„Þetta er feðraveldið gegn börnum“
50 stjórnarmenn Bjartrar framtíðar studdu stjórnarslit á hitafundi í gær, þar á meðal allir þingmenn flokksins. Þeir telja að forsætis- og dómsmálaráðherra hafi gengið erinda föður Bjarna Benediktssonar og reynt að breiða yfir aðkomu hans að uppreist æru dæmds barnaníðings.
Allir fjórir þingmenn Bjartrar framtíðar, þar með taldir báðir ráðherrar flokksins, studdu stjórnarslit. Alls voru greidd 57 atkvæði á stjórnarfundi flokksins í gær um hvort að slíta ætti stjórnarsamstarfinu og 50 þeirra voru á þann veg að það ætti að gera. Ástæðan var leynimakk og trúnaðarbrestur tveggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Andersen, sem flokksmenn Bjartar framtíðar telja að hafi verið að hylma yfir með föður Bjarna. Ganga erinda hans við að reyna að breiða yfir aðkomu hans að uppreist æru dæmds barnaníðings. Einn fundarmanna segir að málið sé svona vaxið: „þetta er feðraveldið gegn börnum.“
Atburðarás gærdagsins var hröð. Síðdegis í gær greindi Vísir.is fyrst frá því að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hefði verið að meðal meðmælenda með uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Benedikt sendi skömmu síðar frá sér yfirlýsingu þar sem hann viðurkenndi að svo hefði verið og baðst afsökunar á athæfinu. Þetta gerðist á fimmta tímanum.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra mætti svo í beina útsendingu í fréttatímum bæði Stöðvar 2 og RÚV. Þar greindi hún frá því að hún hefði fengið upplýsingar um að faðir Bjarna væri á meðal meðmælenda Hjalta í júlí og að hún hafi greint forsætisráðherra frá því samdægurs.
Hindranir og hávær orðrómur
En spólum fyrst aðeins til baka. Á þeim tíma, í júlí, var mál Róberts Downey, annars dæmds kynferðisbrotamanns, til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndin hafði kallað eftir upplýsingum um málið og meðal annars hverjir meðmælendur fyrir uppreist æru Róberts væru. Hvorki nefndin né fjölmiðlar höfðu hins vegar fengið slíkar upplýsingar, en ef meðmælabréf Róberts væru birt lá fyrir að meðmælabréf annarra sem höfðu sótt um uppreist æru yrði líka að gera opinber. Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar, staðfesti við RÚV 8. ágúst að hann væri komin með gögn um þá sem veitt hafði verið uppreist æru. Um var að ræða fleiri gögn en bara þau sem snéru að máli Róberts Downey. Hann var harður á því að ekki ætti að upplýsa um hverjir væru meðmælendur. Hann sagði til við fréttastofu RÚV 8. ágúst: „meðmælendabréfin fá þeir ekki,“ og átti þar við nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndarmennirnir fengu þó að sjá bréfin. En fjölmiðlar fengu ekki að sjá þau, né önnur gögn málsins.
Í byrjun síðustu komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu að fjölmiðlar ættu að fá að sjá gögn í máli Róberts Downey, og þá lá strax fyrir að sú niðurstaða yrði fordæmisgefandi fyrir önnur mál sem snéru að uppreist æru. Gögnin voru birt á þriðjudag og samhliða var sagt frá því að önnur gögn er vörðuðu uppreist æru aftur til ársins 1995 yrðu líka birt á næstunni.
Á þessum tíma hafði verið hávær orðrómur um að faðir forsætisráðherra væri á meðal þeirra sem hefðu skrifað meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, mann sem var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að níðast kynferðislega á stjúpdóttur sinni árum saman. Brotin hófust þegar hún var fimm ára og stóðu yfir, samkvæmt dómi, þar til hún flutti að heima um 18 ára aldur. Í þeim fólst meðal annars nær daglegt samræði.
Fjölmiðlar höfðu spurst fyrir um málið en ekki fengið svör og því hékk málið í loftinu í næstum tíu daga. Mikið var um það rætt en staðfestingu vantaði. Hún fékkst svo í gær.
Tugir mæta á stjórnarfund með skömmum fyrirvara
Eftir að Sigríður Andersen opinberaði að hún hefði sagt Bjarna frá málinu í júlí í fréttatímum gærdagsins mætti Brynjar Níelsson svo í Kastljós. Í máli hans kom meðal annars fram að hann hefði varið Hjalta á sínum tíma.
Ljóst var strax að þetta mál, sama hvað þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins reyndu að mála það upp sem óbilgjarnan pólitískan rétttrúnað og móðursýki, hafði gríðarleg áhrif á hina tvo flokkanna í stjórnarsamstarfinu, Bjarta framtíð og Viðreisn.
Innan Bjartrar framtíðar hefur reyndar ekki verið einhugur um stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk frá upphafi. Rúmur fjórðungur stjórnar flokksins kaus til að mynda gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Alls tóku 69 manns þátt í þeirri atkvæðagreiðslu.
Strax eftir fréttir gærdagsins var boðaður stjórnarfundur hjá flokknum, en 80 manns sitja í stjórninni. Fundurinn var boðaður klukkan 21 og hófst skömmu síðar. Um 40 manns mættu á fundinn en auk þess voru um tugur stjórnarmanna á honum í gegnum samskiptaforritið Skype. Þar var farið yfir málið og ljóst að hljóðið í fundarmönnum var mjög þungt. „Þetta er feðraveldið gegn börnum,“ sagði einn viðmælandi Kjarnans sem sat fundinn. „Meginmálið er að þarna eru tveir ráðherrar að ganga erinda föður annars, gegn lögum og landi, og láta okkur ekkert vita af því.“
Í aðdraganda fundarins höfðu átt sér stað samskipti milli lykilmanna í Bjartri framtíð og fólks í innsta hring Bjarna Benediktssonar þar sem krafist var viðbragða af hálfu forsætisráðherra strax. Þau viðbrögð voru hins vegar ekki í boði og þegar þetta er skrifað hefur hann enn ekki tjáð sig um málið.
Fjölmörg mál sem stuðuðu
Það er ekkert launungarmál að efinn í baklandi Bjartrar framtíðar gagnvart ríkisstjórnarsamstarfinu hefur verið að aukast. Alla tíð hefur það setið mjög í hluta stjórnarmanna að Bjarni hafi verið í lykilhlutverki í Panamaskjölunum og hafi valið annan efnahagslegan veruleika en landar hans með því að stunda viðskipti í gegnum aflandsfélög. Það var ekki til að mýkja þann hluta þegar kom í ljós að hann hefði setið á tveimur skýrslum, annarri um umfang aflandseigna og hinni um skiptingu Leiðréttingarinnar, frá því fyrir kosningar. Þær voru ekki birtar fyrr en snemma á þessu ári, þegar fyrir lá að það væri að nást saman um ríkisstjórnarsamstarf.
Landsréttarmálið stuðaði fólk í baklandinu líka sem og framganga Sigríðar Andersen í málefnum hælisleitenda, sérstaklega barna í hópi þeirra, á síðustu vikum. Svo lá auðvitað fyrir að sitjandi ríkisstjórn var sú óvinsælasta í lýðveldissögunni þegar tekið var tillit til þess skamma tíma sem hún hafði setið. Einungis 27 prósent landsmanna styðja hana.
Óttarri sagt frá málinu í framhjáhlaupi
Á fundinum í gær var meðal annars rætt um önnur sambærileg mál sem hefðu komið upp, þar sem reynt hefði verið að leyna upplýsingum. Þar var helst rifjað upp lekamálið svokallaða og það ferli sem fylgdi í kjölfar þess. Fundarmenn ræddi líka um þá ákvörðun nefndarmanna Sjálfstæðisflokks í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að ganga út af fundi hennar þegar gögn í máli Róberts Downey voru birt og margir þeirra sáu nú þann gjörning í nýju ljósi. Samkvæmt heimildum Kjarnans greindi Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, frá því að Bjarni hefði sagt honum í framhjáhlaupi á mánudag að pabbi hans væri einhvers staðar í gögnunum um menn sem hefðu fengið uppreist æru. Það hefði verið eini vísirinn að samtali sem Bjarni hefði átt við formanninn um málið.
„Þetta var bara síðasta kornið. Við erum með forsætisráðherra sem hvorki notar íslenska peninga né íslensk lög,“ segir einn viðmælenda Kjarnans.
Eftir langar og tilfinningaþrungnar umræður var ákveðið að kjósa um hvort að Björt framtíð ætti að slíta stjórnarsamstarfinu eða ekki.
Alls greiddu 57 af þeim 80 sem eru í stjórn flokksins atkvæði. 50 þeirra studdu stjórnarslit, eða 87 prósent greiddra atkvæða og tæp 63 prósent allra stjórnarmanna. Allir fjórir þingmenn Bjartrar framtíðar, og báðir ráðherrar flokksins, studdu stjórnarslit. Niðurstaðan lá því kýrskýr fyrir: samstarfinu yrði slitið og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar yrði skammlífasta samsteypustjórn lýðveldissögunnar.