Bakkavararbræður í 197 sæti yfir ríkustu menn Bretlands – Metnir á rúmlega 100 milljarða

Eignir Ágústar og Lýðs Guðmundssona jukust um tæplega 80 milljarða króna á árinu 2017, eftir að Bakkavör var skráð á markað. Þeir keyptu stóra hluti í félaginu af íslenskum lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum á mun lægra verði.

Eignir bræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona, stærstu eigenda Bakkavarar, voru metnar á 700 milljónir punda, rúmlega 100 milljarða króna, um síðustu áramót. Þeir voru á þeim tíma í 197. sæti yfir ríkustu íbúa Bretlands, samkvæmt lista The Sunday Times.

Eignir þeirra jukust um 550 milljónir punda, tæplega 80 milljarða króna, á milli ára.

Á lista dagblaðsins yfir ríkustu menn Bretlands á árinu 2016 kom nefnilega fram að bræðurnir væru metnir á um 150 milljónir punda í lok þess árs. Þá sátu þeir í 885 sæti listans og stukku því upp um 688 sæti á einu ári.

Í umfjöllun The Sunday Times um bræðurna segir að Bakkavör sé einn af stærstu framleiðendur örbylgjumáltíða og annarra tilbúna rétta sem seldar eru til stærstu matvöruverslanakeðja Bretlands, á borð við Tesco, Marks & Spencer, Waitrose og Sainsbury. Ágúst og Lýður stofnuðu fyrirtækið á Suðurnesjunum árið 1986. Þeir hófu náið samstarf við Kaupþing á tíunda áratug síðustu aldar og voru orðnir mjög umsvifamiklir fjárfestar á árunum fyrir bankahrun í gegnum fjárfestingafélag þeirra Exista. Þeir voru m.a. stærstu eigendur Kaupþings, Bakkavarar Group, tryggingafélagsins VÍS, eignaleigufélagsins Lýsingar, Viðskiptablaðsins og Símans.

Bræðurnir lentu í miklum vandræðum eftir bankahrunið og misstu meðal annars tökin á Bakkavör. Þeir náðu þó yfirráðum yfir því að nýju með samkomulagi við bandaríska vogunarsjóðinn Baupost Group, að hluta í eigu bræðranna sjálfra, árið 2016. Í dag eiga bræðurnir, sem eru 50 og 53 ára gamlir, eiga í dag 50,15 prósent hlut í Bakkavör, sem var skráð á markað í Bretlandi í fyrra.

Nauðasamningur og endurskipulagning

Bakkavör þurfti á nauðasamningum að halda eftir bankahrunið. Hann var gerður í upphafi árs 2010. Í honum fólst að kröfuhafar, að mestu leyti Arion banki og skuldabréfaeigendur á borð við lífeyrissjóðina, tóku yfir félagið en bræðrunum var gefið tækifæri til að greiða kröfuhöfunum til baka fyrir mitt ár 2014. Gengi það eftir myndu bræðurnir fá 25 prósenta eignarhlut í Bakkavör.

Í upphafi árs 2012 var orðið augljóst að forsendur nauðasamninganna myndu ekki halda og ákveðið var að breyta kröfum í nýtt hlutafé. Til að fá bræðurna til að samþykkja þá aðgerð, sem ella hefðu getað haldið Bakkavör í herkví fram á sumarið 2014, var fallist á að leyfa þeim að kaupa fjórðungshlut í félaginu.

Fjórðungshlutinn fengu bræðurnir að kaupa á fjóra milljarða króna. Innra virði Bakkavarar miðað við eiginfjárstöðu samstæðunnar var um 20 milljarðar króna og því ljóst að bræðurnir voru að greiða minna en eina krónu fyrir hverja nafnvirðiskrónu.

Komu heim með mikið fé

Í kjölfarið fóru bræðurnir á fullt í að kaupa hlutafé annarra hluthafa. Og þeir buðust til að greiða þeim í reiðufé. Tilboðið á þeim tíma var um 70 aurar á hverja nafnvirðiskrónu. Þeir sem að málinu komu á sínum tíma fullyrða að féð sem bræðurnir buðu hafi ekki verið lánsfé frá fjármálastofnunum. Mikið var því rætt um hvaðan þeir hefðu fengið slíka fjármuni, enda virtust þeir tilbúnir með marga milljarða króna í handraðanum.

Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart að Lýður og Ágúst væru með mikið fé á milli handanna. Hollenska félagið sem þeir áttu, Bakkabraedur Holdings B.V., sem hélt á eignarhlutum þeirra í Existu og Bakkavör, hafði greitt þeim miklar arðgreiðslur á uppgangsárunum fyrir hrun. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram að það félag hefði verið á meðal þeirra aðila sem þáðu hæstar arðgreiðslur allra félaga í eigu Íslendinga á þessum tíma. Alls fékk félagið tæpa níu milljarða króna í arðgreiðslur á árunum 2005 til 2007.

Bræðurnir komu með mikla peninga heim til Íslands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Virði evranna sem þeir áttu í erlendum félögum hafði þegar aukist um 50 prósent í krónum talið vegna gengisfalls íslensku krónunnar og fjárfestingarleiðin bauð upp á um 20 prósenta viðbótarvirðisaukningu.

Bræðurnir eignast Bakkavör að nýju

Haustið 2012 höfðu bræðurnir tryggt sér rúmlega 30 prósent hlut í Bakkavör, meðal annars með því að kaupa hluti af íslenskum lífeyrissjóðum. Í janúar 2016 var send tilkynning til fjölmiðla um að BG12 ehf., félag í eigu Arion banka, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóðs, fleiri minni lífeyrissjóða og fagfjárfesta hefði selt 46 prósent hlut sinn í breska félaginu Bakkavör til félags sem er í eigu bræðranna Ágústar og Lýðs og bandarískra fjárfestingasjóða í stýringu hjá The BaupostGroup L.L.C. Kaupverðið nam 147 milljónum punda, eða 27,3 milljörðum króna á gengi þess tíma.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn og dótturfélag Klakka seldu jafnframt sinn fimm prósent hlut í Bakkavör og má ætla að kaupverðið hafi verið um þrír milljarðar króna. Kaupendur skuldbundu sig til að leggja fram kauptilboð í alla aðra útistandandi hluti í félaginu, rétt um ellefu prósent, á sömu kjörum.

Bræðurnir og meðfjárfestar þeirra hafa því eignast 89 prósent í Bakkavör og skuldbundið sig til að kaupa þau ellefu prósent sem upp á vantar. Kaupverðið á þeim hluta var um 6,5 milljarðar króna.

Ágúst og Lýður, ásamt meðfjarfestum sínum, voru því að kaupa 62 prósent hlut í Bakkavör á 36,8 milljarða króna. Áður höfðu þeir eignast 38 prósent fyrir átta milljarða króna.

Metið á yfir milljarð punda

Í fyrra var Bakkavör Group svo skráð á markað í Bretlandi. Virði félagsins þá var 1,14 milljarðar punda, um 169 milljarðar króna, eða fjórum sinnum meira en sú upphæð sem bræðurnir höfðu greitt fyrir hann. Þeir hafa selt hluta af eign sinni og eiga, líkt og áður sagði, 50,15 prósent hlut í dag. Ágúst er forstjóri Bakkavarar og Lýður situr í stjórn félagsins. Hann var stjórnarformaður þess þangað til í fyrra. Baupost á síðan rétt undir 25 prósent hlut.

Það þýðir að einungis um fjórðungshlutur í Bakkavör er í frjálsum viðskiptum á markaði, þar sem hvorki bræðurnir né Baupost hafa sýnt vilja til að selja sína hluti. Virði Bakkavarar hefur dregist saman síðan að skráningin átti sér stað. Skráningargengið var 1,8 pund á hlut en gengið í dag er 1,72 pund á hlut.

Í grein eftir Miles Costello, fjárfestingaritstjóra The Times, sem birtist í lok síðustu viku, sagði hann að Bakkavör stæði frammi fyrir áskorunum, meðal annars vegna hækkandi verðs á hráefnum á borð við mjólk, smjör, hveiti og eggja sem nauðsynleg eru í framleiðslu á réttunum sem félagið framleiðir.

Costello sagði að margt ynni líka með Bakkavör, sérstaklega þar sem félagið væri ráðandi aðili í sölu á þeim vörulínum sem það leggur mesta áherslu á. Þar er um að ræða salöt, eftirrétti, samlokur, pizzur og brauðmeti sem seld eru í matvöruverslunum í Bretlandi. Auk þess séu tækifæri fyrir hendi til að auka hlutdeild félagsins í Kína og Bandaríkjunum, en sem stendur eru um 90 prósent af viðskiptum þess innan Bretlands.

Hlutabréf Bakkavarar eru hins vegar vonbrigði að mati Costello´s. Hann mælir með því að fjárfestar forðist að fjárfesta í þeim, meðal annars vegna þess að markaðurinn sem Bakkavör starfar á sé óstöðugur.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar