Anton Brink

Húsnæðisstuðningur við þá sem þurfa síst á honum að halda

Ríkari helmingur þjóðarinnar á 99 prósent af því eigin fé sem bundið er í fasteignum. Stórt hlutfall vaxtabóta fara til efnameiri helmingsins. Íbúðalánasjóður hvetur til þess að húsnæðisstuðningi verði breytt þannig að hann lendi frekar hjá þeim sem þurfi á honum að halda.

Sá helmingur þjóðanna sem er efnameiri á nánast allt eigið fé landsmanna í fasteignum. Alls var eigið fé þjóðarinnar í húsnæði 2.574 milljarðar króna um síðustu áramót. Þar af áttu 50 prósent efnameiri hluti þjóðarinnar 2.548 milljarða króna af því eigin fé, eða 99 prósent. Það þýðir að fátækari hluti þjóðarinnar á einungis eitt prósent af því eigin fé sem orðið hefur til í húsnæðiseignum. Þetta kemur fram í tölu Hagstofu Íslands. 

Þessi helmingur fær einnig 90 prósent allra vaxtabóta sem greiddar eru út árlega. Það þýðir að nánast allur stuðningur sem íslenska ríkið veitir húsnæðiseigendum fer til þeirra sem eiga mestu eignirnar, ekki þeirra sem þurfa mest á stuðningi að halda.

Eigið fé flesta bundið í húsnæði

Alls á efnameiri helmingur þjóðarinnar 3.519 milljarða króna í eigið fé alls. Fátækari helmingur þjóðarinnar er samanlagt með neikvætt eigið fé.

Þorri eiginfjár flestra Íslendinga er bundinn í húsnæði. Alls áttu þeir 3.343,3 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót, og þar af var 77 prósent eigið fé í fasteign. Það er í raun einungis efnamestu tíu prósent landsmanna sem á umtalsverðar eignir umfram fasteignir. Sá hópur, sem telur rúmlega 20 þúsund fjölskyldur, átti 2.062 milljarða króna í lok árs 2016, eða 62 prósent af öllu eigin fé í landinu. Eigin fé hans jókst um 185 milljarða króna á síðasta ári á meðan að eigið fé allra hinna jókst um 209 milljarða króna. að þýðir að tæplega helmingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á síðasta ári fór til tíu prósent efnamestu framteljendanna.

Virði eigna þessa hóps er reyndar vanmetinn. Þessi hópur á nefnilega nær öll verðbréf landsins, eða 86 prósent slíkra. Í tölum Hagstofunnar er þær fjármálalegu eignir sem teljast til hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum á nafnvirði, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur. Og í tölunum eru þau metin á nafnverði, ekki markaðsvirði, sem er mun hærra. 

Hluti þessa hóps fær greiddar vaxtabætur frá íslenska ríkinu.

30 þúsund færri fjölskyldur fá vaxtabætur

Á síðustu árum hefur mikil hækkun húsnæðisverðs skilað því að eigið fé í fasteignum hefur vaxið ört. Frá því í desember 2010 hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu til að mynda hækkað um 94 prósent. Hækk­unin hefur verið drifin áfram af skorti á fram­boði, sem hefur verið miklu minna en eft­ir­spurn. Sam­hliða hafa efna­hags­að­stæður batnað og kaup­máttur auk­ist og geta íbúa til að kaupa sér hús­næði þar af leið­andi meiri.

Aukið eigið fé í fasteignum nýtist flestum fyrst og fremst til þess að borga inn á aðra eign, ætli þeir sér áfram að hafa þak yfir höfuðið. Það skilur ekki mikið eftir milli handanna. Undantekningarnar eru fyrst og fremst þeir húsnæðiseigendur sem flytjast erlendis og kaupa aftur á markaði sem hefur ekki hækkað jafn mikið og sá íslenski, þeir sem kaupa sér húsnæði á þeim landsvæðum innanlands sem hafa ekki hækkað jafn mikið eða þeir sem erfa húsnæði og selja.

Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2016, námu 4,3 milljörðum króna. Þær lækkuðu um 16,8 prósent á milli ára. Alls fengu 26.107 þiggjendur vaxtabætur á síðasta ári, eða 12,1 prósent færri en árið áður. Vaxtabætur hafa samtals lækkað um 7,7 milljarða króna síðan árið 2010 og þeim fjölskyldum sem fá þær hefur fækkað um rúmlega 30 þúsund á saman tíma.

Á sama tíma og sífellt færri fá vaxtabætur vegna íbúðarhúsnæðis þá hafa fasteignagjöld, sem sveitarfélög leggja á, hækkað um 50 prósent vegna gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði. Samandregið hafa því bótagreiðslur til húsnæðiseigenda hríðlækkað og skattar á húsnæðiseigendur hækkað umtalsvert vegna bættra efnahagsaðstæðna og gríðarlegrar hækkunar á húsnæðisverði.

Borgar sig ekki að greiða niður húsnæðisskuldir

Í nýrri úttekt Íbúðalánasjóðs, sem kynnt var í gær, kom fram að efnameiri helmingur einstaklinga á Íslandi fær nánast allar vaxtabætur sem ríkið greiðir út árlega til slíkra. Árið 2015 fór til að mynda 90 prósent slíkra til þeirra sem tilheyra efnameiri helmings þjóðarinnar, eða um 4,1 milljarð króna. Átta prósent vaxtabóta fóru til einstæðinga sem tilheyra ríkustu tíundinni.

Í úttektinni kom einnig fram að 70 prósent vaxtabóta fari til fólks sem sé eldri en 36 ára. Því eru vaxtabætur ekki að hjálpa fyrstu kaupendum að koma þaki yfir höfuðið og nýtast síst efnaminnstu einstaklingunum á húsnæðismarkaði.

Í úttekt Íbúðalánasjóðs segir að´úttektin sýni að ýmsir neikvæðir hvatar séu innbyggðir í vaxtabótakerfið. Þá þurfi að bæta. „Til dæmis getur það í  sumum tilfellum haft neikvæð nettóáhrif að greiða inn á húsnæðislán. Þó að lækkun höfuðstóls leiði vissulega til lægri vaxtagreiðslna þá dugir það ekki alltaf upp á móti skerðingum sem fólk verður um leið fyrir á fjárhæð vaxtabóta.“

Þá sé vaxtabótakerfið sett þannig upp að hvati til eignamyndunar sé neikvæður. Vegna eignaskerðingar geti það valdið nettó tekjutapi að greiða inn á íbúðalán þrátt fyrir að vaxtagreiðslur sparist.

Í úttekt Íbúðalánasjóðs segir að á hinum Norðurlöndunum tíðkist líka beinar greiðslur til fólks á fasteignamarkaði en að þar sé stuðningurinn sértækari. „Borið saman við Ísland er hlutfall heimila sem fá beinan húsnæðisstuðning frá ríkinu mun lægra í Noregi og í Svíþjóð og nokkru lægri í Danmörku.“

Íbúðalánasjóður beinir því til stjórnvalda að huga að breytingum á fyrirkomulagi vaxtabóta. „Breyta mætti fyrirkomulagi stuðningsins með því að beina honum að hluta eða í heild í form startlána. Slík lán gætu gagnast betur við að ná því markmiði vaxtabóta að hjálpa landsmönnum að afla sér íbúðarhúsnæðis.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar