Mynd: 123rf.com

Eftirlit Íslendinga með peningaþvætti fær falleinkunn

Árum saman starfaði einn maður á peningaþvættisskrifstofu Íslands. Alþjóðlegur framkvæmdahópur hefur gert margháttaðar athugasemdir við eftirlit með peningaþvætti hérlendis og krafist úrbóta. Lítið sem ekkert frumkvæði var í að rannsaka mögulegt peningaþvætti á fjármagnshaftarárunum. Búið er að setja Íslandi úrslitakosti. Úrbætur þurfa að vera gerðar fyrir mitt næsta ár.

Þann 20. júní 2007 var birt við­tal við Helga Magnús Gunn­ars­son, þá sak­sókn­ara efna­hags­brota hjá rík­is­lög­reglu­stjóra. Deildin hans stýrði þá öllum rann­sóknum á efna­hags­brotum sem falið gátu í sér sak­næmt athæfi, þar með talið rann­sóknum á pen­inga­þvætt­i. 

Í við­tal­inu sagði Helgi Magn­ús: „Í alþjóða­væð­ingu við­skipta­lífs­ins og útrás fyr­ir­tækja felst að þau brot sem við erum að rann­saka eru að teygja sig mikið víðar um heim­inn. Það er fjöldi ríkja sem lifir á því að hjálpa mönnum að fela pen­ing­ana sína og við þurfum að fara þangað eftir upp­lýs­ing­um[...]Ann­að­hvort rann­sökum við brotin og höfum þau úrræði sem til þarf eða afbrota­menn geta ákveðið að fara með fjár­svikin sín yfir nokkur landa­mæri til að koma í veg fyrir að rann­sóknin nái til­gangi sín­um. Mér þykir það ekki ásætt­an­leg­t."

Ári síð­ar, 21. júní 2008, var birt annað við­tal við Helga Magnús í sama fjöl­miðli, sem hafði þá skipt um nafn og hét 24 stund­ir.

Þar sagði hann: „Efna­hags­brot hafa mörg hver alþjóð­legt eðli og teygja sig yfir fjölda landa. Við þurfum sér­hæft fólk sem hefur menntað sig í við­skipta­fræðum og góða lög­reglu­menn. En það kost­ar. Frá síð­asta sumri höfum við tapað fjórum full­mennt­uðum við­skipta­fræð­ing­um, eða öllum slíkum sem við höfð­um, til einka­geirans.“

Tæpum fjórum mán­uðum síðar hrundi íslenskt banka­kerfi á innan við viku. Alls er búið að dæma 40 manns í um einnar aldar fang­elsi fyrir glæpi sem framdir voru í aðdrag­anda banka­hruns­ins. Og fjöl­mörg önnur mál sem rann­sak­endur töldu að fælu í sér sak­næmt athæfi hafa verið felld niður vegna þess að sak­born­ing­arnir voru þegar búnir að fylla refsiramma lag­anna eða það voru ekki til fjár­munir til að ljúka rann­sókn­un­um.

Mán­uði síð­ar, í nóv­em­ber 2008, voru fjár­magns­höft reist utan um Ísland sem gerðu það að verkum að Seðla­banki Íslands réð því, með reglu­setn­ingu og eft­ir­liti, hvaða fjár­magn kæm­ist inn í landið og hvað færi út.

Þrátt fyrir þessa stöðu, og varn­að­ar­orð Helga Magn­úsar fyrir rúmum ára­tug, hafa rann­sóknir á mögu­legu pen­inga­þvætti verið í lama­sessi hér­lend­is.

Inn og út úr íslensku efna­hags­kerfi

Á árunum fyrir banka­hrunið færðu íslenskir fjár­magns­eig­endur mikið magn fjár­muna út úr íslensku efna­hags­kerfi og komu fyrir á banka­reikn­ingum með heim­il­is­festi í löndum þar sem skattar voru litlir eða engir og upp­lýs­inga­gjöf stjórn­valda um þá sem stund­uðu banka­starf­semi í lönd­unum lítil eða eng­in. Þetta eru lönd á borð við Bresku Jóm­frú­ar­eyj­arn­ar, Cayma­n­eyjar og Panama en oft­ast voru reikn­ingar og félög í þeim löndum sett upp fyrir Íslend­inga í gegnum dótt­ur­banka íslensku bank­anna þriggja í Lúx­em­borg.

Hluti þess­ara Íslend­inga hefur fært þessa pen­inga heim til Íslands eftir hrun­ið, oftar en ekki í gegnum leiðir sem Seðla­banki Íslands hefur boðið upp á. Þar ber helst að nefna fjár­fest­inga­leið bank­ans, sem í fólst að hægt var að fá allt að 20 pró­sent virð­is­aukn­ingu á pen­inga sem skipt var á við óþol­in­móða krónu­eig­endur með milli­göngu Seðla­banka Íslands. Til við­bótar gátu þeir sem þetta gerðu inn­leyst tug­pró­senta geng­is­hagnað með þessum hætti og pen­ing­arnir þeirra fengu auk þess „heil­brigð­is­vott­orð“, enda færðir inn í landið í gegnum seðla­bank­ann. Þessa pen­inga var svo hægt að nota til að kaupa eignir á Íslandi á bruna­út­sölu­verði á fyrstu árum eft­ir­hrunsár­anna.

Grun­sam­legar fjár­magnstil­færslur

Gylfi Zoega, pró­fessor í hag­fræði, skrif­aði um þetta í grein sem hann birti í Vís­bend­ingu í sept­em­ber 2018. Þar sagði Gylfi: „„Sú spurn­ing kom fram hvað hefði orðið um þá þús­undir millj­­arða sem teknir voru að láni af íslensku bönk­­un­­um. Í ljós kom að ekki hefur verið gerð til­­raun til þess að finna þessa pen­inga. Það sem liggur fyrir er að eig­endur bank­anna lán­uðu sjálfum sér og eigin eign­­ar­halds­­­fé­lögum óspart en ekki liggur fyrir hversu mikið af láns­­fénu tap­að­ist í erlendum fjár­­­fest­ingum og hversu miklu var komið undan í skatta­­skjól.“

Fleiri hafa velt þessu fyrir sér.

Í skýrslu starfs­hóps um eignir Íslend­inga á aflands­­­­svæð­um, sem birt var í byrjun jan­ú­ar 2017, var fjallað um fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið Seðla­­­banka Íslands og því meðal ann­­­ars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjár­­­­­magn­inu frá aflands­­­svæð­um, sem orðið hafi til með ólög­­­mætum hætti, hafi skilað sér Íslands með geng­is­af­slætti í gegnum fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið­ina.

Orð­rétt sagði í skýrsl­unni: „Miðlun upp­­­lýs­inga um fjár­­­­­magns­flæði inn og út úr land­inu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til lands­ins og eins þátt­­­taka í fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið Seðla­­­bank­ans er ekki til stað­­­ar. Sér í lagi hefur skatt­yf­­­ir­völdum ekki verið gert við­vart af hálfu Seðla­­­bank­ans þegar um grun­­­sam­­­legar fjár­­­­­magnstil­­­færslur er að ræða. Æski­­­legt má telja að sam­­­starf væri um miðlun upp­­­lýs­inga á milli þess­­­ara stofn­ana.“

Einn maður

Í pen­inga­þvætti felst að koma ólög­mætum fjár­munum í umferð með lög­leg­um. Ýmsir þurfa að stunda slíka hátt­semi, t.d. skipu­lagðir glæpa­hópar sem meðal ann­ars selja fíkni­efni eða stunda man­sal á svörtum mark­aði. Þeir þurfa að þvætta rekstr­ar­hagnað sinn til þess að hægt sé að nota hann í raun­heim­um.

Skattsvik­ar­ar, þeir sem hafa framið auðg­un­ar­brot og fólk sem hefur komið fjár­munum undan rétt­mætum kröfu­höfum sínum er í sömu stöðu. Það þarf að gera pen­ing­anna sína sem eru illa fengn­ir, eða í raun eign ann­arra, „hreina“ þannig að þeir geti notað þá aftur til að kaupa sér eign­ir.

Lengi vel var pen­inga­þvætt­is­skrif­stofan hér­lendis rekin hjá emb­ætti rík­is­lög­reglu­stjóra. Um var að ræða eins manns ein­ingu sem átti fullt í fangi með að standa skil á ein­föld­ustu atrið­um. Skrif­stofan treysti fyrst og síð­ast á banka og aðra til­kynn­ing­ar­skylda aðila og að þeir myndu til­kynna um hvort við­skipta­vinir þeirra væru að stunda pen­inga­þvætti.

Borgarfulltrúi ákærður fyrir peningaþvætti

Þekktasta peningaþvættismálið sem er í gangi í íslensku réttarkerfi í dag snýr að Júlíusi Vífli Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hann viðurkenndi fyrir rannsakendum að hafa framið skattalagabrot með því að gefa ekki upp til skatts tekjur sem honum hlotnuðust árið 2005 eða fyrr og geymdar eru á aflandsreikningi. Skattalagabrot fyrnast hins vegar á sex árum og því var ekki hægt að ákæra Júlíus Vífil fyrir slík. Hann komst einfaldlega upp með brotin.

Og Júlíus Vífill var ekki einn um það. All­margir þeirra Íslend­inga sem földu fé í aflands­fé­lögum á árunum fyrir banka­hrun­ið, og voru opin­beraðir í Panama­skjöl­unum eins og Júl­íus Víf­ill, munu líka sleppa ákæru fyrir þau brot. Í þeim til­fellum sem um er að ræða meiri­háttar skatta­laga­brot liggur allt að sex ára fang­els­is­vist auk þess sem við­kom­andi þarf að greiða háa sekt sé hann sak­felld­ur.

Öðru máli gegnir hins vegar um peningaþvætti. Lögum lands­ins var breytt árið 2009 þannig að refsi­vert var að þvætta ávinn­ing af eigin afbrot­um. Því er Júl­íus Víf­ill ákærður fyrir pen­inga­þvætti frá þeim tíma sem lögin tóku gildi, eða frá 30. des­em­ber 2009.

Málið hefur fordæmisgildi og heimildir Kjarnans herma að ef Júlíus Vífill verður sakfelldur verði hægt að fara á eftir mörgum öðrum Íslendingum sem framið hafa skattalagabrot sem eru fyrnd, en hafa nýtt sér ávinning þeirra brota síðan að lögin tóku gildi.

Árang­ur­inn af starf­sem­inni var því ekki mik­ill. Ef litið er á áður­nefnda fjár­fest­ing­ar­leið, sem var opin frá 2012 til 2015,  þá bár­ust engar til­kynn­ingar til pen­inga­þvætt­is­skrif­stof­unnar um að fjár­festar sem nýttu sér leið­ina hefðu mögu­lega verið að koma illa fengnu fé inn í land­ið.

Eft­ir­litið fær fall­ein­kunn

Pen­inga­þvætt­is­skrif­stofan var færð yfir til emb­ættis hér­aðs­sak­sókn­ara um mitt ár 2015. Ólafur Þór Hauks­son hér­aðs­sak­sókn­ari var spurður að því í sjón­varps­þætt­inum 21 á Hring­braut 3. októ­ber síð­ast­lið­inn hvort aðgerðir Íslend­inga til að koma í veg fyrir að pen­inga­þvætti hefðu verið við­un­andi á und­an­förnum árum. „Þessu eru auðsvar­að,“ sagði Ólaf­ur, „nei það er það ekki.“

Hann sagði það vera stað­fest í skýrslu sem Fin­ancial Act­ion Task Force (FATF), alþjóð­legs fram­kvæmda­hóps sem hefur það hlut­verk að móta aðgerðir til að hindra að fjár­mála­kerfið sé mis­notað í þeim til­gangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð. FATF skil­aði skýrslu um Ísland í apríl síð­ast­liðn­um. Þar fær pen­inga­þvætt­is­eft­ir­lit Íslend­inga fall­ein­kunn.

Á meðal þess sem þar kemur fram er að íslensk stjórn­völd líti ekki á rann­sóknir á pen­inga­þvætti sem for­gangs­mál. Þeir litlu fjár­munir sem settir eru í að koma upp um, rann­saka og sak­sækja pen­inga­þvætti eru þar lyk­il­at­riði. Afleið­ingin er meðal ann­ars sú að tak­mark­aðar skrán­ingar hafa verið á grun­sam­legum til­færslum á fé utan þess sem stóru við­skipta­bank­arnir og hand­fylli ann­arra fjár­mála­fyr­ir­tækja fram­kvæma. Þá skorti einnig á að að upp­lýs­ingum um hreyf­ingar á fé og eignum sé deilt með við­eig­andi stofn­unum í öðrum lönd­um.

Öll athyglin á hrun­inu og annað sat á hak­anum

Í skýrslu FATF er tekið fram að aðal áherslan á Íslandi á árunum 2008 til 2015 hafi verið á að rann­saka og sak­sækja mál tengd banka­hrun­inu. Á þeim tíma hafi rann­sak­endur og ákærendur sýnt af sér mikla getu til að starfa með öðrum og ná árangri í sak­sókn þeirra mála sem ráð­ist var í. Þrátt fyrir mikla vel­gengni þess­ara mála, að mati FATF, þá gerði það mikla fjár­austur sem fór í sak­sókn hrun­mál­anna það að verkum að önnur mál sátu á hak­an­um.

Á meðal þess sem sat á þeim haka var inn­leið­ing á aðgerðum til að koma í veg fyrir pen­inga­þvætti og varnir til að berj­ast gegn fjár­mögnun hryðju­verka­sam­taka.

Sér­stak­lega er fjallað um fjár­magns­höftin sem voru við lýði á Íslandi frá nóv­em­ber 2008 og fram í mars 2017. Í skýrslu FATF seg­ir: „Þessum höftum var lyft í mars 2017 og yfir­völd hafa ekki tekið til­lit til þeirra áhrifa sem það geti haft á áhættu vegna pen­inga­þvætt­is­/fjár­mögnun hryðju­verka­sam­taka í land­in­u.“

Þá kemur einnig fram að íslensk stjórn­völd átti sig á því að skipu­lögð glæp­a­starf­semi, meðal ann­ars í kringum fíkni­efna­við­skipti eða mansal, sé starf­rækt í land­inu og að vöxtur sé í þeirri starf­semi á síð­ustu árum. Mat stjórn­valda sé að hund­ruð millj­óna króna fari um hendur þess­ara aðila á ári hverju.

Þrátt fyrir það eru flestar til­kynn­ingar Íslend­inga vegna grun­sam­legra fjár­magns­flutn­inga tengdar meintum skattsvikum og er dregin sú ályktun að því hljóti stjórn­völd á Íslandi að met sem svo að mesta arð­semin af glæp­a­starf­semi hér­lendis teng­ist skattsvik­um. FATF gerir athuga­semd við þessa for­gangs­röð­un.

Verið að bæta í

Ólafur Þór sagði í áður­nefndu við­tali að þegar emb­ætti hans tók við pen­inga­þvætt­is­skrif­stof­unni um mitt ár 2015 hafi FATF verið búið að setja Íslandi hálf­gerða úrslita­kosti. Síðan þá hafi aðstæður hér­lendis til að takast á við pen­inga­þvætti batn­að. „Það er búið að styrkja pen­inga­þvættið núna og þetta er ekki bara rekstur pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu heldur líka eft­ir­lits­þátt­ur­inn og starf­semin innan bank­anna og eins hvernig tekið er á málum sem koma upp og til­kynnt eru. Það er í raun og veru allt kerfið undir þegar við erum að tala um þessa úttekt.“

Nú starfa þrír á pen­inga­þvætt­is­skrif­stof­unni og í byrjun októ­ber var aug­lýst eftir tveimur til við­bót­ar. Á fjár­lögum árs­ins 2019 er 41 milljón króna veitt til hér­að­sak­sókn­ara til að standa undir kostn­aði vegna nýju mann­anna tveggja og 21 milljón króna til að kaupa upp­lýs­inga­kerfi til að taka á móti og halda utan um til­kynn­ingar um pen­inga­þvætti.

Að sögn Ólafs þurfa íslensk stjórn­völd að standa skil á eft­ir­fylgn­is­skýrslu til FATF sem verður að vera til­búin í síð­asta lagi í júní 2019. „Það er ekki bara hér inn­an­lands sem er þrýst­ingur á að úr verði bætt. Hann kemur líka erlendis frá og það er ásetn­ingur manna að kerfið muni stand­ast þá skoð­un.“

Danske Bank: Stærsta peningaþvættishneyksli sögunnar

Opinberað var fyrr á þessu ári að Danske Bank, stærsti banki Danmerkur, hefði þvættað allt að 200 milljarða evra í gegnum útibú sitt í Eistlandi. Úti­búið átti að hafa tekið á móti stórum fjár­hæðum frá erlendum við­skipta­vin­um, mörgum hverjum frá löndum sem hafa veikar varnir gegn pen­inga­þvætti, líkt og Rúss­landi, Mold­óvu og ­Azerbaijan.

Bank­inn bauð upp á þjón­ustu til erlendra við­skipta­vina allt til árs­ins 2015, en byrj­aði að draga úr starf­sem­inni tveimur árum fyrr eftir að grun­semdir vökn­uðu í kjöl­far skýrslu frá inn­an­búð­ar­mönnum árið 2013. Stuttu seinna hóf bank­inn eigin rann­sókn á mál­inu. Eftir tölu­verða fjöl­miðlaum­fjöllun um málið jók bank­inn umfang rann­sókn­ar­innar síð­ast­lið­inn sept­em­ber og skoð­aði færslur við­skipta­vina frá árinu 2007.

Mán­uði seinna hófst form­leg rann­sókn franskra yfir­valda á Danske ­Bank, sem lauk síð­ast­lið­inn jan­ú­ar. Í apríl sagði svo Lars Mørch, rekstr­ar­stjóri alþjóða­við­skipta bank­ans frá 2012, af sér og mán­uði seinna baðst forstjórinn Thom­a­s ­Borgen op­in­ber­lega afsök­unar á starf­sem­inni.

Á svip­uðum tíma gerði fjár­mála­eft­ir­lit Dan­merkur einnig athuga­semdir við svifa­seinum aðgerð­u­m Danske ­Bank vegna óeðli­lega mik­ils gróða frá erlendum við­skipta­vin­um, en eft­ir­litið gaf átta til­mæli sem bank­inn átti að fram­fylgja. Þó sagði Jesper Berg, for­stjóri fjár­mála­eft­ir­lits­ins, að ekki væru næg sönn­un­ar­gögn til staðar til þess að hefja form­lega rann­sókn. Það breyttist og í ágúst hóf saksóknari efnahagsbrota í Danmörku rannsókn á málinu.

Thomas Borgen sagði loks af sér sem forstjóri Danske Bank í september 2018.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar