Marel

Startup-stemmning hjá risanum

Stærsta skráða fyrirtæki landsins, Marel, er sannkallað flaggskip íslenskrar nýsköpunar. Fyrirtækið er nú að renna inn í mikið vaxtarskreið, miðað við kynnt áform. Blaðamaður leit við á einni af starfstöðvum fyrirtækisins, í mekka tæknigeirans í útjaðri Seattle.

Stærsta fyrirtæki Íslands, Marel, hefur yfir að ráða miklum fjölda starfsmanna vítt og breitt um heiminn. Samtals eru starfsmenn nú um 6.000 í yfir 33 löndum. Það er tala sem nemur tvöföldum samanlögðum starfsmannafjölda Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans. Umfangið er mikið og fyrirtækið er nú á tímamótum. Óhætt er að tala um risa, á íslenskan mælikvarða, því ekkert fyrirtæki með íslenskar rætur er með hærri verðmiða en Marel þessi misserin.

Tvíhliða skráning

Tvíhliða skráning félagsins er í burðarliðnum og þar horft til kauphallanna í Kaupmannahöfn, Amsterdam og London, en það mun skýrast á næsta ári hvaða kauphöll verður fyrir valinu.

Nýlega var tekin ákvörðun um að lækka hlutafé félagsins um 7 prósent, en félagið hefur á undanförnum árum eignast sífellt stærri hlut af eigin bréfum og má slá því föstu að tilgangur þess hafi meðal annars verið sá að undirbúa félagið fyrir næsta fasa í sögu fyrirtækisins. Það er skráningu á markað erlendis og mikinn og hraðan vöxt.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri félagsins, hefur kynnt vaxtaráform fyrir komandi ár, og er þar meðal annars horft til 12 prósent vaxtar að meðaltali á ári næsta áratuginn.

Spennandi tímar framundan

Nýlega sendi fyrirtækið Stockviews í London frá sér greiningu á félaginu sem ber heitið Too Hot For Iceland, þar sem félagið er verðmetið langt yfir núverandi stöðu á markaði.

Þegar verðmatið kom út mat Stockviews Marel á um 433 milljarða króna, horft til næstu 12 til 18 mánaða, en markaðsvirðið var á sama tíma tæplega 290 millljarðar.

Í greiningunni á félaginu segir meðal annars að markaðsaðilar hafi margir hverjir horft fram hjá Marel þrátt fyrir að fyrirtækið sé leiðandi á sínu sviði, og viðskipti með hlutabréfin einskorðast við fá íslensk verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóði. „Það kemur okkur á óvart í ljósi markaðsvirðis upp á tvo milljarða evra, arðsemi heildarfjármagns upp á 40 prósent og sjálfbærs vaxtar upp á 6 prósent,“ segir í verðmatinu.

Samkvæmt verðmatinu og forsendum þess um skráningu erlendis þá spáir Stockviews því að gengið hækki upp í 588,48 krónur á næstu 12 til 18 mánuðum en það hefur verið á bilinu 370 til 390 undanfarin misseri.

Gangi spá Stockviews eftir um yfirtökugengi á Marel upp á um 630 krónur á hlut, eða um 60 prósentum hærra en núverandi gengi, þá jafngildir það því að markaðsvirði Marels sé um 470 milljarðar, eða um fjórir milljarðar Bandaríkjadala, sé miðað við gengi krónunnar eins og það var þegar verðmatið kom út.

Marel

Vaxandi eftirspurn

Á undanförnum árum hefur Marel styrkt verulega stöðu sína á markaði fyrir tæknilausnir fyrir matvælageirann. Fyrirtækið var stofnað árið 1983 og hefur alla tíð verið hátæknifyrirtæki, með hugbúnaðarlausnir í sínu vöruframboði. Á 35 ára afmælisári sínu er það orðið fullorðið, en mögulega þó að fara inn í sitt mesta vaxtartímabil.

Íslenskur sjávarútvegur hefur verið eins konar tilraunastöð fyrir fyrirtækið og hjálpað því að þróa lausnir sínar á sviði fiskvinnslubúnaðar, bæði í landvinnslu og vinnslu á sjó. Í dag er fyrirtækið einnig leiðandi í kjötvinnslu, bæði kjúklingi og kjöti. Vinnslutæknin hjálpar framleiðslufyrirtækjunum að fylgjast með gæðastarfinu og ná fram hagkvæmni.

Vöxturinn inn í framtíðina liggur ekki síst í hugbúnaðarhluta fyrirtækisins, eins og komið hefur fram í máli Árna Odds forstjóra Marel.

Í útjaðri Seattle, á miklu nýsköpunarsvæði í Bellevue, er teymi á vegum Innova, hugbúnaðardeildar Marel, en hjá því starfa nú um 200 starfsmenn og fer þeim hratt fjölgandi.

Það má með sanni segja að þar hafi verið startup-stemmning þegar blaðamaður leit við á starfsstöðinni, í skrifstofuhúsnæði WeWork í miðbæ Bellevue. Helstu nágrannar eru margir risar á sviði tækni. Microsoft með umfangsmikla starfsemi, Amazon einnig og fleiri fyrirtæki, eins tölvuleikjaframleiðandinn Bungie og hugbúnaðarrisinn Sales Force.

Á meðal stórra og smárra fyrirtækja er meðal annars Pokémon fyrirtækið, sem Nintendo á að stórum hluta, með starfsstöð í sama húsi og Innova. Frumkvöðlar sjást að vinnu og lítil hugbúnaðarfyrirtæki sem augljóslega eru að stíga sín fyrstu skref inn í veröldina.

Innova
Marel

Startup-andi

Það sama má segja um nýja starfsstöð hugbúnaðardeildarinnar. Þar eru vínylplötuumslög á veggjum, plötuspilari í horninu og rafmagnsgítar til þjónustu reiðubúinn, ef það kemur sá andi yfir starfsmenn. Þetta má segja að hafi yfir sér dæmigert yfirbragð Startup-fyrirtækis.

Hjalti ÞórarinssonHjalti Þórarinsson, framkvæmdastjóri Innova, segir mikil tækifæri í því fólgin að byggja upp starfsemi á þessu svæði. Hann starfaði sjálfur um árabil hjá Microsoft, meðal annars við viðskiptaþróun á sviði gervigreindar, og þekkir því mannauðinn vel frá fyrstu hendi. Microsoft er með höfuðstöðvar sínar í Redmond, í næsta nágrenni, og þar eru samtals um 45 þúsund starfsmenn.

Hann segir þörfina fyrir lausnir Innova fara vaxandi, og það sé mikill akkur í því fyrir fyrirtæki eins og Marel að fá til liðs við hugbúnaðarhluta fyrirtæksins reynslumikið og hæft fólk sem þekkir alþjóðlega markaði. „Marel hefur verið í hugbúnaði frá upphafi en í ár eru 40 ár liðin síðan fyrsta rafeinda sjóvogin var þróuð af stofnendum Marel sem var útbúin hugbúnaði sem safnaði saman gögnum. Hátækni, hugbúnaður og gögn hefur því alltaf verið sérstaða Marel. Fyrir nokkrum árum er hinsvegar tekin sú ákvörðun að auka fjárfestingu í hugbúnaði og hugbúnaðarþróun til að efla og auka en frekar samkeppnisforskot Marel á þessu sviði og gera viðskiptavinum okkar kleift að vera með virka framleiðslustýringu frá upphafi til enda. Þörfin fyrir slíkar lausnir er ört vaxandi. Þessi fjárfesting hefur aukist með ári hverju og vegur Innova hugbúnaðarins aukist en í dag eru um það bil 2.000 verksmiðjur útbúnar slíku kerfi út um allan heim,“ segir Hjalti.

Ein ástæða þess að þörfin fer vaxandi eru sífellt strangari gæða- og öryggiskröfur sem matvælaiðnaður í heiminum býr við. Hann telur Marel vera með einstakt tækifæri í höndunum með Innova hugbúnaðinum til að stækka og ná til enn fleiri viðskiptavina um allan heim. „Við sjáum það á okkar viðskiptavinum að það eru mörg vandamál sem þeir eru að glíma við, þar sem okkar lausnir geta hjálpað mikið til við að gera framleiðsluferlið hagkvæmara. Í Bandaríkjunum hafa komið upp alvarleg tilfelli, með reglulegu millibili, þar sem innkalla þarf vörur. Það gerðist t.d. árið 2011 þegar listería barst með melónum (kantalúpmelónum) sem leiddi til þrjátíu og þriggja dauðsfalla. Þegar þessi tilfelli hafa komið upp þá hefur það leitt til reglubreytinga og strangara eftirlits. Viðskiptavinir Innova eru að nýta gögn til þess að finna leiðir til að betrumbæta framleiðsluferla, ná fram betri nýtingu á hráefni og auka gæði fyrir neytendur og tryggja rekjanleika. Þeir eru að óska eftir mun meiri þjónustu og ítarlegri úrvinnslu á gögnum til að takast á við þessar áskoranir, heldur en áður. Í þessu umhverfi felast mikil tækifæri fyrir okkur,“ segir Hjalti.

Íslenskir hluthafar í alþjóðlegu félagi - Krefjandi rekstrarumhverfi

Stærsti einstaki hluthafi Marel er Eyrir Invest með 25,9 prósent hlut. Landsbankinn hefur selt 9,2 prósent eignarhlut í Eyri Invest hf. í opnu söluferli en frestur til að skila inn tilboðum í söluferlinu var til klukkan tólf á hádegi miðvikudaginn 28. nóvember síðastliðinn. Þegar Kjarninn hafði samband við Landsbankann vildi hann ekki greina frá því hver kaupandinn væri.

Landsbankinn auglýsti opið söluferli á allt að 12,1 prósent eignarhlut sínum í fjárfestingafélaginu Eyri Invest hf. þann 6. nóvember síðastliðinn en bankinn átti fyrir söluferlið 22 prósent hlut í félaginu. Í tilkynningu frá bankanum segir að söluferlið hafi farið fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og hafi verið öllum opið sem teljast vera hæfir fjárfestar samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti. Lágmarksgengi sem fjárfestar gátu boðið í söluferlinu var 41,80 krónur á hvern hlut í Eyri Invest.

Landsbankinn tók fjórum tilboðum af fimm sem bárust í 91.509.035 hluti í Eyri Invest. Allir hlutirnir voru seldir á sama sölugengi sem var 42,845 krónur á hvern hlut. Tilboði sem var undir sölugengi var hafnað. Söluandvirði hlutanna nemur um 3,9 milljörðum króna.

Eins og greint var frá í Markaðinum í byrjun mánaðarins þá hefur Fjármálaeftirlitið frá því um miðjan september sektað Landsbankann um hálfa milljón króna á dag til þess að knýja á um að bankinn selji 22 prósenta hlut sinn í Eyri.

Í svari bankans við fyrirspurn Markaðarins kom fram að bankinn hefði lengi reynt að selja bréfin í Eyri Invest og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins gerði það enn brýnna en áður. Bankinn hafði hins vegar ekki fengið viðunandi tilboð og því hefur söluferlið tafist.

Óbeinn eignarhlutur Landsbankans í hátæknifyrirtækinu er metinn á rúmlega 16 milljarða króna. Til viðbótar á fjárfestingafélagið 43,4 prósenta hlut í Eyri Sprotum, sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum, og þriðjungshlut í Efni Media, sem selur vörur og þjónustu í gegnum netið og samfélagsmiðla.

Eignarhald Landsbankans í Eyri Invest telst fela í sér tímabundna starfsemi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, enda er um að ræða félög í óskyldum rekstri, og hefur Fjármálaeftirlitið á undanförnum árum veitt bankanum fresti til þess að minnka hlut sinn.

Óvissa í heimsbúskapnum

Einn af óvissuþáttunum í rekstri Marels fyrir komandi tíma, eru breytingar á alþjóðamörkuðum, meðal annars vegna tollastríðs Bandaríkjanna og Kína. Í tilkynningu vegna rekstrarniðurstöðu Marels fyrir þriðja ársfjórðung, lét Árni Oddur hafa eftir sér að það væru „áhugaverðir tímar“ í rekstri fyrirtækisins um þessar mundir. Óvissuþættir eru þó fyrir hendi. „Viðskiptahindranir og umrót í alþjóðakerfinu mynda ósamræmi í framboði og eftirspurn matvæla innan heimshluta en á sama tíma er eftirspurn neytenda á heimsvísu að aukast. Þetta kann að hafa í för með sér minni nýfjárfestingar viðskiptavina okkar á næstu tveimur til þremur ársfjórðungum eftir kröftugan vöxt pantana í byrjun ársins. Neytendur leita í auknum mæli eftir öruggum og hagkvæmum matvælum og samhliða því eykst spurnin eftir hátæknilausnum til matvælavinnslu. Við störfum á ört vaxandi markaði og með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt,“ segir í tilkynningunni.

Snýst um rétta fólkið

Eitt af því sem einkennir tæknigeirann í Bandaríkjunum er hörð samkeppni um hæfileikaríkt og reynslumikið fólk. Meðal annars þess vegna hefur myndast einn stærsti tækniklasi í heimi á Seattle svæðinu. Microsoft og Amazon eru með sínar höfuðstöðvar þar, og stór fyrirtæki eins og Facebook og Google hafa ákveðið að styrkja starfsemi sína á svæðinu, til þess að fá til liðs við sig gott fólk.

Hjalti segir að vissulega sé það nokkuð erfitt verkefni, að berjast við risana um rétta fólkið, en samt séu margir tilbúnir að breyta til, einmitt til að fá meira krefjandi verkefni og reynslu af uppbyggingu. „Það er mikið af fólki sem vill komast inn í aðeins minni fyrirtæki þar sem það getur látið meira til sín taka og fær tækifæri til þess móta stefnu á ört vaxandi markaði. Við höfum sannarlega fundið fyrir þessu, og náð að fá til liðs við okkur framúrskarandi fólk með mikla reynslu,“ segir Hjalti. „Það hjálpar einnig til að Marel er starfandi á mjög áhugaverðum og lifandi vaxtarmarkaði, alþjóðlega matvælamarkaðinum sem flestir geta tengt sig við þar sem við borðum jú öll mat. Verkefni Marel er m.a. að mæta þeirri áskorun í samstarfi við sína viðskiptavini, að fæða ört stækkandi heimsbyggð á sama tíma og náttúruauðlindir fara þverrandi, það er göfugt og verðugt verkefni sem margir vilja leggja lið,“ bætir Hjalti við.

Að undanförnu hefur Innova fengið fólk með reynslu meðal annars frá Microsoft, til liðs við starfstöðina í Bellevue. „Hópurinn verður ekki settur upp sem sjálfstæð vöruþróunareining heldur er hann ætlaður til að styrkja mjög öfluga hugbúnaðarhópa á Íslandi, Danmörku og í Hollandi með aukinni sérþekkingu og reynslu,“ segir Hjalti.

Hópurinn gegnir jafnframt mikilvægu hlutverki við markaðssókn Marel í Bandaríkjunum. Sem dæmi um stóra viðskiptavini Marel þar í landi er Costco, sem flestir Íslendingar kannast nú við eftir að félagið kom eins og stormsveipur inn á íslenskan smásölumarkað.

Costco er með höfuðstöðvar á Seattle svæðinu, nánar til tekið í Issaquah. Fyrirtækið er með umsvifamikla starfsemi á sviði matvælaframleiðslu og sölu og nýtir sér Innova hugbúnaðinn til að styrkja hana og bæta. Markaðsvirði fyrirtækisins er tæplega 100 milljarðar Bandaríkjdala, eða sem nemur um 12.500 milljörðum króna. Ekki síst af þessum sökum, er mikilvægt að vera með starfsstöð á Seattle svæðinu, til að vinna náið með viðskiptavinum.

Sterkar rætur í tækni

Eitt af því sem kemur mörgum á óvart, sem rýna í stöðu Marel, er hversu djúpar rætur félagið á í tækni. Alveg frá byrjun hefur fyrirtækið verið í fararbroddi í tækni og hugbúnaði, og segir Hjalti að margir sem hafi mikla reynslu hafi upplifað ýmislegt á löngum starfsferli. „Einn af okkar lykilstarfsmönnum, Björn Þorvaldsson, var að tengja saman 150 tæki í Suður-Afríku á sama tíma og Nelson Mandela er að taka við sem forseti. Þannig að hugbúnaður Innova teygir sig langt aftur og hefur verið hluti af Marel stóran hluta af sögu fyrirtækisins,“ segir Hjalti. Þannig hafi Marel verið byrjað að starfa í hlutaneti (Internet Of Things) löngu áður en margir aðrir byrjuðu á því, með því að tengja saman tæki og tól, og fá þannig heildstæða yfirsýn á framleiðsluferla.

Á tímum þar sem vaxandi kröfur eru um umhverfisvæna og hagkvæma framleiðslu, þá sé hugbúnaðarþjónusta Marel afar mikilvæg og einstök. Gögnin eru hrávara nýrrar iðnbyltingar og með þeim má ná miklum árangri við mörg þau samfélagslegu mál sem eru hvað brýnust í okkar samtíma, segir Hjalti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar