Aðstoðarmenn ráðherra hafa aldrei verið fleiri... og aldrei kostað meira
Alls hafa verið ráðnir 22 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Enn er svigrúm til að ráða þrjá í viðbót. Kostnaður við rekstur ríkisstjórnarinnar mun að öllum líkindum verða mun hærri en heimild á fjárlögum gerir ráð fyrir.
Ríkisstjórn sem í sitja ellefu ráðherrar má ráða sér 25 aðstoðarmenn. Sú sem nú situr að völdum, og hefur gert í um tvo mánuði, hefur þegar ráðið 22 slíka til starfa. Það er mesti fjöldi aðstoðarmanna sem ráðin hefur verið. Einungis tveir ráðherrar eru með einn aðstoðarmann í stað tveggja og ein staða aðstoðarmanns ríkisstjórnar er ómönnuð.
Rekstur ríkisstjórnarinnar hefur enda aldrei kostað meira en áætlað er að hann kosti í ár. Undir þann málaflokk falla laun ráðherra og aðstoðarmanna þeirra. Kostnaðurinn hefur aukist um 208 milljónir króna frá árinu 2012 og áætlað er, samkvæmt samþykktum fjárlögum, að hann verði 461 milljón króna á árinu 2018. Sú fjárheimild dugar líkast til ekki til að greiða laun ráðherra og aðstoðarmanna þeirra í ár. Samanlagt er kostnaður vegna þeirra um 560 milljónir króna á ársgrundvelli, eða um 100 milljónum krónum hærri en fjárlög gera ráð fyrir.
Ráðherrum fjölgað á undanförnum árum
Lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt árið 2011 með þeim hætti að heimild til að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra var útvíkkuð þannig að hver og einn þeirra má ráða tvo slíka. Auk þess var sett inn heimild fyrir ríkisstjórnina að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar ef þörf krefur. Í lögunum segir að „meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra.“ Ekki þarf að auglýsa aðstoðarmannastöður heldur eru þeir sem sinna þeim störfum valdir af hverjum ráðherra fyrir sig, enda oftast um að ræða nánustu samstarfsmenn ráðherra á meðan að hann gegnir embætti.
Skömmu eftir að lögunum var breytt var ráðherrum fækkað í átta, en þeir höfðu verið tólf þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum árið 2009.
Síðan hefur ráðherrum verið fjölgað aftur jafnt og þétt með hverri ríkisstjórninni og í dag eru þeir ellefu. Það þýðir að fjöldi leyfilegra aðstoðarmanna hefur líka aukist.
Aðstoðarmannakvótinn nánast fullnýttur
Níu ráðherrar eru nú með tvo aðstoðarmenn. Einu tveir sem eru bara með einn eru Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Til viðbótar við þá aðstoðarmenn sem ráðherra geta valið sér beint þá hefur ríkisstjórnin ráðið tvo af þeim þremur aðstoðarmönnum sem hún má ráða samkvæmt lögum. Annar þeirra er Lára Björg Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sem hefur starfsaðstöðu í forsætisráðuneytinu. Hinn er Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var ráðinn í stöðu aðstoðarmanns til að sinna starfi sem verkefnisstjóri við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Unnur starfar í umboði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Þegar tilkynnt var um ráðningu Unnar, sem er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og var forseti Alþingis á síðasta kjörtímabili, var haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hún muni stýra verkefninu „næstu árin“. Því er ljóst að um langtímastarf er að ræða.
Fjárheimild dugar ekki fyrir laununum
Laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra miðast við kjör skrifstofustjóra í ráðuneytum samkvæmt ákvörðunum kjararáðs.
Aðstoðarmennirnir hafa fengið duglega launahækkun á undanförnum árum. Sumarið 2016 voru laun skrifstofustjóra í ráðuneytum hækkuð um allt að 35 prósent. Eftir þá hækkun eru laun aðstoðarmanna um 1,2 milljónir króna á mánuði. Bara launakostnaður vegna aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar er því 26,4 milljónir króna á mánuði sem stendur, eða 316,8 milljónir króna á ári.
Ráðherrar hafa líka fengið umtalsverða launahækkun á undanförnum árum. Í nóvember 2015 hækkaði Kjararáð til að mynda laun ráðherra um 9,3 prósent. Árið síðar, á kjördag 2016, voru laun þeirra síðan hækkuð um 35 prósent. Eftir þá hækkun eru laun forsætisráðherra 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra 1.826.273 krónur á mánuði. Bara launakostnaður ríkisstjórnarinnar er því um 20,3 milljónir króna á mánuði, eða 243,3 milljónir króna á mánuði.
Samkvæmt þessu er kostnaður ríkisins vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra, 560,1 milljón króna á ári. Sú fjárheimild sem er til staðar vegna reksturs ríkisstjórnarinnar í fjárlögum mun því að öllum líkindum ekki duga fyrir greiðslu launa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra á árinu 2018.