Mynd: Sebastien Decoret

Hverjir kaupa Arion banka og hvað mun gerast í kjölfarið?

Að minnsta kosti 25 prósent hlutur í Arion banka verður seldur í útboði. Íslenska ríkið hefur fallið frá forkaupsrétti í útboðinu. Bankinn ætlar að auka arðsemi eigin fjár úr tæplega fjórum prósentum í yfir tíu prósent. Mjög óljóst hverjir ætla að kaupa hlut í bankanum.

Kaup­þing ætlar að selja að minnsta kosti 25 pró­sent hlut í Arion banka í útboði sem mun eiga sér stað á Íslandi og í Sví­þjóð fyrir mitt þetta ár. Skrán­ingin mun því eiga sér stað fyrir lok júní­mán­að­ar.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans ætti að liggja fyrir í næstu viku hversu stór hluti verður nákvæm­lega til sölu, en Kaup­þing, stærsti eig­andi Arion banka, á sem stendur 55,57 pró­sent hlut í bank­an­um. Auk þess á Arion banki 9,5 pró­sent í sjálfum sér. Einn núver­andi eig­enda Arion banka, Attestor Capital, mun einnig selja hluta af eign sinni fái hann ásætt­an­legt verð fyr­ir.

Íslenska ríkið hefur ákveðið að for­kaups­réttur rík­is­ins muni ekki gilda við skrán­ing­una á mark­að. For­­kaups­­rétt­ur­inn var tryggður í stöð­ug­­leika­­samn­ingi við kröf­u­hafa Arion banka. Sam­­kvæmt honum virkj­­ast réttur rík­­is­ins til að ganga inn í við­­skipti með hluti í Arion banka ef verðið í þeim við­­skiptum fer niður fyrir 0,8 krónur á hverja krónu af bók­­færðu eigin fé Arion banka.

Aðlög­unin felur því í sér að hægt verði að selja hluti í Arion banka á lægra verði en því í útboð­inu sem greint var frá í morgun að muni fara fram fyrir jún­í­­lok. Við­mæl­endur Kjarn­ans eiga von á því að það gengi muni ekki fara mikið undir 0,7 krónur á hverja bók­færða krónu af eigin fé Arion banka, sem er sam­kvæmt síð­asta birta upp­gjöri 204 millj­arðar króna. Miðað við það bil, 0,7-0,8 krónur á hverja bók­færða krónu af eigin fé, er heild­ar­virði bank­ans því 143 til 163 millj­arðar króna. Og fjórð­ungs­hlut­ur­inn sem verður að minnsta kosti til sölu met­inn á 36 til 41 millj­arð króna.

Hverjir eru að fara að kaupa?

Ráð­gjafar Kaup­þings hafa verið iðnir við það að bjóða Arion banka til sölu und­an­farin miss­eri. Stefnan hefur verið sett á það að fá erlenda fjár­fest­inga­sjóði til að kaupa hlut í bank­an­um, og helst slíka sem gætu komið inn sem lang­tíma­fjár­fest­ar. Þeir ráð­gjafar sem Kjarn­inn hefur rætt við hafa þó ekki viljað segja við hvaða sjóði hafi verið rætt.

Ljóst er að það þarf að finna vilj­uga kaup­endur á Íslandi líka og þar er ekki um stórt mengi að ræða þegar undir er fjár­fest­ing af þess­ari stærð­argráðu. Að minnsta kosti ekki ef kaupin eiga að vera að ein­hverju leyti gerð fyrir eigin fé.

Íslenskir líf­eyr­is­sjóðir hafa þótt lík­leg­astir og mikið hefur verið reynt að fá þá til að koma inn í eig­enda­hóp Arion banka. Þeim var boðið að kaupa fimm pró­sent hlut í bank­anum fyrr í jan­úar og höfðu til 12. febr­úar til að segja af eða á. Þeir sögðu pass hver á fætur öðr­um.

Áður hafði Kvika banki, sem ráð­inn hafði verið til að aðstoða við söl­una á Arion banka í des­em­ber síð­ast­liðn­um, haldið kynn­ingu fyrir sjóð­ina. Kjarn­inn greindi ítar­lega frá inni­haldi þeirrar kynn­ingar fyrr á þessu ári. Á meðal þess sem þar kom fram var að eigið fé bank­ans væri svo mikið að svig­rúm sé til greiðslu á yfir 80 millj­örðum króna út úr bank­anum ef ráð­ist verður í útgáfu víkj­andi skulda­bréfa. Án þess væri svig­rúmið samt 50 millj­arðar króna. Það væri sem­sagt hægt að breyta fjár­mögnun bank­ans mjög skarpt og taka mikið eigið fé út úr hon­um. Auk þess væri hægt að selja dótt­ur­fé­lögin Valitor Hold­ing, Vörð og Stefni á verði sem væri umtals­vert yfir því sem nú sé bók­fært í bókum bank­ans. Raunar er sér­stak­lega til­tekið í frétta­til­kynn­ingu sem send var út í dag að stjórn Arion banka sé að skoða það að losa Valitor frá sam­stæð­unni, þótt engin end­an­leg ákvörðun hafi verið tekin um það.

Við­mæl­endur Kjarn­ans innan líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins telja enn minni líkur en meiri að stærstu sjóð­irnir muni hafa áhuga á að kaupa í Arion banka. Kynn­ing­arnar sem haldnar voru fyrir þá, og fundir sem átt hafa sér stað með for­svars­mönnum þeirra erlendu aðila sem eru ráð­andi í bank­anum sem stend­ur, hafi ekki aukið þær lík­ur.

Hverjir aðrir gætu keypt?

Þeir einka­fjár­festar sem eiga nægi­lega mikið af eigin fé til að taka þátt í fjár­fest­ingu af þess­ari stærð­argráðu eru flestir tengdir sjáv­ar­út­vegi, sem hefur skilað mörg hund­ruð millj­arða króna ávinn­ingi fyrir eig­endur sína á und­an­förnum árum.

Arion banki er byggður á grunni Kaupþings, sem fór á hliðina eftir bankahrunið í október 2008.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þá eru ótalin fjár­mála­fyr­ir­tæki á borð við trygg­inga­fé­lög og aðra banka. Það vekur til að mynda athygli að Kvika banki er ekki lengur á meðal þeirra ráð­gjafa sem sjá um vænt­an­legt útboð Arion banka, eftir að hafa verið þeirra fyr­ir­ferða­mestur und­an­farna mán­uði. Þau fjár­mála­fyr­ir­tæki sem vinna að útboð­inu eru bæði inn­lend og erlend. Þau erlendu eru Carneg­ie, Citigroup, Morgan Stan­ley, Deutsche Bank, Gold­man Sachs International og Svenska Hand­els­banken. Þau inn­lendu eru Arion banki, Íslands­banki, Lands­bank­inn og Fossar mark­að­ir, upp­á­halds­-verð­bréfa­fyr­ir­tæki þeirra vog­un­ar­sjóða sem eiga nú þegar hlut í Arion banka. Sem­sagt allir bankar á land­inu nema Kvika munu fá þókn­anir fyrir útboð­ið.

Það gæti þýtt tvennt. Í fyrsta lagi að Kvika hefði staðið sig svo illa við að selja líf­eyr­is­sjóð­unum hlut í Arion banka fyrr á þessu ári að bank­inn fær ekki að vera með. Í öðru lagi að Kvika sé að und­ir­búa það að taka þátt í útboð­inu sjálft, annað hvort eitt eða í sam­floti með stórum við­skipta­vinum sín­um.

Tölu­verð við­skipti þegar átt sér stað

Tölu­verð við­skipti hafa átt sér stað með hluti í Arion banka frá því að stöð­ug­leika­samn­ing­arnir voru und­ir­rit­aðir í lok árs 2015. Í fyrra keyptu fjórir af stærstu eig­endum Kaup­þings, Taconic Capital, Och-ZiffCapi­tal Mana­gement Group, sjóðir í stýr­ingu Attestor Capi­tal og Gold­man Sachs, sam­tals 29,6 pró­sent hlut í Arion banka af sjálfum sér í fyrra. Tveir þeirra, Attestor og Gold­man Sachs, bættu við sig 2,8 pró­sent hlut 13. febr­úar síð­ast­lið­inn. Þá keyptu rúm­lega 20 sjóðir í stýr­ingu fjög­urra af stærstu sjóðs­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækjum Íslands: Stefn­is, Íslands­sjóða, Lands­bréfa og Júpít­er, sam­tals 2,54 pró­sent hlut. Sam­an­lagt kaup­verð var um 9,5 millj­arðar króna.

Sama dag var kaup­réttur Kaup­þings á 13 pró­sent hlut rík­is­ins í Arion banka virkj­að­ur. Sá kaup­réttur var form­gerður í samn­ingi frá árinu 2009, var for­taks­laus og ein­hliða. Ríkið mátti því ekki hafna til­boð­inu án þess að ger­ast brot­legt við gerða samn­inga.

Gengið var form­lega frá sölu hlut­ar­ins 26. febr­úar síð­ast­lið­inn. Kaup­verðið var 23,4 millj­arðar króna og ekk­ert opið né gagn­sætt sölu­ferli fór fram. Um eina stærstu eigna­sölu rík­is­ins frá upp­hafi er að ræða.

Ármann Þorvaldsson er forstjóri Kviku banka, sem var ráðgjafi við söluna á Arion banka, en er það ekki lengur.
Mynd: Anton Brink

Í dag er eign­ar­hald Arion banka því þannig að Kaup­þing á 55,57 pró­sent hlut, Attestor Capi­tal á 12,44 pró­sent, Taconic Capi­tal á 9,99 pró­sent, Och-Ziff Capi­tal á 6,58 pró­sent og Gold­man Sachs á 3,37 pró­sent. Arion banki á auk þess 9,5 pró­sent hlut í sjálfum sér.

Í frétta­til­kynn­ingu sem birt var í dag skuld­binda núver­andi hlut­hafar sig til að selja ekki eft­ir­stand­andi hluti sína í Arion banka í 180 daga eftir skrán­ingu, að ákveðnum en óbirtum skil­yrðum upp­fyllt­um. Bæði Attestor og Gold­man Sachs mega hins vegar selja þá hluti sem þeir bættu við sig í febr­úar síð­ast­liðn­um, eftir að líf­eyr­is­sjóð­irnir höfn­uðu því að kaupa í Arion banka.  

Allir þessir aðilar eru lík­ast til þegar búnir að ná þeirri ávöxt­un­ar­kröfu sem þeir gerðu á fjár­fest­ingu sína á Íslandi. Þar skiptir bæði máli ávöxtun sem þeir hafa fengið á þær kröfur og hluta­bréf sem þeir keyptu á Kaup­þing og síðar í Arion banka en ekki síður gjald­eyr­is­hagn­aður sem hefur fallið til vegna mik­illar styrk­ingar krón­unn­ar. Því er ekki óvar­legt að áætla að að minnsta kosti hluti þeirra muni vilja losa um fjár­fest­ingu sína í nán­ustu fram­tíð og greiða út hagn­að­inn af veð­mál­inu á Ísland.

Ætla að auka arð­semi mikið

Síð­asta upp­gjör Arion banka þótti ekki mjög gott. Hagn­aður sam­­stæðu bank­ans á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2018 nam 1,9 millj­­örðum króna sam­an­­borið við 3,4 millj­­arða króna á sama tíma­bili 2017. Arð­­semi eigin fjár var aðeins 3,6 pró­sent sam­an­­borið við 6,3 pró­sent fyrir sama tíma­bil árið 2017, en þetta telst lágt í alþjóð­­legum sam­an­­burð­i.

Í til­kynn­ing­unni sem birt var í dag segir að mark­mið Arion banka sé að vera með arð­semi eigin fjár sem sé yfir tíu pró­sent. Til að ná því er lík­legt að breyta þurfi fjár­mögnun bank­ans mjög með því að greiða út eigin fé og sækja víkj­andi lán (sett mark­mið er að minnka eig­in­fjár­hlut­fall úr 23,6 pró­sent í 17 pró­sent), minnka rekstr­ar­kostnað umtals­vert (kostn­að­ar­hlut­fall er nú 70,8 pró­sent en sett mark­mið er að ná því undir 50 pró­sent) t.d. með því að fækka starfs­fólki og ná hóf­legum vexti í útlánum sem sé í takti við vöxt í þjóð­ar­fram­leiðslu á Íslandi í nán­ustu fram­tíð.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar