Eftirlit Íslendinga með peningaþvætti fær falleinkunn
Árum saman starfaði einn maður á peningaþvættisskrifstofu Íslands. Alþjóðlegur framkvæmdahópur hefur gert margháttaðar athugasemdir við eftirlit með peningaþvætti hérlendis og krafist úrbóta. Lítið sem ekkert frumkvæði var í að rannsaka mögulegt peningaþvætti á fjármagnshaftarárunum. Búið er að setja Íslandi úrslitakosti. Úrbætur þurfa að vera gerðar fyrir mitt næsta ár.
Þann 20. júní 2007 var birt viðtal við Helga Magnús Gunnarsson, þá saksóknara efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra. Deildin hans stýrði þá öllum rannsóknum á efnahagsbrotum sem falið gátu í sér saknæmt athæfi, þar með talið rannsóknum á peningaþvætti.
Í viðtalinu sagði Helgi Magnús: „Í alþjóðavæðingu viðskiptalífsins og útrás fyrirtækja felst að þau brot sem við erum að rannsaka eru að teygja sig mikið víðar um heiminn. Það er fjöldi ríkja sem lifir á því að hjálpa mönnum að fela peningana sína og við þurfum að fara þangað eftir upplýsingum[...]Annaðhvort rannsökum við brotin og höfum þau úrræði sem til þarf eða afbrotamenn geta ákveðið að fara með fjársvikin sín yfir nokkur landamæri til að koma í veg fyrir að rannsóknin nái tilgangi sínum. Mér þykir það ekki ásættanlegt."
Ári síðar, 21. júní 2008, var birt annað viðtal við Helga Magnús í sama fjölmiðli, sem hafði þá skipt um nafn og hét 24 stundir.
Þar sagði hann: „Efnahagsbrot hafa mörg hver alþjóðlegt eðli og teygja sig yfir fjölda landa. Við þurfum sérhæft fólk sem hefur menntað sig í viðskiptafræðum og góða lögreglumenn. En það kostar. Frá síðasta sumri höfum við tapað fjórum fullmenntuðum viðskiptafræðingum, eða öllum slíkum sem við höfðum, til einkageirans.“
Tæpum fjórum mánuðum síðar hrundi íslenskt bankakerfi á innan við viku. Alls er búið að dæma 40 manns í um einnar aldar fangelsi fyrir glæpi sem framdir voru í aðdraganda bankahrunsins. Og fjölmörg önnur mál sem rannsakendur töldu að fælu í sér saknæmt athæfi hafa verið felld niður vegna þess að sakborningarnir voru þegar búnir að fylla refsiramma laganna eða það voru ekki til fjármunir til að ljúka rannsóknunum.
Mánuði síðar, í nóvember 2008, voru fjármagnshöft reist utan um Ísland sem gerðu það að verkum að Seðlabanki Íslands réð því, með reglusetningu og eftirliti, hvaða fjármagn kæmist inn í landið og hvað færi út.
Þrátt fyrir þessa stöðu, og varnaðarorð Helga Magnúsar fyrir rúmum áratug, hafa rannsóknir á mögulegu peningaþvætti verið í lamasessi hérlendis.
Inn og út úr íslensku efnahagskerfi
Á árunum fyrir bankahrunið færðu íslenskir fjármagnseigendur mikið magn fjármuna út úr íslensku efnahagskerfi og komu fyrir á bankareikningum með heimilisfesti í löndum þar sem skattar voru litlir eða engir og upplýsingagjöf stjórnvalda um þá sem stunduðu bankastarfsemi í löndunum lítil eða engin. Þetta eru lönd á borð við Bresku Jómfrúareyjarnar, Caymaneyjar og Panama en oftast voru reikningar og félög í þeim löndum sett upp fyrir Íslendinga í gegnum dótturbanka íslensku bankanna þriggja í Lúxemborg.
Hluti þessara Íslendinga hefur fært þessa peninga heim til Íslands eftir hrunið, oftar en ekki í gegnum leiðir sem Seðlabanki Íslands hefur boðið upp á. Þar ber helst að nefna fjárfestingaleið bankans, sem í fólst að hægt var að fá allt að 20 prósent virðisaukningu á peninga sem skipt var á við óþolinmóða krónueigendur með milligöngu Seðlabanka Íslands. Til viðbótar gátu þeir sem þetta gerðu innleyst tugprósenta gengishagnað með þessum hætti og peningarnir þeirra fengu auk þess „heilbrigðisvottorð“, enda færðir inn í landið í gegnum seðlabankann. Þessa peninga var svo hægt að nota til að kaupa eignir á Íslandi á brunaútsöluverði á fyrstu árum eftirhrunsáranna.
Grunsamlegar fjármagnstilfærslur
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, skrifaði um þetta í grein sem hann birti í Vísbendingu í september 2018. Þar sagði Gylfi: „„Sú spurning kom fram hvað hefði orðið um þá þúsundir milljarða sem teknir voru að láni af íslensku bönkunum. Í ljós kom að ekki hefur verið gerð tilraun til þess að finna þessa peninga. Það sem liggur fyrir er að eigendur bankanna lánuðu sjálfum sér og eigin eignarhaldsfélögum óspart en ekki liggur fyrir hversu mikið af lánsfénu tapaðist í erlendum fjárfestingum og hversu miklu var komið undan í skattaskjól.“
Fleiri hafa velt þessu fyrir sér.
Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar 2017, var fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina.
Orðrétt sagði í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Einn maður
Í peningaþvætti felst að koma ólögmætum fjármunum í umferð með löglegum. Ýmsir þurfa að stunda slíka háttsemi, t.d. skipulagðir glæpahópar sem meðal annars selja fíkniefni eða stunda mansal á svörtum markaði. Þeir þurfa að þvætta rekstrarhagnað sinn til þess að hægt sé að nota hann í raunheimum.
Skattsvikarar, þeir sem hafa framið auðgunarbrot og fólk sem hefur komið fjármunum undan réttmætum kröfuhöfum sínum er í sömu stöðu. Það þarf að gera peninganna sína sem eru illa fengnir, eða í raun eign annarra, „hreina“ þannig að þeir geti notað þá aftur til að kaupa sér eignir.
Lengi vel var peningaþvættisskrifstofan hérlendis rekin hjá embætti ríkislögreglustjóra. Um var að ræða eins manns einingu sem átti fullt í fangi með að standa skil á einföldustu atriðum. Skrifstofan treysti fyrst og síðast á banka og aðra tilkynningarskylda aðila og að þeir myndu tilkynna um hvort viðskiptavinir þeirra væru að stunda peningaþvætti.
Borgarfulltrúi ákærður fyrir peningaþvætti
Þekktasta peningaþvættismálið sem er í gangi í íslensku réttarkerfi í dag snýr að Júlíusi Vífli Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hann viðurkenndi fyrir rannsakendum að hafa framið skattalagabrot með því að gefa ekki upp til skatts tekjur sem honum hlotnuðust árið 2005 eða fyrr og geymdar eru á aflandsreikningi. Skattalagabrot fyrnast hins vegar á sex árum og því var ekki hægt að ákæra Júlíus Vífil fyrir slík. Hann komst einfaldlega upp með brotin.
Og Júlíus Vífill var ekki einn um það. Allmargir þeirra Íslendinga sem földu fé í aflandsfélögum á árunum fyrir bankahrunið, og voru opinberaðir í Panamaskjölunum eins og Júlíus Vífill, munu líka sleppa ákæru fyrir þau brot. Í þeim tilfellum sem um er að ræða meiriháttar skattalagabrot liggur allt að sex ára fangelsisvist auk þess sem viðkomandi þarf að greiða háa sekt sé hann sakfelldur.Öðru máli gegnir hins vegar um peningaþvætti. Lögum landsins var breytt árið 2009 þannig að refsivert var að þvætta ávinning af eigin afbrotum. Því er Júlíus Vífill ákærður fyrir peningaþvætti frá þeim tíma sem lögin tóku gildi, eða frá 30. desember 2009.
Málið hefur fordæmisgildi og heimildir Kjarnans herma að ef Júlíus Vífill verður sakfelldur verði hægt að fara á eftir mörgum öðrum Íslendingum sem framið hafa skattalagabrot sem eru fyrnd, en hafa nýtt sér ávinning þeirra brota síðan að lögin tóku gildi.
Árangurinn af starfseminni var því ekki mikill. Ef litið er á áðurnefnda fjárfestingarleið, sem var opin frá 2012 til 2015, þá bárust engar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofunnar um að fjárfestar sem nýttu sér leiðina hefðu mögulega verið að koma illa fengnu fé inn í landið.
Eftirlitið fær falleinkunn
Peningaþvættisskrifstofan var færð yfir til embættis héraðssaksóknara um mitt ár 2015. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari var spurður að því í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 3. október síðastliðinn hvort aðgerðir Íslendinga til að koma í veg fyrir að peningaþvætti hefðu verið viðunandi á undanförnum árum. „Þessu eru auðsvarað,“ sagði Ólafur, „nei það er það ekki.“
Hann sagði það vera staðfest í skýrslu sem Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegs framkvæmdahóps sem hefur það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð. FATF skilaði skýrslu um Ísland í apríl síðastliðnum. Þar fær peningaþvættiseftirlit Íslendinga falleinkunn.
Á meðal þess sem þar kemur fram er að íslensk stjórnvöld líti ekki á rannsóknir á peningaþvætti sem forgangsmál. Þeir litlu fjármunir sem settir eru í að koma upp um, rannsaka og saksækja peningaþvætti eru þar lykilatriði. Afleiðingin er meðal annars sú að takmarkaðar skráningar hafa verið á grunsamlegum tilfærslum á fé utan þess sem stóru viðskiptabankarnir og handfylli annarra fjármálafyrirtækja framkvæma. Þá skorti einnig á að að upplýsingum um hreyfingar á fé og eignum sé deilt með viðeigandi stofnunum í öðrum löndum.
Öll athyglin á hruninu og annað sat á hakanum
Í skýrslu FATF er tekið fram að aðal áherslan á Íslandi á árunum 2008 til 2015 hafi verið á að rannsaka og saksækja mál tengd bankahruninu. Á þeim tíma hafi rannsakendur og ákærendur sýnt af sér mikla getu til að starfa með öðrum og ná árangri í saksókn þeirra mála sem ráðist var í. Þrátt fyrir mikla velgengni þessara mála, að mati FATF, þá gerði það mikla fjáraustur sem fór í saksókn hrunmálanna það að verkum að önnur mál sátu á hakanum.
Á meðal þess sem sat á þeim haka var innleiðing á aðgerðum til að koma í veg fyrir peningaþvætti og varnir til að berjast gegn fjármögnun hryðjuverkasamtaka.
Sérstaklega er fjallað um fjármagnshöftin sem voru við lýði á Íslandi frá nóvember 2008 og fram í mars 2017. Í skýrslu FATF segir: „Þessum höftum var lyft í mars 2017 og yfirvöld hafa ekki tekið tillit til þeirra áhrifa sem það geti haft á áhættu vegna peningaþvættis/fjármögnun hryðjuverkasamtaka í landinu.“
Þá kemur einnig fram að íslensk stjórnvöld átti sig á því að skipulögð glæpastarfsemi, meðal annars í kringum fíkniefnaviðskipti eða mansal, sé starfrækt í landinu og að vöxtur sé í þeirri starfsemi á síðustu árum. Mat stjórnvalda sé að hundruð milljóna króna fari um hendur þessara aðila á ári hverju.
Þrátt fyrir það eru flestar tilkynningar Íslendinga vegna grunsamlegra fjármagnsflutninga tengdar meintum skattsvikum og er dregin sú ályktun að því hljóti stjórnvöld á Íslandi að met sem svo að mesta arðsemin af glæpastarfsemi hérlendis tengist skattsvikum. FATF gerir athugasemd við þessa forgangsröðun.
Verið að bæta í
Ólafur Þór sagði í áðurnefndu viðtali að þegar embætti hans tók við peningaþvættisskrifstofunni um mitt ár 2015 hafi FATF verið búið að setja Íslandi hálfgerða úrslitakosti. Síðan þá hafi aðstæður hérlendis til að takast á við peningaþvætti batnað. „Það er búið að styrkja peningaþvættið núna og þetta er ekki bara rekstur peningaþvættisskrifstofu heldur líka eftirlitsþátturinn og starfsemin innan bankanna og eins hvernig tekið er á málum sem koma upp og tilkynnt eru. Það er í raun og veru allt kerfið undir þegar við erum að tala um þessa úttekt.“
Nú starfa þrír á peningaþvættisskrifstofunni og í byrjun október var auglýst eftir tveimur til viðbótar. Á fjárlögum ársins 2019 er 41 milljón króna veitt til héraðsaksóknara til að standa undir kostnaði vegna nýju mannanna tveggja og 21 milljón króna til að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti.
Að sögn Ólafs þurfa íslensk stjórnvöld að standa skil á eftirfylgnisskýrslu til FATF sem verður að vera tilbúin í síðasta lagi í júní 2019. „Það er ekki bara hér innanlands sem er þrýstingur á að úr verði bætt. Hann kemur líka erlendis frá og það er ásetningur manna að kerfið muni standast þá skoðun.“
Danske Bank: Stærsta peningaþvættishneyksli sögunnar
Opinberað var fyrr á þessu ári að Danske Bank, stærsti banki Danmerkur, hefði þvættað allt að 200 milljarða evra í gegnum útibú sitt í Eistlandi. Útibúið átti að hafa tekið á móti stórum fjárhæðum frá erlendum viðskiptavinum, mörgum hverjum frá löndum sem hafa veikar varnir gegn peningaþvætti, líkt og Rússlandi, Moldóvu og Azerbaijan.
Bankinn bauð upp á þjónustu til erlendra viðskiptavina allt til ársins 2015, en byrjaði að draga úr starfseminni tveimur árum fyrr eftir að grunsemdir vöknuðu í kjölfar skýrslu frá innanbúðarmönnum árið 2013. Stuttu seinna hóf bankinn eigin rannsókn á málinu. Eftir töluverða fjölmiðlaumfjöllun um málið jók bankinn umfang rannsóknarinnar síðastliðinn september og skoðaði færslur viðskiptavina frá árinu 2007.Mánuði seinna hófst formleg rannsókn franskra yfirvalda á Danske Bank, sem lauk síðastliðinn janúar. Í apríl sagði svo Lars Mørch, rekstrarstjóri alþjóðaviðskipta bankans frá 2012, af sér og mánuði seinna baðst forstjórinn Thomas Borgen opinberlega afsökunar á starfseminni.
Á svipuðum tíma gerði fjármálaeftirlit Danmerkur einnig athugasemdir við svifaseinum aðgerðum Danske Bank vegna óeðlilega mikils gróða frá erlendum viðskiptavinum, en eftirlitið gaf átta tilmæli sem bankinn átti að framfylgja. Þó sagði Jesper Berg, forstjóri fjármálaeftirlitsins, að ekki væru næg sönnunargögn til staðar til þess að hefja formlega rannsókn. Það breyttist og í ágúst hóf saksóknari efnahagsbrota í Danmörku rannsókn á málinu.
Thomas Borgen sagði loks af sér sem forstjóri Danske Bank í september 2018.