Mynd: Pexels.com

50 prósent aukning á notkun gagnamagns milli ára

Fjórða iðnbyltingin stendur yfir og Íslendingar eru að umfaðma hana. Notkun þeirra á gagnamagni vex um tugi prósenta á milli ára. Internetið er alls staðar.

Íslendingar notuðu 10,9 milljónir gígabæta í farsímaneti á fyrri helmingi ársins 2017. Það er meira gagnamagn en þeir notuðu allt árið 2015 og rúmlega 50 prósent aukning frá því magni sem notað var fyrstu sex mánuði ársins í fyrra. Frá miðju ári 2010 hefur notkun Íslendinga á gagnamagni 46faldast, en þá var notkunin 237 þúsund gígabæti. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar sem sýnir stöðuna á fjarskiptamarkaði um mitt ár 2016.

Við erum stödd í fjórðu iðnbyltingunni. Tækniframfarir eru að breyta heiminum sem við búum í nánast dag frá degi. Hluti þeirrar byltingar á sér stað vegna internetsins sem er nú allstaðar. Í stað þess að nálgast afþreyingu á borð við tónlist, tölvuleiki, sjónvarpsþætti og kvikmyndir í gegnum keypta geisladiska, línulega sjónvarpsdagskrá eða með því að leigja spólur á myndbandsleigum þá nálgast nútímanotandinn alla þessa afþreyingu í gegnum internetið. Sífellt fleiri hlutir í kringum okkur eru farnir að tengjast því. Og nú er staðan þannig að nær allir Íslendingar ganga um með litla tölvu, snjallsímann, í vasanum sem tengir þá við internetið hvar sem er.

Þessi breyting hefur átt sér stað á tíu árum. Fyrsti iPhone Apple, vinsælasti snjallsími í heimi, kom út 29. júní 2007. Það ár seldust 1,4 milljónir slíkir símar. Árið 2010 seldust 40 milljónir. Síðustu þrjú árin hafa selst vel yfir 200 milljón iPhone símar á ári. Samsung selur enn fleiri síma. Sá framleiðandi seldi yfir 300 milljónir tækja á árinu 2016.

Íslendingar hafa umfaðmað þessar breytingar. Nær allir landsmenn eru nettengdir og flestir eiga snjallsíma. Dæmi um þær breytingar sem orðið hafa á neysluhegðun Íslendinga vegna þessa er sú að átta af hverjum tíu Íslendingum versla nú á netinu.

Þrátt fyrir að gagnamagnsnotkun okkar hafi margfaldast ár frá ári er við því búist að hún muni áfram vaxa um tugi prósenta á ári um fyrirsjáanlega framtíð.

Gagnaflutningstímabilið tekið við

Far­síma­­tíma­bil fjar­­skipta­­geirans er því liðið undir lok og gagna­­flutn­inga­­tíma­bilið tekið við. Tíðn­i­heim­ildir fyrir 3G, ­fyrsta há­hraða­kyn­slóð far­síma­­nets­­kerf­ið, voru boðnar út á Íslandi í lok árs 2006. Kerfið er í raun mun frekar net­­kerfi en far­síma­­kerfi og gerð­i ­gagna­­flutn­ing ­mög­u­­leg­­an.

4G-væð­ingin á Ísland­i hófst af alvöru á árinu 2014 þeg­ar ­fjöldi 4G-korta í símum fimm­fald­að­ist. Um mitt það ár voru 17,8 prósent allra virkra símakorta 4G-kort. Í lok júní 2016 var helmingur þeirra 4G-kort. Um mitt ár 2017 var 62,6 prósent allra virkra símkorta 4G.

Og í október síðastliðnum var næsta skref stigið. Þá setti Nova í loftið fyrstu 4,5G sendana hérlendis. Fyrirtækið varð þar með á meðal fyrstu farsímafyrirtækja í Evrópu til að hefja slíka þjónustu en áætlað er að net­hraði í far­símum við­skipta­vina Nova muni um það bil þre­fald­ast við þetta.

Línan milli fjarskipta og fjölmiðlunar horfin

Þessi umbylting hefur leitt til þess að viðskiptamódel fjarskiptafyrirtækja hefur gjörbreyst á örfáum árum. Síminn innlimaði Skjáinn inn í sína starfsemi og hóf mikla sókn á sjónvarps- og efnisveitu markaði. Vodafone keypti nýverið 365 miðla í viðskiptum sem metin eru á um tíu milljarða króna. Innifalið í þeim viðskiptum voru meðal annars allar sjónvarpsstöðvar 365. Línan milli fjarskipta og fjölmiðlunar er því ekki bara orðin óskýr heldur að mörgu leyti horfin.

Nova hefur verið með yfirburðastöðu þegar kemur að notkun gagnamagns á farsímaneti á undanförnum árum. Þótt hlutdeild fyrirtækisins fari lækkandi er það enn með 63,8 prósent hennar, sem þýðir að tæplega ⅔ hlutar allrar notkunar á farsímaneti fer fram hjá Nova. Hlutdeild Símans er 21,8 prósent og Vodafone/365 voru samtals með 12,8 prósent hlutdeild á fyrri hluta þessa árs. Aðrir voru með minna.

Notkun á gangamagni í farsímaneti segir þó ekki alla sög­una um gagnamagnsnotkun Íslendinga í gegnum farsíma eða önnur tæki sem geta tengst slíku neti. Uppi­staðan af gagnamagnsnotkun Íslend­inga á sér­ ­stað á fasta­net­inu. Þ.e. Íslend­ingar reyna frekar að vera með snjall­tækin sín tengd fasta­neti heima hjá sér, á vinnu­stöðum og víðar frekar en að not­ast við 3G, 4G og nú 4,5G kerfin til að ná sér í gögn. Á fasta­net­inu er Sím­inn með mjög sterka stöð­u.

Tveir með nánast allan internettengingamarkaðinn

Alls eru 47,1 pró­sent allra inter­netteng­inga á Íslandi hjá Sím­an­um. Vodafone er ­með 26,6 pró­sent og eru þessir tveir aðilar með tölu­verða yfir­burði á mark­aðn­um. Þannig hefur staðan hald­ist und­an­farin ár þótt að markaðhlutdeild beggja hafi minnkað milli ára. Þegar markaðshlutdeild 365 er bætt við Vodafone þá er sameinað fyrirtæki með 38 prósent af markaðnum.

Hringdu hefur hins vegar bætt vel við sig á undanförnum árum. Á síð­ustu tveimur árum hefur ­mark­aðs­hlut­deild fyrirtækisins farið úr 4,9 pró­sent í 7,4 pró­sent. Viðskiptavinum Hringdu hefur fjölgað um 5.386 frá miðju ári 2014.

Nova seldi lengi vel ekki inter­net­þjón­ustu með öðrum hætti en í gegnum far­síma­kerfi. Á því varð breyt­ing í fyrra þegar að fyr­ir­tæk­ið til­kynnti að það ætl­aði að hefja ljós­leið­ara­þjón­ust­u. Nova er í flokknum „Annað“ í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnun ásamt öðrum minni þátttakendum þegar kemur að internettenginum en hlutdeild þess flokks fer úr 4,9 prósent í 7,5 prósent.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar