Marel

Startup-stemmning hjá risanum

Stærsta skráða fyrirtæki landsins, Marel, er sannkallað flaggskip íslenskrar nýsköpunar. Fyrirtækið er nú að renna inn í mikið vaxtarskreið, miðað við kynnt áform. Blaðamaður leit við á einni af starfstöðvum fyrirtækisins, í mekka tæknigeirans í útjaðri Seattle.

Stærsta fyr­ir­tæki Íslands, Mar­el, hefur yfir að ráða miklum fjölda starfs­manna vítt og breitt um heim­inn. Sam­tals eru starfs­menn nú um 6.000 í yfir 33 lönd­um. Það er tala sem nemur tvö­földum sam­an­lögðum starfs­manna­fjölda Arion banka, Íslands­banka og Lands­bank­ans. Umfangið er mikið og fyr­ir­tækið er nú á tíma­mót­um. Óhætt er að tala um risa, á íslenskan mæli­kvarða, því ekk­ert fyr­ir­tæki með íslenskar rætur er með hærri verð­miða en Marel þessi miss­er­in.

Tví­hliða skrán­ing

Tví­hliða skrán­ing félags­ins er í burð­ar­liðnum og þar horft til kaup­hall­anna í Kaup­manna­höfn, Amster­dam og London, en það mun skýr­ast á næsta ári hvaða kaup­höll verður fyrir val­inu.

Nýlega var tekin ákvörðun um að lækka hlutafé félags­ins um 7 pró­sent, en félagið hefur á und­an­förnum árum eign­ast sífellt stærri hlut af eigin bréfum og má slá því föstu að til­gangur þess hafi meðal ann­ars verið sá að und­ir­búa félagið fyrir næsta fasa í sögu fyr­ir­tæk­is­ins. Það er skrán­ingu á markað erlendis og mik­inn og hraðan vöxt.

Árni Oddur Þórð­ar­son, for­stjóri félags­ins, hefur kynnt vaxt­ar­á­form fyrir kom­andi ár, og er þar meðal ann­ars horft til 12 pró­sent vaxtar að með­al­tali á ári næsta ára­tug­inn.

Spenn­andi tímar framundan

Nýlega sendi fyr­ir­tækið Stockvi­ews í London frá sér grein­ingu á félag­inu sem ber heitið Too Hot For Iceland, þar sem félagið er verð­metið langt yfir núver­andi stöðu á mark­aði.

Þegar verð­matið kom út mat Stockvi­ews Marel á um 433 millj­arða króna, horft til næstu 12 til 18 mán­aða, en mark­aðsvirðið var á sama tíma tæp­lega 290 mill­lj­arð­ar.

Í grein­ing­unni á félag­inu segir meðal ann­ars að mark­aðs­að­ilar hafi margir hverjir horft fram hjá Marel þrátt fyrir að fyr­ir­tækið sé leið­andi á sínu sviði, og við­skipti með hluta­bréfin ein­skorð­ast við fá íslensk verð­bréfa­fyr­ir­tæki og líf­eyr­is­sjóði. „Það kemur okkur á óvart í ljósi mark­aðsvirðis upp á tvo millj­arða evra, arð­semi heild­ar­fjár­magns upp á 40 pró­sent og sjálf­bærs vaxtar upp á 6 pró­sent,“ segir í verð­mat­inu.

Sam­kvæmt verð­mat­inu og for­sendum þess um skrán­ingu erlendis þá spáir Stockvi­ews því að gengið hækki upp í 588,48 krónur á næstu 12 til 18 mán­uðum en það hefur verið á bil­inu 370 til 390 und­an­farin miss­eri.

Gangi spá Stockvi­ews eftir um yfir­töku­gengi á Marel upp á um 630 krónur á hlut, eða um 60 pró­sentum hærra en núver­andi gengi, þá jafn­gildir það því að mark­aðsvirði Mar­els sé um 470 millj­arð­ar, eða um fjórir millj­arðar Banda­ríkja­dala, sé miðað við gengi krón­unnar eins og það var þegar verð­matið kom út.

