Mynd: Pexels.com

Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar 2,1 milljarðar

Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar jókst um 800 milljónir milli ára eftir að endurgreiðsluþakið var hækkað. Ný ríkisstjórn stefnir að því að afnema þakið. Athugun á kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna er eitt þeirra atriða sem nú þegar sætir sérstöku eftirliti hjá ríkisskattstjóra.

Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarverkefna voru 2,1 milljarðar króna á árinu 2016. Það er aukning um 800 milljónir króna á milli ára. Þetta kemur fram í svari ríkisskattstjóra við fyrirspurn Kjarnans um málið.

Ástæðan fyrir þessari miklu aukning er sú að hámarksupphæð sem nýta mátti í rannsóknir og þróun og draga má frá skatti var hækkuð úr 100 milljónum króna í 300 milljónir króna með lagabreytingu sem samþykkt var í byrjun júní 2016. Ef um er að ræða samstarfsverkefni eða sem útheimta aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu hækkar hámarkið í 450 milljónir króna. Endurgreiðslan getur þó að hámarki numið 20 prósent af samþykktum kostnaði.

Heildarútgjöld til rannsókna og þróunar jukust hins vegar ekki svo mikið milli áranna 2015 og 2016. Þau fóru úr 48,5 milljörðum króna í 50,9 milljarða króna, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands og sem hlutfall af landsframleiðslu drógust þau saman, fóru úr 2,17 í 2,08 prósent. Þrátt fyrir að hámarkið hafi verið hækkað, og endurgreiðslur aukist, voru útgjöld vegna rannsóknar og þróunar lægra hlutfall af landsframleiðslu í fyrra en þau voru árið áður.

Ríkisstjórnin vill afnema þakið

Endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði er ætlað að efla nýsköpun í landinu. Samkvæmt lögum er eingöngu heimilt að telja fram beinan kostnað við verkefni og annarra aðfanga sem notuð hafa verið við vinnslu þess þegar sótt er um endurgreiðslu. Með öðrum orðum þá verða fyrirtæki að aðskilja allan annan rekstur sinn frá því verkefni sem um ræðir þegar lagðar eru fram kostnaðartölur við vinnslu þess.

Til þess að fá endurgreiðslu á kostnaði vegna rannsóknar og þróunarverkefna þarf að gera sérstaklega grein fyrir verkefninu í rafrænni skráningu umsóknar á heimasíðu Rannís. Með þarf að fylgja stutt viðskiptaáætlun og ef um samstarfsverkefni er að ræða þá þarf samstarfssamningur líka að berast til Rannís. Þá á að fylgja með lýsing á verkefninu ásamt verk- og kostnaðaráætlun.

Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að leggja mikla áherslu á nýsköpun og rannsóknir. Málaflokkurinn er sérstaklega tilgreindur í stjórnarsáttmála hennar sem ein af megináherslum hennar og orðið nýsköpun kemur fyrir 18 sinnum í honum. Þá er kveðið á um að ríkisstjórnin ætli, til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni landsins, að endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum. Það þak er nú 300 til 450 milljónir króna á ári.

40 mál komið til meðferðar

Kjarninn kallaði eftir upplýsingum frá ríkisskattstjóra um hvernig eftirliti með endurgreiðslunum sé háttað og hversu mörg fyrirtæki hafi þurft að sæta því. Þ.e. eftirlit með því hvort þau fyrirtæki sem leggi inn umsóknir um endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarverkefna séu ekki að telja annan rekstrarkostnað sinn fram sem hluta af kostnaði við gerð verkefnisins.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stefnir að því að afnema þak á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í svari embættisins segir að það hafi átt fundi með starfsmönnum Rannís til að betur sé hægt að glöggva sig á einstökum hugtökum sem máli skipti í þessu sambandi. „Hvað varðar efnislega skoðun á tilgreindum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarvinnu í eftirlitsskyni, eru gerðar skattbreytingar ef ástæða er til slíks. Haldið er utan um allar skattbreytingar og tilefni þeirra, þ.m.t. hvort það sé vegna almenns skattaeftirlits eða af öðrum ástæðum. Ekki er á hinn bóginn haldið utan um breytingar á einstökum reitum framtalsins. Því er ekki unnt að svara nákvæmlega til um fjölda aðila sem sem hafa sætt sérstakri skoðun á þessum lið framtalsins. Vegna fyrirspurnarinnar var gerð athugun í málakerfi embættisins og leiddi hún í ljós að um 40 mál sem varða þennan málaflokk hafa komið til meðferðar eftir álagningu.“

Verið að fylgjast með

Ríkisskattstjóri segir einnig að það sé „sífellt og stöðugt verkefni“ hjá embættinu að ákveða hvernig skuli verja þeim tíma og starfskröftum sem það hefur yfir að ráða og hvaða atriði í skattskilum sæti forgangi í eftirliti.

Sérstök athugun á kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sé eitt þeirra atriða sem nú þegar sætir sérstöku eftirliti m.a. vegna þess um hve háar fjárhæðir geta verið um að ræða í einstökum tilfellum og ekki sé loku fyrir það skotið að í þessu samhengi geti skattaðili tvífært ákveðinn kostnað til frádráttar. „Slík offærsla getur stafað af mistökum en í því samhengi er oft svo að mörg ásetningsverk við skattaundanskot bera á yfirborðinu svip mistaka. Fjölgun aðila sem þarna á í hlut auk fjárhæða var einnig ástæða þess að ákveðið var að beina eftirliti að þessum þætti skattframkvæmdarinnar.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar