Mynd: Birgir Þór Harðarson losun-gjaldeyrishafta_18598737202_o.jpg

Segist ekki hafa nýtt sér trúnaðarupplýsingar í starfi sínu fyrir Kaupþing

Benedikt Gíslason var lykilmaður í framkvæmdarhópi um afnám hafta og kom að gerð stöðugleikasamninga við kröfuhafa föllnu bankanna. Hann starfar nú sem ráðgjafi Kaupþings. Benedikt segir að hann hafi ekki nýtt sér trúnaðarupplýsingar í því starfi. Hann segist ekki geta gefið upp hversu háar greiðslur hann fær fyrir starf sitt fyrir Kaupþing.

Benedikt Gíslason, ráðgjafi Kaupþings við sölu hlutabréfa félagsins í Arion banka, segir að hann hafi ekki nýtt sér upplýsingar sem hann fékk á meðal að hann starfaði fyrir framkvæmdahóp um afnám hafta og við gerð stöðugleikaskilyrða í starfi sínu fyrir Kaupþing ehf. Hann hafi undirritað trúnaðaryfirlýsingu vegna þeirra starfa og samkvæmt henni hafi honum verið óheimilt að nýta þær upplýsingar í núverandi starfi hans. Benedikt segir enn fremur, í svari við fyrirspurn Kjarnans, að hann geti ekki upplýst um hversu háar greiðslur hann fái fyrir starf sitt fyrir Kaupþing. Það sé trúnaðarmál.

Benedikt starfaði um tíma sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og var síðar efnahagsráðgjafi hans. Þá var Benedikt einn þeirra sérfræðinga sem var skipaður í framkvæmdahóp við losun fjármagnshafta á árinu 2014.  Vinnu þess hóps lauk með því að samkomulag var gert við kröfuhafa föllnu bankanna um að mæta stöðugleikaskilyrðum. Það samkomulag gerði kröfuhöfunum kleift að klára gerð nauðasamninga allra slitabúa föllnu bankanna þriggja. Í kjölfarið var búunum breytt í eignarhaldsfélög utan um eftirstandandi eignir þeirra. Eitt þeirra félaga er Kaupþing ehf., en nauðasamningur slitabús þess banka var samþykktur 15. desember 2015. Nokkrum mánuðum eftir að vinnu Benedikts fyrir framkvæmdahópinn lauk var hann ráðinn í ráðgjafastarf hjá Kaupþingi. Helsta eftirstandandi eign Kaupþings er stór eignarhluti í Arion banka, stærsta banka landsins.

Stjórnmálamenn hafa áhyggjur af stöðu Benedikts

Staða Benedikts hefur verið töluvert rædd á hinum pólitíska vettvangi, bæði opinberlega og óformlega. Margir stjórnmálamenn sem Kjarninn hefur rætt við, bæði innan stjórnarliðsins og á meðal stjórnarandstæðinga, hafa gert miklar athugasemdir við það að lykilmaður í samningaviðræðunum við kröfuhafa sem leiddu til samninga um stöðugleikaskilyrði, sé nú að starfa fyrir sömu kröfuhafa og hann var áður að semja við. Þá hafa þeir miklar áhyggjur af því að Benedikt hafi mikla persónulega fjárhagslega hagsmuni af því að Kaupþingi takist að hámarka ávinning sinn af sölu eignarhluta í Arion banka.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, tók málið fyrir í óundirbúnum fyrirspurna í lok mars 2017, þar sem hún beindi fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, sem þá var forsætisráðherra. í ræðu sinni sagði Oddný: „Eitt af því sem fólst í vinnu Benedikts var að koma að gerð stöðugleikaskilyrða, reglna um hvernig kröfuhafar föllnu bankanna geta farið með hundruð milljarða króna eignir sínar frá Íslandi. Benedikt vinnur nú fyrir kröfuhafa Kaupþings sem eru stærstu eigendur Arion banka og starfar því núna fyrir þá aðila sem stöðugleikaskilyrðin voru m.a. sniðin að.[...]Benedikt er bundinn trúnaði við Kaupþing. En er hann bundinn trúnaði um þá vitneskju sem hann aflaði sér sem ráðgjafi og aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra? Ég spyr hæstv. forsætisráðherra um það og við hvern ráðningarsamband Benedikts var þegar hann vann sem ráðgjafi fyrir ríkisstjórnina í verkefnum tengdum losun hafta. Var honum ekki gert óheimilt í þeim ráðningarsamningi að vinna fyrir gagnaðilana nema að einhverjum tíma liðnum og hversu langur var þá sá tími? Benedikt hefur sjálfur neitað að svara því hvort hann sé vanhæfur til að starfa fyrir kröfuhafana. Hvert er álit hæstv. forsætisráðherra á því?“

Bjarni svaraði því til að að hefði ekki nýlega skoðað þá samninga sem gerðir höfðu verið við þá einstaklinga sem sinntu slíku starfi fyrir hönd stjórnvalda. „En mig rekur ekki minni til þess að þar sé kveðið á um að einhverjar takmarkanir séu á því hvað menn geti farið að fást við eftir að samningssambandinu lýkur[...]Í sjálfu sér á ég mjög erfitt með að sjá hvernig það er hætta á hagsmunaárekstrum vegna þessarar stöðu í ljósi þess að verkefninu er lokið og það liggur fyrir hver niðurstaða málsins var.“

Oddný kom aftur í pontu og sagði það eðlilegt að upp vakni spurningar um hvort Benedikt hefði verið ráðinn til starfa fyrir Kaupþing vegna vinnu hans fyrir stjórnvöld. Hún spurði Bjarna enn fremur hvort Benedikt hefði á þeim tíma sem hann vann fyrir hann haft aðfanga að trúnaðarupplýsingum, t.d. varðandi samningsmarkmið Íslands, útfærslur og tímasetningar.

Bjarni sagði að þeir sem voru að vinna við stöðugleikaskilyrðin hefðu að sjálfsögðu haft „mikið magn af trúnaðarupplýsingum“.

Taka tvö

Oddný tók málið aftur upp í óundirbúnum fyrirspurnum á þingi á fimmtudag, 22. febrúar 2018. Þá sagði hún að það væri „hneyksli að þessi sami aðstoðarmaður vinni nú fyrir Kaupþing og stærstu eigendur Arion banka. Þá sem stöðugleikaskilyrðin voru sniðin að. Það sem meira er, aðstoðarmaðurinn hóf störf fyrir þá aðila aðeins nokkrum vikum eftir að hann hætti störfum sem aðstoðarmaður hæstv. ráðherra.“ Hún spurði svo hvort Bjarna þætti það eðlilegt að fyrrverandi aðstoðarmaður hans geti eina stundina unnið með viðkvæmar trúnaðarupplýsingar fyrir hið opinbera en stuttu seinna farið að vinna fyrir þá aðila sem hafa augljóslega mikla hagsmuni af því að sýsla með þær sömu upplýsingar. „ Gerði hæstv. ráðherra enga kröfu um að aðstoðarmaðurinn sem starfaði í umboði hans færi ekki að vinna fyrir sömu kröfuhafa og hann var að kljást við fyrir hæstv. ráðherra? Telur hæstv. ráðherra ekki augljóslega að starfsmaður sem býr yfir slíkum upplýsingum sé afskaplega verðmætur starfsmaður fyrir Kaupþing? Hvað gerði hæstv. ráðherra til að koma í veg fyrir að mögulegir hagsmunaárekstrar ættu sér stað?“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur tvívegis spurt Bjarna Benediktsson út í stöðu Benedikts úr ræðustóli Alþingis.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Bjarni svaraði því til að Oddný væri að dylgja um að farið væri illa með trúnaðarupplýsingar sem mönnum hefði verið treyst fyrir. Hann bað Oddnýju í kjölfarið að færa einhver rök fyrir máli sínu. „Það sem var verkefni umrædds starfsmanns eru opinberar upplýsingar í dag. Það er ekkert sem leiddi af störfum hans eða þeirra sem tóku þátt í þeirri vinnu, og það voru fjölmargir aðilar — það er allt saman bundið í samninga sem m.a. voru lagðir fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd í vikunni. En um hvað hv. þingmaður er að dylgja átta ég mig ekki á, hún verður að gera betur grein fyrir því hér.“

Oddný neitaði því að hún væri að dylgja um nokkurn skapaðan hlut. „Sú ákvörðun að fara aðra leið með Arion banka en Íslandsbanka var tekin að kröfu sjálfstæðismanna, að sögn fyrrum samstarfsmanns hæstv. ráðherra í ríkisstjórn, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sporin hræða þegar kemur að fjármálakerfinu og aðkomu Sjálfstæðismanna. Allt ferlið þarf að vera gegnsætt og opið. En það er það ekki. Söluferli Arion banka er óljóst. Samningar við ríkið hafa ekki allir verið gerðir opinberir. Við vitum ekki hverjir eiga vogunarsjóðina. Er ekki kominn tími til að við hættum þessu pukri og fúski og viðurkennum að það vinnur gegn hagsmunum almennings? Getur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að minnsta kosti ekki verið sammála mér um það?“

Bjarni hafnaði því að um pukur og fúsk væri að ræða. Þegar stöðugleikasamningarnir séu skoðaðir sé ekki annað hægt en að segja: „ Bravó, þetta gekk 100 prósent upp.“

Segist ekki hafa rætt nýja starfið við stjórnmálamenn

Benedikt segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að honum hafi verið boðið ráðgjafahlutverk hjá Kaupþingi í lok ágúst 2016. Hann hafi síðan verið kjörinn í stjórn félagsins í nóvember sama ár. Aðspurður hvort hann hafi rætt það við fyrrverandi yfirmann sinn, Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, hvort viðeigandi væri að hann tæki slíkt starf að sér svarar Benedikt því neitandi. Hann segist heldur ekki hafa rætt það við aðra stjórnmála- eða embættismenn.

Benedikt segir að ráðgjafahlutverk hans fyrir Kaupþing snúi að sölu hlutabréfa þess í Arion banka. „Um hlutverk Kaupþings við sölu hlutbréfanna, afrakstur þeirrar sölu og ráðstöfun á u.þ.b. 70 prósent söluandvirðisins til ríkissjóðs með greiðslu stöðugleikaframlags voru gerðir sérstakir samningar milli Seðlabanka Íslands, Kaupþings og Kaupskila sem samningsaðilar starfa eftir í dag. Samningagerð fyrir hönd íslenskra stjórnvalda var á forræði Seðlabanka Íslands.“

Benedikt ásamt Sigurði Hannessyni, sem einnig sat í framkvæmdahópnum þegar greinargerð Seðlabanka Íslands um stöðugleikasamninganna var kynnt í lok október 2015.
Mynd: Birgir Þór HarðarsonAð sögn Benedikts hefur hann ekki ekki nýtt sér upplýsingar sem hann fékk á meðal að hann starfaði fyrir framkvæmdahóp um afnám hafta og við gerð stöðugleikaskilyrða í starfi sínu fyrir Kaupþing. Hann, líkt og aðrir í hópnum,  undirrituðu trúnaðaryfirlýsingu vegna þeirra starfa og samkvæmt henni var þeim óheimilt að nýta þær upplýsingar utan starfa hópsins.

Í trún­­að­­ar­yf­­ir­lýs­ingunni kom fram hversu við­­kvæmar upp­­lýs­ing­­arnar  væru og hversu mik­il­vægt það væri fyrir sér­­fræð­ing­anna sem í hópnum sátu að halda trúnað um þær.

Brjóti þeir gegn þeim trún­­aði eða mis­­noti upp­­lýs­ing­­arnar með ein­hverjum hætti gæti það verið talið sak­­næmt athæfi, og við­kom­andi gæti verið ákærður fyrir vik­ið.

Trúnaður um samningssamband við Kaupþing

Hópur lykilstarfsmanna Kaupþings á rétt á bónusgreiðslu ef markmið um hámörkun á virði óseldra eigna þeirra næst. Þær greiðslur eiga að greiðast út í síðasta lagi í lok apríl. Benedikt segir að hann sé ekki á meðal þeirra sem fái slíka greiðslu. „Ég er stjórnarmaður í Kaupþingi og ráðgjafi en ekki starfsmaður Kaupþings og er því  ekki í hópi umræddra starfsmanna. Eins og fram kom í fjölmiðlum á sínum tíma ná ofangreindar greiðslur ekki til stjórnar og annarra æðstu stjórnenda Kaupþings. Þá staðfesti Kaupþing við fjölmiðla að allir starfsmenn félagsins geti átt von á sérstökum greiðslum ef markmið um hámörkun á virði óseldra eigna næst en greiðslurnar nái ekki til stjórnar og annarra æðstu stjórnenda Kaupþings.  Að auki liggur ekki fyrir hvernig tekst að ná markmiðum um hámörkun á virði óseldra eigna og því ótímabært að segja til um hverjar þessar sérstöku greiðslur til allra starfsmanna verða.​“

Aðspurður um hversu háar greiðslur hann muni fá vegna ráðgjafastarfa sinna vegna sölu hlutabréfa í Arion banka segir Benedikt að hann geti ekki svarað þeirri spurningu. „Trúnaður gildir um samningssamband mitt við Kaupþing.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar