þumall upp

Ríkasta eitt prósentið þénaði 55 milljarða í fjármagnstekjur

Tæpur helmingur allra fjármagnstekna sem urðu til á Íslandi í fyrra runnu til tæplega tvö þúsund framteljenda. Sá litli hópur er ríkasta eitt prósent landsmanna. Fjár­magnstekjur eru tekjur sem ein­stak­lingar hafa af fjár­magns­eign­um sín­um.

Alls þén­uðu Íslend­ingar 117 millj­arða króna í fjár­magnstekjur á árinu 2016. Það er umtals­vert meira en árið áður, þegar heild­ar­fjár­magnstekjur Íslend­inga voru 95,3 millj­arðar króna.

Tekj­urnar dreifð­ust ekki jafnt á milli hópa. Þvert á móti. Tekju­hæsta eitt pró­sent lands­manna tók til sín 55 millj­arða króna af þeim tekjum sem urðu til vegna fjár­magns í fyrra, eða 47 pró­sent þeirra. Það er bæði hærri krónu­tala og hærra hlut­fall en þessi hóp­ur, sem sam­anstendur af 1.966 fram­telj­endum (1.331 ein­hleypum og 635 sam­skött­uðum), hafði í fjár­magnstekjur á árinu 2015.

Þessi staða þýðir að hin 99 pró­sent íslenskra skatt­greið­enda skipti á milli sín 53 pró­sent fjár­magnstekna sem urðu til á árinu 2016.

Þetta kemur fram í stað­tölum skatta vegna árs­ins 2016, sem birtar voru á vef Rík­is­skatt­stjóra fyrir skemmstu.

Fjár­­­magnstekjur eru tekjur sem ein­stak­l­ingar hafa af fjár­­­magns­­eign­um sín­­um. Þ.e. ekki laun­­um. Þær tekjur geta verið ýmiss kon­­ar. Til dæmis tekjur af vöxtum af inn­­láns­­reikn­ingum eða skulda­bréfa­­eign, tekjur af útleigu hús­næð­is, arð­greiðsl­­ur, hækkun á virði hluta­bréfa eða hagn­aður af sölu fast­­eigna eða verð­bréfa.

Ef tekj­­urnar eru útleystar, þannig að þær standi eig­anda þeirra frjálsar til ráð­­stöf­un­­ar, ber að greiða af þeim 20 pró­­sent fjár­­­magnstekju­skatt sem rennur óskiptur til rík­­is­ins.

Líkt og við var að búast greiddu þeir sem höfðu hæstu fjár­magnstekj­urn­ar, meg­in­þorra fjár­magnstekju­skatts. Alls greiddi rík­asta eitt pró­sent lands­manna 10,8 millj­arða króna í slíkan skatt í fyrra, en heild­ar­greiðslur ein­stak­linga í fjár­magnstekju­skatt voru 20,3 millj­arðar króna á því ári.

Í nýliðnum kosn­ingum var tek­ist umtals­vert á um væntar skatta­hækk­an­ir, meðal ann­ars á fjár­magnstekju­skatti. Píratar lögðu til að mynda fram skugga­fjár­lög þar sem lagt var til að hann yrði hækk­aður í 30 pró­sent. Af ofan­greindum tölum má ætla að slík hækkun myndi skila um tíu millj­örðum króna í auknar skatt­tekjur rík­is­ins miðað við óbreyttar fjár­magnstekj­ur. Þar af myndi rík­asta eitt pró­sent lands­manna greiða helm­ing­inn.

Miklar svipt­ingar á einum ára­tug

Fjár­­­magnstekjur lands­­manna hrundu eftir banka­hrun­ið. Á ár­unum 2007, þegar þær náðu hámarki, námu þær 244,9 millj­­örðum króna. Þar af runnu 147,3 millj­­arðar króna til tekju­hæsta pró­­sents lands­­manna, eða rúm 60 ­pró­­sent. Ljóst er að þorri þeirrar upp­­hæðar var vegna gríð­­ar­­legrar hækk­­unar á virði hluta­bréfa á íslenska mark­aðn­­um, en sú bóla náði hámarki sum­­­arið 2007. Í kjöl­farið seytl­aði loftið hins vegar hratt út úr henni og við fall íslensku ­bank­anna haustið 2008 hvarf um 93 pró­­sent af mark­aðsvirði hluta­bréfa.

Á árunum 2010 til 2012 voru fjár­­­magnstekjur mun lægri, eða á bil­inu 59,2 til 66,4 millj­­arðar króna. Á þeim árum runnu um 35 pró­­sent fjár­­­magnstekna til rík­­asta eins pró­­sents lands­­manna. Árið 2013 juk­ust þær ­tölu­vert og voru 78,5 millj­­arðar króna. Þar af runnu 31,6 millj­­arðar króna til­ efsta eins pró­­sents rík­­­ustu lands­­manna.

Árið 2014 tóku fjár­­­magnstekjur svo aftur kipp og fóru í 90,5 millj­­arða króna. Hlut­­deild rík­­asta pró­­sents lands­­manna í þess­­ari eigna­aukn­ingu hækk­­aði einnig umtals­vert, fór úr 40 pró­­sentum í um 47 pró­­sent.

Heild­ar­fjár­magnstekj­urnar juk­ust enn á árinu 2015, og voru 95,3 millj­arðar króna. Tæp­lega 44 pró­sent þeirra tekna fóru til efsta pró­sents­ins.

Og sá vöxtur hélt áfram í fyrra, þegar tekj­urnar voru 117 millj­arðar króna. Þá fóru, líkt og áður sagði 47 pró­sent þeirra, eða 55 millj­arðar króna, til rík­asta pró­sents lands­manna.

Þeir lands­­menn sem telj­­ast til þess eins pró­­sents sem er með­ hæstu tekj­­urnar fá langstærstan hluta af tekjum sínum vegna arð­­semi eigna ­sinna.

Mis­skipt­ing auðs eykst áfram á Íslandi

Kjarn­inn greindi frá því í frétta­skýr­ingu 12. októ­ber síð­ast­lið­inn að þær rúm­lega 20 þús­und fjöl­skyldur sem til­heyra þeim tíu pró­sentum þjóð­ar­innar sem eiga mest eigið fé – eignir þegar skuldir hafa verið dregnar frá – hafi átt 2.062 millj­arða króna í hreinni eign um síð­ustu ára­mót. Alls á þessi hópur 62 pró­sent af öllu eigin fé í land­inu. Eigið fé hans jókst um 185 millj­arða króna á síð­asta ári. Eigið fé hinna 90 pró­sent lands­manna jókst á sama tíma um 209 millj­arða króna. Það þýðir að tæp­lega helm­ingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á síð­asta ári fór til tíu pró­sent efna­mestu fram­telj­end­anna.Þegar eigið fé 20 pró­sent efna­mestu fjöl­skyldna þjóð­ar­innar er skoðað kemur í ljós að sá hópur á 85 pró­sent af öllu eigið fé í land­inu. Sá helm­ingur þjóð­ar­innar sem á minnst er sam­an­lagt með nei­kvætt eigið fé upp á 175,3 millj­arða króna. Þetta kom fram í tölum um eig­in­fjár­stöðu Íslend­inga í lok árs 2016 sem birtar voru í byrjun októ­ber.

Ekki er boðið upp á frek­ari skipt­ingu í tölum Hag­stof­unnar um eig­in­fjár­stöðu en á milli tíunda. Því eru ekki, sem stend­ur, aðgengi­legar um hversu mikið eigið fé rík­asta eitt pró­sent lands­manna átti um síð­ustu ára­mót.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar