Niðurfelling fasteignaskatts fyrir 70 ára og eldri kostar Reykjavíkurborg 579 milljónir króna
Viðbótarútgjöld Reykjavíkurborgar við niðurfellingu fasteignaskatts á 70 ára og eldri yrðu 579 milljónir króna. Þetta er fjárhæðin sem fæst út ef gert er ráð fyrir að niðurfelling skattsins eigi aðeins við um það húsnæði sem viðkomandi býr í. Þetta kemur fram í svari Birgis Björns Sigurjónssonar fjármálastjóra borgarinnar. Sjálfstæðismenn á lista flokksins í borginni hafa lofað niðurfellingu fasteignaskatts á íbúa á þessum aldri í borginni.
Viðbótarútgjöld Reykjavíkurborgar við niðurfellingu fasteignaskatts á 70 ára og eldri yrðu 579 milljónir króna. Þetta er fjárhæðin sem fæst út ef gert er ráð fyrir að niðurfelling skattsins eigi aðeins við um það húsnæði sem viðkomandi býr í. Þetta kemur fram í svari Birgis Björns Sigurjónssonar fjármálastjóra borgarinnar.
Sjálfstæðismenn á lista flokksins í borginni hafa lofað niðurfellingu fasteignaskatts á íbúa á þessum aldri í borginni.
Tekjulitlir fá nú þegar afslátt
Sveitarstjórn er nú þegar heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Fyrirkomulag borgarinnar við útreikning afslátta til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds fyrir árið 2018 notast við viðmiðunartekjur einstaklings með tekjur allt að 3.910.000 krónur og hjón með tekjur allt að 5.450.000 krónur. Þær tekjur veita rétt til 100 prósent afsláttar af þessum gjöldum. Einnig er hægt að fá bæði 80 og 50 prósenta lækkun á þessum gjöldum en þá hækka viðmiðunartekjurnar.
Áætluð álagning fasteignaskatta af íbúðarhúsnæði nemur 4.103 milljónum króna vegna ársins 2018. Áætlaðir afslættir tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega nema 489 milljónum þannig að nettótekjur borgarsjóðs nema þannig 3.614 milljónum sem felur í sér 12 prósent nettóáhrif. Í grunnáætlun 2018 er gert ráð fyrir 6.238 afsláttarþegum alls en 4.516 af þeim eru 70 ára eða eldri.
Afsláttarþegum myndi fjölga um þúsundir
Viðbótarútgjöld borgarinnar vegna niðurfellingar fasteignaskatts á þennan hóp yrði sem fyrr segir 579 milljónir króna og á aðeins við um þá sviðsmynd að niðurfelling skattsins eigi aðeins við um það húsnæði sem viðkomandi býr í.
Með loforði sjálfstæðismanna myndi afsláttarþegum fjölga um 4.307 og yrðu þá 10.545. Þar af yrðu 70 ára og eldri 8.823.
Í svari fjármálastjórans eru einnig settar fram tölur sem gera ráð fyrir að bæði öllum elli- og örorkulífeyrisþegum 70 ára og eldri sem og einfaldlega öllum 70 ára og eldri sé veittur 100% afsláttur án tillits til tekna þeirra og annarra skilyrða núverandi reglna sem gæti þýtt að afsláttur fengist af öllum íbúðum í eigu viðkomandi.
Í fyrri sviðsmyndinni þar sem allir elli- og örorkulífeyrisþegar 70 ára og eldri fá afsláttinn án tillits til tekna og annarra skilyrða myndi það fela í sér 659 milljóna króna viðbótarútgjöld af hálfu borgarinnar. Afsláttarþegum myndi fjölga um 5.199, yrðu 11.437 og þar af 9.175 sem eru 70 ára og eldri.
Í þeirri síðari þar sem allir 70 ára og eldri fá afsláttinn án tillits til tekna og annarra skilyrða myndi það fela í sér 921 milljóna króna viðbótarútgjöld af hálfu borgarinnar. Afsláttarþegum myndi fjölga um 7.881, yrðu 14.119 og þar af 12.397 sem eru 70 ára og eldri.
Í máli Eyþórs Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur hins vegar komið fram að flokkurinn hafi aðeins átt við það íbúarhúsnæði sem viðkomandi búi í.
Tillagan stríði gegn lögunum
Reglur Reykjavíkurborgar um afslætti á fasteignagjöldum byggja á ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga en þar segir: Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða.
Í svari fjármálastjórans kemur fram að tillaga Sjálfstæðisflokksins stríði gegn þessa heimildarákvæðis laganna.
Samgönguráðuneytið birti frétt á vef sínum í síðustu viku þar sem fram kom að óheimilt sé að veita afslátt með vísan til ákvæðisins, án þess að tekið sé tillit til tekna þeirra sem hans eiga að njóta. Fastur afsláttur án tillits til tekna sé því ekki í samræmi við áskilnað ákvæðisins um tekjulága einstaklinga þar sem hann kemur öllum lífeyrisþegum til góða, án tillits til þess hvaða tekjur þeir hafa.
Vestmannaeyjar til skoðunar vegna brota
Á árinu 2013 ákvað innanríkisráðuneytið að taka til skoðunar framkvæmd Vestmannaeyjabæjar að þessu leyti en þá lá fyrir að bæjarstjórn hafði á árunum 2012 og 2013 fellt niður fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði í eigu ellilífeyrisþega, 70 ára og eldri, sem nýtt var af þeim til búsetu, óháð tekjum. Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar samþykkti nýjar reglur um afslátt af fasteignagjöldum vegna árins 2015, þar sem afslátturinn var tekjutengdur, og taldi ráðuneytið því ekki tilefni til frekari aðgerð.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar er afsláttur af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum enn tekjutengdur.
Í ljósi þess að fram hafa komið upplýsingar í fjölmiðlum um að framkvæmd Vestmannaeyjabæjar á álagningu fasteignaskatts kunni þrátt fyrir þetta að fara gegn ákvæðum laganna að þessu leyti, hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, sveitarstjórnarlaga, ákveðið að kalla eftir upplýsingum og gögnum frá Vestmannaeyjabæ varðandi það hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þessara mála undanfarin ár. Í framhaldi af því hyggst ráðuneytið meta hvort tilefni er til að taka stjórnsýslu sveitarfélagsins að þessu leyti til formlegrar skoðunar.