Pexels - Open source myndasöfn

Engar nýjar sprungur í glerþakinu – Heimsmeistari í jafnrétti heldur konum frá peningum

Karlar stýra peningum á Íslandi, og þar með ráða þeir hvaða hugmyndir fá að verða að veruleika. Fyrir hverja níu karla sem sitja í æðstu stjórnendastöðum í íslenskum peningaheimi er einungis ein kona í sambærilegri stöðu. Staðan hefur ekkert lagast á síðustu fimm árum þrátt fyrir lagabreytingar og mikla opinbera áherslu á jafnan hlut kynjanna.

Ísland stærir sig af því að vera leiðandi ríki í heimunum þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Einskonar heimsmeistari í jafnrétti. Hér á landi hafa verið sett lög til að jafna hlut kynjanna í stærri fyrirtækjum og í fyrra var samþykkt jafnlaunavottun. Unnið hefur verið að kynjaðri fjárlagagerð frá árinu 2009 og hvergi í heiminum ríkir meira jafnrétti á vinnumarkaði samkvæmt úttektum.

Í stjórnmálum hafa jafnréttismál færst frá því að vera jaðarstefna yfir því að vera hluti af meginstraumi og, að minnsta kosti í orði, á meðal helstu stefnumála allra stærstu stjórnmálaflokkanna. Óleiðréttur launamunur kynjanna er enn 16,1 prósent körlum í hag, og þeir eru enn tvisvar sinnum líklegri til að vera með yfir milljón krónur á mánuði í laun, en bilið er sífellt að minnka.

Íslenskir ráðamenn þeytast um heiminn á ráðstefnur á vegum mikilvægra alþjóðastofnana og tala um hvað við sem þjóð séum meðvituð um jafnrétti kynjanna, og hvernig við séum að beita okkur umfram aðrar þjóðir til að ná því markmiði.

En það er eitt svið sem konur eru sjaldséðar á. Mikilvægt svið sem tryggir umtalsvert völd og áhrif á samfélagið. Þar sem sýslað er með þúsundir milljarða króna og ákvarðanir teknar um hverjir fái tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika og hverjir ekki.

Það svið er íslenski fjármálageirinn. Karlar stýra nefnilega nánast öllum peningum á Íslandi. Og hafa alltaf gert það.

Niðurstöður úttektarinnar birtust einnig í Mannlífi sem kom út í dag, 16. febrúar.

Nýtt ár, sama niðurstaða

Ný úttekt Kjarnans sýnir að karlar sitja nánast einir að stýringu fjármagns á Íslandi. Af 90 æðstu stjórnendum viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða eru 81 karlar og níu konur. Ein konan mun auk þess, að öllum líkindum, láta af störfum í nánustu framtíð og þar með verða þær átta. Ofangreindur hópur stýrir þúsundum milljarða króna.

Það að fyrir hverja níu karla sem stýri peningum á Íslandi sé ein kona er ekki nýtt af nálinni. Þannig hefur staðan verið árum saman.

Kjarninn hefur framkvæmt úttektina síðastliðinn fimm ár. Þegar hún var fram­kvæmd fyrst, í febr­úar 2014, voru störfin sem hún náði yfir 88 tals­ins. Þá sátu 82 karlar í þeim störfum en sex kon­ur.  Árið 2015 voru störfin 87, karl­arnir 80 og kon­urnar sjö. 2016 voru störfin 92, karlarnir 85 og konurnar sjö. Í fyrra var niðurstaðan nánast nákvæmlega sú sama og í ár, 80 karlar og átta konur.

Fjölgun kvenna í stjórnum skilar sér ekki

Lög um kynja­kvóta í stjórnum fyr­ir­tækja tóku að fullu gildi hér á landi í sept­­em­ber 2013 og sam­­kvæmt þeim ber fyr­ir­tækjum með 50 eða fleiri starfs­­menn að tryggja að hlut­­fall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 pró­­sent­­um. Árið eftir það náði hlut­­fall kvenna í stjórnum fyr­ir­tækja af þess­­ari stærð hámarki, fór upp í 33,2 pró­­sent, en hefur síðan farið lækk­­andi aft­­ur. Í árslok 2016 var hlutfallið til að mynda 32,3 prósent.

Hlutfall karla og kvenna sem stýra peningum á Íslandi:
2014: 82 karlar 6 konur
2015: 80 karlar 7 konur
2016: 85 karlar 7 konur
2017: 80 karlar 8 konur
2018: 81 karlar 9 konur

Það er því ljóst að setning þeirra laga hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Og úttekt Kjarnans sýnir svart á hvítu að fjölgun kvenna í stjórnum stærri fyrirtækja hefur ekki skipt neinu máli varðandi fjölgun í lykilstöður í fjármálageiranum.

Ástandið verst hjá verðbréfafyrirtækjum

Hjá viðskiptabönkunum fjórum er kynjahlutfallið jafnt, en karl stýrir síðan Íbúðalánasjóði sem er stórtækur lánveitandi á húsnæðismarkaði. Hjá þeim fjórum sparisjóðum sem enn eru starfandi er þremur stýrt af körlum og öllum fimm lánafyrirtækjum landsins er stýrt af körlum utan Lykils, þar sem konan Lilja Dóra Halldórsdóttir situr við stjórnvölinn.

Fyrir hverja níu karla sem stýra peningum á Íslandi er ein kona.

Staða kvenna er verst þegar kemur að verðbréfafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfasjóða. Þar er um að ræða milliliði sem taka við hundruð milljónum króna af fjárfestum, sérstaklega lífeyrissjóðum, og fjárfesta fyrir það fé.

Alls eru átján verðbréfafyrirtæki eða rekstrarfélög verðbréfasjóða skráð eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Þeim eru öllum stýrt af körlum. Og þegar litið er yfir starfsmannalistann er ljóst að kynjahlutfallið lagast ekki mikið þegar neðar í skipuritið er komið.

Forstjóri Kauphallar Íslands er karl, kaupfélagsstjórinn sem stýrir einu innlánsdeild samvinnufélags er karl, forstjóri eina óskráða tryggingafélagsins er karl, einungis ein kona er á meðal æðstu stjórnenda sex innheimtuaðila og greiðslustofnana, tveimur stærstu leigufélögum landsins sem rekin eru með hagnaðarsjónarmið er stýrt af einni konu og einum karli og allir forstjórar orkufyrirtækja landsins eru karlar.

Þá eru allir æðstu stjórnendur skráðra fyrirtækja á Íslandi, hvort sem þau eru skráð á aðalmarkað eða First North, karlar.

Lífeyrissjóðunum stýrt af körlum

Áhrifa­mestu leik­end­urnir á íslenskum fjár­mála­mark­aði eru líf­eyr­is­sjóð­irnir landsmanna. Þeir eru alls 24, þótt sumir séu saman í stýringu. Alls eru greiðendur í sjóðina 250 þúsund. Samkvæmt nýj­ustu hag­tölum Seðla­banka Íslands var hrein eign þeirra 3.892 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót.

Líf­eyr­is­sjóð­irn­ir eru allt um lykj­andi í íslensku við­skipta­lífi. Þeir eiga um þriðj­ung af heild­ar­fjár­munum á Íslandi og spár gera ráð fyrir að eign­ar­hlutur þeirra muni aukast á næstu árum. Er gert er ráð fyrir því að sjóð­irnir skili 3,5 pró­sent raun­á­vöxtun á ári mun hlutur þeirra í heild­ar­fjár­muna­eign á Íslandi fara í 35 pró­sent árið 2030 og í tæp 40 pró­sent árið 2060. Þeir hafa stækkað mjög hratt á fáum árum og og áttu árið 2016 70 pró­sent allra mark­aðs­skulda­bréfa og víxla á Íslandi ásamt því að eiga 41 pró­sent allra skráðra hluta­bréfa í íslensku kaup­höll­inni.  

Úttekt Kjarn­ans í ár náði til 17 stjórn­enda líf­eyr­is­sjóða sem sumir hverjir stýra fleiri en einum sjóði. Af þessum 17 eru 15 karlar en tvær kon­ur. Þrír stærstu sjóð­irnir stýra um 50 pró­sent af fjár­magn­inu sem er til staðar í íslenska líf­eyr­is­sjóða­kerf­inu. Þeim er öllum stýrt af körl­um.Þarf 35 kvenkyns forsætisráðherra í röð til að jafna stöðuna

Á Íslandi búa 170.910 konur. Þær eru 49 prósent þjóðarinnar. Framan af lýðveldistímanum hallaði mjög á hlut kvenna að flestu leyti. Þeirra hlutverk var talið vera á heimilinu og stjórnkerfi samfélagsins gerðu beinlínis ráð fyrir því. Með vitundarvakningu og ötulli jafnréttisbaráttu hefur þessi staða breyst mikið á undanförnum áratugum.

Í fyrra sátu til að mynda 30 konur á Alþingi og höfðu aldrei verið fleiri. Sú staða breyttist í kosningunum í haust þegar kjörnum konum fækkaði í 24. Kynjaskiptingin er mjög misjöfn eftir flokkum. Þrír flokkar eru með mun fleiri karla í sínu þingliði en konur. Þar ber fyrst að nefna Miðflokkinn. Sex þingmenn hans eru karlar en einungis ein kona situr á þingi fyrir þann flokk. Fjórir af fimm þingmönnum Flokks fólksins eru karlar en aðeins ein kona. Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins er ekki langt undan. Í þingflokki hans eru þrettán karlar og fjórar konur.

Í ríkisstjórn er kynjahlutfallið líka körlum í hag. Þar sitja sex karlar og fimm konur. Forsætisráðherra er hins vegar konan Katrín Jakobsdóttir. Það er í annað sinn í lýðveldissögunni sem kona situr í því embætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sigurðardóttir sem var forsætisráðherra 2009-2013.

Katrín fjallaði um þessa stöðu í ræðu sinni á Viðskiptaþingi í vikunni. Þar sagði hún m.a.: „Mörgum erlendum fjölmiðlum finnst mjög merkilegt að ég sé kvenkyns og virðast þeir halda að þar með sé Ísland einhvers konar jafnréttisparadís. Þessir ágætu karlkyns fjölmiðlamenn verða alltaf mjög kúnstugir í framan þegar ég bendi þeim á að til þess að það geti orðið réttnefni þyrftum við helst að fá svona um það bil 35 konur í röð sem forsætisráðherra. Þeim finnst ég greinilega frek til fjárins. Enda kona en eins og allar konur í salnum vita er allt best þegar þær taka ekki of mikið pláss og gera bara það sem til er ætlast af þeim. Eða þannig.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar