Birgir Þór Harðarson

Aðstoðarmenn ráðherra hafa aldrei verið fleiri... og aldrei kostað meira

Alls hafa verið ráðnir 22 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Enn er svigrúm til að ráða þrjá í viðbót. Kostnaður við rekstur ríkisstjórnarinnar mun að öllum líkindum verða mun hærri en heimild á fjárlögum gerir ráð fyrir.

Rík­is­stjórn sem í sitja ell­efu ráð­herrar má ráða sér 25 aðstoð­ar­menn. Sú sem nú situr að völd­um, og hefur gert í um tvo mán­uði, hefur þegar ráðið 22 slíka til starfa. Það er mesti fjöldi aðstoð­ar­manna sem ráðin hefur ver­ið. Ein­ungis tveir ráð­herrar eru með einn aðstoð­ar­mann í stað tveggja og ein staða aðstoð­ar­manns rík­is­stjórnar er ómönn­uð.

Rekstur rík­is­stjórn­ar­innar hefur enda aldrei kostað meira en áætlað er að hann kosti í ár. Undir þann mála­flokk falla laun ráð­herra og aðstoð­ar­manna þeirra. Kostn­að­ur­inn hefur auk­ist um 208 millj­ónir króna frá árinu 2012 og áætlað er, sam­kvæmt sam­þykktum fjár­lög­um, að hann verði 461 milljón króna á árinu 2018. Sú fjár­heim­ild dugar lík­ast til ekki til að greiða laun ráð­herra og aðstoð­ar­manna þeirra í ár. Sam­an­lagt er kostn­aður vegna þeirra um 560 millj­ónir króna á árs­grund­velli, eða um 100 millj­ónum krónum hærri en fjár­lög gera ráð fyr­ir.

Ráð­herrum fjölgað á und­an­förnum árum

Lögum um Stjórn­ar­ráð Íslands var breytt árið 2011 með þeim hætti að heim­ild til að fjölga aðstoð­ar­mönnum ráð­herra var útvíkkuð þannig að hver og einn þeirra má ráða tvo slíka. Auk þess var sett inn heim­ild fyrir rík­is­stjórn­ina að ráða þrjá aðstoð­ar­menn til við­bótar ef þörf kref­ur. Í lög­unum segir að „meg­in­hlut­verk aðstoð­ar­manns ráð­herra er að vinna að stefnu­mótun á mál­efna­sviði ráðu­neytis undir yfir­stjórn ráð­herra og í sam­vinnu við ráðu­neyt­is­stjóra.“ Ekki þarf að aug­lýsa aðstoð­­ar­­manna­­stöður heldur eru þeir sem sinna þeim störfum valdir af hverjum ráð­herra fyrir sig, enda oft­­ast um að ræða nán­­ustu sam­­starfs­­menn ráð­herra á meðan að hann gegnir emb­ætti.

Skömmu eftir að lög­unum var breytt var ráð­herrum fækkað í átta, en þeir höfðu verið tólf þegar rík­is­stjórn Sam­fylk­ingar og Vinstri grænna tók við völdum árið 2009.

Síðan hefur ráð­herrum verið fjölgað aftur jafnt og þétt með hverri rík­is­stjórn­inni og í dag eru þeir ell­efu. Það þýðir að fjöldi leyfi­legra aðstoð­ar­manna hefur líka auk­ist.

Aðstoð­ar­manna­kvót­inn nán­ast full­nýttur

Níu ráð­herrar eru nú með tvo aðstoð­ar­menn. Einu tveir sem eru bara með einn eru Guð­laugur Þór Þórð­ar­son utan­rík­is­ráð­herra og Lilja Alfreðs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra.

Til við­bótar við þá aðstoð­ar­menn sem ráð­herra geta valið sér beint þá hefur rík­is­stjórnin ráðið tvo af þeim þremur aðstoð­ar­mönnum sem hún má ráða sam­kvæmt lög­um. Annar þeirra er Lára Björg Björns­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem hefur starfs­að­stöðu í for­sæt­is­ráðu­neyt­inu. Hinn er Unnur Brá Kon­ráðs­dótt­ir, sem var ráð­inn í stöðu aðstoð­ar­manns til að sinna starfi sem verk­efn­is­stjóri við end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­inn­ar. Unnur starfar í umboði Katrínar Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra.

Þegar til­kynnt var um ráðn­ingu Unn­ar, sem er fyrr­ver­andi þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og var for­seti Alþingis á síð­asta kjör­tíma­bili, var haft eftir Katrínu Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra að hún muni stýra verk­efn­inu „næstu árin“. Því er ljóst að um lang­tíma­starf er að ræða.

Fjár­heim­ild dugar ekki fyrir laun­unum

Laun og starfs­kjör aðstoð­ar­manna ráð­herra mið­ast við kjör skrif­stofu­stjóra í ráðu­neytum sam­kvæmt ákvörð­unum kjara­ráðs.

Aðstoð­ar­menn­irnir hafa fengið dug­lega launa­hækkun á und­an­förnum árum. Sum­arið 2016 voru laun skrif­stofu­stjóra í ráðu­neytum hækkuð um allt að 35 pró­sent. Eftir þá hækkun eru laun aðstoð­­ar­­manna um 1,2 millj­­ónir króna á mán­uði. Bara launa­kostn­aður vegna aðstoð­ar­manna rík­is­stjórn­ar­innar er því 26,4 millj­ónir króna á mán­uði sem stend­ur, eða 316,8 millj­ónir króna á ári.

Ráð­herrar hafa líka fengið umtals­verða launa­hækkun á und­an­förnum árum. Í nóv­­em­ber 2015 hækk­­aði Kjara­ráð til að mynda laun ráð­herra um 9,3 pró­­sent. Árið síð­­­ar, á kjör­dag 2016, voru laun þeirra síðan hækkuð um 35 pró­­sent. Eftir þá hækkun eru laun for­­sæt­is­ráð­herra 2.021.825 krónur á mán­uði og laun ann­­arra ráð­herra 1.826.273 krónur á mán­uði. Bara launa­kostn­aður rík­is­stjórn­ar­innar er því um 20,3 millj­ónir króna á mán­uði, eða 243,3 millj­ónir króna á mán­uði.

Sam­kvæmt þessu er kostn­aður rík­is­ins vegna launa ráð­herra og aðstoð­ar­manna þeirra, 560,1 milljón króna á ári. Sú fjár­heim­ild sem er til staðar vegna rekst­urs rík­is­stjórn­ar­innar í fjár­lögum mun því að öllum lík­indum ekki duga fyrir greiðslu launa ráð­herra og aðstoð­ar­manna þeirra á árinu 2018.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar