Metútgjöld, skattalækkanir og niðurgreiðsla skulda
Barna- og vaxtabætur munu ekkert hækka á næsta ári frá því sem áður hafði verið ákveðið. Sama er að segja um fæðingarorlofsgreiðslur. Aukin framlög eru fyrst og fremst til heilbrigðis- og menntamála. Kjarninn rýnir í fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar í morgun. Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi á morgun og í kjölfarið mun fara fram fyrsta umræða um það.
Hvað er nýtt?
Nýja ríkisstjórnin ætlar að eyða 15 milljörðum krónum meira en til stóð að eyða í fjárlagafrumvarpinu sem Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram í september. Að hluta til koma þeir peningar til vegna þess að svigrúm til eyðslu er meira en áður var áætlað, vegna þess að tekjur ríkissjóðs verða sex milljörðum krónum hærri en talið var að þær yrðu í september. Alls eiga innheimtar tekjur að verða 840 milljarðar króna sem er það mesta sem ríkið hefur nokkru sinni haft í tekjur á einu ári. Áætlaðar tekjur 2017 eru 39 milljörðum krónum lægri.
Þetta mun þýða það að afgangur af fjárlögum verður 35 milljarðar króna og verður þeim peningum væntanlega ráðstafað í niðurgreiðslu skulda hins opinbera. Í fjárlagafrumvarpi Benedikts var stefnt að því að afgangurinn yrði 44 milljarðar króna.
Hvaðan kemur þetta viðbótarfé?
Það kemur fyrst og síðast til vegna þess að á Íslandi er fordæmalaus góð staða í efnahagsmálum. Afgangur af viðskiptajöfnuði við útlönd á síðasta ársfjórðungi var til að mynda 68 milljarðar króna sem er næstmesti afgangur sem mælst hefur frá árinu 1995. Metið á þriðji ársfjórðungur 2016. Viðskiptaafgangur, sú tala sem stendur eftir þegar tekjur af vörum og þjónustu hefur verið dregin frá kostnaði þjóðarbúsins af kaupum á vörum og þjónustu, hefur nú verið jákvæður í fjórtán ársfjórðunga í röð, eða frá ársbyrjun 2014.
Til samanburðar má minna á að þjóðarbúið íslenska var tekið með nær samfelldum viðskiptahalla í áratugi fram til ársins 2012. Þannig að það er góðæri, sérstaklega vegna feikilegs vaxtar í ferðaþjónustu á örfáum árum. Og það skilar sér í sífellt hærri tekjum ríkissjóðs.
Það höfðu margir hægrimenn miklar áhyggjur af því að skattar myndu rjúka upp ef Vinstri græn og „Skatta-Kata“ kæmust í ríkisstjórn. Þær áhyggjur virðast vera óþarfar, að minnsta kosti ef byggt er á fjárlagafrumvarpinu. Eina stóra skattabreytingin sem ráðist er í er hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 20 prósentum í 22 prósent en með fylgir fyrirvari um að skattstofn fjármagnstekna verði tekin til endurskoðunar. „með það fyrir augum að raunverulegur ávinningur af fjármagni verði skattlagður og alþjóðlegur samanburður verður um leið auðveldari.“ Sérfræðingar sem Kjarninn hefur rætt við telja líklegt að þessi breyting, sem felur í sér að raunávöxtun verður skattlögð í stað nafnávöxtunar, muni fela í sér umtalsverða lækkun á skattstofni ansi margra. Hækkunin á að skila 1,6 milljörðum króna á árinu 2018.
Eru þá skattalækkanir í pípunum?
Já, miklu frekar. Í frumvarpinu segir: „Ný ríkisstjórn stefnir að því að halda áfram að draga úr álögum, gera skattheimtu sanngjarnari og tryggja skilvirkt skatteftirlit. Ríkisstjórnin hyggst leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi á kjörtímabilinu, en umfang og tímasetningar ráðast af framvindu samninga á vinnumarkaði. Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald.“
Þá verður undanþága umhverfisvænni bifreiða, s.s. rafmagns- og tengiltvinnbifreiða, frá virðisaukaskatti framlengd og kolefnisgjald verður hækkað um 50 prósent í stað 100 prósent eins og gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Fallið er frá fyrri áformum um tekjuöflun samhliða jöfnun olíugjalds við bensíngjald og hægt verður á afnámi ívilnunar vörugjalds af bílaleigubílum. Og þá er auðvitað hætt við að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.
Ýmsar aðrar skattabreytingar koma til skoðunar á fyrsta starfsári nýrrar ríkisstjórnar, samkvæmt frumvarpinu, svo sem virðisaukaskattur á íslenskt ritmál, tónlist og bækur, skattalegt umhverfi fjölmiðla og skattlagning höfundarréttargreiðslna. Ekkert er hins vegar um útfærslur á þeim lækkunum í frumvarpinu né er greint frá hvenær þær eiga að taka gildi.
Í hvað er þá verið að eyða?
Framsetning á frumvarpinu miðar öll við að sýna breytingar á framlögum til málaflokka á milli áranna 2017 og 2018, líkt og venja er. Þess vegna er erfiðara að glöggva sig á hverjar breytingarnar eru á milli þess frumvarps sem Benedikt Jóhannesson lagði fram í september og þess sem Bjarni Benediktsson kynnti í morgun. Útgjaldaaukningin þar á milli er nefnilega ekkert svo mikil í stóra samhenginu. Líkt og áður sagði verða útgjöld aukin um 15 milljarða króna.
Aukið er við framlög til heilbrigðismála og nemur sú hækkun ríflega 21 milljarði króna milli árananna 2017 og 2018. Það stóð þó alltaf til að auka framlög til málaflokksins og þess sáust skýr merki í síðasta fjárlagafrumvarpi líka. Þá stóð til að sú aukning yrði 13,5 milljarðar króna. Þarna er stærsta viðbótin.
Framlög til menntamála hækka líka en þar er um mun lægri tölur að ræða. Framlög til framhaldsskóla eru aukin um 400 milljónir króna og framlög til háskóla um einn milljarð króna. Þá verða settar 450 milljónir króna í máltækniverkefni. Alls aukast framlög til mennta-, menningar- og íþróttamála um 5,5 milljarða króna milli fjárlaga 2017 og 2018. Sú aukning sem er á milli þess fjárlagafrumvarps sem lagt var fram í september og þess sem kynnt var í morgun er umtalsvert lægri.
Samgöngumál og innviðafjárfestingar voru mikið rædd í aðdraganda kosninga. Framlag til samgönguframkvæmda er þó einungis 1,6 milljörðum krónum hærra en fyrra frumvarp sagði til um, þrátt fyrir að um 15 milljarða króna vanti til þess að samgönguáætlun sé fullfjármögnuð.
Barnabætur, vaxtabætur og fæðingarorlofsgreiðslur verða allar jafnháar og til stóð að þær yrðu í frumvarpi Benedikts Jóhannssonar í september.
En skuldastaðan, hver er hún?
Skuldir ríkissjóðs hafa hríðlækkað á undanförnum árum. Þar skipta mestu einskiptistekjur á borð við miklar arðgreiðslur, t.d. úr bönkum, og stöðugleikaframlögin sem kröfuhafar föllnu bankanna greiddu fyrir að fá að fara út úr íslensku höftunum. Þegar skuldirnar náðu hámarkai árið 2012 stóðu þær í um 1.500 milljörðum króna. Skuldastaða í árslok 2017 nemur um 907 milljörðum króna og stefnt er að því að skuldir lækki um 50 milljarða króna á næsta ári.
Vaxtagreiðslur eru þó enn þungar. Ríkið áætlar að greiða alls 58 milljarða króna í vexti á næsta ári og til viðbótar er áætlað að vextir vegna lífeyrisskuldbindinga verði um 14 milljarðar króna.