Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þrjár af hverjum fjórum félagslegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík

Alls eru 76 prósent félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík. Nær öll fjölgun sem verður á þeim á svæðinu á sér stað þar. Í Garðabæ eru alls 29 félagslegar íbúðir og þeim fækkar milli ára samkvæmt talningu Varasjóðs húsnæðismála.

Félags­legum íbúðum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu fjölg­aði um 96 í fyrra. Þær eru nú 3.303. Þar af fjölg­aði þeim um 68 í Reykja­vík þar sem félags­legar íbúðir í eigu sveit­ar­fé­lags­ins sem voru til útleigu voru 2.513 í byrjun árs 2018. Það þýðir að 76 pró­sent allra félags­legra íbúða á svæð­inu eru í Reykja­vík þrátt fyrir að í borg­inni búi ein­ungis 56,4 pró­sent íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Íbúar Reykja­víkur axla því langstærstan hluta þeirrar fjár­hags­legu byrði sem fylgir því að sjá þeim sem þurfa á nið­ur­greiddu félags­legu hús­næði að halda með skatt­greiðslum sín­um.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Vara­sjóði hús­næð­is­mála sem telur árlega það félags­lega hús­næði sem er í boði á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Til félags­legs hús­næðis telj­ast félags­lega leigu­í­búð­ir, leigu­í­búðir fyrir aldr­aða í eigu sveit­ar­fé­laga, leigu­í­búðir fyrir fatl­aða í eigu sveit­ar­fé­laga og aðrar íbúðir sem ætl­aðar eru til nýt­ingar í félags­legum til­gangi.

Líkt og áður sagði eru þrjár af hverjum fjórum félags­legum íbúðum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu í Reykja­vík. Þar eru tæp­lega 20 slíkar íbúðir á hverja þús­und íbúa. Í Kópa­vogi eru 470 félags­legar íbúðir og fjölg­aði þeim um 44 í fyrra. Þar er magn slíkra á hverja þús­und íbúa tæp­lega 13.

Í Hafn­ar­firði fækk­aði félags­legu hús­næði um eitt í fyrra. Þar eru nú 244 slík eða rúm­lega átta íbúðir á hverja þús­und íbúa.

Garða­bær sker sig úr

Þrjú sveit­ar­fé­lög á höf­uð­borg­ar­svæð­inu taka mun minni þátt í því að sjá þurf­andi fólki fyrir félags­legu hús­næði. Þar fer Garða­bær, sveit­ar­fé­lag með alls 16.190 íbúa, fremst í flokki. Í Garðabæ eru alls 29 félags­legar leigu­í­búðir og fækk­aði þeim um sex í fyrra. Það þýðir að það eru tæp­lega tvær félags­legar íbúðir á hverja þús­und íbúa í sveit­ar­fé­lag­inu. Upp­lýs­inga­full­trúi Garða­bæjar segir fækk­un­ina vera vegna þess að almennum leigu­í­búðum hafi fækkað milli ára þar sem Garða­bær hafi keypt þrjú hús að Lækj­ar­fiti þar sem sjö almennar leigu­í­búðir voru. Þær íbúðir séu því ekki lengur með­tald­ar. Þegar þær séu teknar út fyrir sviga þá fjölg­aði félags­legum íbúðum í Garðabæ um eina, úr 28 í 29. Íbúð­irnar sjö hafa þó verið taldar með í sam­an­tekt Vara­sjóðs hús­næð­is­mála um magn félags­legs hús­næðis á höf­uð­borg­ar­svæð­inu á síð­ustu árum.  

Í Mos­fellsbæ voru félags­legu íbúð­irnar 31 í byrjun árs 2018 eða einni fleiri en árið áður. Sam­kvæmt þeim tölum eru félags­legar íbúðir á hverja þús­und íbúa Mos­fells­bæjar tæp­lega þrjár.

Sel­tjarn­ar­nes er með alls 16 slíkar íbúðir sem er sami fjöldi og sveit­ar­fé­lagið var með í byrjun árs 2017. Alls eru því 3,5 félags­legar íbúðir á hverja þús­und íbúa þess.

Fjöldi félagslegra íbúða í byrjun árs 2018:Heimild: Könnun Varasjóðs húsnæðismála
Reykjavík: 2.513
Kópavogur: 470
Hafnarfjörður: 244
Mosfellsbær: 31
Seltjarnarnes: 16
Garðabær: 29

Bæði Garða­bær og Sel­tjarn­ar­nes inn­heimta 13,7 pró­sent útsvar á meðan að Reykja­vík inn­heimtir 14,52 pró­sent útsvar – sem er hámarks­út­svar – og Kópa­vog­ur, Hafn­ar­fjörður og Mos­fells­bær inn­heimta 14,48 pró­sent. Íbúar Reykja­víkur borga því hærra skatta en íbúar allra hinna sveit­ar­fé­lag­anna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, meðal ann­ars vegna þess að höf­uð­borgin stendur undir þorra þess kostn­aðar sem fellur til vegna fram­boðs á félags­legu leigu­hús­næði.

Mjög margir á biðlista í brýnni þörf

Þegar staðan er skoðuð í sögu­legu sam­hengi kemur í ljós að félags­legu leigu­hús­næði sem er í boði á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur ein­ungis fjölgað úr 2.990 í 3.303, eða um 313 íbúð­ir, frá byrjun árs 2015 og fram að síð­ustu ára­mót­um. Það er aukn­ing um 10,5 pró­sent. Á sama tíma hefur íbúum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins fjölgað um 7,2 pró­sent.

Slíkum íbúðum hefur fjölgað mest í Reykja­vík á tíma­bil­inu, eða um 271. Í Kópa­vogi fjölg­aði þeim um 49, í Hafn­ar­firði og Msofellsbæ fækk­aði þeim um þrjár, Á Sel­tjarn­ar­nesi um tvær en í Garðabæ fjölg­aði félags­legum leigu­í­búðum um eina á þessum þremur árum. 

Þörfin fyrir félags­legt leigu­hús­næði er brýn. Þrátt fyrir að Reykja­vík standi fyrir þorra þeirrar upp­bygg­ingar sem eigi sér stað á slíku, og skil­yrði að upp­bygg­ing á mörgum nýjum reitum við að ákveðið hlut­fall íbúða sem þar verða byggðar séu félags­leg­ar, þá voru samt sem áður 985 manns skráðir á biðlista eftir almennu félags­legu leigu­hús­næði í borg­inni um mitt þetta ár. Þar af voru 702, eða 71 pró­sent allra sem voru á biðlista, skil­greindir í brýnni þörf.

Dagur B. Egg­erts­son, borg­ar­stjóri Reykja­vík­ur, var gestur sjón­varps­þátt­ar­ins 21 á Hring­braut í síð­ustu viku. Þar ræddi hann meðal ann­ars ofan­greinda stöðu. Í við­tal­inu sagði Dagur að „við eigum að áskilja okkur rétt til þess að skylda sveit­­ar­­fé­lög til þess að hækka hlut­­fall sitt af félags­­­legum íbúðum í eigu sveit­­ar­­fé­laga. Bara með lög­­­um. Það verður að gera það með lögum ef það ger­ist ekki öðru­­vísi[...]„Reykja­vík býr um þriðj­ungur lands­­manna. En borgin er að standa fyrir 80-90 pró­­sent af þeirri félags­­­legu hús­næð­is­­upp­­­bygg­ingu sem er í gangi. Við erum að taka langstærsta skerf af þessum nauð­­syn­­legu verk­efn­um, og það eru allir sam­­mála um að þessar áherslur séu nauð­­syn­­leg­­ar.“

Hann sagði Reykja­vík einnig vera í algjörri for­ystu þegar kemur að sam­­starfi við óhagn­að­­ar­drifin leigu­fé­lög og úthlutun lóða til slíkra. „Ég velti því fyrir mér, í tengslum við kjara­­samn­inga, hvort það sé ekki hægt að ná ein­hverju stærra sam­komu­lagi um meiri aðkomu ann­­arra, og aðkomu okk­­ar, að því til fram­­tíðar þannig að þau plön séu þá kláruð.“

Bein nið­ur­greiðsla

Í skýrslu Íbúða­lána­sjóðs og félags- og jafn­rétt­is­mála­ráðu­neyt­is­ins sem kynnt var á Hús­næð­is­þingi í síð­ustu viku kom fram að nið­ur­greiðsla leigu­verðs í félags­legum íbúðum væri mis­mikil milli sveit­ar­fé­laga, en að víða væri leigu­verð hjá sveit­ar­fé­lögum um þriðj­ungi lægra en á almennum leigu­mark­aði. „Í gegnum tíð­ina hefur komið til umræðu að beinni nið­ur­greiðslu á leigu­verði félags­legra íbúða verði hætt og stuðn­ingur við leigj­endur verði alfarið í formi bóta­greiðslna. Í athuga­semdum við frum­varp til laga nr. 138/1997 um húsa­leigu­bætur kom þetta sjón­ar­mið fram og árið 2008 ákvað Reykja­vík­ur­borg að stíga þetta skref til fulls og hætta að nið­ur­greiða leigu­verð hjá Félags­bú­stöðum með beinum hætti. Í nokkur ár þar á eftir var leigu­verð hjá Félags­bú­stöðum svipað og leigu­verð á mark­aði en á und­an­förnum fimm árum hefur leiga hjá félag­inu hins vegar ekki hækkað í takt við verð á mark­aði og nú er svo komið að bein nið­ur­greiðsla leigu hjá Félags­bú­stöðum er um 30 pró­sent.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar