þumall upp

Ríkasta eitt prósentið þénaði 55 milljarða í fjármagnstekjur

Tæpur helmingur allra fjármagnstekna sem urðu til á Íslandi í fyrra runnu til tæplega tvö þúsund framteljenda. Sá litli hópur er ríkasta eitt prósent landsmanna. Fjár­magnstekjur eru tekjur sem ein­stak­lingar hafa af fjár­magns­eign­um sín­um.

Alls þénuðu Íslendingar 117 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2016. Það er umtalsvert meira en árið áður, þegar heildarfjármagnstekjur Íslendinga voru 95,3 milljarðar króna.

Tekjurnar dreifðust ekki jafnt á milli hópa. Þvert á móti. Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna tók til sín 55 milljarða króna af þeim tekjum sem urðu til vegna fjármagns í fyrra, eða 47 prósent þeirra. Það er bæði hærri krónutala og hærra hlutfall en þessi hópur, sem samanstendur af 1.966 framteljendum (1.331 einhleypum og 635 samsköttuðum), hafði í fjármagnstekjur á árinu 2015.

Þessi staða þýðir að hin 99 prósent íslenskra skattgreiðenda skipti á milli sín 53 prósent fjármagnstekna sem urðu til á árinu 2016.

Þetta kemur fram í staðtölum skatta vegna ársins 2016, sem birtar voru á vef Ríkisskattstjóra fyrir skemmstu.

Fjár­magnstekjur eru tekjur sem ein­stak­lingar hafa af fjár­magns­eign­um sín­um. Þ.e. ekki laun­um. Þær tekjur geta verið ýmiss kon­ar. Til dæmis tekjur af vöxtum af inn­láns­reikn­ingum eða skulda­bréfa­eign, tekjur af útleigu hús­næð­is, arð­greiðsl­ur, hækkun á virði hluta­bréfa eða hagn­aður af sölu fast­eigna eða verð­bréfa.

Ef tekj­urnar eru útleystar, þannig að þær standi eig­anda þeirra frjálsar til ráð­stöf­un­ar, ber að greiða af þeim 20 pró­sent fjár­magnstekju­skatt sem rennur óskiptur til rík­is­ins.

Líkt og við var að búast greiddu þeir sem höfðu hæstu fjármagnstekjurnar, meginþorra fjármagnstekjuskatts. Alls greiddi ríkasta eitt prósent landsmanna 10,8 milljarða króna í slíkan skatt í fyrra, en heildargreiðslur einstaklinga í fjármagnstekjuskatt voru 20,3 milljarðar króna á því ári.

Í nýliðnum kosningum var tekist umtalsvert á um væntar skattahækkanir, meðal annars á fjármagnstekjuskatti. Píratar lögðu til að mynda fram skuggafjárlög þar sem lagt var til að hann yrði hækkaður í 30 prósent. Af ofangreindum tölum má ætla að slík hækkun myndi skila um tíu milljörðum króna í auknar skatttekjur ríkisins miðað við óbreyttar fjármagnstekjur. Þar af myndi ríkasta eitt prósent landsmanna greiða helminginn.

Miklar sviptingar á einum áratug

Fjár­magnstekjur lands­manna hrundu eftir banka­hrun­ið. Á ár­unum 2007, þegar þær náðu hámarki, námu þær 244,9 millj­örðum króna. Þar af runnu 147,3 millj­arðar króna til tekju­hæsta pró­sents lands­manna, eða rúm 60 ­pró­sent. Ljóst er að þorri þeirrar upp­hæðar var vegna gríð­ar­legrar hækk­unar á virði hluta­bréfa á íslenska mark­aðn­um, en sú bóla náði hámarki sum­arið 2007. Í kjöl­farið seytl­aði loftið hins vegar hratt út úr henni og við fall íslensku ­bank­anna haustið 2008 hvarf um 93 pró­sent af mark­aðsvirði hluta­bréfa.

Á árunum 2010 til 2012 voru fjár­magnstekjur mun lægri, eða á bil­inu 59,2 til 66,4 millj­arðar króna. Á þeim árum runnu um 35 pró­sent fjár­magnstekna til rík­asta eins pró­sents lands­manna. Árið 2013 juk­ust þær ­tölu­vert og voru 78,5 millj­arðar króna. Þar af runnu 31,6 millj­arðar króna til­ efsta eins pró­sents rík­ustu lands­manna.

Árið 2014 tóku fjár­magnstekjur svo aftur kipp og fóru í 90,5 millj­arða króna. Hlut­deild rík­asta pró­sents lands­manna í þess­ari eignaaukningu hækk­aði einnig umtals­vert, fór úr 40 pró­sentum í um 47 pró­sent.

Heildarfjármagnstekjurnar jukust enn á árinu 2015, og voru 95,3 milljarðar króna. Tæplega 44 prósent þeirra tekna fóru til efsta prósentsins.

Og sá vöxtur hélt áfram í fyrra, þegar tekjurnar voru 117 milljarðar króna. Þá fóru, líkt og áður sagði 47 prósent þeirra, eða 55 milljarðar króna, til ríkasta prósents landsmanna.

Þeir lands­menn sem telj­ast til þess eins pró­sents sem er með­ hæstu tekj­urnar fá langstærstan hluta af tekjum sínum vegna arð­semi eigna ­sinna.

Misskipting auðs eykst áfram á Íslandi

Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu 12. október síðastliðinn að þær rúmlega 20 þúsund fjölskyldur sem tilheyra þeim tíu prósentum þjóðarinnar sem eiga mest eigið fé – eignir þegar skuldir hafa verið dregnar frá – hafi átt 2.062 milljarða króna í hreinni eign um síðustu áramót. Alls á þessi hópur 62 prósent af öllu eigin fé í landinu. Eigið fé hans jókst um 185 milljarða króna á síðasta ári. Eigið fé hinna 90 prósent landsmanna jókst á sama tíma um 209 milljarða króna. Það þýðir að tæplega helmingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á síðasta ári fór til tíu prósent efnamestu framteljendanna.Þegar eigið fé 20 prósent efnamestu fjölskyldna þjóðarinnar er skoðað kemur í ljós að sá hópur á 85 prósent af öllu eigið fé í landinu. Sá helmingur þjóðarinnar sem á minnst er samanlagt með neikvætt eigið fé upp á 175,3 milljarða króna. Þetta kom fram í tölum um eiginfjárstöðu Íslendinga í lok árs 2016 sem birtar voru í byrjun október.

Ekki er boðið upp á frekari skiptingu í tölum Hagstofunnar um eiginfjárstöðu en á milli tíunda. Því eru ekki, sem stendur, aðgengilegar um hversu mikið eigið fé ríkasta eitt prósent landsmanna átti um síðustu áramót.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar