Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þetta gerðist á árinu 2017: Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mynduð

Á árinu 2017 sátu þrír forsætisráðherrar. Í lok ársins mynduðu þeir saman ríkisstjórn eftir enn einar kosningarnar. Átta flokkar náðu inn á þing. Konum fækkaði og miðaldra körlum fjölgaði. Stjórnarsáttmálinn bar þess merki að vera mikil málamiðlun en ný ríkisstjórn nýtur þó, að minnsta kosti enn sem komið er, mikils stuðnings kjósenda.

Hvað gerðist?

Kosið var til Alþingis í annað sinn á einu ári 28. október 2017. Ástæða kosninganna var, líkt og árið áður, hneykslismál tengd ráðherrum ríkisstjórnar.

Niðurstaða kosninganna var ekki til að gera stöðuna í stjórnmálunum skýrari. Átta flokkar náðu inn á þing og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þáverandi stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir, Vinstri græn, Samfylking, Framsóknarflokkur og Píratar náðu minnsta mögulega meirihluta þingmanna og gátu myndað ríkisstjórn ef þeir vildu. Flokkarnir voru samt sem áður ekki með meirihluta atkvæða á bak við sig, tæplega 49 prósent landsmanna kusu þá.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, skipuð Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð, beið afhroð og tapaði tólf þingmönnum. Flokkarnir sem hana mynduðu höfðu 32 þingmenn en eru nú með 20. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði flestum þeirra, eða fimm, og fékk sína næst verstu kosninganiðurstöðu í sögunni og jafnaði sögulegt lágmark sitt í þingmannafjölda á 63 sæta Alþingi.

Sigurvegarar kosninganna voru Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Flokkur fólksins. Þeir flokkar komu nýir inn á þing og náðu samtals ellefu þingmönnum. Frjálslyndisbylgjan sem reið yfir í kosningunum í fyrra, og tryggði Viðreisn, Bjartri framtíð og Pírötum samtals 21 þingmann, er gengin til baka. Þeir flokkar hafa nú samtals tíu þingmenn og Björt framtíð þurrkaðist út af þingi.

Auglýsing

Miðflokkurinn og Flokkur fólksins tóku þessa ellefu þingmenn sem frjálslyndu flokkarnir tapa. Báðir eru það sem mætti kalla flokkar með róttækar og að einhverju leyti þjóðernislegar áherslur í stórum málum. Þeir tefldu fram risastórum kosningamálum sem erfitt yrði að ná saman við aðra flokka um. Og bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru að uppistöðu karlaflokkar. Þannig eru níu af ellefu þingmönnum flokkanna tveggja karlar.

Í raun má líka segja að sigurvegari kosninganna í október hafi verið karlar, og sérstaklega miðaldra karlar. Í fyrra náðu 30 konur kjöri til Alþingis og hlutfall kvenna á meðal þingmanna var 47,6 prósent. Nú eru  24 konur á nýju Alþingi en 39 karlar. Það þýðir að 38 prósent þingmanna verða konur. Hlutfall þeirra hefur ekki verið lægra eftir hrun. Hjá Sjálfstæðisflokknum, stærsta flokki landsins, er kynjahlutfall þingmanna til að mynda þannig að þar eru 12 þingmenn karlar en fjórir konur.

Hvaða afleiðingar hafði það?

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafði sett það á oddinn hjá flokki sínum að komast í ríkisstjórn í aðdraganda kosninga. Hún fékk stjórnarmyndunarumboð hjá forseta Íslands til að mynda stjórn stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra, Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokksins.

Fulltrúar flokkanna hófu formlegar viðræður í byrjun nóvember, nánar tiltekið fimmtudaginn 2. nóvember. Fyrst fór þær fram á heim­ili Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins, í Hruna­manna­hreppi. Þar var fundað fyrstu tvo daganna. Vinn­unni var síðan haldið áfram í Reykja­vík.

Á mánudagsmorgni sleit Framsóknarflokkurinn viðræðunum. Formlega skýringin var sú að forsvarsmönnum hans hafi þótt meirihluti þeirrar stjórnar sem verið var að reyna að mynda of tæpur, en hún hefði einungis haft 32 þingmenn og eins manns meirihluta.

Fulltrúar Samfylkingar og Pírata hafa þó ekki gefið mikið fyrir þessa skýringu og segja að staðið hafi til boða að taka Viðreisn inn í samstarfið ef vilji var til að styrkja það. Margir innan flokkanna eru þeirrar skoðunar í dag að hvorki Framsóknarflokkurinn né Vinstri græn hafi verið af fullum heilindum í þessum stjórnarmyndunarviðræðum. Tilgangurinn hafi verið sá að setja upp leikþátt, fara í gegnum ákveðnar hreyfingar, til að friða bakland Vinstri grænna áður en farið yrði í viðræður um myndun stjórnar með Sjálfstæðisflokknum. Þessu hafa forsvarsmenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna ávalt neitað harðlega.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stofnaði Miðflokkinn í kringum sig skömmu fyrir kosningar. Flokkurinn var án efa helsti sigurvegari þeirra, en enginn flokkur vildi, að minnsta kosti opinberlega, vinna með honum.
Mynd: Miðflokkurinn

Það breytir því ekki að næsta skref var viðræður nákvæmlega þeirra flokka, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Flokkarnir tóku sér margar vikur í viðræðurnar og undir lok nóvembermánaðar lá fyrir niðurstaða.

Hún var sú að þrír íhaldssömustu flokkarnir á Alþingi, sem þó röðuðu sér víðsvegar á hægri-vinstri kvarða stjórnmálanna, ætluðu að mynda ríkisstjórn saman í fyrsta sinn. Forsætisráðherra yrði Katrín Jakobsdóttir. Hún yrði þá önnur konan til að gegna því embætti á eftir Jóhönnu Sigurðardóttur og fyrsti formaður Vinstri grænna til að leiða ríkisstjórn. Það er líka merkilegt við þessa ríkisstjórn að á árinu 2017 sátu alls þrjár ríkisstjórnir: starfsstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og loks stjórn Katrínar Jakobsdóttur. Allir forsætisráðherrarnir sem sátu á árinu 2017 sitja nú saman í ríkisstjórn.

Stjórnarsáttmálinn bar þess merki að vera málamiðlun þriggja flokka með mjög ólíkar áherslur. Þar af leiðandi var lítið um útfærðar aðgerðir eða skýrar stefnur í honum. Þess í stað var mikill texti í sáttmálanum sem hver flokkur fyrir sig sem á aðild að ríkisstjórninni gat nýtt til að sýna að hann hafi náð helstu áherslum sínum fram. Þeim áherslum verður þó líkast til fyrst og fremst náð fram í gegnum þá ráðherrastóla sem hver flokkur fékk í sinn hlut. Helstu sameiginlegu áherslur eru þær að auka fjárfestingar í innviðum, aðallega í heilbrigðis-, mennta- og samgöngumálum.

Í sáttmálanum var skýrt kveðið á um hvert meginmarkmið ríkisstjórnarinnar sé. Þar stendur að „umfram allt er á kjörtímabilinu lögð áhersla á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og að aðgerðir tengdar vinnumarkaði skili sér í raunverulegum kjarabótum.“

Ríkisstjórnin hefur mælst með byr í seglin á fyrstu metrum starfsævi sinnar og nýtur mikils stuðnings á meðal kjósenda. Reynslan hefur þó sýnt það að slíkur byr snýst fljótt upp í andhverfu sína þegar áskoranir koma upp, líkt og þær gera alltaf. Enda hefur einungis ein þeirra rík­is­stjórna sem setið hafa frá 2007 hefur setið heilt kjör­tíma­bil, sú sem sat við nán­ast von­laus efna­hags­leg skil­yrði árin 2009 til 2013.

Þá er staða hinna hefðbundnu valdaflokka á Íslandi, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, með veikara móti. Framsóknarflokkurinn hefur fengið tvær verstu útreiðar sínar í sögunni í síðustu tveimur kosningum. Og Sjálfstæðisflokkurinn fékk, líkt og áður sagði, sína næst verstu kosningu frá því að hann varð til í kosningunum í haust. Taparar síðustu kosninga, ef Björt framtíð er undanskilin, voru því klárlega þessir tveir flokkar. Formenn þeirra virðast sitja í skjóli persónuvinsælda Katrínar. Þær gætu breyst ansi snögglega líkt og sagan hefur sýnt.

Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar