Tæplega 45 þúsund útlendingar borguðu skatt á Íslandi í fyrra
Nálægt 90 prósent allra nýrra skattgreiðenda á Íslandi í fyrra voru erlendir ríkisborgarar. Þeir eru nú 15,1 prósent þeirra sem greiða hér til samneyslunnar. Samhliða mikilli fjölgun útlendinga hafa greiðslur vegna félagslegrar framfærslu hríðlækkað.
Erlendum ríkisborgurum sem greiddu skatta á Íslandi fjölgaði um 9.782 milli áranna 2016 og 2017, eða um 27,9 prósent. Á sama tíma fjölgaði þeim íslensku ríkisborgurum sem greiða skattahérlendis um 1.166 talsins. Alls greiddu 44.850 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi í fyrra sem þýddi að þeir voru 15,1 prósent allra einstaklinga sem skráðir voru í skattgrunnskrá það árið. Ári áður voru þeir 12,2 prósent slíkra.
Þetta kemur fram í ítarlegri grein eftir Pál Kolbeins rekstrarhagfræðing í nýjasta tölublaði Tíundar, fréttablaði ríkisskattstjóra þar sem hann greinir álagningu einstaklinga vegna tekna ársins 2017.
Í greininni segir Páll að „Erlendum ríkisborgurum fjölgaði þannig um tæpa 56 fyrir hverja 200 á sama tíma og íslenskum fjölgaði um tæpan einn. Erlendum ríkisborgurum fjölgaði því rúmlega 60 sinnum hraðar og átta sinnum meira en íslenskum á skrá. Erlendir ríkisborgarar voru um 89,3 prósent fjölgunar á skrá árið 2017.“
Fjölgað um 36.912 frá árinu 2010
Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hefur fjölgað um 97 prósent frá lokum árs 2011 og fram á mitt þetta ár. Það þýðir að fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á sex og hálfu ári. Þeir hafa aldrei verið fleiri og fjölgun þeirra hefur aldrei verið hraðari en á síðustu 18 mánuðum.
Í grein Páls kemur fram að frá árinu 2010 og fram að síðustu áramótum hafi framteljendum til skatts hérlendis fjölgað alls um 36.912. Íslenskum ríkisborgurum fjölgaði á tímabilinu um 11.434 eða um 4,7 prósent. Erlendum ríkisborgurum sem greiddu skatt á Íslandi fjölgaði hins vegar um 25.478 á þessum árum, eða um 131,5 prósent. Það þýðir að erlendum ríkisborgurum á skattgrunnskrá hefur fjölgað 28 sinnum hraðar en Íslendingum á þessum tíma.
Flestir erlendu ríkisborgaranna sem búa og starfa á Íslandi eru Pólverjar. Alls voru 18.633 slíkir skráðir sem skattgreiðendur hérlendis í fyrra, sem er 4.144 fleiri en árið áður. Litháar voru næst flestir erlendra skattgreiðenda, eða 4.139 talsins.
Þá er samsetning erlendu ríkisborgaranna þannig að mun hærra hlutfall þeirra er yngra og á besta vinnualdri en þegar íslensku ríkisborgararnir eru skoðaðir. Þannig eru til að mynda 29,1 prósent erlendra á skattgrunnskrá á aldrinum 26-30 árs. Útlendingum í þessum aldurshópi fjölgaði um 35,3 prósent á milli ára á meðan að íslenskum ríkisborgurum í aldurshópnum fjölgaði um 2,6 prósent.
Íslendingum fjölgar hins vegar mun hraðar í eldri aldurshópum. Alls eru 19,1 prósent allra íslenskra ríkisborgara eldri en 66 ára en einungis 2,8 prósent erlendra ríkisborgara.
Félagsleg framfærsla dregist mikið saman
Greiðslur sveitarfélaga vegna húsaleigubóta, félagslegrar aðstoðar og styrkja jukust ár frá ári ári eftir hrun. Á milli áranna 2007 og 2010 hækkuðu þessar greiðslur um 87,2 prósent og héldu áfram að hækka allt fram til ársins 2015. Það ár greiddu sveitarfélögin 3,4 milljarða króna í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki. Það var 365 milljónum krónum minna en árið áður og greiðslurnar lækkuðu því um 9,6 prósent á milli ára.
Samhliða því að metfjölgun hefur verið í fjölda útlendinga sem flytja til Íslands, þróun sem hefur náð hámarki síðastliðin tvö ár, hafa greiðslur sveitafélaga vegna félagslegrar framfærslu haldið áfram að dragast saman.
Í fyrra greiddu sveitarfélög um 2,4 milljarða króna í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki sem var 456 milljónum krónum minna en árið áður. Alls fengu 3.471 slíka aðstoð á því ári.
Það er því ljóst að engin fylgni er milli þess að félagsleg framfærsla kosti samfélagið meira samhliða fjölgun erlendra ríkisborgara. Þvert á móti.
Atvinnuleysið aðeins kostnaðarsamara
Atvinnuleysi á Íslandi hefur verið ótrúlega lítið árum saman. Í ágúst mældist það 2,3 prósent. Ef ekki væri fyrir þann mikla fjölda erlendra ríkisborgara sem hefur flutt til landsins á undanförnum árum þá gætum við ekki með nokkrum hætti mannað öll þau nýju störf sem orðið hafa til í efnahagsuppgangi síðustu ára, sem skilað hefur hagvexti árlega frá árinu 2011 og gríðarlegri kaupmáttaraukningu til landsmanna.
Fyrir bankahrun var atvinnuleysi hér líka afar lítið. Árið 2007 fengu samtals 4.560 manns greiddar 4,9 milljarða króna frá Vinnumálastofnun í atvinnuleysisbætur. Á árinu 2009 fór atvinnuleysið mest upp í níu prósent á meðal Íslendinga á aldrinum 16-74 ára. Það ár fengu alls 27.639 manns greiddar atvinnuleysisbætur upp á samtals 23,2 milljarða króna.
Frá þeim tíma lækkuðu greiðslur vegna atvinnuleysisbóta á hverju ári út árið 2016, og fjöldi þeirra sem þær þáðu dróst saman.
Þau tíðindi urðu í fyrra að þeir sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur fjölgaði á milli ára í fyrsta sinn frá árinu 2009, eða um 107 talsins. Alls voru greiddar 8,7 milljarðar króna í slíkar sem var 432 milljónir króna meira en árið áður. Vert er þó að taka fram að landsmönnum fjölgaði um rúmlega 10 þúsund fyrra. Sú aukning var að langmestu leyti tilkomin vegna þess að erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 7.570.