Pexels

Hjálpin í gegnum netið

Sífellt fleiri nýta sér sálfræðiþjónustu í gegnum netið erlendis og hafa sérfræðingar hér á landi verið að prufa slíka þjónustu. Mikil fyrirhöfn getur falist í því að sækja sér aðstoð fyrir fólk á landsbyggðinni en slík þjónusta gæti létt fólki lífið.

Fjarmeðferðir eru að ryðja sér til rúms á tímum þar sem fólk reiðir sig á tölvur í ríkara mæli. Með þeim er hægt að sækja sér sálfræðiþjónustu í gegnum netið og eru einstaklingar sem þurfa á slíkri þjónustu að halda ekki staðbundnir. Landsbyggðin hefur löngum verðið verr sett samanborið við höfuðborgarsvæðið þegar kemur að aðgengi að þjónustu og þykir sumum fjarmeðferðir leysa ákveðinn hluta vandans. 

Umræðan komin skammt á veg

Sigurbjörg LudviksdóttirSálfræðingurinn Sigurbjörg Ludvigsdóttir hefur sinnt nokkrum skjólstæðingum sínum í gegnum netið í u.þ.b. ár. Hún hefur einnig handleitt aðra sálfræðinga sem hafa verið að veita meðferð með þessum hætti á fjarfundum. Fólkið hjá Tölum saman, sem er fjarþjónusta Kvíðameðferðarstöðvarinnar, fékk styrk frá heilbrigðisráðuneytinu í ársbyrjun til að bjóða upp á fjarmeðferð og halda utan um árangurstölur og fleira. Enn hefur ekki verið farið af stað með verkefnið því beðið er eftir viðbrögðum frá Landlæknisembættinu. Sigurbjörg segir að umræðan sé ekki komin mjög langt á leið hér á landi en að áhuginn sé alltaf að aukast, sérstaklega úti á landi.

Hún segir að reynslan hafi verið mjög góð hingað til. Til að byrja með hafi hún haft áhyggjur af því að ná ekki nægilega góðum tengslum við skjólstæðinga sína í gegnum netið. Svo virðist þó ekki vera og segir Sigurbjörg að hún hafi náð þessum góðu tengslum þrátt fyrir fjarlægðina. Það sýni reynsla hennar en hún bendir einnig á að rannsóknir sýni fram á að bæði skjólstæðingar og meðferðaraðilar hafi góða sögu að segja um fjarmeðferðir.

Hentar fólki með vægari vanda 

Sigurbjörg sinnir fyrst og fremst kvíðameðferð og segir hún að hluti af því sé að taka fólki í æfingar og gera tilraunir og fleira. Þannig sé ekki hægt að gera sömu æfingar í fjarmeðferð og annars væri hægt með sjúklinginn á staðnum. „Þá reynir á að fólkið sé reiðubúið að gera það sem gera þarf til að ná bata,“ segir hún. Það virðist ekki vera vandamál, enn sem komið er.

Hún segir jafnframt að meðferð af þessu tagi henti síður fólki með alvarlegan eða mjög flókinn vanda. Þá sé betra að hafa fólk á staðnum og fagaðila í kring. Fólk með vægari og afmarkaðri vanda sé móttækilegra fyrir fjarmeðferð. Hún bendir þó á að frekari reynsla eigi eftir að koma á slíkar meðferðir en tilfinning hennar sé þessi.

Ákveðin vandkvæði fylgja slíkri meðferð, að mati Sigurbjargar, en það gæti verið snúið að nýta slíka þjónustu við til að mynda afmarkaðri fælni. Þá nefnir hún meðferðir sem fólgnar eru í því að vera með viðkomandi í aðstæðum, til dæmis dýrafælni og innilokunarkennd. Þegar sálfræðingurinn er með skjólstæðingnum í æfingum þá þarf hann að vera á staðnum, að hennar sögn. En meðferðir við almennri kvíðaröskun eða félagsfælni myndu henta einkar vel í fjarmeðferð.

Regluverkið á að gera ráð fyrir fjarmeðferðum

Sigurbjörg segist ekki vera farin á fullt í slíka starfsemi enda sé enn verið að móta reglugerðir hjá Landlæknisembættinu og því sé ekki gert ráð fyrir fjarþjónustu í kerfinu. Þess vegna er þetta enn á tilraunastigi og ákveðin óvissa í kringum ferlið.

Hún telur að regluverkið eigi að gera ráð fyrir fjarmeðferðum fyrir fólk að nýta ef því hentar. „Við búum í landi þar sem lítið aðgengi er að sálfræðiþjónustu fyrir landsbyggðina,“ segir hún og bætir við að margir þurfi að ferðast langar leiðir til að leita sér aðstoðar. Þetta eigi einnig við um fólk sem kemst ekki að heiman af einhverjum ástæðum. Hún telur slíka þjónustu einnig henta fólki sem ferðast mikið eða starfi erlendis. Þá sé gott að geta leitað sér sálfræðiþjónustu á móðurmálinu hvar sem er í heiminum. Sigurbjörg bendir á í þessu samhengi að sálfræðingarnir sérhæfi sig í ákveðnum tegundum af sjúkdómum og að flestir séu þeir í Reykjavík.

Fólk af erlendum uppruna með annan menningarlegan bakgrunn gæti einnig nýtt slíka þjónustu, að mati Sigurbjargar. Það gæti leitað sér aðstoðar í sínu heimalandi í gegnum netið og myndi þetta því opna á fjölda möguleika.

Við búum í landi þar sem lítið aðgengi er að sálfræðiþjónustu fyrir landsbyggðina.

Góðir verkferlar nauðsynlegir Sigurbjörg segir að fjarmeðferðir séu notaðar erlendis í meira mæli en hér á landi, til að mynda í Svíþjóð, Noregi, Ástralíu og Bandaríkjunum. „Það er ekkert sem bendir til þess að þetta ætti að vera eitthvað síðra en þegar fólk þiggur sína sálfræðiþjónustu á stofu,“ segir hún.

Hún segir að lokum að nauðsynlegt sé að vera með góða verkferla í kringum svona verkefni til að tryggja öryggi sjúklings, netöryggi þurfi að vera til staðar o.s.frv.

Kara Connect

Unnið að leiðbeiningum 

Núverandi rammasamningur milli sjálfstætt starfandi geðlækna og Sjúkratrygginga Íslands býður ekki upp á þann möguleika að geðlæknir veiti skjólstæðingum viðtöl í gegnum fjarþjónustu.

Landlæknisembættið hefur aftur á móti reynt að leiðbeina þeim aðilum sem eru á bakvið þau verkefni sem komið hafa fram með fjarheilbrigðisþjónustu. Þetta segir í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans.

„Í ljósi þess fjölda verkefna sem sprottið hafa upp á síðustu mánuðum telur embættið nauðsynlegt að setja skýrari kröfur varðandi slíka þjónustu og undirbýr nú leiðbeiningar fyrir þá aðila sem hyggjast stunda fjarheilbrigðisþjónustu. Embættið hefur safnað slíkum leiðbeiningum frá samstarfsaðilum á hinum Norðurlöndunum og er nú að vinna úr þeim og setja upp frumdrög að íslenskum leiðbeiningum,“ segir í svarinu.

Fólk losnar við umstang

Tilraunir hafa verið gerðar með hugbúnað fyrir fjarmeðferðir en Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnaði fyrirtækið Kara Connect með samstarfsfólki sínu á síðasta ári. Hún segir að Kara sérhæfi sig í að þjónusta sérfræðinga til að ná tengslum við skjólstæðinga sína á einfaldan og öruggan hátt.

Hún segir að viðbrögðin við kerfinu hafi verið mjög góð en hún telur að kostir fjarmeðferða séu margir, til að mynda sparist ferðatími milli staða og kostnaður. Einnig telur hún kost að losna við umstangið við að finna meðferðaraðila og komast að því hver borgar og segir hún að fólk losni við langa biðlista. „Það eru margar litlar breytur sem einfaldast mjög mikið,“ segir hún.

Bylting í aðgengi að hjálp

Þorbjörg Helga VigfúsdóttirÞorbjörg talar um fjarmeðferð sem mikla byltingu í aðgengi að hjálp og segir að það sé aðalmantra þeirra sem vinna að þessum forritum. Hún segir að sérfræðingarnir geti verið hreyfanlegir með Köru, þeir fái öll þau forrit sem þeir þurfi til að nýta í reksturinn auk öruggrar myndfundargáttar og meðferðarnótna. Þeir geti með tækninni bætt reksturinn sinn til muna.

„Stóra hugmyndin er að skjólstæðingarnir geti leitað sjálfir að réttum sérfræðingum. Við ætlum að byggja þetta þannig upp að nógu margir sérfræðingar verði í gagnabanka,“ segir hún. Þá gæti fólk flett þeim upp sem geta aðstoðað við hvers konar vandamál sem upp koma.

Það er ekkert sem bendir til þess að þetta ætti að vera eitthvað síðra en þegar fólk þiggur sína sálfræðiþjónustu á stofu.

Ísland á eftir öðrum löndum

Þau stefna á að færa út kvíarnar erlendis. Þorbjörg segir að Ísland sé eilítið á eftir þegar kemur að þessum málum og að Íslendingar eigi eftir að læra margt. Rannsóknir hafi sýnt að fjarþjálfun virki vel og að kynna þurfi slíka starfsemi ennþá betur innan heilbrigðiskerfisins.

139 sérfræðingar eru nú þegar skráðir í kerfið og hafa lokið 7000 þjálfunarklukkustundum á hálfu ári í gegnum myndfundi. Vegna góðra viðbragða telur Þorbjörg að sérfræðingar hafi verið að bíða eftir einhverju sambærilegu en víða erlendis hafi svipuð módel verið sett upp og notuð í sama tilgangi.

Umræðan brýn

Þorbjörg segir að nauðsynlegt sé að fá umræðu í gang um fjarmeðferðir, það sé komin tími til að nýta tæknina til að ná til fólks og þjónusta það.

Hún segir að allir tali fyrir þessum breytingum hér heima en lög og reglur séu ekki að taka mið að þessari þróun sem sé synd, sérstaklega í svo dreifbýlu landi. Hún segir að erlendis hafi hlutirnir gengið hraðar, til dæmis sé vinsælt orðið að bjóða þjónustu heilsugæslulækna á netinu.

Enn fremur segir hún að samkeppni sé um heilsugæslur á netinu í Svíþjóð og væri upplagt að létta undir með starfseminni hér á landi með því að nýta sömu tækni. „Þá er hægt að ráða til sín verktaka sem er tengdur til tölvu og komið á samskiptum á milli sérfræðings, sálfræðings eða félagsráðgjafa og skjólstæðings,“ segir hún. Hún telur jafnframt að stundum vanti upp á að hugsa út fyrir sveitarmörk og landamæri varðandi þessa hluti.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiInnlent