Tekjur af fasteignagjöldum aukast þrátt fyrir að álagning lækki
Reykjavíkurborg hefur ákveðið að lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði á næsta ári um tíu prósent. Samt munu tekjur borgarinnar af innheimtu fasteignagjalda halda áfram aukast um milljarða á ári næstu árin.
Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að hafa 20,2 milljarða króna í tekjur af fasteignagjöldum á næsta ári. Tekjur borgarinnar af slíkum eru áætlaðar 18 milljarðar króna í ár. Þessi hækkun mun eiga sér stað þrátt fyrir að fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði verði lækkuð um tíu prósent – úr 0,2 prósent í 0,18 prósent – og að afslættir aldraðra og öryrkja af slíkum gjöldum verði auknir. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2018 til 2022 sem lögð var fram í borgarstjórn í gær.
Þessar breytingar munu skila umtalsverðum sér í auknum ráðstöfunartekjum borgarbúa. Á fimm ára tímabili fjárhagsáætlunarinnar nemur lækkunin á fasteignagjöldum samtals um 2,6 milljörðum króna á breytilegu verðlagi.
Það er lagt upp með að hækka viðmið tekna elli- og örorkuþega til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds um 25 prósent. Í frumvarpi til fjárhagsáætlunar segir að þessi hækkun feli í sér að afsláttur borgarinnar til þess hóps hækki úr 326 milljónum króna í 489 milljónir króna, eða sem nemur 163 milljónum króna. Þegar lækkun á fasteignasköttum er líka talin með muni heildarávinningur elli- og örorkulífeyrisþega á næsta ári vera um 230 milljónir króna.
Þrátt fyrir lækkun á því hlutfalli sem greitt er í fasteignagjalda fyrir íbúðarhúsnæði er samt sem áður reiknað með mikilli áframhaldandi tekjuaukningu borgarinnar vegna innheimtu slíkra. Í greinargerð með fjárhagsáætlun segir að gert sé ráð fyrir að þau aukist um 8,9 prósent á næsta ári og um 7,2 til 7,8 prósent næstu þrjú árin eftir það. Í þeim útreikningum er búið að taka tillit til áhrifa af breyttri matsaðferð á hótelum og gististöðum sem kemur inn í fasteignamat 2019, og mun hækka fasteignamat þeirra umtalsvert. Þá stendur yfir gríðarlega uppbygging á íbúðar- og atvinnuhúsnæði í Reykjavík um þessar mundir sem mun skila umtalsverðri tekjuaukningu.
Húsnæðisverð rokið upp á örfáum árum
Sveitarfélög landsins eru með tvo megintekjustofna. Annars vegar rukka þau útsvar, sem er beinn skattur á tekjur sem rennur til þess sveitarfélags sem viðkomandi býr í. Hins vegar rukka þau fasteignagjöld.
Slík gjöld eru aðallega tvenns konar. Annars vegar er fasteignaskattur (0,2 prósent af fasteignamati á íbúðarhúsnæði og 1,65 prósent af fasteignamati á atvinnuhúsnæði) og hins vegar lóðarleiga (0,2 prósent af lóðamati á íbúðarhúsnæði og eitt prósent af lóðamati á atvinnuhúsnæði). Auk þess þurfa íbúar að greiða sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva sem hluta af fasteignagjöldum sínum. Nú ætlar Reykjavíkurborg sem sagt að lækka fasteignaskattinn á íbúðarhúsnæði niður í 0,18 prósent.
Innheimt fasteignagjöld í Reykjavík hafa aukist um 50 prósent frá árinu 2010. Vegna þess árs innheimti Reykjavíkurborg tæplega 12,1 milljarð króna í fasteignagjöld. Áætlað er að borgin innheimti 18 milljarða króna í fasteignagjöld vegna ársins 2017. Líkt og áður segir er reiknað með að hann skili 20,3 milljörðum króna á næsta ári þrátt fyrir að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði lækki.
Þessi mikla tekjuaukning er drifin áfram af því að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum og raunverð fasteigna hefur aldrei verið hærra en það er nú um stundir. Frá því í desember 2010 hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu, á öllu húsnæði, hækkað um 94 prósent. Hækkunin hefur verið drifin áfram af skorti á framboði, sem hefur verið miklu minna en eftirspurn. Samhliða hafa efnahagsaðstæður batnað og kaupmáttur aukist og geta íbúa til að kaupa sér húsnæði þar af leiðandi meiri.
Á sama tíma hefur einnig verið byggt mikið magn af atvinnuhúsnæði og sérstaklega hótelbyggingum. Eftirspurn eftir slíkum er síst minni en eftir íbúðarhúsnæði í ljósi þess að fjöldi ferðamanna sem heimsækir Ísland heim hefur rúmlega fjórfaldast frá árinu 2010.
Fasteignamat hækkaði um 17,2 prósent milli ára
Þar sem stóru breyturnar í greiddum fasteignagjöldum, fasteignaskattur og lóðaleiga, byggja á fasteignamati þá aukast tekjur sveitarfélaga í beinu samræmi við hækkun á fasteignamati milli ára. Og fasteignamat hefur hækkað gríðarlega hratt samhliða þeim miklu hækkunum sem orðið hafa á fasteignamarkaði hérlendis. Þegar Þjóðskrá Íslands, sem sér reiknar út fasteignamatið sem lagt er til grundvallar álagningu opinberra gjalda ár hvert, birti nýtt mat fyrir árið 2018 í júní síðastliðnum kom til að mynda fram að heildarmat allra fasteigna á landinu hefði hækkað um 13,8 prósent milli ára.
Í Reykjavík var meðalhækkun fasteignamatsins 17,2 prósent. Hún var mest í póstnúmeri 111, eða Efra Breiðholti, þar sem matið hækkaði um 20,8 prósent að miðgildi.
Matið hækkaði líka mikið þegar það var reiknað út fyrir árið 2017, eða 7,8 prósent. Milli 2015 og 2016 hækkaði það um 5,8 prósent. Og svo framvegis.
Samandregið þá þýðir þessi hækkun á fasteignamati einungis eitt fyrir eigendur fasteigna: þeir borga fleiri krónur í skatta.
Fasteignaskattar lykilbreyta í afkomu
Rekstur Reykjavíkurborgar hefur notið góðs af þessum miklu hækkunum. A-hluti borgarinnar, sem er sú starfsemi hennar sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum, hefur verið í járnum á undanförnum árum. Árin 2014 og 2015 var hún til að mynda neikvæð upp á 16,4 milljarða króna. Það þýðir að borginni vantaði þá upphæð til að geta staðið undir rekstrarkostnaði A-hlutans. Vert er að taka fram að stærsta ástæða þess að hallinn var jafn hár og raun ber vitni var sú að breytingar á lífeyrisskuldbindingum á árinu 2015 gerði það að verkum að bókfærð voru gjöld sem voru rúmlega tíu milljörðum krónum hærri en þau voru árið eftir. Þrátt fyrir að lífeyrisskuldbindingarnar væru teknar út fyrir sviga þá var borgin samt sem áður að tapa milljörðum króna á ári.
Þetta breyttist í fyrra þegar afkoma hennar var jákvæð um 2,6 milljarða króna. Í ár er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur borgarinnar verði um 500 milljónir króna og fjárhagsáætlun reiknar með að hann verði 3,4 milljarðar króna á næsta ári. Rekstrarniðurstaðan á síðan að batna verulega á árunum 2019 til 2022 og vera þá lægst 5,6 milljarðar króna árið 2019 og mest 10,8 milljarðar króna.
Stór breyta í þeirri afkomu er áætluð tekjuaukning vegna fasteignagjalda. Þau voru í heild 15,6 milljarðar króna árið 2016 en áætlað er að þau skili 18 milljörðum króna í borgarsjóð í ár. Það er tekjuaukning á þeim lið upp á 2,4 milljarða króna á milli ára. Minna má á að Reykjavíkurborg ætlar að reka A-hlutann sinn með 500 milljóna króna afgangi á yfirstandandi ári. Auknar tekjur vegna fasteignagjalda á árinu eru tæplega fimm sinnum sú upphæð.
Þegar skoðað er tímabilið frá 2011 og út næsta ár munu tekjur vegna fasteignagjalda hafa aukist um 8,1 milljarð króna. Tekjuaukningin hefur verið langmest á allra síðustu árum.
Kosið verður til borgarstjórnar í Reykjavík þann 26. maí næstkomandi.