Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þetta gerðist á árinu 2017: Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mynduð

Á árinu 2017 sátu þrír forsætisráðherrar. Í lok ársins mynduðu þeir saman ríkisstjórn eftir enn einar kosningarnar. Átta flokkar náðu inn á þing. Konum fækkaði og miðaldra körlum fjölgaði. Stjórnarsáttmálinn bar þess merki að vera mikil málamiðlun en ný ríkisstjórn nýtur þó, að minnsta kosti enn sem komið er, mikils stuðnings kjósenda.

Hvað gerð­ist?

Kosið var til Alþingis í annað sinn á einu ári 28. októ­ber 2017. Ástæða kosn­ing­anna var, líkt og árið áður, hneyksl­is­mál tengd ráð­herrum rík­is­stjórn­ar.

Nið­ur­staða kosn­ing­anna var ekki til að gera stöð­una í stjórn­mál­unum skýr­ari. Átta flokkar náðu inn á þing og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þáver­andi stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir fjór­ir, Vinstri græn, Sam­fylk­ing, Fram­sókn­ar­flokkur og Píratar náðu minnsta mögu­lega meiri­hluta þing­manna og gátu myndað rík­is­stjórn ef þeir vildu. Flokk­arnir voru samt sem áður ekki með meiri­hluta atkvæða á bak við sig, tæp­lega 49 pró­sent lands­manna kusu þá.

Rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­son­ar, skipuð Sjálf­stæð­is­flokki, Við­reisn og Bjartri fram­tíð, beið afhroð og tap­aði tólf þing­mönn­um. Flokk­arnir sem hana mynd­uðu höfðu 32 þing­menn en eru nú með 20. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn tap­aði flestum þeirra, eða fimm, og fékk sína næst verstu kosn­inga­nið­ur­stöðu í sög­unni og jafn­aði sögu­legt lág­mark sitt í þing­manna­fjölda á 63 sæta Alþingi.

Sig­ur­veg­arar kosn­ing­anna voru Mið­flokkur Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar og Flokkur fólks­ins. Þeir flokkar komu nýir inn á þing og náðu sam­tals ell­efu þing­mönn­um. Frjáls­lynd­is­bylgjan sem reið yfir í kosn­ing­unum í fyrra, og tryggði Við­reisn, Bjartri fram­tíð og Pírötum sam­tals 21 þing­mann, er gengin til baka. Þeir flokkar hafa nú sam­tals tíu þing­menn og Björt fram­tíð þurrk­að­ist út af þingi.

Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins tóku þessa ell­efu þing­menn sem frjáls­lyndu flokk­arnir tapa. Báðir eru það sem mætti kalla flokkar með rót­tækar og að ein­hverju leyti þjóð­ern­is­legar áherslur í stórum mál­um. Þeir tefldu fram risa­stórum kosn­inga­málum sem erfitt yrði að ná saman við aðra flokka um. Og bæði Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins eru að uppi­stöðu karla­flokk­ar. Þannig eru níu af ell­efu þing­mönnum flokk­anna tveggja karl­ar.

Í raun má líka segja að sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna í októ­ber hafi verið karl­ar, og sér­stak­lega mið­aldra karl­ar. Í fyrra náðu 30 konur kjöri til Alþingis og hlut­fall kvenna á meðal þing­manna var 47,6 pró­sent. Nú eru  24 konur á nýju Alþingi en 39 karl­ar. Það þýðir að 38 pró­sent þing­manna verða kon­ur. Hlut­fall þeirra hefur ekki verið lægra eftir hrun. Hjá Sjálf­stæð­is­flokkn­um, stærsta flokki lands­ins, er kynja­hlut­fall þing­manna til að mynda þannig að þar eru 12 þing­menn karlar en fjórir kon­ur.

Hvaða afleið­ingar hafði það?

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­maður Vinstri grænna, hafði sett það á odd­inn hjá flokki sínum að kom­ast í rík­is­stjórn í aðdrag­anda kosn­inga. Hún fékk stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð hjá for­seta Íslands til að mynda stjórn stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna fjög­urra, Vinstri grænna, Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Full­trúar flokk­anna hófu form­legar við­ræður í byrjun nóv­em­ber, nánar til­tekið fimmtu­dag­inn 2. nóv­em­ber. Fyrst fór þær fram á heim­ili Sig­­urðar Inga Jóhanns­­son­­ar, for­­manns Fram­­sókn­­ar­­flokks­ins, í Hruna­­manna­hreppi. Þar var fundað fyrstu tvo dag­anna. Vinn­unni var síðan haldið áfram í Reykja­vík.

Á mánu­dags­morgni sleit Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn við­ræð­un­um. Form­lega skýr­ingin var sú að for­svars­mönnum hans hafi þótt meiri­hluti þeirrar stjórnar sem verið var að reyna að mynda of tæp­ur, en hún hefði ein­ungis haft 32 þing­menn og eins manns meiri­hluta.

Full­trúar Sam­fylk­ingar og Pírata hafa þó ekki gefið mikið fyrir þessa skýr­ingu og segja að staðið hafi til boða að taka Við­reisn inn í sam­starfið ef vilji var til að styrkja það. Margir innan flokk­anna eru þeirrar skoð­unar í dag að hvorki Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn né Vinstri græn hafi verið af fullum heil­indum í þessum stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­um. Til­gang­ur­inn hafi verið sá að setja upp leik­þátt, fara í gegnum ákveðnar hreyf­ing­ar, til að friða bak­land Vinstri grænna áður en farið yrði í við­ræður um myndun stjórnar með Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Þessu hafa for­svars­menn Fram­sókn­ar­flokks og Vinstri grænna ávalt neitað harð­lega.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stofnaði Miðflokkinn í kringum sig skömmu fyrir kosningar. Flokkurinn var án efa helsti sigurvegari þeirra, en enginn flokkur vildi, að minnsta kosti opinberlega, vinna með honum.
Mynd: Miðflokkurinn

Það breytir því ekki að næsta skref var við­ræður nákvæm­lega þeirra flokka, Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks. Flokk­arnir tóku sér margar vikur í við­ræð­urnar og undir lok nóv­em­ber­mán­aðar lá fyrir nið­ur­staða.

Hún var sú að þrír íhalds­söm­ustu flokk­arnir á Alþingi, sem þó röð­uðu sér víðs­vegar á hægri-vinstri kvarða stjórn­mál­anna, ætl­uðu að mynda rík­is­stjórn saman í fyrsta sinn. For­sæt­is­ráð­herra yrði Katrín Jak­obs­dótt­ir. Hún yrði þá önnur konan til að gegna því emb­ætti á eftir Jóhönnu Sig­urð­ar­dóttur og fyrsti for­maður Vinstri grænna til að leiða rík­is­stjórn. Það er líka merki­legt við þessa rík­is­stjórn að á árinu 2017 sátu alls þrjár rík­is­stjórn­ir: starfs­stjórn Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar og loks stjórn Katrínar Jak­obs­dótt­ur. Allir for­sæt­is­ráð­herr­arnir sem sátu á árinu 2017 sitja nú saman í rík­is­stjórn.

Stjórn­ar­sátt­mál­inn bar þess merki að vera mála­miðlun þriggja flokka með mjög ólíkar áhersl­ur. Þar af leið­andi var lítið um útfærðar aðgerðir eða skýrar stefnur í hon­um. Þess í stað var mik­ill texti í sátt­mál­anum sem hver flokkur fyrir sig sem á aðild að rík­is­stjórn­inni gat nýtt til að sýna að hann hafi náð helstu áherslum sínum fram. Þeim áherslum verður þó lík­ast til fyrst og fremst náð fram í gegnum þá ráð­herra­stóla sem hver flokkur fékk í sinn hlut. Helstu sam­eig­in­legu áherslur eru þær að auka fjár­fest­ingar í innvið­um, aðal­lega í heil­brigð­is-, mennta- og sam­göngu­mál­um.

Í sátt­mál­anum var skýrt kveðið á um hvert meg­in­mark­mið rík­is­stjórn­ar­innar sé. Þar stendur að „um­fram allt er á kjör­tíma­bil­inu lögð áhersla á að við­halda efna­hags­legum stöð­ug­leika og að aðgerðir tengdar vinnu­mark­aði skili sér í raun­veru­legum kjara­bót­u­m.“

Rík­is­stjórnin hefur mælst með byr í seglin á fyrstu metrum starfsævi sinnar og nýtur mik­ils stuðn­ings á meðal kjós­enda. Reynslan hefur þó sýnt það að slíkur byr snýst fljótt upp í and­hverfu sína þegar áskor­anir koma upp, líkt og þær gera alltaf. Enda hefur ein­ungis ein þeirra rík­­is­­stjórna sem setið hafa frá 2007 hefur setið heilt kjör­­tíma­bil, sú sem sat við nán­­ast von­­laus efna­hags­­leg skil­yrði árin 2009 til 2013.

Þá er staða hinna hefð­bundnu valda­flokka á Íslandi, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks, með veik­ara móti. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hefur fengið tvær verstu útreiðar sínar í sög­unni í síð­ustu tveimur kosn­ing­um. Og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fékk, líkt og áður sagði, sína næst verstu kosn­ingu frá því að hann varð til í kosn­ing­unum í haust. Tap­arar síð­ustu kosn­inga, ef Björt fram­tíð er und­an­skil­in, voru því klár­lega þessir tveir flokk­ar. For­menn þeirra virð­ast sitja í skjóli per­sónu­vin­sælda Katrín­ar. Þær gætu breyst ansi snögg­lega líkt og sagan hefur sýnt.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar