Birgir Þór Harðarson Bjarni Benediktsson Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson
Birgir Þór Harðarson

Umfangsmikil málamiðlun sem hver getur túlkað með sínu nefi

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er 40 blaðsíður og yfir 6.200 orð. Í honum eru sett fram nokkur mál og stefnur með skýrum hætti sem munu einkenna stjórnina, önnur sem eru loðnari í framsetningu og sum sem eru beinlínis óskiljanleg.

Stjórn­ar­sátt­máli nýrrar rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dóttur ber þess merki að vera mála­miðlun þriggja flokka með mjög ólíkar áhersl­ur. Þar af leið­andi er lítið um útfærðar aðgerðir eða skýrar stefnur í hon­um. Þess í stað er mik­ill texti í sátt­mál­anum sem hver flokkur fyrir sig sem á aðild að rík­is­stjórn­inni getur nýtt til að sýna að hann hafi náð helstu áherslum sínum fram. Þeim áherslum verður þó lík­ast til fyrst og fremst náð fram í gegnum þá ráð­herra­stóla sem hver flokkur fær í sinn hlut.

Í sátt­mál­anum er þó skýrt kveðið á um hvert meg­in­mark­mið rík­is­stjórn­ar­innar sé. Þar stendur að „um­fram allt er á kjör­tíma­bil­inu lögð áhersla á að við­halda efna­hags­legum stöð­ug­leika og að aðgerðir tengdar vinnu­mark­aði skili sér í raun­veru­legum kjara­bót­u­m.“ 

Hægt er að lesa sátt­mál­ann hér.

Það sem er fast í hendi

Það sem er nokkuð skýrt varð­andi aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar í heil­brigð­is­málum er að hún ætlar að hrinda geð­heil­brigð­is­á­ætlun til árs­ins 2020 í fram­kvæmd, draga úr greiðslu­þátt­töku sjúk­linga og ráð­ast í stór­sókn á upp­bygg­ingu hjúkr­un­ar­rýma. Tekið er fram í sátt­mál­anum að sú stór­sókn muni birt­ast í fjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórn­ar­innar þegar hún verður tekin upp.

Í mennta­málum er minnst á að Ísland eigi að ná með­al­tali OECD-­ríkj­anna er varðar fjár­mögnun háskóla­stigs­ins fyrir árið 2020 og Norð­ur­landa árið 2025. Í byggða­málum á að ljúka við ljós­leið­ing­ar­væð­ingu lands­ins árið 2020.

Ráð­ist verður í breyt­ingar á skatt­lagn­ingu á tón­list, fjöl­miðla og rit­máli og fyrsta skrefið þar verður að afnema virð­is­auka­skatt á bók­um.

Þá verður stofn­aður sér­stakur Þjóð­ar­sjóður utan um arð af auð­lindum lands­ins og byrjað verður á því að láta arð af orku­auð­lindum renna þangað inn. „Hlut­verk sjóðs­ins verður að byggja upp við­nám til að mæta fjár­hags­legum áföll­um. Afmark­aður hluti ráð­stöf­un­ar­fjár sjóðs­ins verður not­aður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprota­fyr­ir­tækja.“

Fjár­magnstekju­skattur verður hækk­aður upp í 22 pró­sent og sam­hliða verður skatt­stofn hans tek­inn til end­ur­skoð­un­ar.

Þá er kveðið á um að rík­is­stjórnin ætli, til að bæta alþjóð­lega sam­keppn­is­hæfni lands­ins, að end­ur­meta fyr­ir­komu­lag á end­ur­greiðslu kostn­aðar vegna rann­sókna og þró­unar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum end­ur­greiðsl­um. Það þak er nú 300 til 450 millj­ónir króna á ári.

Áform síð­ustu rík­is­stjórnar um að hækka virð­is­auka­skatt á ferða­þjón­ustu verða lögð til hliðar og þess í stað verður kannað hvort leggja eigi á komu- eða brott­far­ar­gjald. Þá verður gistin­átta­gjald fært yfir til sveit­ar­fé­laga og því verður breytt þannig að það verði hlut­falls­legt.

Hækka á kolefn­is­gjald um 50 pró­sent strax og hækka það síðan áfram á næstu árum í takt við vænt­an­lega aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­mál­um. Stefnt er á að Ísland verði kolefn­is­hlut­laust í síð­asta lagi árið 2040 og að banni við notkun á svartolíu í íslenskri efna­hags­lög­sögu.

Þá verður frí­tekju­mark atvinnu­tekna aldr­aðra hækkað í 100 þús­und krónur strax um kom­andi ára­mót og gjald­skrá vegna tann­lækn­inga aldr­aðra og örorku­líf­eyr­is­þegar verður upp­færð.

Rík­is­stjórnin seg­ist vilja koma Íslandi í fremstu röð í mál­efnum hinsegin fólks með metn­að­ar­fullri lög­gjöf um kyn­rænt sjálf­ræði í sam­ræmi við nýút­komin til­mæli Evr­ópu­ráðs­ins vegna mann­rétt­inda inter­sex-­fólks. „Í þeim lögum yrði kveðið á um að ein­stak­lingar megi sjálfir ákveða kyn sitt, kyn­vit­und þeirra njóti við­ur­kenn­ing­ar, ein­stak­lingar njóti lík­am­legrar frið­helgi og jafn­réttis fyrir lögum óháð kyn­hneigð, kyn­vit­und, kynein­kennum og kyntján­ing­u.“

Rík­is­stjórnin ætlar að auka fram­lög til þró­un­ar­sam­vinnu á næstu árum og stefnir að því að þau verði 0,35 pró­sent af lands­fram­leiðslu eftir fimm ár. Þau hafa reyndar verið skammar­lega lág á und­an­förnum árum og fóru lægst í 0,2 pró­sent af lands­fram­leiðslu 2011 og 2012. Mark­mið Sam­ein­uðu þjóð­anna er að ríki greiði 0,7 pró­sent af lands­fram­leiðslu sinni til mála­flokks­ins og Ísland, eitt rík­asta land í heimi, verður því enn langt frá því mark­miði eftir fimm ár.

Það sem er loðið

Svo virð­ist vera sem mörg helstu hita­mál stjórn­mál­anna verði sett í þverpóli­tískar nefnd­ir. Færa má rök fyrir því að það sé til marks um vilja til breyttra vinnu­bragða og þverpóli­tískrar sam­stöðu, en með því kemst hin nýja rík­is­stjórn líka hjá því að taka eig­in­lega afstöðu til mál­anna.

Á meðal þeirra mála sem beina á til þverpóli­tískra hópa er stofnun Mið­há­lend­is­þjóð­garðs, mótun nýsköp­un­ar­stefnu, þróun mæli­kvarða um hag­sæld og lífs­gæði, orku­stefna, stjórn­ar­skrá, fram­kvæmd og end­ur­skoðun útlend­inga­laga og fram­tíð­ar­nefnd um áskor­anir og tæki­færi vegna tækni­breyt­inga.

Þá verður rituð hvít­bók um fram­tíð­ar­fyr­ir­komu­lag fjár­mála­kerf­is­ins. Hún á síðan að vera lögð fram áður en stefnu­mark­andi ákvarð­anir verða teknar um fjár­mála­kerf­ið. Eign­ar­hald á kerf­is­lega mik­il­vægum fjár­mála­stofn­unum á að verða gagn­sætt og rík­is­stjórnin vill að unnið verði að frek­ari skil­virkni í fjár­mála­kerf­inu með það að leið­ar­ljósi að lækka kostnað neyt­enda. Ekk­ert af ofan­greindu er útfært eða skýrt nán­ar.

Rík­is­stjórnin ætlar að beita sér fyrir umbótum í hús­næð­is­málum „sem stuðla að efl­ingu og auknu jafn­vægi hús­næð­is­mark­að­ar.“ Í sátt­mál­anum kemur fram að setja þurfi skýr­ari reglur um skamm­tíma­leigu hús­næðis og efla eft­ir­lit með henni, en ekk­ert er sagt um hvernig eða hvort það eigi að gera. Þá verði kann­aðar „for­sendur þess að sveit­ar­fé­lög hafi rík­ari heim­ildir til að stýra leigu­mark­að­i.“

Í sátt­mál­anum er greint frá því að rík­is­stjórnin muni fara í „að­gerðir sem lækka þrösk­uld ungs fólks og tekju­lágra inn á hús­næð­is­mark­að­inn. Í því augna­miði verða stuðn­ings­kerfi hins opin­bera end­ur­skoðuð þannig að stuðn­ing­ur­inn nýt­ist fyrst og fremst þessum hóp­um. Meðal ann­ars verða skoð­aðir mögu­leikar á því að hægt verði að nýta líf­eyr­is­sparnað til þessa.“ Ekk­ert er fjallað um útfærslu á þessum mark­mið­um.

Í byggð­ar­málakafl­anum er fjallað um að flutn­ings- og dreifi­kerfi raf­orku verði að mæta betur þörfum atvinnu­lífs og almenn­ings alls staðar á land­inu og að upp­bygg­ing kerf­is­ins geti stutt við áætl­anir um orku­skipti. Ekk­ert er hins vegar fjallað um hvernig það eigi að mæta þessum þörfum og mark­mið­um.

Í sáttmálanum segirt að ríkisstjórnin muni taka „markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum“.
Mynd: Birgir Þór HarðarsonAlmenn­ings­sam­göngu- og flug­mála­hluti sátt­mál­ans er ákaf­lega rýr og loð­inn. Þar stend­ur: „Unnið verður að því að gera inn­an­lands­flug að hag­kvæm­ari kosti fyrir íbúa lands­byggð­anna. Áfram þarf að byggja upp almenn­ings­sam­göngur um land allt og stutt verður við borg­ar­línu í sam­starfi við Sam­tök sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­in­u.“ Ekk­ert er rætt um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til.

Í lög­gæslu- og fang­els­is­málum er lítið fjallað um útfærslu. Þess í stað segir að ljúka þurfi við gerð lög­gæslu­á­ætl­un­ar, tryggja Land­helg­is­gæsl­unni nægi­legt fjár­magn til að rækja starf sitt og „snúa þarf af braut harðra refs­inga fyrir neyslu fíkni­efna en styrkja aðgerðir gegn fíkni­efna­söl­um, inn­flutn­ingi og fram­leiðslu fíkni­efna. Tryggja þarf fíklum við­un­andi með­ferð­ar­úr­ræði með sam­vinnu dóms-, félags- og heil­brigð­is­kerf­is.

Þá á að inn­leiða „keðju­á­byrgð í ólíkum atvinnu­grein­um, vinna gegn kyn­bundnum launa­mun, félags­legum und­ir­boð­um, man­sali og kenni­tölu­flakki og efla vinnu­eft­ir­lit.“ 

Nefnd um end­ur­skoðun pen­inga­stefn­unnar fær að ljúka störfum og „í kjöl­farið verða gerðar nauð­syn­legar breyt­ingar á ramma stefn­unn­ar.“

Rík­is­stjórnin leggur áherslu á jafn­rétti kynj­anna sam­kvæmt sátt­mál­an­um. Meðal þess sem sett verður á dag­skrá í sam­tali stjórn­valda og aðila vinnu­mark­að­ar­ins verður leng­ing fæð­ing­ar­or­lofs og hækkun orlofs­greiðslna í fæð­ing­ar­or­lofi. Ekk­ert er fjallað um hver sú leng­ing eigi að verða, hver hækk­unin eigi að verða né hvenær ráð­ast eigi í þessar aðgerð­ir.

Umfjöllun um inn­flytj­end­ur, flótta­menn og hæl­is­leit­endur er af afar skornum skammti í sátt­mál­anum í ljósi þess hversu fyr­ir­ferða­mikil þau mál eru í þjóð­fé­lags­um­ræð­unni og hversu miklar sam­fé­lags­breyt­ingar eru að verða vegna auk­ins straums inn­flytj­enda til lands­ins. Þar segir ein­fald­lega: „Aldrei hafa fleiri verið á flótta vegna stríðs­átaka, ofsókna og umhverf­is­vár. Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar á flótta­manna­vand­anum og taka á móti fleiri flótta­mönn­um.“ Engar útfærslur eða tíma­línur fylgja þessum texta.

Þá er ótalið hvað eig­endur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja eigi að greiða fyrir nýt­ingu á þjóð­ar­auð­lind­inni. Í stjórn­ar­sátt­mál­anum seg­ir: „Við end­ur­skoðun laga um veiði­gjöld þarf að hafa það meg­in­mark­mið að tryggja þjóð­inni rétt­látan hlut af arð­semi auð­lind­ar­innar og að þau taki til­lit til afkomu. Auð­linda­gjöld eiga ann­ars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að tak­mark­aðri auð­lind og hins vegar arð­greiðslur af nýt­ingu henn­ar.“

Það sem er óskilj­an­legt

Alls er sátt­málin rúm­lega 6.200 orð og hann er settur fram á 40 blað­síð­um, þótt sumar þeirra séu mynd­skreyt­ing­ar. Í honum er mikið af inni­halds­lausum og mjög almennum setn­ingum á borð við :„Lögð verður rík áhersla á að efla menntun í land­inu með hags­muni nem­enda og þjóð­ar­innar allrar að leið­ar­ljósi“, „Öflug lög­gæsla er ein af for­sendum þess að öryggi borg­ar­anna sé trygg­t“, „Rík­is­stjórnin ætlar að beita sér fyrir umbótum í hús­næð­is­málum sem stuðla að efl­ingu og auknu jafn­vægi hús­næð­is­mark­að­ar“, „For­senda þess að land­bún­aður geti nýtt tæki­færi fram­tíð­ar­innar er jafn­vægi í fram­leiðslu, skil­virkt eft­ir­lit og nýsköp­un“, „Rík­is­stjórnin mun full­vinna heil­brigð­is­stefnu fyrir Ísland með hlið­sjón af þörfum allra lands­manna“ og „Fjár­mála­kerfið á að vera traust og þjóna sam­fé­lag­inu á hag­kvæman og sann­gjarnan hátt.“

Allir flokk­arnir fá pláss fyrir sín gælu­verk­efni og geta þannig sagt sínum flokks­mönnum að þau hafi hlotið braut­ar­gengi, þótt ekk­ert sé um það getið hvernig eða hvenær eigi að ráð­ast í þau.

Þannig er til að mynda talað um að rík­is­stjórnin muni taka „mark­viss skref á kjör­tíma­bil­inu til afnáms verð­trygg­ingar á lán­um“ og að hafin verði „ skoðun á því hvernig megi fjar­lægja fast­eigna­verð úr mæl­ingu neyslu­vísi­töl­unn­ar.“ Þetta er klár­lega inni í sátt­mál­anum að kröfu Fram­sókn­ar­flokks. Þess ber að geta að í tíð rík­is­stjórnar Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar var skipuð nefnd til að fjalla um afnám verð­trygg­ing­ar. Hún skil­aði skýrslu árið 2014. Verð­trygg­ing er enn til staðar og hefur ekki verið afnumin að neinu leyti.

Þar er einnig fjallað um að „skatt­rann­sóknir verða efldar sam­hliða því að vinna með aðilum vinnu­mark­að­ar­ins að ábyrg­ari vinnu­mark­að­i.“ Þar er verið að mæta kosn­inga­lof­orði Vinstri grænna um að „stór­efla skatta­eft­ir­lit og skatt­rann­sókn­ir.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar