Hvað gerðist?
Í byrjun janúar 2017 voru gerðar opinberar tvær skýrslur. Sú fyrri var skýrsla starfshóps sem skoðaði umfang aflandseigna Íslendinga og áætlaði hversu miklu eigendur slíkra eigna hefðu stungið undan skatti.
Skýrslan var unnin sem viðbragð við opinberun Panamaskjalanna svokölluðu. Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í maí 2016 að sérstöku teymi, með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga, yrði falið að „gera mat á umfangi fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum samhliða því að áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi.[...]Við höfum skyldur til þess að draga fram og skýra hvert umfang skattsvikanna var. Hvert er umfang vandans? Hversu mikið tapast? Hversu algengt var að þetta félagaform, þessi lönd, þessi svæði, væru nýtt til þess að skjóta sér undan íslenskum lögum? Það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að kanna. Mér finnst það frumskylda okkar að gefnu þessu tilefni núna að taka það út sérstaklega og verður það meginverkefni þessa sérstaka teymis sem ég hyggst fela þetta hlutverk þannig að við getum haft betri grundvöll undir umræðu um umfang vandans.“
Þessi hópur starfaði frá vorinu 2016 undir formennsku Sigurðar Ingólfssonar hagfræðings. Og hann skilaði skýrslu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í september sama ár, rúmum mánuði fyrir kosningarnar sem haldnar voru fyrr en áætlað var vegna aflandsfélagaopinberanna Panamaskjalanna.
Skýrslan var kynnt fyrir Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, í byrjun október sama ár. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en 6. janúar, eftir að Kjarninn hafði ítrekað spurst fyrir um afdrif hennar.
Hin skýrslan sem um ræðir var skýrsla um þjóðhagsleg áhrif Leiðréttingarinnar. Hún var birt 18. janúar 2017, í kjölfar ítrekaðra fyrirspurna Kjarnans um hana. Síðar kom í ljós að drög hennar höfðu verið tilbúin í heilt ár og lokadrög hefðu legið fyrir í júní 2016. Vinnslu við skýrsluna var síðan lokið í október 2016 en hún samt sem áður ekki birt fyrr en í janúar 2017. Í skýrslunni kom meðal annars fram að eignameiri hluti þjóðarinnar hafi fengið 52 af þeim 72 milljörðum króna sem greiddir voru út vegna Leiðréttingarinnar, eða 72 prósent alls þess fjár sem greitt var út vegna hennar. Tekjuhæstu tíu prósent þjóðarinnar fengu 30 prósent af Leiðréttingunni og 86 prósent hennar fór til tekjuhærri helmings landsmanna.
Skýrslan sem um ræðir er átta blaðsíður. Það liðu 19 mánuðir frá því að beðið var um hana á Alþingi af þingmönnum fjögurra flokka og þar til að hún var loks birt. Til að setja þann tíma í samhengi þá tók það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hálft ár að láta vinna 58 blaðsíðna skýrslu þar sem höfuðstólslækkun húsnæðislána var rökstudd og framkvæmd aðgerðarinnar kynnt. Ári síðar, í nóvember 2014, var framkvæmdin að mestu frá og og umfangsmikil 84 blaðsíðna glærukynning í Hörpu var sett á svið þar sem farið var yfir valdar niðurstöður úr aðgerðinni.
Hvaða afleiðingar hafði það?
Hin seinu skil á tveimur skýrslum, sem fjölluðu annars vegar um Panamaskjölin og hins vegar um Leiðréttinguna, tvö stærstu mál þess kjörtímabils sem hófst árið 2013 og lauk haustið 2016, voru ekki til þess fallin að auka traust á Alþingi og stjórnmálamönnum, sem þó var lítið fyrir. Báðar skýrslurnar innihéldu upplýsingar sem hefðu gert það að verkum að umræður fyrir kosningarnar 2016 um þessi tvö risastóru mál hefðu getað byggt á vandaðri greiningu eða staðreyndum í stað þess að einkennast af upphrópunum.
Á sama tíma og verið var að birta umræddar skýrslur var líka verið að mynda ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Hún tók við 10. janúar 2017. Hin seinu skýrsluskil, sem voru bæði á ábyrgð Bjarna sem fjármála- og efnahagsmálaráðherra, ollu miklum titringi á lokaspretti myndunar þeirrar stjórnar. Sein skil á skýrslunni um aflandseignirnar var helsta ástæða þess að rúmur fjórðungur stjórnar Bjartrar framtíðar greiddi atkvæði á móti stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og að þingflokkur Viðreisnar brá á það ráð, daginn áður en að ríkisstjórnin var formlega mynduð, að fá Bjarna Benediktsson á símafund til að útskýra mál sitt. Slíkt er fordæmalaust.
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi þingflokksformaður Vinstri grænna, óskaði eftir því skriflega að umboðsmaður Alþingis myndi fjalla um hvort Bjarni hefði brotið gegn 6. grein c siðareglna ráðherra með því að birta ekki skýrslu um aflandsfélög fyrr en nokkrum vikum eftir að hún lá fyrir.
Umboðsmaður tilkynnti síðar um að ekki væri tilefni til að taka til athugunar hvort Bjarni hefði brotið gegn siðareglum ráðherra með því að birta ekki skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum fyrr en raun bar vitni. Ástæðan var fyrst og fremst að Bjarni hafði viðurkennt að það hafi verið mistök af hans hálfu að birta ekki skýrsluna mun fyrr en gert var.