Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þetta gerðist árið 2017: Stærsta bankarán Íslandssögunnar upplýst

Einkavæðing ríkisbankanna markaði upphafið af því ástandi sem leiddi af sér bankahrunið 2008. Í mars 2017 var birt skýrsla um aðkomu þýsks einkabanka að kaupunum á Búnaðarbankanum þar sem sýnt var fram á að íslensk stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu verið blekkt. En fámennur hópur hagnast ævintýralega.

Hvað gerð­ist?

Í júní 2016 sendi Tryggvi Gunn­ars­son, umboðs­maður Alþing­is, bréf til stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefndar Alþingis þar sem hann lagði til að skipuð yrði rann­sókn­ar­nefnd til að kom­ast til botns í aðkomu Hauck &Auf­häuser að kaupum S-hóps­ins á 45,8 pró­sent hlut í Bún­að­ar­bank­anum í byrjun árs 2003. Þetta ætti að gera vegna þess að Tryggvi hefði nýjar upp­lýs­ingar sem byggðu á ábend­ingum um hver raun­veru­leg þátt­taka þýska bank­ans var. Kjarn­inn greindi frá því í kjöl­farið að þær upp­lýs­ingar hafi meðal ann­ars snúið að því að Kaup­þing, sem var sam­ein­aður Bún­að­ar­bank­anum skömmu eftir að söl­una á bank­an­um, hafi fjár­magnað Hauck & Auf­häuser.

Skýrsla rann­sókn­ar­nefndar um málið var loks birt 29. mars 2017, rúmum fjórtán árum eftir að kaupin gengu í gegn og einu banka­hruni síð­ar. Í henni var opin­ber­aður blekk­ing­ar­leikur sem reynd­ist enn ótrú­legri og marg­slungn­ari en flestir ætl­uðu.

Í nið­ur­stöðu­hluta skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar­innar sagði: „Í íslensku laga­máli nær hug­takið blekk­ing almennt til þess að vekja, styrkja eða hag­nýta sér ranga eða óljósa hug­mynd manns um ein­hver atvik. Telja verður raunar að almennur skiln­ingur á þessu hug­taki sé í meg­in­at­riðum á sömu lund. Rann­sókn­ar­nefnd Alþingis telur að þau gögn sem rakin hafa verið og birt í þess­ari skýrslu, og þau atvik sem umrædd gögn varpa skýru og ótví­ræðu ljósi á, sýni fram á svo ekki verði um villst að íslensk stjórn­völd hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Auf­häuser að þeirri einka­væð­ingu Bún­að­ar­banka Íslands hf. sem lokið var með kaup­samn­ingi 16. jan­úar 2003. Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefnd­ar­innar skýru og ótví­ræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekk­ingu, komu henni fram og héldu svo við æ síð­an, ýmist með því að leyna vit­neskju sinni um raun­veru­lega aðkomu Hauck & Auf­häuser eða halda öðru fram gegn betri vit­und.“

Leyni­legir samn­ingar voru gerðir til að blekkja Íslend­inga til að halda að erlendur banki væri að kaupa í íslenskum banka, þegar kaup­and­inn var í reynd aflands­fé­lags­fé­lagið Well­ing & Partner, skráð á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um. Kaup­þing í Lúx­em­borg fjár­magn­aði það félag og allur nettó­hagn­aður sem varð að við­skipt­un­um, sem á end­anum var rúm­lega 100 millj­ónir dal, um 11,4 millj­arðar króna á núvirði, rann ann­ars vegar til aflands­fé­lags í eigu Ólafs Ólafs­sonar og hins vegar til aflands­fé­lags sem rann­sókn­ar­nefndin telur að Kaup­þing eða stjórn­endur þess hafi stýrt. Sá hagn­aður sem rann til Ólafs var end­ur­fjár­festur í erlendum verð­bréfum fyrir hans hönd. Ekk­ert er vitað um hvað var um þann hagnað sem rann til hins aflands­fé­lags­ins, Dek­hill Advis­ors Ltd.  sem skráð var á Tortóla. Fléttan gekk undir nafn­inu „Project Puffin“, eða lunda­flétt­an.

Kjartan Bjarni Björgvinsson og Finnur Þór Vilhjálmsson mynduðu rannsóknarnefndina.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hagn­að­ur­inn varð til vegna þess að eign­ar­hlutur Hauck & Auf­häuser í Bún­að­ar­bank­an­um, sem þá hafði sam­ein­ast Kaup­þingi, hafði hækkað mjög í verði frá því að hann var keyptur og þar til að hann var að fullu seld­ur. Ávinn­ingnum var skipt á milli Ólafs Ólafs­sonar og aflands­fé­lags sem rann­sókn­ar­nefndin telur að hafi verið stýrt af Kaup­þingi. Sam­an­dregið þá kom Ólafur Ólafs­son með ekk­ert eigið fé inn í við­skiptin um kaup á hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­an­um. Hann hagn­að­ist hins vegar gríð­ar­lega á þeirri fléttu sem búin var til í bak­her­bergj­um.

Í þessu ferli voru íslensk stjórn­völd, almenn­ingur og fjöl­miðlar blekktir til að halda að Hauck & Auf­häuser hafi keypt hlut í íslenskum við­skipta­banka, þegar ljóst var að svo var ekki.

Hvaða afleið­ingar hafði það?

Það má með sanni segja að bolt­inn hafi byrjað að rúlla hjá öllum hlut­að­eig­andi eftir að þessi flétta var fram­kvæmd. Bræð­urnir Ágúst og Lýður Guð­munds­synir réðu yfir Exista og héldu þar um alla þræði í krafti mik­ils eign­ar­hluta. Exista var ásamt félagi Ólafs Ólafs­sonar stærsti eig­andi sam­ein­aðs banka Kaup­þings og Bún­að­ar­banka, sem lengst af hét bara Kaup­þing, fram að því að hann féll í októ­ber 2008. Við blasir að hvor­ugur aðil­inn borg­aði nokkuð eigið fé fyrir þann hlut sem hann eign­að­ist í Kaup­þingi. Þeir lögðu ekki út eina krónu.

Allir hlut­að­eig­andi efn­uð­ust stór­kost­lega á þessum tíma. Exista keypti m.a. VÍS, Sím­ann, stóran hlut í finnska trygg­inga­fé­lag­inu Sampo og meira að segja Við­skipta­blað­ið. Auk þess var Bakka­vör mik­il­vægur hluti af sam­stæð­unni. Virði eigna hennar mæld­ist mörg hund­ruð millj­arðar króna.

Ólafur Ólafs­son varð einn rík­asti og valda­mesti maður lands­ins. Í árs­lok 2003 voru eignir Kjal­ars, fjár­fest­inga­fé­lags Ólafs, metnar á 3,2 millj­arða króna. Tveimur árum síðar voru þær metnar á 85 millj­arða króna. Aðrir með­limir S-hóps­ins nutu líka góðs af verkn­að­inum og urðu fokrík­ir, þótt Ólafur hafi skarað þar fram úr.

Ólafur barst á og var fyr­ir­ferða­mik­ill á þessum árum. Hann stofn­aði góð­gerð­ar­sjóð og setti millj­arð króna í hann og hann fékk Elton John til að syngja í klukku­tíma í fimm­tugs­af­mæl­inu sínu. Hann keypti sér þyrlu og flaug henni sjálfur ítrekað í bústað sinn á Snæ­fells­nesi. Við­skipta­veldi hans sam­an­stóð af fjár­fest­inga­fé­lög­unum Kjalar og Eglu. Auk hlut­ar­ins í Sam­skip átti hann m.a. hluti í HB Granda, Iceland Seafood, Alfesca og ýmsum fast­eigna­verk­efnum svo fátt eitt sé nefnt. Ólafur var líka stór­tækur í gjald­miðla­skipta­samn­ingum og gerði m.a. einn slíkan við Kaup­þing 6. októ­ber 2008, sama dag og neyð­ar­lög voru sett á Íslandi. Þar veðj­aði hann gegn íslensku krón­unni og krafð­ist þess átta dögum síðar að samn­ing­ur­inn yrði gerður upp á geng­inu 305 krónur á hverja evru, sem hefði þýtt að Kaup­þing, fallni bank­inn sem hann verið næst stærsti eig­and­inn í, ætti að borga honum 115 millj­arða króna.

Hluta­bréfa­verð í sam­ein­uðu Kaup­þingi rauk upp eftir að Puffin-fléttan var fram­kvæmd. Í upp­hafi árs 2003 var það 129,5 krónur á hlut. Á fyrsta árinu hækk­aði gengið um 73,4 pró­sent. Frá árs­byrjun 2004 og fram á mitt ár 2007 hækk­uðu hluta­bréf í Kaup­þingi um 536 pró­sent. Virði eign­ar­hluta Ólafs og Bakka­var­ar­bræðra hækk­aði um sama hlut­fall. Síðar kom reyndar í ljós að Kaup­þing hafði stundað skipu­lagða og kerf­is­bundna mark­aðs­mis­notkun að minnsta kosti frá byrjun árs 2005. Til­gang­ur­inn var að halda uppi verði bréf­anna hand­virkt.

Fyrir þetta hlutu níu fyrr­ver­andi stjórn­endur og starfs­menn Kaup­þing dóm í Hæsta­rétti í fyrra­haust. Á meðal þeirra sem hlutu dóm í mál­inu voru Hreiðar Már Sig­urðs­son, Sig­urður Ein­ars­son, Bjarki Diego og Magnús Guð­munds­son. Allir fjórir léku lyk­il­hlut­verk í því þegar Puffin-fléttan um aðkomu Hauck & Auf­häuser að kaup­unum á Bún­að­ar­bank­anum var hönnuð og fram­kvæmd.

Alls tókst Ólafi og tengdum félögum að safna upp skuldum upp á 147 millj­arða króna við íslensku bank­ana fram að hruni þeirra. Mest skuld­uðu félög Ólafs Kaup­þingi, alls 96,1 millj­arð króna. Exista-bræður voru enn stór­tæk­ari í skulda­söfn­un. Þeir og félög tengd þeim skuld­uðu íslenskum bönkum 309 millj­arða króna við hrun­ið. Þar af námu skuldir þeirra við Kaup­þing, bank­ann sem þeir voru stærsti eig­and­inn í, 239 millj­örðum króna.

Stjórn­endur Kaup­þings fengu líka drauma sína upp­fyllta. Áður óþekkt ofur­laun, umfangs­mikil hluta­bréfa­kaup, útrás og tögl og haldir í íslensku atvinnu­lífi. Sig­urður Ein­ars­son var sæmdur fálka­orð­unni og Ólafur Ragnar Gríms­son tal­aði um hann sem einn sinn nán­asta sam­starfs­mann. Hann og Hreiðar Már voru kjörnir við­skipta­menn árs­ins. Og svo fram­veg­is.

Afrakst­ur­inn af þessum bræð­ingi öllum saman varð fimmta stærsta gjald­þrot heims­sög­unn­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar