Bakkavararbræður í 197 sæti yfir ríkustu menn Bretlands – Metnir á rúmlega 100 milljarða

Eignir Ágústar og Lýðs Guðmundssona jukust um tæplega 80 milljarða króna á árinu 2017, eftir að Bakkavör var skráð á markað. Þeir keyptu stóra hluti í félaginu af íslenskum lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum á mun lægra verði.

Eignir bræðr­anna Ágústar og Lýðs Guð­munds­sona, stærstu eig­enda Bakka­var­ar, voru metnar á 700 millj­ónir punda, rúm­lega 100 millj­arða króna, um síð­ustu ára­mót. Þeir voru á þeim tíma í 197. sæti yfir rík­ustu íbúa Bret­lands, sam­kvæmt lista The Sunday Times.

Eignir þeirra juk­ust um 550 millj­ónir punda, tæp­lega 80 millj­arða króna, á milli ára.

Á lista dag­blaðs­ins yfir rík­ustu menn Bret­lands á árinu 2016 kom nefni­lega fram að bræð­urnir væru metnir á um 150 millj­ónir punda í lok þess árs. Þá sátu þeir í 885 sæti list­ans og stukku því upp um 688 sæti á einu ári.

Í umfjöllun The Sunday Times um bræð­urna segir að Bakka­vör sé einn af stærstu fram­leið­endur örbylgju­mál­tíða og ann­arra til­búna rétta sem seldar eru til stærstu mat­vöru­versl­ana­keðja Bret­lands, á borð við Tesco, Marks & Spencer, Waitrose og Sains­bury. Ágúst og Lýður stofn­uðu fyr­ir­tækið á Suð­ur­nesj­unum árið 1986. Þeir hófu náið sam­starf við Kaup­þing á tíunda ára­tug síð­ustu aldar og voru orðnir mjög umsvifa­miklir fjár­festar á árunum fyrir banka­hrun í gegnum fjár­fest­inga­fé­lag þeirra Exista. Þeir voru m.a. stærstu eig­endur Kaup­þings, Bakka­varar Group, trygg­inga­fé­lags­ins VÍS, eigna­leigu­fé­lags­ins Lýs­ing­ar, Við­skipta­blaðs­ins og Sím­ans.

Bræð­urnir lentu í miklum vand­ræðum eftir banka­hrunið og misstu meðal ann­ars tökin á Bakka­vör. Þeir náðu þó yfir­ráðum yfir því að nýju með sam­komu­lagi við banda­ríska vog­un­ar­sjóð­inn Baupost Group, að hluta í eigu bræðr­anna sjálfra, árið 2016. Í dag eiga bræð­urn­ir, sem eru 50 og 53 ára gaml­ir, eiga í dag 50,15 pró­sent hlut í Bakka­vör, sem var skráð á markað í Bret­landi í fyrra.

Nauða­samn­ingur og end­ur­skipu­lagn­ing

Bakka­vör þurfti á nauða­samn­ingum að halda eftir banka­hrun­ið. Hann var gerður í upp­hafi árs 2010. Í honum fólst að kröfu­haf­ar, að mestu leyti Arion banki og skulda­bréfa­eig­endur á borð við líf­eyr­is­sjóð­ina, tóku yfir félagið en bræðr­unum var gefið tæki­færi til að greiða kröfu­höf­unum til baka fyrir mitt ár 2014. Gengi það eftir myndu bræð­urnir fá 25 pró­senta eign­ar­hlut í Bakka­vör.

Í upp­hafi árs 2012 var orðið aug­ljóst að for­sendur nauða­samn­ing­anna myndu ekki halda og ákveðið var að breyta kröfum í nýtt hluta­fé. Til að fá bræð­urna til að sam­þykkja þá aðgerð, sem ella hefðu getað haldið Bakka­vör í her­kví fram á sum­arið 2014, var fall­ist á að leyfa þeim að kaupa fjórð­ungs­hlut í félag­inu.

Fjórð­ungs­hlut­inn fengu bræð­urnir að kaupa á fjóra millj­arða króna. Innra virði Bakka­varar miðað við eig­in­fjár­stöðu sam­stæð­unnar var um 20 millj­arðar króna og því ljóst að bræð­urnir voru að greiða minna en eina krónu fyrir hverja nafn­virð­is­krónu.

Komu heim með mikið fé

Í kjöl­farið fóru bræð­urnir á fullt í að kaupa hlutafé ann­arra hlut­hafa. Og þeir buð­ust til að greiða þeim í reiðu­fé. Til­boðið á þeim tíma var um 70 aurar á hverja nafn­virð­is­krónu. Þeir sem að mál­inu komu á sínum tíma full­yrða að féð sem bræð­urnir buðu hafi ekki verið lánsfé frá fjár­mála­stofn­un­um. Mikið var því rætt um hvaðan þeir hefðu fengið slíka fjár­muni, enda virt­ust þeir til­búnir með marga millj­arða króna í hand­rað­an­um.

Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart að Lýður og Ágúst væru með mikið fé á milli hand­anna. Hol­lenska félagið sem þeir áttu, Bakka­bra­edur Hold­ings B.V., sem hélt á eign­ar­hlutum þeirra í Existu og Bakka­vör, hafði greitt þeim miklar arð­greiðslur á upp­gangs­ár­unum fyrir hrun. Í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis kom fram að það félag hefði verið á meðal þeirra aðila sem þáðu hæstar arð­greiðslur allra félaga í eigu Íslend­inga á þessum tíma. Alls fékk félagið tæpa níu millj­arða króna í arð­greiðslur á árunum 2005 til 2007.

Bræð­urnir komu með mikla pen­inga heim til Íslands í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands. Virði evr­anna sem þeir áttu í erlendum félögum hafði þegar auk­ist um 50 pró­sent í krónum talið vegna geng­is­falls íslensku krón­unnar og fjár­fest­ing­ar­leiðin bauð upp á um 20 pró­senta við­bót­ar­virð­is­aukn­ingu.

Bræð­urnir eign­ast Bakka­vör að nýju

Haustið 2012 höfðu bræð­urnir tryggt sér rúm­lega 30 pró­sent hlut í Bakka­vör, meðal ann­ars með því að kaupa hluti af íslenskum líf­eyr­is­sjóð­um. Í jan­úar 2016 var send til­kynn­ing til fjöl­miðla um að BG12 ehf., félag í eigu Arion banka, Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna, Gildi líf­eyr­is­sjóðs, fleiri minni líf­eyr­is­sjóða og fag­fjár­festa hefði selt 46 pró­sent hlut sinn í breska félag­inu Bakka­vör til félags sem er í eigu bræðr­anna Ágústar og Lýðs og banda­rískra fjár­fest­inga­sjóða í stýr­ingu hjá The Baupost­Group L.L.C. Kaup­verðið nam 147 millj­ónum punda, eða 27,3 millj­örðum króna á gengi þess tíma.

Sam­ein­aði líf­eyr­is­sjóð­ur­inn og dótt­ur­fé­lag Klakka seldu jafn­framt sinn fimm pró­sent hlut í Bakka­vör og má ætla að kaup­verðið hafi verið um þrír millj­arðar króna. Kaup­endur skuld­bundu sig til að leggja fram kauptil­boð í alla aðra útistand­andi hluti í félag­inu, rétt um ell­efu pró­sent, á sömu kjör­um.

Bræð­urnir og með­fjár­festar þeirra hafa því eign­ast 89 pró­sent í Bakka­vör og skuld­bundið sig til að kaupa þau ell­efu pró­sent sem upp á vant­ar. Kaup­verðið á þeim hluta var um 6,5 millj­arðar króna.

Ágúst og Lýð­ur, ásamt með­fjar­festum sín­um, voru því að kaupa 62 pró­sent hlut í Bakka­vör á 36,8 millj­arða króna. Áður höfðu þeir eign­ast 38 pró­sent fyrir átta millj­arða króna.

Metið á yfir millj­arð punda

Í fyrra var Bakka­vör Group svo skráð á markað í Bret­landi. Virði félags­ins þá var 1,14 millj­arðar punda, um 169 millj­arðar króna, eða fjórum sinnum meira en sú upp­hæð sem bræð­urnir höfðu greitt fyrir hann. Þeir hafa selt hluta af eign sinni og eiga, líkt og áður sagði, 50,15 pró­sent hlut í dag. Ágúst er for­stjóri Bakka­varar og Lýður situr í stjórn félags­ins. Hann var stjórn­ar­for­maður þess þangað til í fyrra. Baupost á síðan rétt undir 25 pró­sent hlut.

Það þýðir að ein­ungis um fjórð­ungs­hlutur í Bakka­vör er í frjálsum við­skiptum á mark­aði, þar sem hvorki bræð­urnir né Baupost hafa sýnt vilja til að selja sína hluti. Virði Bakka­varar hefur dreg­ist saman síðan að skrán­ingin átti sér stað. Skrán­ing­ar­gengið var 1,8 pund á hlut en gengið í dag er 1,72 pund á hlut.

Í grein eftir Miles Costello, fjár­fest­inga­rit­stjóra The Times, sem birt­ist í lok síð­ustu viku, sagði hann að Bakka­vör stæði frammi fyrir áskor­un­um, meðal ann­ars vegna hækk­andi verðs á hrá­efnum á borð við mjólk, smjör, hveiti og eggja sem nauð­syn­leg eru í fram­leiðslu á rétt­unum sem félagið fram­leið­ir.

Costello sagði að margt ynni líka með Bakka­vör, sér­stak­lega þar sem félagið væri ráð­andi aðili í sölu á þeim vöru­línum sem það leggur mesta áherslu á. Þar er um að ræða salöt, eft­ir­rétti, sam­lok­ur, pizzur og brauð­meti sem seld eru í mat­vöru­versl­unum í Bret­landi. Auk þess séu tæki­færi fyrir hendi til að auka hlut­deild félags­ins í Kína og Banda­ríkj­un­um, en sem stendur eru um 90 pró­sent af við­skiptum þess innan Bret­lands.

Hluta­bréf Bakka­varar eru hins vegar von­brigði að mati Costell­o´s. Hann mælir með því að fjár­festar forð­ist að fjár­festa í þeim, meðal ann­ars vegna þess að mark­að­ur­inn sem Bakka­vör starfar á sé óstöð­ug­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar