Fjárlögin á mannamáli
Fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur vegna ársins 2019 voru kynnt í vikunni. Þau segja til um hvernig þjóðarheimilið er rekið. Í hvað erum við að eyða, hverjir borga mest fyrir það og þau nýju verkefni sem verið er að ráðast í. Þótt fjárlögin virðast fráhrindandi tölusúpa þá er í þeim að finna rammann utan um samfélagið sem við lifum í.
Hverjir fá mest?
Framlög til heilbrigðismála verða aukin um 12,6 milljarða króna á árinu 2019 en þar vega þyngst framkvæmdir við nýjan Landsspítala. Alls er áætlað að 7,2 milljarðar króna fari í þær á árinu. Alls munu 230,2 milljarðar króna fara til málaflokksins, sem er sá dýrasti á forræði ríkisins.
Þá stendur til að auka framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála um 13,3 milljarða króna og í hann fara 216,7 milljarðar króna.
Fjárfestingar í innviðum verða aukna meðal annars með 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála vegna tímabundins átaks í samgöngumálum á árunum 2019-2021 sem fjármagnað verður með tímabundnum umframarðgreiðslum fjármálafyrirtækja líkt og boðað var í gildandi fjármálaáætlun. Gert er ráð fyrir að framlög til samgöngu- og fjarskiptamála verði aukin um níu prósent á árinu 2019 en framlög til málaflokksins verða ríflega 43,6 milljarðar króna.
Hver borgar fyrir tekjur ríkissjóðs?
Heildartekjur ríkissjóðs verða 891,7 milljarðar króna. Endurmetin áætlun vegna ársins 2018 reiknar með að þær verði 839,6 milljarðar króna í ár og því aukast tekjur ríkissjóðs um 52,1 milljarða króna á næsta ári.
Skatttekjur aukast um 42,8 milljarða króna á milli ára og verða alls 700 milljarðar króna. Þær eru eðlilega stærsti tekjustofn ríkissjóðs. Þar af borga íbúar landsins 195,4 milljarða króna í tekjuskatt og staðgreiðslu. Það umtalsvert meira en áætlað er að slík skattlagning skili í kassann á árinu 2018, þegar tekjur ríkissjóðs af henni á að nema 179 milljörðum króna. Landsmenn borga því 16,4 milljörðum krónum meira í tekjuskatta á næsta ári en þeir munu gera í ár.
Til viðbótar borgum við auðvitað virðisaukaskatt af flestu. Hann skilar ríkissjóði 255,3 milljörðum króna á næsta ári sem er 15,8 milljörðum króna meira en í ár.
Fyrirtækin
Tekjuskattur sem leggst á lögaðila, fyrirtæki og félög landsins, eykst að nýju eftir að hafa dregist saman í fyrra. Hann er nú áætlaður 75,5 milljarðar króna eða um tveimur milljörðum króna meiri en árið 2018.
Þá munu tekjur ríkissjóðs vegna tryggingagjalds aukast um 3,5 milljarða króna, og verða 100,8 milljarðar króna, á næsta ári þrátt fyrir að tryggingagjaldið eigi að lækka um 0,25 prósentustig um komandi áramót.
Bankar landsins borga líka sinn skerf, til viðbótar við hefðbundna skattgreiðslur, í gegnum hinn svokallaða bankaskatt. Hann er 0,376 prósent og leggst á heildarskuldir fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til að taka við innlánum. Þessi sérstaki skattur var fyrst lagður á árið 2010. Hann á að skila nánast sömu krónutölu og hann gerir í ár, eða um 9,1 milljarði króna. Ríkisstjórnin hefur lofað að lækka bankaskattinn í 0,145 prósent „á næstu árum“. Slík breyting myndi valda því að tekjur ríkissjóðs myndu skerðast um 5,7 milljarða króna á ári. En þar sem ríkið á tvo af stóru bönkunum þremur er auðvitað að hluta um tilfærslu á milli vasa að ræða.
Svo eru það auðvitað blessuð útgerðarfyrirtækin. Þau borga ríkissjóði sérstök veiðigjöld umfram aðra skatta fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Sumum finnst gjöldin allt of há en ansi mörgum finnst þau hafa verið of lág.
Samkvæmt fjárlögum ársins 2018 áttu þau að vera tíu milljarðar króna í ár en endurmetinni áætlun segir að þau verði sjö milljarðar. Gert er ráð fyrir sömu upphæð á næsta ári, en nýtt frumvarp, sem á að færa viðmiðunarár gjaldtökunnar nær í tíma, verður lagt fram í haust.
Þeir sem eiga mikið af peningum
Um tvö þúsund framteljendur afla að jafnaði tæplega helmings allra fjármagnstekna á Íslandi. Um er að ræða, að minnsta kosti að hluta, ríkasta eitt prósent landsins sem á nægilega mikið af viðbótarpeningum sem það getur látið vinna fyrir sig til að skapa tekjur.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hækkaði fjármagnstekjuskatt um síðustu áramót, úr 20 í 22 prósent. Forsætisráðherra sagði við það tilefni að þessi hækkun væri liður í því að gera skattkerfið réttlátara.
Þessi hækkun skilar þó ekki mikilli tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Fjármagnseigendur munu borga 36,9 milljarða króna í slíkan skatt í ár en 1,1 milljarði krónum meira á því næsta.
Bifreiðareigendur, drykkjufólk og þeir sem enn reykja
Bifreiðareigendur, sem eru sumir hverjir enn að jafna sig á þeim tíðindum að bannað verði að kaupa bensín- og dísilbíla hérlendis innan rúmlega ellefu ára, halda áfram að greiða háa viðbótarskatta fyrir málmfákana sína. Alls eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna eldsneytisgjalda 31,2 milljarðar króna á næsta ári. Olíugjaldið hækkar til dæmis úr 11,4 milljörðum króna í 12,1 milljarð króna og bensíngjald verður 13,2 prósent. Á síðustu árum hefur þó svokallað kolefnisgjald, sem er lagt á jarðefnaeldsneyti og jarðgas, hækkað mest. Frá 2017 hefur það hækkað um 3,2 milljarða króna, en vert er að taka fram að það hækkar lítið á næsta ári, eða um rúmar 300 milljónir króna.
Svo er það þeir sem fá sér í glas og þeir sem nota tóbak. Álögur á það fólk hækka enn og aftur. Bæði áfengis- og tóbaksgjöld verði hækkuð 2,5 prósent um komandi áramót.
Allir sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfengisgjald. Einnig þeir sem flytja áfengi með sér eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota. Áfengisgjald er greitt af neysluhæfu áfengi sem í er meira en 2.25 prósent af vínanda að rúmmáli. Þessu gjaldi er velt út í verðlag og því hækkar það útsöluverð til neytenda. Tekjur ríkissjóðs vegna áfengisgjalds voru 18,6 milljarðar króna árið 2018 en verða, samkvæmt fjárlögum, 19,8 milljarðar króna í ár.
Tóbaksgjaldið mun hins vegar skila um 100 milljónum færri krónum á komandi ári en það gerði á þessu, þrátt fyrir að það sé hækkað. Það þýðir að tóbaksneysla sé að dragast saman í landinu.
Óreglulegu tekjurnar
Ríkið hefur allskonar aðrar tekjur en skatta. Þar ber auðvitað hæst arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem ríkið á, sérstaklega bönkunum og Landsvirkjun. Slíkar arðgreiðslur skila 25,9 milljörðum króna í ríkiskassann á næsta ári.
Ríkið mun líka innheimta 11,2 milljarða króna í vaxtatekjur og 33,5 milljarða króna vegna sölu á vöru og þjónustu. Inni í þeirri sölu eru til að mynda innritunargjöld í háskóla og framhaldsskóla, sala á vegabréfum og ökuskírteinum og greidd gjöld vegna þinglýsinga, svo dæmi séu tekin.
Þá fær ríkið um 2,5 milljarða króna vegna sekta og skaðabóta, um 1,9 milljarða vega sölu á eignum og stöðugleikaframlög vegna föllnu bankanna munu nema 19,5 milljörðum króna á næsta ári.
Hvað er nýtt?
Á meðal þeirra breytinga sem boðaðar eru í frumvarpinu eru hækkun á persónuafslætti um eitt prósentustig umfram lögbundna 12 mánaða hækkun vísitölu og að hækkun þrepamarka efra skattþreps verði miðuð við vísitölu neysluverðs. Þetta á að stuðla að því að jafnræði milli ólíkra tekjuhópa gagnvart skattkerfinu verði meira og skattgreiðslur almennings lækka um 1,7 milljarða króna. Í raunveruleikanum þýðir þetta þó að persónuafsláttur hækkar um 535 krónur á mánuði umfram lögbundna vísitöluhækkun. Fyrir það er hægt að fá 82 prósent af sex tommu báti dagsins á Subway, sem í dag er túnfiskbátur.
Þá á að hækka barnabætur um 1,6 milljarða króna frá gildandi fjárlögum í 12,1 milljarð króna sem er 16 prósent hækkun milli ára. Auk þess er gert ráð fyrir nýju þrepi skerðingar á á barnabótum sem er ætlað að tryggja að hækkunin skili sér fyrst og fremst til lágtekju- og lægri millitekjuhópa. Þetta er aðgerð til að mæta þeirri staðreynd að milli áranna 2013 og 2016 fækkaði þeim sem fengu barnabætur um 12 þúsund.
Vaxtabætur verða einnig hækkaðar um 13 prósent frá áætlun um umfang þeirra á þessu ári, en lækka frá því sem gert ráð fyrir í fjárlögum 2018. Alls munu 3,4 milljarðar króna fara í slíkar bætur. Fjöldi þeirra sem fá vaxtabætur hefur hrunið á undanförnum árum vegna hækkunar á húsnæðisverði. Þeim fjölskyldum sem eiga rétt á þeim fækkaði um 30 þúsund milli áranna 2010 og 2016. Á árinu 2010 fengu alls 56.600 fjölskyldur slíkar bætur og heildarumfang þeirra var 12 milljarðar króna, eða næstum fjórum sinnum meira en það er áætlað í fjárlögum fyrir árið 2019. Vert er þó að taka fram að 2010 var verið að greiða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var 0,6 prósent af skuldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, en þó að hámarki 200 þúsund krónur fyrir einstaklinga og 300 þúsund fyrir hjón eða sambúðarfólk. Þetta var gert vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar hrunsins.
Tryggingagjaldið verður lækkað í byrjun næsta árs um 0,25 prósent og aftur um sömu prósentutölu í ársbyrjun 2020. Samanlagt munu þessi tvö lækkunarskref skila 9,3 prósent lækkun á gjaldinu. Tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi aukast hins vegar á milli ára.
Þá stendur til að kaupa nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna, byggja upp Hús íslenskunnar, sem nú er hola, og selja fiðlu í eigu Sinfóníuhljómsveitarinnar sem er sérstaklega hönnuð fyrir handstóra. Andvirði þeirrar sölu á að renna í að kaupa hentugra hljóðfæri.
Hvernig er rekstur ríkissjóð?
Hann er með ágætum og reiknað er með að ríkissjóður verði rekinn með 29 milljarða króna afgangi á komandi ári. Tekjur hans hafa aldrei verið hærri, 892 milljarðar króna, en útgjöldin hafa auðvitað heldur aldrei verið meiri, eða 862 milljarðar króna. Útgjöldin aukast um 55 milljarða króna á milli ára en tekjurnar um 52 milljarða króna.
Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt síðustu ár. Á sex ára tímabili hafa þær lækkað um samtals 658 milljarða króna. Þar skiptir mestu greiðslur frá slitabúum föllnu bankanna vegna stöðugleikasamninganna sem undirritaðir voru árið 2015. Þetta þýðir að vaxtagjöld ríkissjóðs hafa lækkað skart og eru áætluð 59,4 milljarðar króna á næsta ári. Til samanburðar voru vaxtagjöld árið 2014 75,5 milljarðar króna, samkvæmt fjárlagafrumvarpi þess árs.
Þegar skuldirnar voru sem mestar, árið 2011, voru þær 86 prósent af landsframleiðslu en verða 31 prósent í lok árs 2018. Frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu skuldir ríkissjóðs um 88 milljarða króna en það samsvarar því að skuldir hafi lækkað um 10 milljónir á klukkustund á tímabilinu.
Skuldir ríkissjóðs munu fara undir viðmið fjármálareglna laga um opinber fjármál í fyrsta sinn á næsta ári og útlit er fyrir að vaxtagjöld verði um 26 milljörðum krónum lægri á næsta ári en þau voru árið 2011.
Til viðbótar við almenna skuldaniðurgreiðslu hefur ríkissjóður greitt háar fjárhæðir inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar.
Hagvöxtur á Íslandi hefur auðvitað verið gríðarlegur á undanförnum árum og samfelldur frá árinu 2011. Mestur var hann 2016 þegar hann var 7,4 prósent. Í ár er hann áætlaður 2,9 prósent og verður á svipuðum nótum næstu tvö ár samkvæmt spám.