Marel

Vax­andi eft­ir­spurn

Á und­an­förnum árum hefur Marel styrkt veru­lega stöðu sína á mark­aði fyrir tækni­lausnir fyrir mat­væla­geir­ann. Fyr­ir­tækið var stofnað árið 1983 og hefur alla tíð verið hátækni­fyr­ir­tæki, með hug­bún­að­ar­lausnir í sínu vöru­fram­boði. Á 35 ára afmæl­is­ári sínu er það orðið full­orð­ið, en mögu­lega þó að fara inn í sitt mesta vaxt­ar­tíma­bil.

Íslenskur sjáv­ar­út­vegur hefur verið eins konar til­rauna­stöð fyrir fyr­ir­tækið og hjálpað því að þróa lausnir sínar á sviði fisk­vinnslu­bún­að­ar, bæði í land­vinnslu og vinnslu á sjó. Í dag er fyr­ir­tækið einnig leið­andi í kjöt­vinnslu, bæði kjúklingi og kjöti. Vinnslu­tæknin hjálpar fram­leiðslu­fyr­ir­tækj­unum að fylgj­ast með gæða­starf­inu og ná fram hag­kvæmni.

Vöxt­ur­inn inn í fram­tíð­ina liggur ekki síst í hug­bún­að­ar­hluta fyr­ir­tæk­is­ins, eins og komið hefur fram í máli Árna Odds for­stjóra Mar­el.

Í útjaðri Seatt­le, á miklu nýsköp­un­ar­svæði í Bellevue, er teymi á vegum Innova, hug­bún­að­ar­deildar Mar­el, en hjá því starfa nú um 200 starfs­menn og fer þeim hratt fjölg­andi.

Það má með sanni segja að þar hafi verið startup-­stemmn­ing þegar blaða­maður leit við á starfs­stöð­inni, í skrif­stofu­hús­næði WeWork í miðbæ Bellevue. Helstu nágrannar eru margir risar á sviði tækni. Microsoft með umfangs­mikla starf­semi, Amazon einnig og fleiri fyr­ir­tæki, eins tölvu­leikja­fram­leið­and­inn Bungie og hug­bún­að­ar­ris­inn Sales Force.

Á meðal stórra og smárra fyr­ir­tækja er meðal ann­ars Poké­mon fyr­ir­tæk­ið, sem Nin­tendo á að stórum hluta, með starfs­stöð í sama húsi og Innova. Frum­kvöðlar sjást að vinnu og lítil hug­bún­að­ar­fyr­ir­tæki sem aug­ljós­lega eru að stíga sín fyrstu skref inn í ver­öld­ina.

Innova
Marel

Startup-andi

Það sama má segja um nýja starfs­stöð hug­bún­að­ar­deild­ar­inn­ar. Þar eru vín­yl­plötu­umslög á veggj­um, plötu­spil­ari í horn­inu og raf­magns­gítar til þjón­ustu reiðu­bú­inn, ef það kemur sá andi yfir starfs­menn. Þetta má segja að hafi yfir sér dæmi­gert yfir­bragð Startup-­fyr­ir­tæk­is.

Hjalti ÞórarinssonHjalti Þór­ar­ins­son, fram­kvæmda­stjóri Innova, segir mikil tæki­færi í því fólgin að byggja upp starf­semi á þessu svæði. Hann starf­aði sjálfur um ára­bil hjá Microsoft, meðal ann­ars við við­skipta­þróun á sviði gervi­greind­ar, og þekkir því mannauð­inn vel frá fyrstu hendi. Microsoft er með höf­uð­stöðvar sínar í Red­mond, í næsta nágrenni, og þar eru sam­tals um 45 þús­und starfs­menn.

Hann segir þörf­ina fyrir lausnir Innova fara vax­andi, og það sé mik­ill akkur í því fyrir fyr­ir­tæki eins og Marel að fá til liðs við hug­bún­að­ar­hluta fyr­ir­tæks­ins reynslu­mikið og hæft fólk sem þekkir alþjóð­lega mark­aði. „Marel hefur verið í hug­bún­aði frá upp­hafi en í ár eru 40 ár liðin síðan fyrsta raf­einda sjó­vogin var þróuð af stofn­endum Marel sem var útbúin hug­bún­aði sem safn­aði saman gögn­um. Hátækni, hug­bún­aður og gögn hefur því alltaf verið sér­staða Mar­el. Fyrir nokkrum árum er hins­vegar tekin sú ákvörðun að auka fjár­fest­ingu í hug­bún­aði og hug­bún­að­ar­þróun til að efla og auka en frekar sam­keppn­is­for­skot Marel á þessu sviði og gera við­skipta­vinum okkar kleift að vera með virka fram­leiðslu­stýr­ingu frá upp­hafi til enda. Þörfin fyrir slíkar lausnir er ört vax­andi. Þessi fjár­fest­ing hefur auk­ist með ári hverju og vegur Innova hug­bún­að­ar­ins auk­ist en í dag eru um það bil 2.000 verk­smiðjur útbúnar slíku kerfi út um allan heim,“ segir Hjalti.

Ein ástæða þess að þörfin fer vax­andi eru sífellt strang­ari gæða- og örygg­is­kröfur sem mat­væla­iðn­aður í heim­inum býr við. Hann telur Marel vera með ein­stakt tæki­færi í hönd­unum með Innova hug­bún­að­inum til að stækka og ná til enn fleiri við­skipta­vina um allan heim. „Við sjáum það á okkar við­skipta­vinum að það eru mörg vanda­mál sem þeir eru að glíma við, þar sem okkar lausnir geta hjálpað mikið til við að gera fram­leiðslu­ferlið hag­kvæmara. Í Banda­ríkj­unum hafa komið upp alvar­leg til­felli, með reglu­legu milli­bili, þar sem inn­kalla þarf vör­ur. Það gerð­ist t.d. árið 2011 þegar listería barst með melónum (kantalúp­melón­um) sem leiddi til þrjá­tíu og þriggja dauðs­falla. Þegar þessi til­felli hafa komið upp þá hefur það leitt til reglu­breyt­inga og strang­ara eft­ir­lits. Við­skipta­vinir Innova eru að nýta gögn til þess að finna leiðir til að betrumbæta fram­leiðslu­ferla, ná fram betri nýt­ingu á hrá­efni og auka gæði fyrir neyt­endur og tryggja rekj­an­leika. Þeir eru að óska eftir mun meiri þjón­ustu og ítar­legri úrvinnslu á gögnum til að takast á við þessar áskor­an­ir, heldur en áður. Í þessu umhverfi fel­ast mikil tæki­færi fyrir okk­ur,“ segir Hjalti.

Íslenskir hluthafar í alþjóðlegu félagi - Krefjandi rekstrarumhverfi

Stærsti einstaki hluthafi Marel er Eyrir Invest með 25,9 prósent hlut. Landsbankinn hefur selt 9,2 prósent eignarhlut í Eyri Invest hf. í opnu söluferli en frestur til að skila inn tilboðum í söluferlinu var til klukkan tólf á hádegi miðvikudaginn 28. nóvember síðastliðinn. Þegar Kjarninn hafði samband við Landsbankann vildi hann ekki greina frá því hver kaupandinn væri.

Landsbankinn auglýsti opið söluferli á allt að 12,1 prósent eignarhlut sínum í fjárfestingafélaginu Eyri Invest hf. þann 6. nóvember síðastliðinn en bankinn átti fyrir söluferlið 22 prósent hlut í félaginu. Í tilkynningu frá bankanum segir að söluferlið hafi farið fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og hafi verið öllum opið sem teljast vera hæfir fjárfestar samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti. Lágmarksgengi sem fjárfestar gátu boðið í söluferlinu var 41,80 krónur á hvern hlut í Eyri Invest.

Landsbankinn tók fjórum tilboðum af fimm sem bárust í 91.509.035 hluti í Eyri Invest. Allir hlutirnir voru seldir á sama sölugengi sem var 42,845 krónur á hvern hlut. Tilboði sem var undir sölugengi var hafnað. Söluandvirði hlutanna nemur um 3,9 milljörðum króna.

Eins og greint var frá í Markaðinum í byrjun mánaðarins þá hefur Fjármálaeftirlitið frá því um miðjan september sektað Landsbankann um hálfa milljón króna á dag til þess að knýja á um að bankinn selji 22 prósenta hlut sinn í Eyri.

Í svari bankans við fyrirspurn Markaðarins kom fram að bankinn hefði lengi reynt að selja bréfin í Eyri Invest og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins gerði það enn brýnna en áður. Bankinn hafði hins vegar ekki fengið viðunandi tilboð og því hefur söluferlið tafist.

Óbeinn eignarhlutur Landsbankans í hátæknifyrirtækinu er metinn á rúmlega 16 milljarða króna. Til viðbótar á fjárfestingafélagið 43,4 prósenta hlut í Eyri Sprotum, sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum, og þriðjungshlut í Efni Media, sem selur vörur og þjónustu í gegnum netið og samfélagsmiðla.

Eignarhald Landsbankans í Eyri Invest telst fela í sér tímabundna starfsemi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, enda er um að ræða félög í óskyldum rekstri, og hefur Fjármálaeftirlitið á undanförnum árum veitt bankanum fresti til þess að minnka hlut sinn.

Óvissa í heimsbúskapnum

Einn af óvissuþáttunum í rekstri Marels fyrir komandi tíma, eru breytingar á alþjóðamörkuðum, meðal annars vegna tollastríðs Bandaríkjanna og Kína. Í tilkynningu vegna rekstrarniðurstöðu Marels fyrir þriðja ársfjórðung, lét Árni Oddur hafa eftir sér að það væru „áhugaverðir tímar“ í rekstri fyrirtækisins um þessar mundir. Óvissuþættir eru þó fyrir hendi. „Viðskiptahindranir og umrót í alþjóðakerfinu mynda ósamræmi í framboði og eftirspurn matvæla innan heimshluta en á sama tíma er eftirspurn neytenda á heimsvísu að aukast. Þetta kann að hafa í för með sér minni nýfjárfestingar viðskiptavina okkar á næstu tveimur til þremur ársfjórðungum eftir kröftugan vöxt pantana í byrjun ársins. Neytendur leita í auknum mæli eftir öruggum og hagkvæmum matvælum og samhliða því eykst spurnin eftir hátæknilausnum til matvælavinnslu. Við störfum á ört vaxandi markaði og með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt,“ segir í tilkynningunni.

Snýst um rétta fólkið

Eitt af því sem ein­kennir tækni­geir­ann í Banda­ríkj­unum er hörð sam­keppni um hæfi­leik­a­ríkt og reynslu­mikið fólk. Meðal ann­ars þess vegna hefur mynd­ast einn stærsti tækniklasi í heimi á Seattle svæð­inu. Microsoft og Amazon eru með sínar höf­uð­stöðvar þar, og stór fyr­ir­tæki eins og Face­book og Google hafa ákveðið að styrkja starf­semi sína á svæð­inu, til þess að fá til liðs við sig gott fólk.

Hjalti segir að vissu­lega sé það nokkuð erfitt verk­efni, að berj­ast við ris­ana um rétta fólk­ið, en samt séu margir til­búnir að breyta til, einmitt til að fá meira krefj­andi verk­efni og reynslu af upp­bygg­ingu. „Það er mikið af fólki sem vill kom­ast inn í aðeins minni fyr­ir­tæki þar sem það getur látið meira til sín taka og fær tæki­færi til þess móta stefnu á ört vax­andi mark­aði. Við höfum sann­ar­lega fundið fyrir þessu, og náð að fá til liðs við okkur fram­úr­skar­andi fólk með mikla reynslu,“ segir Hjalti. „Það hjálpar einnig til að Marel er starf­andi á mjög áhuga­verðum og lif­andi vaxt­ar­mark­aði, alþjóð­lega mat­væla­mark­að­inum sem flestir geta tengt sig við þar sem við borðum jú öll mat. Verk­efni Marel er m.a. að mæta þeirri áskorun í sam­starfi við sína við­skipta­vini, að fæða ört stækk­andi heims­byggð á sama tíma og nátt­úru­auð­lindir fara þverr­andi, það er göf­ugt og verð­ugt verk­efni sem margir vilja leggja lið,“ bætir Hjalti við.

Að und­an­förnu hefur Innova fengið fólk með reynslu meðal ann­ars frá Microsoft, til liðs við starf­stöð­ina í Bellevue. „Hóp­ur­inn verður ekki settur upp sem sjálf­stæð vöru­þró­un­ar­ein­ing heldur er hann ætl­aður til að styrkja mjög öfl­uga hug­bún­að­ar­hópa á Íslandi, Dan­mörku og í Hollandi með auk­inni sér­þekk­ingu og reynslu,“ segir Hjalti.

Hóp­ur­inn gegnir jafn­framt mik­il­vægu hlut­verki við mark­aðs­sókn Marel í Banda­ríkj­un­um. Sem dæmi um stóra við­skipta­vini Marel þar í landi er Costco, sem flestir Íslend­ingar kann­ast nú við eftir að félagið kom eins og storm­sveipur inn á íslenskan smá­sölu­mark­að.

Costco er með höf­uð­stöðvar á Seattle svæð­inu, nánar til tekið í Issaqu­ah. Fyr­ir­tækið er með umsvifa­mikla starf­semi á sviði mat­væla­fram­leiðslu og sölu og nýtir sér Innova hug­bún­að­inn til að styrkja hana og bæta. Mark­aðsvirði fyr­ir­tæk­is­ins er tæp­lega 100 millj­arðar Banda­ríkjdala, eða sem nemur um 12.500 millj­örðum króna. Ekki síst af þessum sök­um, er mik­il­vægt að vera með starfs­stöð á Seattle svæð­inu, til að vinna náið með við­skipta­vin­um.

Sterkar rætur í tækni

Eitt af því sem kemur mörgum á óvart, sem rýna í stöðu Mar­el, er hversu djúpar rætur félagið á í tækni. Alveg frá byrjun hefur fyr­ir­tækið verið í far­ar­broddi í tækni og hug­bún­aði, og segir Hjalti að margir sem hafi mikla reynslu hafi upp­lifað ýmis­legt á löngum starfs­ferli. „Einn af okkar lyk­il­starfs­mönn­um, Björn Þor­valds­son, var að tengja saman 150 tæki í Suð­ur­-Afr­íku á sama tíma og Nel­son Mand­ela er að taka við sem for­seti. Þannig að hug­bún­aður Innova teygir sig langt aftur og hefur verið hluti af Marel stóran hluta af sögu fyr­ir­tæk­is­ins,“ segir Hjalti. Þannig hafi Marel verið byrjað að starfa í hluta­neti (Inter­net Of Things) löngu áður en margir aðrir byrj­uðu á því, með því að tengja saman tæki og tól, og fá þannig heild­stæða yfir­sýn á fram­leiðslu­ferla.

Á tímum þar sem vax­andi kröfur eru um umhverf­is­væna og hag­kvæma fram­leiðslu, þá sé hug­bún­að­ar­þjón­usta Marel afar mik­il­væg og ein­stök. Gögnin eru hrá­vara nýrrar iðn­bylt­ingar og með þeim má ná miklum árangri við mörg þau sam­fé­lags­legu mál sem eru hvað brýn­ust í okkar sam­tíma, segir Hjalti.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar