Mynd: Sebastien Decoret

Hverjir kaupa Arion banka og hvað mun gerast í kjölfarið?

Að minnsta kosti 25 prósent hlutur í Arion banka verður seldur í útboði. Íslenska ríkið hefur fallið frá forkaupsrétti í útboðinu. Bankinn ætlar að auka arðsemi eigin fjár úr tæplega fjórum prósentum í yfir tíu prósent. Mjög óljóst hverjir ætla að kaupa hlut í bankanum.

Kaupþing ætlar að selja að minnsta kosti 25 prósent hlut í Arion banka í útboði sem mun eiga sér stað á Íslandi og í Svíþjóð fyrir mitt þetta ár. Skráningin mun því eiga sér stað fyrir lok júnímánaðar.

Samkvæmt heimildum Kjarnans ætti að liggja fyrir í næstu viku hversu stór hluti verður nákvæmlega til sölu, en Kaupþing, stærsti eigandi Arion banka, á sem stendur 55,57 prósent hlut í bankanum. Auk þess á Arion banki 9,5 prósent í sjálfum sér. Einn núverandi eigenda Arion banka, Attestor Capital, mun einnig selja hluta af eign sinni fái hann ásættanlegt verð fyrir.

Íslenska ríkið hefur ákveðið að forkaupsréttur ríkisins muni ekki gilda við skráninguna á markað. For­kaups­rétturinn var tryggður í stöð­ug­leika­samn­ingi við kröfu­hafa Arion banka. Sam­kvæmt honum virkj­ast réttur rík­is­ins til að ganga inn í við­skipti með hluti í Arion banka ef verðið í þeim við­skiptum fer niður fyrir 0,8 krónur á hverja krónu af bók­færðu eigin fé Arion banka.

Aðlög­unin felur því í sér að hægt verði að selja hluti í Arion banka á lægra verði en því í útboð­inu sem greint var frá í morgun að muni fara fram fyrir júní­lok. Viðmælendur Kjarnans eiga von á því að það gengi muni ekki fara mikið undir 0,7 krónur á hverja bókfærða krónu af eigin fé Arion banka, sem er samkvæmt síðasta birta uppgjöri 204 milljarðar króna. Miðað við það bil, 0,7-0,8 krónur á hverja bókfærða krónu af eigin fé, er heildarvirði bankans því 143 til 163 milljarðar króna. Og fjórðungshluturinn sem verður að minnsta kosti til sölu metinn á 36 til 41 milljarð króna.

Hverjir eru að fara að kaupa?

Ráðgjafar Kaupþings hafa verið iðnir við það að bjóða Arion banka til sölu undanfarin misseri. Stefnan hefur verið sett á það að fá erlenda fjárfestingasjóði til að kaupa hlut í bankanum, og helst slíka sem gætu komið inn sem langtímafjárfestar. Þeir ráðgjafar sem Kjarninn hefur rætt við hafa þó ekki viljað segja við hvaða sjóði hafi verið rætt.

Ljóst er að það þarf að finna viljuga kaupendur á Íslandi líka og þar er ekki um stórt mengi að ræða þegar undir er fjárfesting af þessari stærðargráðu. Að minnsta kosti ekki ef kaupin eiga að vera að einhverju leyti gerð fyrir eigin fé.

Íslenskir lífeyrissjóðir hafa þótt líklegastir og mikið hefur verið reynt að fá þá til að koma inn í eigendahóp Arion banka. Þeim var boðið að kaupa fimm prósent hlut í bankanum fyrr í janúar og höfðu til 12. febrúar til að segja af eða á. Þeir sögðu pass hver á fætur öðrum.

Áður hafði Kvika banki, sem ráðinn hafði verið til að aðstoða við söluna á Arion banka í desember síðastliðnum, haldið kynningu fyrir sjóðina. Kjarninn greindi ítarlega frá innihaldi þeirrar kynningar fyrr á þessu ári. Á meðal þess sem þar kom fram var að eigið fé bankans væri svo mikið að svigrúm sé til greiðslu á yfir 80 milljörðum króna út úr bankanum ef ráðist verður í útgáfu víkjandi skuldabréfa. Án þess væri svigrúmið samt 50 milljarðar króna. Það væri semsagt hægt að breyta fjármögnun bankans mjög skarpt og taka mikið eigið fé út úr honum. Auk þess væri hægt að selja dótturfélögin Valitor Holding, Vörð og Stefni á verði sem væri umtalsvert yfir því sem nú sé bókfært í bókum bankans. Raunar er sérstaklega tiltekið í fréttatilkynningu sem send var út í dag að stjórn Arion banka sé að skoða það að losa Valitor frá samstæðunni, þótt engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin um það.

Viðmælendur Kjarnans innan lífeyrissjóðakerfisins telja enn minni líkur en meiri að stærstu sjóðirnir muni hafa áhuga á að kaupa í Arion banka. Kynningarnar sem haldnar voru fyrir þá, og fundir sem átt hafa sér stað með forsvarsmönnum þeirra erlendu aðila sem eru ráðandi í bankanum sem stendur, hafi ekki aukið þær líkur.

Hverjir aðrir gætu keypt?

Þeir einkafjárfestar sem eiga nægilega mikið af eigin fé til að taka þátt í fjárfestingu af þessari stærðargráðu eru flestir tengdir sjávarútvegi, sem hefur skilað mörg hundruð milljarða króna ávinningi fyrir eigendur sína á undanförnum árum.

Arion banki er byggður á grunni Kaupþings, sem fór á hliðina eftir bankahrunið í október 2008.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þá eru ótalin fjármálafyrirtæki á borð við tryggingafélög og aðra banka. Það vekur til að mynda athygli að Kvika banki er ekki lengur á meðal þeirra ráðgjafa sem sjá um væntanlegt útboð Arion banka, eftir að hafa verið þeirra fyrirferðamestur undanfarna mánuði. Þau fjármálafyrirtæki sem vinna að útboðinu eru bæði innlend og erlend. Þau erlendu eru Carnegie, Citigroup, Morgan Stanley, Deutsche Bank, Goldman Sachs International og Svenska Handelsbanken. Þau innlendu eru Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og Fossar markaðir, uppáhalds-verðbréfafyrirtæki þeirra vogunarsjóða sem eiga nú þegar hlut í Arion banka. Semsagt allir bankar á landinu nema Kvika munu fá þóknanir fyrir útboðið.

Það gæti þýtt tvennt. Í fyrsta lagi að Kvika hefði staðið sig svo illa við að selja lífeyrissjóðunum hlut í Arion banka fyrr á þessu ári að bankinn fær ekki að vera með. Í öðru lagi að Kvika sé að undirbúa það að taka þátt í útboðinu sjálft, annað hvort eitt eða í samfloti með stórum viðskiptavinum sínum.

Töluverð viðskipti þegar átt sér stað

Töluverð viðskipti hafa átt sér stað með hluti í Arion banka frá því að stöðugleikasamningarnir voru undirritaðir í lok árs 2015. Í fyrra keyptu fjórir af stærstu eigendum Kaupþings, Taconic Capital, Och-ZiffCapital Management Group, sjóðir í stýringu Attestor Capital og Goldman Sachs, samtals 29,6 prósent hlut í Arion banka af sjálfum sér í fyrra. Tveir þeirra, Attestor og Goldman Sachs, bættu við sig 2,8 prósent hlut 13. febrúar síðastliðinn. Þá keyptu rúmlega 20 sjóðir í stýringu fjögurra af stærstu sjóðsstýringarfyrirtækjum Íslands: Stefnis, Íslandssjóða, Landsbréfa og Júpíter, samtals 2,54 prósent hlut. Samanlagt kaupverð var um 9,5 milljarðar króna.

Sama dag var kaupréttur Kaupþings á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka virkjaður. Sá kaupréttur var formgerður í samningi frá árinu 2009, var fortakslaus og einhliða. Ríkið mátti því ekki hafna tilboðinu án þess að gerast brotlegt við gerða samninga.

Gengið var formlega frá sölu hlutarins 26. febrúar síðastliðinn. Kaupverðið var 23,4 milljarðar króna og ekkert opið né gagnsætt söluferli fór fram. Um eina stærstu eignasölu ríkisins frá upphafi er að ræða.

Ármann Þorvaldsson er forstjóri Kviku banka, sem var ráðgjafi við söluna á Arion banka, en er það ekki lengur.
Mynd: Anton Brink

Í dag er eignarhald Arion banka því þannig að Kaupþing á 55,57 prósent hlut, Attestor Capital á 12,44 prósent, Taconic Capital á 9,99 prósent, Och-Ziff Capital á 6,58 prósent og Goldman Sachs á 3,37 prósent. Arion banki á auk þess 9,5 prósent hlut í sjálfum sér.

Í fréttatilkynningu sem birt var í dag skuldbinda núverandi hluthafar sig til að selja ekki eftirstandandi hluti sína í Arion banka í 180 daga eftir skráningu, að ákveðnum en óbirtum skilyrðum uppfylltum. Bæði Attestor og Goldman Sachs mega hins vegar selja þá hluti sem þeir bættu við sig í febrúar síðastliðnum, eftir að lífeyrissjóðirnir höfnuðu því að kaupa í Arion banka.  

Allir þessir aðilar eru líkast til þegar búnir að ná þeirri ávöxtunarkröfu sem þeir gerðu á fjárfestingu sína á Íslandi. Þar skiptir bæði máli ávöxtun sem þeir hafa fengið á þær kröfur og hlutabréf sem þeir keyptu á Kaupþing og síðar í Arion banka en ekki síður gjaldeyrishagnaður sem hefur fallið til vegna mikillar styrkingar krónunnar. Því er ekki óvarlegt að áætla að að minnsta kosti hluti þeirra muni vilja losa um fjárfestingu sína í nánustu framtíð og greiða út hagnaðinn af veðmálinu á Ísland.

Ætla að auka arðsemi mikið

Síðasta uppgjör Arion banka þótti ekki mjög gott. Hagn­aður sam­stæðu bankans á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2018 nam 1,9 millj­örðum króna sam­an­borið við 3,4 millj­arða króna á sama tíma­bili 2017. Arð­semi eigin fjár var aðeins 3,6 prósent sam­an­borið við 6,3 prósent fyrir sama tíma­bil árið 2017, en þetta telst lágt í alþjóð­legum sam­an­burð­i.

Í tilkynningunni sem birt var í dag segir að markmið Arion banka sé að vera með arðsemi eigin fjár sem sé yfir tíu prósent. Til að ná því er líklegt að breyta þurfi fjármögnun bankans mjög með því að greiða út eigin fé og sækja víkjandi lán (sett markmið er að minnka eiginfjárhlutfall úr 23,6 prósent í 17 prósent), minnka rekstrarkostnað umtalsvert (kostnaðarhlutfall er nú 70,8 prósent en sett markmið er að ná því undir 50 prósent) t.d. með því að fækka starfsfólki og ná hóflegum vexti í útlánum sem sé í takti við vöxt í þjóðarframleiðslu á Íslandi í nánustu framtíð.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar