Mynd: Birgir Þór

Tekjur af fasteignagjöldum aukast þrátt fyrir að álagning lækki

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði á næsta ári um tíu prósent. Samt munu tekjur borgarinnar af innheimtu fasteignagjalda halda áfram aukast um milljarða á ári næstu árin.

Reykja­vík­ur­borg gerir ráð fyrir að hafa 20,2 millj­arða króna í tekjur af fast­eigna­gjöldum á næsta ári. Tekjur borg­ar­innar af slíkum eru áætl­aðar 18 millj­arðar króna í ár. Þessi hækkun mun eiga sér stað þrátt fyrir að fast­eigna­gjöld á íbúð­ar­hús­næði verði lækkuð um tíu pró­sent – úr 0,2 pró­sent í 0,18 pró­sent – og að afslættir aldr­aðra og öryrkja af slíkum gjöldum verði aukn­ir. Þetta kemur fram í fjár­hags­á­ætlun Reykja­vík­ur­borgar fyrir árin 2018 til 2022 sem lögð var fram í borg­ar­stjórn í gær.

Þessar breyt­ingar munu skila umtals­verðum sér í auknum ráð­stöf­un­ar­tekjum borg­ar­búa. Á fimm ára tíma­bili fjár­hags­á­ætl­un­ar­innar nemur lækk­unin á fast­eigna­gjöldum sam­tals um 2,6 millj­örðum króna á breyti­legu verð­lagi.

Það er lagt upp með að hækka við­mið tekna elli- og örorku­þega til lækk­unar fast­eigna­skatts og frá­veitu­gjalds um 25 pró­sent. Í frum­varpi til fjár­hags­á­ætl­unar segir að þessi hækkun feli í sér að afsláttur borg­ar­innar til þess hóps hækki úr 326 millj­ónum króna í 489 millj­ónir króna, eða sem nemur 163 millj­ónum króna. Þegar lækkun á fast­eigna­sköttum er líka talin með muni heild­ar­á­vinn­ingur elli- og örorku­líf­eyr­is­þega á næsta ári vera um 230 millj­ónir króna.

Þrátt fyrir lækkun á því hlut­falli sem greitt er í fast­eigna­gjalda fyrir íbúð­ar­hús­næði er samt sem áður reiknað með mik­illi áfram­hald­andi tekju­aukn­ingu borg­ar­innar vegna inn­heimtu slíkra. Í grein­ar­gerð með fjár­hags­á­ætlun segir að gert sé ráð fyrir að þau auk­ist um 8,9 pró­sent á næsta ári og um 7,2 til 7,8 pró­sent næstu þrjú árin eftir það. Í þeim útreikn­ingum er búið að taka til­lit til áhrifa  af breyttri mats­að­ferð á hót­elum og gisti­stöðum sem kemur inn í fast­eigna­mat 2019, og mun hækka fast­eigna­mat þeirra umtals­vert. Þá stendur yfir gríð­ar­lega upp­bygg­ing á íbúð­ar- og atvinnu­hús­næði í Reykja­vík um þessar mundir sem mun skila umtals­verðri tekju­aukn­ingu.

Hús­næð­is­verð rokið upp á örfáum árum

Sveit­­ar­­fé­lög lands­ins eru með tvo meg­in­­tekju­­stofna. Ann­­ars vegar rukka þau útsvar, sem er beinn skattur á tekjur sem rennur til þess sveit­­ar­­fé­lags sem við­kom­andi býr í. Hins vegar rukka þau fast­­eigna­­gjöld.

Slík gjöld eru aðal­­­lega tvenns kon­­ar. Ann­­ars vegar er fast­­eigna­skattur (0,2 pró­­sent af fast­­eigna­mati á íbúð­­ar­hús­næði og 1,65 pró­­sent af fast­­eigna­mati á atvinn­u­hús­næði) og hins vegar lóð­­ar­­leiga (0,2 pró­sent af lóða­mati á íbúð­­ar­hús­næði og eitt pró­­sent af lóða­mati á atvinn­u­hús­næð­i). Auk þess þurfa íbúar að greiða sorp­­hirð­u­­gjald og gjald vegna end­­ur­vinnslu­­stöðva sem hluta af fast­­eigna­­gjöldum sín­­um. Nú ætlar Reykja­vík­ur­borg sem sagt að lækka fast­eigna­skatt­inn á íbúð­ar­hús­næði niður í 0,18 pró­sent.

Inn­­heimt fast­­eigna­­gjöld í Reykja­vík hafa auk­ist um 50 pró­­sent frá árinu 2010. Vegna þess árs inn­­heimti Reykja­vík­­­ur­­borg tæp­­lega 12,1 millj­­arð króna í fast­­eigna­­gjöld. Áætlað er að borgin inn­­heimti 18 millj­­arða króna í fast­­eigna­­gjöld vegna árs­ins 2017. Líkt og áður segir er reiknað með að hann skili 20,3 millj­örðum króna á næsta ári þrátt fyrir að fast­eigna­skattar á íbúð­ar­hús­næði lækki.

Þessi mikla tekju­aukn­ing er drifin áfram af því að fast­eigna­verð á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu hefur hækkað gríð­­ar­­lega á und­an­­förnum árum og raun­verð fast­­eigna hefur aldrei verið hærra en það er nú um stund­­ir. Frá því í des­em­ber 2010 hefur hús­næð­is­verð á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu, á öllu hús­næði, hækkað um 94 pró­­sent. Hækk­­unin hefur verið drifin áfram af skorti á fram­­boði, sem hefur verið miklu minna en eft­ir­­spurn. Sam­hliða hafa efna­hags­að­­stæður batnað og kaup­máttur auk­ist og geta íbúa til að kaupa sér hús­næði þar af leið­andi meiri.

Á sama tíma hefur einnig verið byggt mikið magn af atvinn­u­hús­næði og sér­­stak­­lega hót­­el­­bygg­ing­­um. Eft­ir­­spurn eftir slíkum er síst minni en eftir íbúð­­ar­hús­næði í ljósi þess að fjöldi ferða­­manna sem heim­­sækir Ísland heim hefur rúm­­lega fjór­fald­­ast frá árinu 2010.

Fast­­eigna­­mat hækk­­aði um 17,2 pró­­sent milli ára

Þar sem stóru breyt­­urnar í greiddum fast­­eigna­­gjöld­um, fast­­eigna­skattur og lóða­­leiga, byggja á fast­­eigna­mati þá aukast tekjur sveit­­ar­­fé­laga í beinu sam­ræmi við hækkun á fast­­eigna­mati milli ára. Og fast­­eigna­­mat hefur hækkað gríð­­ar­­lega hratt sam­hliða þeim miklu hækk­­unum sem orðið hafa á fast­­eigna­­mark­aði hér­­­lend­­is. Þegar Þjóð­­skrá Íslands, sem sér reiknar út fast­­eigna­matið sem lagt er til grund­vallar álagn­ingu opin­berra gjalda ár hvert, birti nýtt mat fyrir árið 2018 í júní síð­­ast­liðnum kom til að mynda fram að heild­­ar­­mat allra fast­­eigna á land­inu hefði hækkað um 13,8 pró­­sent milli ára.

Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri í Reykjavík.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í Reykja­vík var með­­al­hækkun fast­­eigna­­mats­ins 17,2 pró­­sent. Hún var mest í póst­­­núm­eri 111, eða Efra Breið­holti, þar sem matið hækk­­aði um 20,8 pró­­sent að mið­­gildi.Matið hækk­­aði líka mikið þegar það var reiknað út fyrir árið 2017, eða 7,8 pró­­sent. Milli 2015 og 2016 hækk­­aði það um 5,8 pró­­sent. Og svo fram­­veg­­is.

Sam­an­­dregið þá þýðir þessi hækkun á fast­­eigna­mati ein­ungis eitt fyrir eig­endur fast­­eigna: þeir borga fleiri krónur í skatta.

Fast­eigna­skattar lyk­il­breyta í afkomu

Rekstur Reykja­vík­­­ur­­borgar hefur notið góðs af þessum miklu hækk­­un­­um. A-hluti borg­­ar­inn­­ar, sem er sú starf­­semi hennar sem er að hluta eða öllu leyti fjár­­­mögnuð með skatt­­tekj­um, hefur verið í járnum á und­an­­förnum árum. Árin 2014 og 2015 var hún til að mynda nei­­kvæð upp á 16,4 millj­­arða króna. Það þýðir að borg­inni vant­aði þá upp­­hæð til að geta staðið undir rekstr­­ar­­kostn­aði A-hlut­ans. Vert er að taka fram að stærsta ástæða þess að hall­inn var jafn hár og raun ber vitni var sú að breyt­ingar á líf­eyr­is­skuld­bind­ingum á árinu 2015 gerði það að verkum að bók­­færð voru gjöld sem voru rúm­­lega tíu millj­­örðum krónum hærri en þau voru árið eft­­ir. Þrátt fyrir að líf­eyr­is­skuld­bind­ing­­arnar væru teknar út fyrir sviga þá var borgin samt sem áður að tapa millj­­örðum króna á ári.

Þetta breytt­ist í fyrra þegar afkoma hennar var jákvæð um 2,6 millj­­arða króna. Í ár er gert ráð fyrir að rekstr­ar­af­gangur borg­ar­innar verði um 500 millj­ónir króna og fjár­hags­á­ætlun reiknar með að hann verði 3,4 millj­arðar króna á næsta ári. Rekstr­ar­nið­ur­staðan á síðan að batna veru­lega á árunum 2019 til 2022 og vera þá lægst 5,6 millj­arðar króna árið 2019 og mest 10,8 millj­arðar króna.

Stór breyta í þeirri afkomu er áætluð tekju­aukn­ing vegna fast­­eigna­gjalda. Þau voru í heild 15,6 millj­­arðar króna árið 2016 en áætlað er að þau skili 18 millj­­örðum króna í borg­­ar­­sjóð í ár. Það er tekju­aukn­ing á þeim lið upp á 2,4 millj­­arða króna á milli ára. Minna má á að Reykja­vík­ur­borg ætlar að reka A-hlut­ann sinn með 500 millj­óna króna afgangi á yfir­stand­andi ári. Auknar tekjur vegna fast­eigna­gjalda á árinu eru tæp­lega fimm sinnum sú upp­hæð.Þegar skoðað er tíma­bilið frá 2011 og út næsta ár munu tekjur vegna fast­eigna­gjalda hafa auk­ist um 8,1 millj­arð króna. Tekju­aukn­ingin hefur verið lang­­mest á allra síð­­­ustu árum.Kosið verður til borg­­ar­­stjórnar í Reykja­vík þann 26. maí næst­kom­andi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar