­mun­unum sem greiddir voru fyrir fjöl­miðla Pressunn­ar, einu raun­veru­legu verð­mæti félags­ins, hefur þegar verið ráð­staf­að. Ekk­ert af sölu­and­virð­inu er eftir til að mæta öðrum skuld­bind­ingum Pressu­sam­stæð­unn­ar. Greiddar voru upp opin­berar skuldir Pressunnar við Toll­stjóra sem hlupu á hund­ruðum millj­óna króna. Um var að ræða van­greidda stað­greiðslu skatta, van­skil á virð­is­auka­skatti og öðrum opin­berum gjöldum sem félagið hafði ekki staðið skil á á und­an­förnum árum. Toll­stjór­inn í Reykja­vík hafði lagt fram gjald­þrota­beiðni á hendur Press­unni fyrir hér­aðs­dómi vegna þess og átti að taka hana fyrir í gær­morg­un. Sú beiðni var hins vegar aft­ur­kölluð eftir að Sig­urður G. Guð­jóns­son gerði upp opin­beru gjöld­in. Slík gjöld eru oft kölluð rimla­gjöld, enda þýða van­skil á þeim vana­lega að ábyrgð­ar­menn félaga sem halda eftir fjár­munum sem eru með réttu rík­is­ins hljóta refsi­dóma fyrir vik­ið, sem gæti jafn­vel þýtt fang­els­is­vist. Skyndi­leg kaup Frjálsrar fjöl­miðl­unar á fjöl­miðlum Pressunnar komu í veg fyrir að ábyrgð­ar­menn félags­ins þyrftu að mæta þeim örlög­um.

Til við­bótar voru gerðar upp kröfur þar sem Björn Ingi Hrafns­son, fyr­ir­svars­maður Pressunn­ar, var í sjálf­skuld­ar­á­byrgð og prent­skuldir við Árvak­ur, sem prentar og dreifir DV.

Aðrar skuld­ir, meðal ann­ars við­skipta­skuld­ir, krafa fyrr­ver­andi eig­enda DV upp á 91 milljón króna sem er verið að reyna að sækja fyrir dóm­stól­um, ein­hverjar líf­eyr­is­sjóða­skuldir og tug millj­óna króna skuldir við sænskt mark­aðs­rann­sókn­ar­fyr­ir­tæki eru sem stendur enn inni í Pressu­sam­stæð­unni og óupp­gerð­ar. Þær hlaupa sam­tals á hund­ruð millj­óna króna enda voru sam­eig­in­legar skuldir Pressunnar og tengdra fyr­ir­tækja orðnar rúm­lega 700 millj­ónir króna í byrjun sum­ars, sam­kvæmt við­mæl­endum Kjarn­ans sem komu að málum hennar á þeim tíma. 

Einn við­mæl­andi Kjarn­ans orð­aði það þannig að Frjáls fjöl­miðlun hafi greitt nákvæm­lega þá upp­hæð sem þurfti til að „skera Björn Inga niður úr snör­unn­i“. Annað hafi verið skilið eft­ir.

Þá hafi ekk­ert komið fram um hvort Frjáls fjöl­miðlun ætli sér að fjár­festa meira fé í upp­bygg­ingu fjöl­miðla­rekst­urs­ins. En ljóst sé að sú fjár­hæð sem greidd var fyrir fjöl­miðla Pressu­sam­stæð­unnar sé „sokk­inn kostn­að­ur“. Þ.e. hún fór öll í að hreinsa upp skuldir en ekki að neinu leyti í að fjár­festa í eign­un­um.

Vita ekk­ert hver borg­aði fyrir miðl­ana

Dal­ur­inn fékk engar upp­lýs­ingar um að kaupin væru að fara að eiga sér stað, og vissi ekki að þeim fyrr en þau voru um garð geng­in. Sala eigna Pressunn­ar, félags sem Dal­ur­inn á meiri­hluta í, fór því fram án vit­undar og vilja stærsta eig­anda félags­ins.

Í yfir­lýs­ingu sem Dal­ur­inn sendi frá sér í dag seg­ir: „Kaup­samn­ingur Frjálsrar Fjöl­miðl­unar um kaup á nán­ast öllum eignum Press­unar og tengdum félögum var kynntur fyrir eig­endum Dals­ins eftir að hann var frá­geng­inn. Ef marka má yfir­lýs­ingar kaup­anda þá verða allar skuldir félags­ins gerðar upp og þá sér­stak­lega skuldir við toll­stjóra og líf­eyr­is­skuld­bind­ingar starfs­manna. Við fögnum því ef þetta verður nið­ur­stað­an.

Björn Ingi Hrafnsson er stjórnarformaður Pressunnar og minnihlutaeigandi í félaginu ásamt viðskiptafélaga sínum.

Dal­ur­inn er áfram eig­andi að 68 pró­sent hlut í Press­unni og ekki er ákveðið hvað verður um þann eign­ar­hlut. En í ljósi umræddra við­skipta má telja að sá hlutur hafi lítið verð­mæti þar sem eignir hafa verið seldar úr félag­inu. For­svars­menn Dals­ins eru jafn for­vitnir og aðrir um að heyra hverjir standi að baki kaup­un­um.“

Sitja uppi með Svarta Pétur

Í raun má segja að Dal­ur­inn sitji uppi með Svarta Pét­ur. Félagið hafði ætlað sér að eign­ast alla Pressu­sam­stæð­una og fjöl­miðla­fyr­ir­tækið Birt­ing, ásamt með­fjár­fest­um, í vor. Raunar var til­kynnt um yfir­tök­una og á sama tíma greint frá því að Björn Ingi Hrafns­son myndi að mestu hverfa frá fyr­ir­tæk­inu. Þegar Dal­ur­inn und­ir­bjó yfir­tök­una kom hins vegar í ljós að staða Pressu­sam­stæð­unnar var mun verri en af hafði verið lát­ið. Mörg hund­ruð millj­óna króna skuldir komu í ljós auk þess sem launa­kjör æðstu stjórn­enda, sér­stak­lega Björns Inga og Arn­ars, komu vænt­an­legum nýjum hlut­höfum í opna skjöldu. Um var að ræða margar millj­ónir króna á mán­uði á meðan að sam­stæðan var öll rekin í tapi og fjöl­miðl­arnir sjálfir voru veru­lega und­ir­mann­að­ir. Dal­ur­inn dró sig á end­anum út úr yfir­tök­unni og lét nægja að eign­ast Birt­ing, sem gefur út þrjú tíma­rit. Dal­ur­inn hafði hins vegar þegar sett millj­ónir króna í Press­una til að gera upp við­kvæm­ustu skuldir henn­ar. Og eign­að­ist með því, að eigin mati, kröfu sem var umbreyt­an­leg í hluta­fé. Auk þess töldu Dals­menn reyndar að þeir ættu alls­herj­ar­veð í öllum helstu eignum félags­ins, t.d. DV og Eyj­unni.

Í ágúst­lok var til­kynnt um að hlutur Dals­ins í Press­unni væri 68 pró­sent. 

Ber að upp­lýsa Fjöl­miðla­nefnd um eign­ar­haldið

Við­mæl­endur Kjarn­ans telja nær ómögu­legt að Sig­urður G. Guð­jóns­son hafi greitt þá upp­hæð sem var greidd var fyrir fjöl­miðl­anna sem nú hafa verið færðir á nýja kenni­tölu úr eigin vasa. Ekk­ert hefur hins vegar verið upp­gefið um hverjir það séu sem lögðu til það fjár­magn.

Í 22. grein laga um fjöl­miðla er fjallað um til­­kynn­ing­­ar­­skyldu um eig­enda­­skipt­i að fjöl­miðla­veitu. Þar seg­ir: „Við sölu á hlut í fjöl­miðla­veitu bera selj­and­i og kaup­andi ábyrgð á því að til­­kynn­ing um söl­una sé send fjöl­miðla­­nefnd. Til­­kynn­ing um söl­una skal hafa borist fjöl­miðla­­nefnd innan tveggja virkra daga frá gerð kaup­­samn­ings“.

Róbert Wessman og viðskiptafélagar hans sitja uppi með Svarta Pétur.

Í lög­­unum segir einnig að Fjöl­miðla­­nefnd skuli leggja ­stjórn­­­valds­­sekt á bæði selj­anda og kaup­anda komi í ljós að þeir hafi van­­rækt að til­­kynna um eig­enda­­skipti á hlut í fjöl­miðli.

Frjáls fjöl­miðlun hefur ekki verið skráð hjá Fjöl­miðla­nefnd. Til að vera í sam­ræmi við lög ætti slík skrán­ing að eiga sér stað í dag eða á morg­un.

Birni Inga gríð­ar­lega létt

Starfs­menn Pressu­sam­stæð­unnar vita lítið sem ekk­ert um hvernig starf­semin verður héðan í frá, né hverjir komi til með að stýra henni. Í tölvu­pósti sem Björn Ingi sendi þeim fyrr í dag sagði hann að með við­skipt­unum væri tryggt að DV og Pressan myndu greiða „allar sínar helstu skuld­ir, t.d. við Toll­stjóra og líf­eyr­is­sjóði. Jafn­framt tryggja við­skiptin á sjötta tug starfa og treysta mik­il­væga fjöl­miðla áfram í sessi.“ Ekki er skil­greint sér­stak­lega hvað sé átt við með helstu skuld­ir.

Í tölvu­pósti hans kemur einnig fram að á næstu dögum verði greint frá helstu breyt­ingum sem hið nýja sam­komu­lag hafi í för með sér. „Á per­sónu­legum nótum vil ég segja að, að baki er gríð­ar­leg vinna og and­vökunæt­ur. Að ljúka þessu með far­sælum hætti er gríð­ar­legur léttir og umfang þess­ara við­skipta sýnir hve mik­il­vægir fjöl­miðl­arnir eru og hve mögu­leikar þeirra eru miklir til fram­tíð­ar,“ segir hann enn fremur í póst­in­um.

Við­bót 8.9.2017

Í upp­runa­legu skýr­ing­unni stóð að Dal­ur­inn hefði greitt inn 155 millj­ónir króna. Það var ekki nákvæmt og hefur verið leið­rétt. Þar stóð líka að Dal­ur­inn hafi upp­runa­lega átt 89 pró­sent en sá hlutur síðar minnkað í 68 pró­sent. Í ljós hefur komið að um ranga til­kynn­ingu til Fjöl­miðla­nefndar var að ræða og því hefur þetta verið leið­rétt. Þá kom fram að Sig­urður G. Guð­jóns­son hefði fundað með for­svars­mönnum Dals­ins, og var það sam­kvæmt heim­ilda­mönnum Kjarn­ans. Slíkt hefur verið borið til baka og frétta­skýr­ing­unni breytt í sam­ræmi við það. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar