Harry Bretaprins mun í dag ganga að eiga bandarísku leikkonuna Meghan Markle í kapellu heilags Georgs í Windsor á Englandi.
Búist er við miklum herlegheitum og mannfjölda bæði við athöfnina og veisluna, enda hefur breska þjóðin beðið eftir þessum degi í um fimm mánuði frá því trúlofun þeirra var kynnt í desember síðastliðnum.
Hafði prinsinn þá upplýst drottninguna ömmu sína um fyrirætlanir sínar auk þess sem hann mun hafa beðið foreldra Meghan blessunar. Hjónaefnin hafa síðan ferðast víða um Bretland á mánuðunum sem liðið hafa og lýst yfir sérstöku þakklæti fyrir hversu vel breska þjóðin hefur tekið á móti þessari verðandi bandarísku tengdadóttur sinni.Stóri dagurinn
Brúðkaupið sjálft og brúðkaupsdagurinn allur verður samkvæmt ströngustu hefðum, meðfram því að reynt verður að leyfa persónuleikum prinsins og Markle að skína í gegn. Varnarmálaráðuneyti Englands sem og skrifstofa konungdæmisins sjá um skipulagningu hátíðarhaldanna.
Athöfnin hefst í kapellunni á hádegi að staðartíma, ellefu að íslenskum, og verður framkvæmd af tveimur prestum, þar á meðal erkibiskupnum af Canterbury sem mun gefa hjónin saman. Harry sjálfur var skírður í þessari kapellu og ýmsar aðrar konunglegar athafnir hafa farið fram þar í gegnum tíðina, þar á meðal hjónavígsla Karls föður hans og Camillu Parker-Bowles árið 2005.
Meira en 250 hermenn munu taka þátt í helgihaldinu, þar á meðal hermenn sem gegndu herþjónustu með Harry sjálfum á sínum tíma. Klukkan eitt, eftir athöfnina, munu hjónin ferðast um Windsor í hestvagni þar sem þau munu gefa almenningi kost á að berja þau augum og taka þannig þátt í hátíðarhöldunum.
Harry og Megan hafa gefið það út að þau vilji gefa almenningi eins mikinn þátt í deginum og mögulegt er.
Þannig hefur 2.640 manns verið boðið að mæta inn á jörðina við Windsor kastala til að fylgjast með komu brúðhjónanna sem og formlegu gestanna. Um er að ræða 1.200 manns víðs vegar að frá Stóra-Bretlandi. Einstaklingarnir hafa verið valdir úr breiðum hópi fólks, með mismunandi bakgrunn og á mismunandi aldri og sérstaklega einstaklingar sem hafa þjónað nærsamfélagi sínu með einhverjum hætti. Þá hafa 200 manns verið valdir úr ýmiss konar góðgerðarstarfsemi og félagasamtökum sem Harry og Meghan völdu. Í hópnum verða einnig 100 nemendur úr tveimur skólum í nágrenni kastalans, 610 manns sem starfa í og við kastalann og 530 manns sem teljast til konungslegs starfsfólks.
Þá hefur 600 gestum verið boðið sem formlegum veislugestum bæði í athöfnina sjálfa og til veislunnar. Gestir þessir munu mæta í hádegisverðarboð sem drottningin heldur í St. George sal í Windsor kastala (sem er 55,5 metra langur og 9 metra breiður) og tekur 160 manns í sæti. Síðar um kvöldið hefur 200 manns verið boðið í einkaveislu í Frogmore House sem landareign staðsett nokkrum kílómetrum frá Windsor.
Boðskortin voru send út til gesta í mars og framleidd af fyrirtækinu Barnard & Westwood. Letrið er prentað með gulli og ber meðal annars merki Prinsins af Wales.
The invitations follow many years of Royal tradition and have been made by @BarnardWestwood. They feature the Three-Feathered Badge of the Prince of Wales printed in gold ink. pic.twitter.com/cd7LBmRJxO
— Kensington Palace (@KensingtonRoyal) March 22, 2018
Sjö bakarar sjá um brúðartertuna, en aðalbakarinn er Clarie Ptak, eigandi Violet Bakery í Austur-London. Þau hafa unnið að kökunni alla vikuna í eldhúsum Buckingham-hallarinnar, en sítrónur og ylliblóm eru í aðalhlutverki.
Harry prins valdi, engum að óvörum, bróður sinn hertogann af Cambridge Vilhjálm, sem svaramann sinn í brúðkaupinu.
Meghan hins vegar valdi sér enga aðalbrúðarmær, eða maid of honour, þar sem hún vildi ekki gera upp á milli nánustu vinkvenna sinna.
Fjölskylda brúðhjónanna beggja mun taka virkan þátt í hátíðarhöldunum, þar á meðal öll þrjú systkini Díönu prinsessu heitinnar, sem og fjölskylda Meghan, þó að faðir hennar verði víðsfjarri sökum heilsutengdra vandamála að sögn upplýsingafulltrúa Kensingtonhallarbúa.
Það kom einnig fáum á óvart þegar tilkynnt var að börn Vilhjálms Bretaprins og eiginkonu hans Katrínar munu gegna hlutverki brúðarmeyja- og sveina. Þau George 4 ára og Charlotte 3 ára eru meðal tíu barna, öll yngri en 10 ára sem munu ganga með Meghan niður kirkjugólfið. Hin börnin eru börn vina brúðhjónanna, frændur og frænkur. Díana prinsessa, móðir Harry, hafði sama háttinn á þegar hún giftist Karli föður Harry.
Upphaflega þegar tilkynnt var um trúlofun hennar og Harry voru fluttar af því fréttir að Meghan vildi helst að móðir hennar leiddi hana upp að altarinu.
Það varð hins vegar fljótt ljóst að hátternisreglur konungsfjölskyldunnar gerðu ekki ráð fyrir því að mæður leiði dætur sínar upp að altarinu og því var tilkynnt að faðir Meghan myndi sjá um það á brúðkaupsdaginn. Síðasta fimmtudag var hins vegar send út nokkuð óljós yfirlýsing þar sem tilkynnt var að Thomas Markle myndi ekki mæta í brúðkaupið í dag. „Mér hefur alltaf þótt vænt um föður minn og vona að hann fái rými til að huga að heilsunni,“ var haft eftir Meghan vegna málsins.
Hugleiðingar um hver muni sjá um að leiða Meghan upp altarið hafa helst snúist um að móðir hennar muni, hvað sem hátternisreglum líður, taka að sér hlutverkið og auk þess hefur Karl Bretaprins, verðandi tengdafaðir hennar, einnig verið nefndur. Í gær var svo tilkynnt um að Meghan hafi beðið Karl um að sjá um þetta, sem hann mun hafa samþykkt með mikilli ánægju.
An update on the #RoyalWedding: pic.twitter.com/wfJ6ZFyzHi
— Kensington Palace (@KensingtonRoyal) May 18, 2018
Félagar Meghan úr sjónvarpsþáttaseríunni Suits hafa verið að birta myndir af sér á leið til Englands undanfarna daga og gert er ráð fyrir því að þau fjölmenni í veisluhöldin í dag.
Mikar vangaveltur hafa verið uppi um fatnaðinn sem Meghan mun klæðast í dag. Tískutímaritið Glamour sagði frá því í vikunni að flestir veðjuðu á ástralska hönnunardúóið Ralph&Russo, en merkið er í uppháhaldi hjá Markle og klæddist hún kjól frá þeim þegar þau tilkynntu um trúlofunina.
Kjóll svilkonu hennar, Katrínar, vakti mikla athygli þegar hún giftist Vilhjálmi árið 2011. Hennar kjól hannaði breski fatahönnuðurinn Sarah Burton, sem var listrænn stjórnandi tíkuhússins Alexander McQueen.
Hver er Meghan Markle?
Prinsessan tilvonandi heitir fullu nafni Rachel Meghan Markle og er fædd þann 4. ágúst 1981. Hún er fædd og uppalin í Los Angeles í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum og útskrifaðist úr leiklist og alþjóðafræðum árið 2003 frá Northwestern háskóla.
Hún er hefur síðan þá leikið nokkur smáhlutverk hér og þar, meðal annars í myndunum Remember Me og Horrible Bosses, en frá árinu 2011 þar til nú lék hún í lögfræðidramaseríunni Suits og hlaut fyrir nokkra frægð. Meghan hefur frá því hún trúlofaðist Harry lagt leiklistarskó sína á hilluna - eins og konunglegar hátternisreglur gera ráð fyrir.
Fjölskylda Meghan hefur vakið nokkra athygli. Móðir hennar, Doria Loyce Ragland, er félagsfræðingur og jógakennari og eru þau faðir hennar Meghan, Thomas Markle eldri, fráskilin. Hann býr í Mexíkó og sér um lýsingar á kvikmyndasettum. Þau skildu þegar Meghan var sex ára gömul en hún á tvö hálfsystkini föður megin.
Faðirinn hefur átt nokkuð undir högg að sækja frá því tilkynnt var um trúlofunina, enda líklegast undarlegt hlutskipti fyrir hvern sem er að verða allt í einu hluti af bresku konungsfjölskyldunni. Fluttar voru af því fréttir að hann hefði leigt papparazzi ljósmyndara til að taka myndir af sjálfum sér við undirbúning brúðkaupsins, meðal annars í bókabúðum að lesa um Bretland.
Hann hefur hins vegar verið veikur fyrir hjartanu og mun fyrir stuttu hafa þurft að gangast undir aðgerð sem gerir honum ókleift að vera viðstaddur brúðkaupið.
Meghan er fráskilin. Hún giftist leikaranum og framleiðandanum Trevor Engelson árið 2011, eftir 7 ára samband, en þau skildu árið 2013.
Harry og Meghan hófu sitt samand í júní árið 2016 á svokölluðu blindu stefnumóti en konungdæmið tilkynnti formlega að þau væru að rugla saman reitum í október sama ár. yfirlýsingin var nokkuð harðorð. Þar kom fram að Harry hefði skilning á áhuganum sem almenningur hefði á lífi hans þrátt fyrir að honum hafi ávallt fundist hann óþægilegur. Hann hafi reynt að koma sér upp þykkum skráp og halda góðu sambandi við þá fjölmiðla sem um hann fjalla. Hins vegar hafi verið umfjöllun um Meghan Markle, þá kærustu hans, farið yfir öll velsæmismörk. Hún hafi orðið fyrir ofbeldi og áreiti af hálfu fjölmiðla, með rasískum undirtóni sem og karlrembu. Móðir hennar hafi orðið fyrir gríðarlegu áreiti fjölmiðlamanna og ljósmyndara og hafi ítrekað þurft að kalla til lögreglu, auk þess sem fyrrverandi kærastar og vinir hafi allir fengið tilboð um háar greiðslur fyrir að segja um hana sögur. Harry lýsti í þessari óvenjulegu yfirlýsingu yfir miklum vonbrigðum með landa sína, áhyggjum af öryggi Meghan og fjölskyldu hennar og bað um frið.
Í september 2017 sáust þau fyrst saman, á Invictus leikunum í Torontó í Kanada, hvar Meghan bjó þar sem Suits þættirnir voru teknir upp í borginni. Í janúar á þessu ári, stuttu eftir að tilkynnt var um trúlofun þeirra, lokaði Markle öllum samfélagsmiðlum sínum og þakkaði fylgjendum og aðdáendum fyrir stuðninginn í gegnum árin.
Harry prins
Sjálfan prinsinn af Wales, brúðgumann Harry, þarf líklegast lítið að kynna. Hann heitir fullu nafni Henry Charles Albert David og fæddist þann 15. september 1984. Hann er sjötti í erfðaröðinni að breska hásætinu, sonur krónprinsins Charles og Díönu, eins ástsælusta meðlims bresku konungsfjölskyldunnar á síðari tímum, sem lést árið 1997 í bílslysi.
Harry gekk í skóla í Bretlandi og gegndi herskildu sem hann sinnti meðal annars í Afghanistan á árunum 2007 og 2008, þar til að ástralskt tímarit kom upp um veru hans þar. Hann sneri aftur í 29 vikur á árunum 2012 til 2013 en yfirgaf herinn í júní árið 2015.
Harry hefur, eins og hátternisreglur konungsfjölskyldunnar gera ráð fyrir, sinnt ýmsum góðgerðarstörfum í gegnum tíðina, þar á meðal er hann verndari Invictus leikanna áðurnefndu og hefur verið frá árinu 2014, en þar birist hann fyrst með Meghan Markle í fyrra.
Móðir hans Díana lagði frá upphafi mikla áherslu á að þeir bræðurnir, Harry og William, fengju eins „venjulegt“ uppeldi og æsku og mögulegt var í þeim óvenjulegu aðstæðum sem breska konungsfjölskyldan býr við. Þeir bræðurnir sáust ungir leika sér í Disney World, fá sér hamborgara á McDonalds sem og að heimsækja gistiskýli fyrir heimilislausa.
Díana og Charles skyldu árið 1996 og móðir hans lést í bílslysi í París ári síðar.
Harry var alltaf mikill íþróttamaður, spilaði póló, skíðaði og stundaði mótorcross. Þá er hann gallharður stuðningsmaður Arsenal í ensku knattspyrnunni auk þess að fylgjast náið með rúgbí deildinni.
Hann var frá unga aldri álitinn nokkuð uppreisnargjarn og á unglingsárum sínum var hann talinn frekar villtur, sást reykja kannabis sautján ára gamall og náðust myndir af honum fyrir utan næturklúbba löngu áður en hann hafði aldur til. Hann lenti einnig í miklu klandri þegar hann fór í nasistabúning í búningapartý og þurfti í kjölfarið að biðjast afsökunar.
Harry hefur, rétt eins og bróðir hans og móðir þeirra áður, þurft að lifa lífi sínu fyrir allra augum frá því hann fæddist. Hann náðist á mynd í Las Vegas árið 2012, nakinn inni á hótelherbergi með óþekktri ungri konu og voru myndirnar birtar upphaflega af slúðursíðunni TMZ.
Miklar sögusagnir hafa ávallt verið uppi um að Harry sé rangfeðraður og er hann sagður vera sonur bresks hermanns að nafni James Hewitt, sem átti í sambandi við Díönu prinsessu móður hans. Hewitt hefur ávallt haldið því fram að tímasetningarnar geti ekki staðist og það sé með öllu ómögulegt að hann sé faðir Harry. Einn af lífvörðum Díönu hefur staðfest það.
Harry sagði, í hjartnæmu viðtali í fyrra, að hann hafi leitað sér faglegrar geðrænnar aðstoðar vegna þess að hafa aldrei komist almennilega yfir móðurmissinn.
Sagðist hann hafa eytt síðustu 20 árum í að hugsa ekki um dauða móður sinnar, hefði slökkt á öllum tilfinningum og glímt við mikinn kvíða og reiði vegna þessa. Vonaðist hann til þess að með því að viðurkenna þetta gæti hann hjálpað öðrum sem glímdu við geðrænan vanda. Harry, ásamt bróður sínum og mágkonu, stofnuðu góðgerðarsamtökin Heads Together sem kynnir góða andlega heilsu og rækt.