Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þetta gerðist árið 2017: Stærsta bankarán Íslandssögunnar upplýst

Einkavæðing ríkisbankanna markaði upphafið af því ástandi sem leiddi af sér bankahrunið 2008. Í mars 2017 var birt skýrsla um aðkomu þýsks einkabanka að kaupunum á Búnaðarbankanum þar sem sýnt var fram á að íslensk stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu verið blekkt. En fámennur hópur hagnast ævintýralega.

Hvað gerðist?

Í júní 2016 sendi Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem hann lagði til að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að komast til botns í aðkomu Hauck &Aufhäuser að kaupum S-hópsins á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Þetta ætti að gera vegna þess að Tryggvi hefði nýjar upplýsingar sem byggðu á ábendingum um hver raunveruleg þátttaka þýska bankans var. Kjarninn greindi frá því í kjölfarið að þær upplýsingar hafi meðal annars snúið að því að Kaupþing, sem var sameinaður Búnaðarbankanum skömmu eftir að söluna á bankanum, hafi fjármagnað Hauck & Aufhäuser.

Skýrsla rannsóknarnefndar um málið var loks birt 29. mars 2017, rúmum fjórtán árum eftir að kaupin gengu í gegn og einu bankahruni síðar. Í henni var opinberaður blekkingarleikur sem reyndist enn ótrúlegri og margslungnari en flestir ætluðu.

Í niðurstöðuhluta skýrslu rannsóknarnefndarinnar sagði: „Í íslensku lagamáli nær hugtakið blekking almennt til þess að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd manns um einhver atvik. Telja verður raunar að almennur skilningur á þessu hugtaki sé í meginatriðum á sömu lund. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að þau gögn sem rakin hafa verið og birt í þessari skýrslu, og þau atvik sem umrædd gögn varpa skýru og ótvíræðu ljósi á, sýni fram á svo ekki verði um villst að íslensk stjórnvöld hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Aufhäuser að þeirri einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. sem lokið var með kaupsamningi 16. janúar 2003. Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefndarinnar skýru og ótvíræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekkingu, komu henni fram og héldu svo við æ síðan, ýmist með því að leyna vitneskju sinni um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser eða halda öðru fram gegn betri vitund.“

Leynilegir samningar voru gerðir til að blekkja Íslendinga til að halda að erlendur banki væri að kaupa í íslenskum banka, þegar kaupandinn var í reynd aflandsfélagsfélagið Welling & Partner, skráð á Bresku Jómfrúareyjunum. Kaupþing í Lúxemborg fjármagnaði það félag og allur nettóhagnaður sem varð að viðskiptunum, sem á endanum var rúmlega 100 milljónir dal, um 11,4 milljarðar króna á núvirði, rann annars vegar til aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar og hins vegar til aflandsfélags sem rannsóknarnefndin telur að Kaupþing eða stjórnendur þess hafi stýrt. Sá hagnaður sem rann til Ólafs var endurfjárfestur í erlendum verðbréfum fyrir hans hönd. Ekkert er vitað um hvað var um þann hagnað sem rann til hins aflandsfélagsins, Dekhill Advisors Ltd.  sem skráð var á Tortóla. Fléttan gekk undir nafninu „Project Puffin“, eða lundafléttan.

Kjartan Bjarni Björgvinsson og Finnur Þór Vilhjálmsson mynduðu rannsóknarnefndina.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hagnaðurinn varð til vegna þess að eignarhlutur Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum, sem þá hafði sameinast Kaupþingi, hafði hækkað mjög í verði frá því að hann var keyptur og þar til að hann var að fullu seldur. Ávinningnum var skipt á milli Ólafs Ólafssonar og aflandsfélags sem rannsóknarnefndin telur að hafi verið stýrt af Kaupþingi. Samandregið þá kom Ólafur Ólafsson með ekkert eigið fé inn í viðskiptin um kaup á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Hann hagnaðist hins vegar gríðarlega á þeirri fléttu sem búin var til í bakherbergjum.

Í þessu ferli voru íslensk stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar blekktir til að halda að Hauck & Aufhäuser hafi keypt hlut í íslenskum viðskiptabanka, þegar ljóst var að svo var ekki.

Hvaða afleiðingar hafði það?

Það má með sanni segja að boltinn hafi byrjað að rúlla hjá öllum hlutaðeigandi eftir að þessi flétta var framkvæmd. Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir réðu yfir Exista og héldu þar um alla þræði í krafti mikils eignarhluta. Exista var ásamt félagi Ólafs Ólafssonar stærsti eigandi sameinaðs banka Kaupþings og Búnaðarbanka, sem lengst af hét bara Kaupþing, fram að því að hann féll í október 2008. Við blasir að hvorugur aðilinn borgaði nokkuð eigið fé fyrir þann hlut sem hann eignaðist í Kaupþingi. Þeir lögðu ekki út eina krónu.

Allir hlutaðeigandi efnuðust stórkostlega á þessum tíma. Exista keypti m.a. VÍS, Símann, stóran hlut í finnska tryggingafélaginu Sampo og meira að segja Viðskiptablaðið. Auk þess var Bakkavör mikilvægur hluti af samstæðunni. Virði eigna hennar mældist mörg hundruð milljarðar króna.

Ólafur Ólafsson varð einn ríkasti og valdamesti maður landsins. Í árslok 2003 voru eignir Kjalars, fjárfestingafélags Ólafs, metnar á 3,2 milljarða króna. Tveimur árum síðar voru þær metnar á 85 milljarða króna. Aðrir meðlimir S-hópsins nutu líka góðs af verknaðinum og urðu fokríkir, þótt Ólafur hafi skarað þar fram úr.

Ólafur barst á og var fyrirferðamikill á þessum árum. Hann stofnaði góðgerðarsjóð og setti milljarð króna í hann og hann fékk Elton John til að syngja í klukkutíma í fimmtugsafmælinu sínu. Hann keypti sér þyrlu og flaug henni sjálfur ítrekað í bústað sinn á Snæfellsnesi. Viðskiptaveldi hans samanstóð af fjárfestingafélögunum Kjalar og Eglu. Auk hlutarins í Samskip átti hann m.a. hluti í HB Granda, Iceland Seafood, Alfesca og ýmsum fasteignaverkefnum svo fátt eitt sé nefnt. Ólafur var líka stórtækur í gjaldmiðlaskiptasamningum og gerði m.a. einn slíkan við Kaupþing 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi. Þar veðjaði hann gegn íslensku krónunni og krafðist þess átta dögum síðar að samningurinn yrði gerður upp á genginu 305 krónur á hverja evru, sem hefði þýtt að Kaupþing, fallni bankinn sem hann verið næst stærsti eigandinn í, ætti að borga honum 115 milljarða króna.

Hlutabréfaverð í sameinuðu Kaupþingi rauk upp eftir að Puffin-fléttan var framkvæmd. Í upphafi árs 2003 var það 129,5 krónur á hlut. Á fyrsta árinu hækkaði gengið um 73,4 prósent. Frá ársbyrjun 2004 og fram á mitt ár 2007 hækkuðu hlutabréf í Kaupþingi um 536 prósent. Virði eignarhluta Ólafs og Bakkavararbræðra hækkaði um sama hlutfall. Síðar kom reyndar í ljós að Kaupþing hafði stundað skipulagða og kerfisbundna markaðsmisnotkun að minnsta kosti frá byrjun árs 2005. Tilgangurinn var að halda uppi verði bréfanna handvirkt.

Fyrir þetta hlutu níu fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn Kaupþing dóm í Hæstarétti í fyrrahaust. Á meðal þeirra sem hlutu dóm í málinu voru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Bjarki Diego og Magnús Guðmundsson. Allir fjórir léku lykilhlutverk í því þegar Puffin-fléttan um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum var hönnuð og framkvæmd.

Alls tókst Ólafi og tengdum félögum að safna upp skuldum upp á 147 milljarða króna við íslensku bankana fram að hruni þeirra. Mest skulduðu félög Ólafs Kaupþingi, alls 96,1 milljarð króna. Exista-bræður voru enn stórtækari í skuldasöfnun. Þeir og félög tengd þeim skulduðu íslenskum bönkum 309 milljarða króna við hrunið. Þar af námu skuldir þeirra við Kaupþing, bankann sem þeir voru stærsti eigandinn í, 239 milljörðum króna.

Stjórnendur Kaupþings fengu líka drauma sína uppfyllta. Áður óþekkt ofurlaun, umfangsmikil hlutabréfakaup, útrás og tögl og haldir í íslensku atvinnulífi. Sigurður Einarsson var sæmdur fálkaorðunni og Ólafur Ragnar Grímsson talaði um hann sem einn sinn nánasta samstarfsmann. Hann og Hreiðar Már voru kjörnir viðskiptamenn ársins. Og svo framvegis.

Afraksturinn af þessum bræðingi öllum saman varð fimmta stærsta gjaldþrot heimssögunnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar