Anton Brink

Húsnæðisstuðningur við þá sem þurfa síst á honum að halda

Ríkari helmingur þjóðarinnar á 99 prósent af því eigin fé sem bundið er í fasteignum. Stórt hlutfall vaxtabóta fara til efnameiri helmingsins. Íbúðalánasjóður hvetur til þess að húsnæðisstuðningi verði breytt þannig að hann lendi frekar hjá þeim sem þurfi á honum að halda.

Sá helm­ingur þjóð­anna sem er efna­meiri á nán­ast allt eigið fé lands­manna í fast­eign­um. Alls var eigið fé þjóð­ar­innar í hús­næði 2.574 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. Þar af áttu 50 pró­sent efna­meiri hluti þjóð­ar­innar 2.548 millj­arða króna af því eigin fé, eða 99 pró­sent. Það þýðir að fátæk­ari hluti þjóð­ar­innar á ein­ungis eitt pró­sent af því eigin fé sem orðið hefur til í hús­næð­is­eign­um. Þetta kemur fram í tölu Hag­stofu Íslands. 

Þessi helm­ingur fær einnig 90 pró­sent allra vaxta­bóta sem greiddar eru út árlega. Það þýðir að nán­ast allur stuðn­ingur sem íslenska ríkið veitir hús­næð­is­eig­endum fer til þeirra sem eiga mestu eign­irn­ar, ekki þeirra sem þurfa mest á stuðn­ingi að halda.

Eigið fé flesta bundið í hús­næði

Alls á efna­meiri helm­ingur þjóð­ar­innar 3.519 millj­arða króna í eigið fé alls. Fátæk­ari helm­ingur þjóð­ar­innar er sam­an­lagt með nei­kvætt eigið fé.

Þorri eig­in­fjár flestra Íslend­inga er bund­inn í hús­næði. Alls áttu þeir 3.343,3 millj­arða króna í eigið fé um síð­ustu ára­mót, og þar af var 77 pró­sent eigið fé í fast­eign. Það er í raun ein­ungis efna­mestu tíu pró­sent lands­manna sem á umtals­verðar eignir umfram fast­eign­ir. Sá hóp­ur, sem telur rúm­lega 20 þús­und fjöl­skyld­ur, átti 2.062 millj­arða króna í lok árs 2016, eða 62 pró­sent af öllu eigin fé í land­inu. Eigin fé hans jókst um 185 millj­arða króna á síð­asta ári á meðan að eigið fé allra hinna jókst um 209 millj­arða króna. að þýðir að tæp­lega helm­ingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á síð­asta ári fór til tíu pró­sent efna­mestu fram­telj­end­anna.

Virði eigna þessa hóps er reyndar van­met­inn. Þessi hópur á nefni­lega nær öll verð­bréf lands­ins, eða 86 pró­sent slíkra. Í tölum Hag­stof­unnar er þær fjár­mála­legu eignir sem telj­ast til hluta­bréf í inn­lendum og erlendum hluta­fé­lögum á nafn­virði, eign­ar­skatts­frjáls verð­bréf, stofn­sjóðs­eign og önnur verð­bréf og kröf­ur. Og í töl­unum eru þau metin á nafn­verði, ekki mark­aðsvirði, sem er mun hærra. 

Hluti þessa hóps fær greiddar vaxta­bætur frá íslenska rík­inu.

30 þús­und færri fjöl­skyldur fá vaxta­bætur

Á síð­ustu árum hefur mikil hækkun hús­næð­is­verðs skilað því að eigið fé í fast­eignum hefur vaxið ört. Frá því í des­em­ber 2010 hefur hús­næð­is­verð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu til að mynda hækkað um 94 pró­sent. Hækk­­unin hefur verið drifin áfram af skorti á fram­­boði, sem hefur verið miklu minna en eft­ir­­spurn. Sam­hliða hafa efna­hags­að­­stæður batnað og kaup­máttur auk­ist og geta íbúa til að kaupa sér hús­næði þar af leið­andi meiri.

Aukið eigið fé í fast­eignum nýt­ist flestum fyrst og fremst til þess að borga inn á aðra eign, ætli þeir sér áfram að hafa þak yfir höf­uð­ið. Það skilur ekki mikið eftir milli hand­anna. Und­an­tekn­ing­arnar eru fyrst og fremst þeir hús­næð­is­eig­endur sem flytj­ast erlendis og kaupa aftur á mark­aði sem hefur ekki hækkað jafn mikið og sá íslenski, þeir sem kaupa sér hús­næði á þeim land­svæðum inn­an­lands sem hafa ekki hækkað jafn mikið eða þeir sem erfa hús­næði og selja.

Almennar vaxta­bætur vegna vaxta­gjalda af lánum til kaupa á íbúð­ar­hús­næði, sem ein­stak­lingar greiddu af á árinu 2016, námu 4,3 millj­örðum króna. Þær lækk­uðu um 16,8 pró­sent á milli ára. Alls fengu 26.107 þiggj­endur vaxta­bætur á síð­asta ári, eða 12,1 pró­sent færri en árið áður. Vaxta­bætur hafa sam­tals lækkað um 7,7 millj­arða króna síðan árið 2010 og þeim fjöl­skyldum sem fá þær hefur fækkað um rúm­lega 30 þús­und á saman tíma.

Á sama tíma og sífellt færri fá vaxta­bætur vegna íbúð­ar­hús­næðis þá hafa fast­eigna­gjöld, sem sveit­ar­fé­lög leggja á, hækkað um 50 pró­sent vegna gríð­ar­legra hækk­ana á hús­næð­is­verði. Sam­an­dregið hafa því bóta­greiðslur til hús­næð­is­eig­enda hríð­lækkað og skattar á hús­næð­is­eig­endur hækkað umtals­vert vegna bættra efna­hags­að­stæðna og gríð­ar­legrar hækk­unar á hús­næð­is­verði.

Borgar sig ekki að greiða niður hús­næð­is­skuldir

Í nýrri úttekt Íbúða­lána­sjóðs, sem kynnt var í gær, kom fram að efna­meiri helm­ingur ein­stak­linga á Íslandi fær nán­ast allar vaxta­bætur sem ríkið greiðir út árlega til slíkra. Árið 2015 fór til að mynda 90 pró­sent slíkra til þeirra sem til­heyra efna­meiri helm­ings þjóð­ar­inn­ar, eða um 4,1 millj­arð króna. Átta pró­sent vaxta­bóta fóru til ein­stæð­inga sem til­heyra rík­ustu tíund­inni.

Í úttekt­inni kom einnig fram að 70 pró­sent vaxta­bóta fari til fólks sem sé eldri en 36 ára. Því eru vaxta­bætur ekki að hjálpa fyrstu kaup­endum að koma þaki yfir höf­uðið og nýt­ast síst efna­minnstu ein­stak­ling­unum á hús­næð­is­mark­aði.

Í úttekt Íbúða­lána­sjóðs segir að´út­tektin sýni að ýmsir nei­kvæðir hvatar séu inn­byggðir í vaxta­bóta­kerf­ið. Þá þurfi að bæta. „Til dæmis getur það í  sumum til­fellum haft nei­kvæð nettó­á­hrif að greiða inn á hús­næð­is­lán. Þó að lækkun höf­uð­stóls leiði vissu­lega til lægri vaxta­greiðslna þá dugir það ekki alltaf upp á móti skerð­ingum sem fólk verður um leið fyrir á fjár­hæð vaxta­bóta.“

Þá sé vaxta­bóta­kerfið sett þannig upp að hvati til eigna­mynd­unar sé nei­kvæð­ur. Vegna eigna­skerð­ingar geti það valdið nettó tekju­tapi að greiða inn á íbúða­lán þrátt fyrir að vaxta­greiðslur sparist.

Í úttekt Íbúða­lána­sjóðs segir að á hinum Norð­ur­lönd­unum tíðk­ist líka beinar greiðslur til fólks á fast­eigna­mark­aði en að þar sé stuðn­ing­ur­inn sér­tæk­ari. „Borið saman við Ísland er hlut­fall heim­ila sem fá beinan hús­næð­is­stuðn­ing frá rík­inu mun lægra í Nor­egi og í Sví­þjóð og nokkru lægri í Dan­mörku.“

Íbúða­lána­sjóður beinir því til stjórn­valda að huga að breyt­ingum á fyr­ir­komu­lagi vaxta­bóta. „Breyta mætti fyr­ir­komu­lagi stuðn­ings­ins með því að beina honum að hluta eða í heild í form start­lána. Slík lán gætu gagn­ast betur við að ná því mark­miði vaxta­bóta að hjálpa lands­mönnum að afla sér íbúð­ar­hús­næð­is.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar