Meðallaun forstjóra í Kauphöllinni eru 4,7 milljónir á mánuði
Laun forstjóra í Kauphöllinni hafa flest hækkað mikið á undanförnum árum. Í flestum tilfellum nemur launahækkunin margföldum lágmarkslaunum. Meðal forstjórinn er með tæplega 17föld lágmarkslaun.
Fjórir formenn verkalýðs- og stéttarfélaga sendu í gær frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir fordæmdu launahækkun forstjóra N1, sem hækkaði um eina milljón króna á mánuði á síðasta ári og er nú með 5,9 milljónir króna í mánaðarlaun, og sögðu laun hans jafngilda launum 22 afgreiðslumanna hjá félaginu. Þeir skoruðu á stjórnendur N1 að veita starfsfólki sínu sambærilegar kjarabætur tafarlaust
N1 er, eins og flest félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands, að stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Þeir eiga, beint eða óbeint, um helming allra skráðra hlutabréfa hérlendis. Þrýstingur hefur skapast á sjóðina að grípa inn í launaþróun æðstu stjórnenda félaga sem þeir eiga stóran hlut í, þar sem hún sendi verstu mögulegu skilaboð sem hægt sé að senda inn í komandi kjaraviðræður venjulegs launafólks. Enn sem komið er hafa lífeyrissjóðirnir ekki brugðist við með neinum hætti.
Í þessu sambandi má benda á að lágmarkslaun á Íslandi eru 280 þúsund krónur á mánuði og miðgildi heildarlauna hérlendis árið 2016 voru 583 þúsund krónur á mánuði, sem þýðir að helmingur launamanna var með laun undir þeirri upphæð á því ári. Það ár var fjórðungur launamanna með 470 þúsund krónur eða minna í heildarlaun og tíundi hver launamaður með lægri laun en 381 þúsund krónur fyrir fullt starf.
Það eru alls 16 forstjórar yfir félögunum sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað. Þeir eru allir karlar. Kjarninn tók saman launakjör þeirra úr birtum ársreikningum og hvernig þau hafa þróast á undanförnum árum. Niðurstaðan er sú að meðal Kauphallar-forstjórinn er með 4,7 milljónir króna í mánaðarlaun. Það eru tæplega 17föld lágmarkslaun.
Fjarskiptafélög
Orri Hauksson, forstjóri Símans, hækkaði laun sín um 12,4 prósent milli ára. Hann var með um fjórar milljónir króna á mánuði í laun í fyrra. Laun hans voru ekki gefin upp sérstaklega í ársreikningi Símans fyrir árið 2014 en ári síðar, 2015, var hann með tæplega 3,4 milljónir króna á mánuði. Mánaðarlaun hans höfðu því hækkað um 600 þúsund krónur á tveimur árum.
Hjá hinu fjarskiptafyrirtækinu sem skráð er á markað, Fjarskiptum, situr Stefán Sigurðsson í forstjórastólnum. Hann er með töluvert hærri laun en Orri, eða tæpar 4,7 milljónir króna á mánuði í fyrra. Laun hans lækkuðu hins vegar lítillega í fyrra. Stefán var með tæplega 3,2 milljónir króna á mánuði í laun árið 2014 þegar hann tók við starfinu. Síðan þá hafa mánaðarlaun hans því hækkað um 1,5 milljón króna.
Eldsneytissalar
Tveir eldsneytissalar eru skráðir í Kauphöllina. Annar þeirra er Skeljungur. Forstjóraskipti urðu þar seint á síðasta ári þegar Valgeir Baldursson var settur til hliðar og Hendrik Egholm tók við starfinu. Hann hafði áður verið framkvæmdastjóri P/F Magn, dótturfélags Skeljungs í Færeyjum. Árið 2016 var Hendrik með hærri laun en Valgeir þrátt fyrir að vera í raun undirmaður hans. Hann var þá með 48 milljónir króna í árslaun og því fjórar milljónir króna í laun á mánuði. Valgeir fékk hins vegar 44 milljónir króna í heildarlaun það árið, eða tæplega 3,7 milljónir króna á mánuði.
Það hefur hins vegar kostað skildinginn fyrir Skeljung að segja Valgeiri upp. Gjaldfærð laun til hans vegna síðasta árs, og vegna starfsloka hans, voru 104 milljónir króna. Það útleggst sem 8,7 milljónir króna á mánuði en vert er að taka fram að umtalsverður hluti af greiðslum til hans voru ógreiddar í lok árs 2017 þrátt fyrir að þær hefðu verið gjaldfærðar. Hendrik hækkað í launum milli ára um 12,5 prósent og var með 54 milljónir króna í heildarlaun, eða 4,5 milljónir króna á mánuði.
Hinn eldsneytissalinn sem skráður er á markað er N1. Þar er forstjórinn Eggert Þór Kristófersson. Hann var með tæpar 5,9 milljónir króna á mánuði í laun á síðasta ári. Heildarlaun hans á því ári námu 70,5 milljónum króna og hækkuðu um rúmlega 12 milljónir króna á árinu, eða um eina milljón króna á mánuði. Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun mars 2015 sagði Eggert Þór að það sæist í ársskýrslu félagsins að hann væri „ódýri forstjórinn“. Laun hans fyrsta árið sem hann sat í stóli forstjóra voru lægri en laun fyrirrennara sín. Heildarlaun hans á því ári voru 43,8 milljónir króna, eða tæplega 3,7 milljónir króna á mánuði. Í fyrra höfðu mánaðarlaun Eggerts Þórs hins vegar hækkað um 2,2 milljónir króna á tveimur árum og heildarlaun hans á ári um 26,7 milljónir króna á sama tíma.
Fasteignafélög
Þrjú fasteignafélög eru skráð í Kauphöllina. Forstjóri Eikar er Garðar Hannes Friðjónsson. Laun hans hækkuðu um tvær milljónir króna á milli ára og heildarlaun hans voru 36 milljónir króna árið 2017. Það gera þrjár milljónir króna á mánuði.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, lækkaði umtalsvert í launum í fyrra og var með 33,2 milljónir króna í heildarlaun. Það þýðir að mánaðarlaun hans voru tæplega 2,8 milljónir króna.
Sá forstjóri fasteignafélags sem var með hæstu mánaðarlaunin í fyrra var Guðjón Auðunsson hjá Reitum. Heildarlaun hans hækkuðu um 12,1 prósent á milli ára og voru 44,4 milljónir króna árið 2017. Það gera 3,7 milljónir króna á mánuði.
Tryggingafélög
Þrjú tryggingafélög eru skráð á markað. Eitt þeirra er Sjóvá þar sem Hermann Björnsson situr í forstjórastólnum. Laun Hermanns hækkuðu samtals um 2,9 milljónir króna í fyrra, eða um rúm sex prósent. Heildarlaunin það árið voru 49,8 milljónir króna og mánaðarlaunin því tæplega 4,2 milljónir króna. Árið 2014 var Hermann með 39,2 milljónir króna í heildarlaun, eða 3,3 milljónir króna á mánuði. Mánaðarlaunin hafa því hækkað um rúmlega 900 þúsund krónur á þremur árum.
Mánaðarlaun forstjóra í Kauphöllinni Íslands:
- Árni Oddur Þórðarson 7,8 milljónir á mánuði
- Finnur Árnason 6,4 milljónir króna á mánuði*
- Eggert Kristófersson 5,9 milljónir á mánuði
- Helgi Bjarnason 5,9 milljónir á mánuði**
- Gylfi Sigfússon 5,6 milljónir króna á mánuði
- Stefán Sigurðsson 4,7 milljónir á mánuði
- Björgólfur Jóhannsson 4,6 milljónir króna á mánuði
- Hendrik Egholm 4,5 milljónir á mánuði
- Sigurður Viðarsson 4,3 milljónir á mánuði
- Vilhjálmur Vilhjálmsson 4,2 milljónir á mánuði
- Hermann Björnsson 4,2 milljónir á mánuði
- Orri Hauksson fjórar milljónir á mánuði
- Finnur Oddsson 3,8 milljónir á mánuði
- Guðjón Auðunsson 3,7 milljónir króna á mánuði
- Garðar Hannes Friðjónsson þrjár milljónir á mánuði
- Helgi S. Gunnarsson 2,8 milljónir á mánuði
*Laun fyrir rekstrarárið 2016/2017
**Settist í stól forstjóra um mitt ár 2017
Hjá TM er Sigurður Viðarsson forstjóri. Launin hans stóðu nánast í stað á milli ára og voru allt í allt 51,4 milljónir króna í fyrra. Það gerir mánaðarlegan launatékka að meðaltali upp á 4,3 milljónir króna. Árið 2014 voru mánaðarlaun Sigurðar um 3,6 milljónir króna. Þau hafa því hækkað um 700 þúsund á þremur árum.
Hjá VÍS urðu forstjóraskipti í fyrra þegar Helgi Bjarnason tók við af Jakobi Sigurðssyni. Þau vistarskipti urðu á miðju ári. Helgi var samtals með 35,5 milljónir króna í laun í fyrra fyrir þá sex mánuði sem hann starfaði hjá VÍS, sem gera 5,9 milljónir króna að meðaltali. Ef reiknað er meðaltal forstjóralauna bæði Helga og Jakobs voru meðaltalsmánaðarlaun forstjóra VÍS í fyrra fimm milljónir króna.
Árið 2014 var Sigrún Ragna Ólafsdóttir, síðasta konan til að stýra skráðu félagi á Íslandi, forstjóri VÍS. Hún var með þrjár milljónir króna á mánuði í laun, sem er 2,9 milljónum krónum minna en meðaltalslaun Helga hjá VÍS í fyrra og tveimur milljónum krónum minna en meðallaun karlforstjóranna tveggja voru á því ári.
Gömlu risarnir
Tvö af rótgrónustu fyrirtækjum landsins eru Icelandair Group og Eimskip. Hjá því fyrrnefnda situr Björgólfur Jóhannsson í forstjórastólnum. Hann var með 55,5 milljónir króna í heildarlaun í fyrra, eða rúmlega 4,6 milljónir króna á mánuði. Síðasta ár var ekki sérstaklega gott fyrir Icelandair Group. Í upphafi þess árs var virði félagsins í Kauphöllinni 112 milljarðar króna. Í lok þess var virðið komið niður í 71,3 milljarða króna. Þrátt fyrir það hækkuðu laun Björgólfs lítillega á árinu 2017. Björgólfur var með 3,8 milljónir króna í mánaðarlaun árið 2014. Síðan þá hafa mánaðarlaun hans því hækkað um 800 þúsund krónur.
Gylfi Sigfússon er forstjóri Eimskips. Hann var með 67,4 milljónir króna í laun árið 2017 sem er nánast sama upphæð og hann var með árið áður. Það þýðir að mánaðarlaun hans voru að meðaltali 5,6 milljónir króna. Laun hans 55 prósent í evrum talið frá árinu 2014.
Marel og Grandi
Langverðmætasta félagið í Kauphöll Íslands er Marel. Það er í dag rúmlega 250 milljarða króna virði, sem jafngildir um 30 prósent af verðmæti allra skráðra hlutafélaga á Íslandi. Velta félagsins er um 125 milljarðar króna á ári.
Forstjóri Marel er Árni Oddur Þórðarson. Hann var með 581 þúsund evrur í laun í fyrra, sem gera um 70 milljónir króna miðað við gengi krónu í lok árs. Auk þess fékk hann um 198 þúsund evrur í kaupaukagreiðslur, um 24 milljónir króna, og því voru heildarlaun hans um 7,8 milljónir króna á mánuði. Hann er því launahæsti forstjórinn í Kauphöllinni. Laun og kaupaukagreiðslur Árna Odds hækkuðu um fimm prósent í evrum talið milli áranna 2016 og 2017.
Annað skráð félag sem gerir upp í evrum er sjávarútvegsrisinn HB Grandi. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri þess, hækkaði um 21 prósent í launum í fyrra þegar þau eru skoðuð í evrum. Árslaun hans fóru úr 349 þúsund evrum í 421 þúsund evrur. Það þýðir að árslaun hans voru um 50,7 milljónir króna miðað við meðalgengi evru í fyrra, og því um 4,2 milljónir króna á mánuði.
Origo og Hagar
Þá standa eftir tvö félög. Hjá Origo, sem áður hét Nýherji, er Finnur Oddsson forstjóri. Laun hans hækkuðu um 2,5 milljónir króna í fyrra upp í 45,7 milljónir króna. Það gera mánaðarlaun upp á 3,8 milljónir króna á mánuði. Laun Finns hafa hækkað mikið á undanförnum árum. Árið 2014 var hann með 2,1 milljón króna á mánuði. Mánaðarlaun hans hefur því hækkað um 1,7 milljónir króna á þremur árum.
Hagar, stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi, átti erfitt ár í fyrra, sérstaklega vegna innkomu Costco á markaðinn. Markaðsvirði félagsins dróst saman um 20 milljarða króna á árinu, þótt það hafi rétt aðeins úr kútnum það sem af er árinu 2018.
Hagar gera ekki upp með sama hætti og önnur félög sem skráð eru á markað. Þ.e. rekstrarárið þeirra er ekki almanaksárið og því mun ársreikningur félagsins fyrir síðasta rekstrarár ekki liggja fyrir fyrr en í maí. Finnur Árnason, sem hefur verið forstjóri Haga um árabil, var hins vegar með 76,6 milljónir króna í laun á rekstrarárinu 2016/2017. Það gera um 6,4 milljónir króna á mánuði. Laun hans og hlunnindi hafa verið á þessum nótum undanfarin ár.