Mynd: Samsett Icelandair_wowair_skúli

Kaupin á WOW air björgunaraðgerð sem átti sér skamman aðdraganda

Lánardrottnar WOW air, sem breyttu víkjandi lánum í hlutafé nýverið fá 1,8 prósent hlut í Icelandair. Það fer eftir niðurstöðu áreiðanleikakönnunar hvað Skúli Mogensen fær í sameinuðu félagi. Hann gæti fengið ekkert til viðbótar.

Sú ákvörðun Icelandair Group, móðurfélags Icelandair, að kaupa WOW air átti sér ekki langan aðdraganda. Hugmyndin hafði reyndar verið viðruð fyrir nokkrum vikum síðan þegar ljóst var að skuldabréfaútboð WOW air var að ganga afar illa, en alvöru viðræður hófust ekki fyrr en á laugardag. Þær fóru síðan á fullt í gærmorgun og unnið var að samkomulaginu í alla nótt. Það lá síðan fyrir í morgun og var tilkynnt til Kauphallar Íslands klukkan 12:49 í dag.

Viðmælendur Kjarnans eru einróma sammála um að kaupin séu björgunaraðgerð til þess að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu WOW air, sem gat illa lifað af liðin mánaðamót. Ef ekki hefði verið gripið til aðgerða nú hefði rekstur WOW air líkast til stöðvast.

Ráðamönnum hérlendis var haldið upplýstum um stöðuna um helgina. Þá hefur Samgöngustofa, sem gefur út flugrekstrarleyfi og hefur eftirlit með þeim flugfélögum sem hafa leyfi til að starfa, verið þátttakandi í ferlinu.

Hæstu vextir í Evrópu

Kaupin, og ástæður þeirra, eru þó á skjön við þau skilaboð sem send hafa verið úr herbúðum WOW air opinberlega undanfarnar vikur og mánuði, eða frá því að opinberað var að WOW air ætlaði að sækja sér nokkra tugi milljón dali með útgáfu skuldabréfa. Meðal þess sem opinberlega hafði verið sagt, var að félagið stefndi að skráningu á markað í Frankfurt og að framundan væri mikill vöxtur vegna fyrirhugaðs Asíu-flugs.

Illa gekk að fá fjárfesta til að taka þátt í útboðinu en því var þó lokað með herkjum 18. september. Vextirnir sem WOW air samþykkti að greiða af skuldabréfunum voru þó þeir hæstu sem nokkurt flugfélag í Evrópu greiddi. Vaxtakjörin, níu pró­sent ofan á þriggja mán­aða Euribor vexti, voru hærri en vextir voru í útboðum hjá Air Berlin, Finnair, Norwegian Air, Air France, British Airways og Lufthansa sem ráð­ist hefur verið í á tíma­bil­inu 2013 til 2018.

Áður voru hæstu vextir sem evr­ópskt flug­fé­lag hafði sam­þykkt að greiða 8,5 pró­sent í útboði sem Air Berlin fór í árið 2017 þegar fyr­ir­tækið sótti 125 milljón evra með víkj­andi skulda­bréfa­út­gáfu. Air Berlin fór í greiðslu­stöðvun í ágúst í fyrra og hætti starf­semi 27. októ­ber 2017. Önnur flug­fé­lög sem gáfu út skulda­bréf á tíma­bil­inu greiða, sam­kvæmt frétt Bloomberg um málið, 5,1 til 7,9 pró­sent vexti.

Í við­tali við Financial Times sem birt­ist daginn áður en tilkynnt var um að skuldabréfaútboðinu hefði verið lokað sagði Skúli Mogensen , stofnandi, aðaleigandi og forstjóri WOW air, að félagið ætl­­að­i að safna um 200 til 300 millj­­­ónum doll­­­ara í nýtt hlutafé í hluta­fjár­­­út­­­­­boði sem fyr­ir­tækið ætlar að ráð­­­ast í á næstu tveimur árum.

Af því hlutafjárútboði verður aldrei.

Arion einn helst lánadrottinn WOW air

Ekki var greint frá því hverjir hefðu tekið þátt í skuldabréfaútboðinu að öðru leyti en að það væri bæði innlendir og erlendir fjárfestar. Þessi hópur var með belti og axlabönd varðandi WOW air þar sem kaupum þeirra fylgdi breytiréttur á skuldabréfunum í hlutafé ef rekstur WOW air reyndist verri en lagt var upp með í áætlunum. Hann reyndist verri. Mun verri.

Vegna skuldabréfaútboðsins var heimild um að hækka hlutafé WOW air um 81 milljón hluta, sem er um þriðjungur alls hlutafjár eftir hækkun, samþykkt í stjórn 24. september síðastliðinn.

Samkvæmt heimildum Kjarnans kom krafan um að fara í viðræður við Icelandair Group um kaup á WOW air frá lánardrottnum félagsins, m.a. þeim sem höfðu tekið þátt í útboðinu. Arion banki er helsti lánardrottinn WOW air hérlendis og hefur því án efa leikið lykilhlutverk í þeirri kröfugerð. Arion banki hefur ekki viljað upplýsa um hvort hann, eða sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækið Stefn­ir, hafi tekið þátt í skulda­bréfa­út­boð­inu hjá WOW air.

Skúli gæti fengið ekkert til viðbótar

Í tilkynningunni sem send var til Kauphallar í morgun kemur fram að Icelandair Group muni greiða 5,4 prósent af hlutafé sínu fyrir WOW air. Það getur þó farið svo að mun minna verði greitt fyrir það.

Fyrir liggur að einhverjir kröfuhafar WOW air, nýttu sér breytirétt og breyttu víkjandi lánum í hlutafé áður en viðræðurnar fóru af stað munu fá 1,8 prósent hlut í sameinuðu félagi. Ekki hefur verið greint frá því hverjir þeir kröfuhafar eru en líklegt er að þar sé um Skúla Mogensen, að minnsta kosti að hluta, að ræða.

Þá er gengið út frá því að aðrir hluthafar, sem er félagið Títan fjárfestingar í eigu Skúla Mogensen, muni fá um 3,5 prósent hlut í Icelandair. Það gagngjald er þó bundið niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Sýni slík könnun að staða WOW air sé betri en reiknað er með getur hlutur stofnandans farið upp í 4,8 prósent. Sýni hún mun verri stöðu getur Skúli setið uppi með að fá ekkert til viðbótar fyrir WOW air.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar