Sjálfstæðisflokkurinn fékk of háa styrki árum saman
Sjálfstæðisflokkurinn fékk styrki sem voru umfram lögbundið hámark frá tengdum aðilum árin 2013, 2015, 2016 og 2017. Að mestu leyti er um styrki frá Ísfélagsfjölskyldunni, sem á meðal annars stóran hlut í Morgunblaðinu, að ræða. Ríkisendurskoðun hefur farið fram á að flokkurinn endurgreiði styrkina.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurgreiða 1,4 milljón króna til styrkveitenda vegna þess að flokkurinn fékk styrki frá tengdum aðilum sem voru umfram leyfilegt hámark á árunum 2013, 2015 og 2016. Þessar greiðslur koma til viðbótar því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar endurgreitt 500 þúsund krónur vegna styrkja sem hann fékk á árinu 2017 frá tengdum aðilum. Alls hefur Sjálfstæðisflokkurinn því fengið 1,9 milljónir króna í styrki sem voru umfram leyfilegt hámark frá tengdum aðilum.
Þorri umræddra ofgreiðslna á styrkjum kom frá Ísfélagsfjölskyldunni svokölluðu. Þ.e. fyrirtækjum sem eru í Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu hennar. Þau eru Ísfélag Vestmannaeyjuna, Oddi prentun og umbúðir ehf. og Ísam ehf. Alls greiddu fyrirtæki í eigu fjölskyldunnar hálfri milljón króna umfram leyfilegt hámark til Sjálfstæðisflokksins á árunum 2015, 2016 og 2017. Flokkurinn er þegar búinn að greiða fyrirtækjasamstæðunni til baka vegna of hárra styrkveitinga hennar vegna ársins 2017 en þarf nú að greiða henni eina milljón króna til viðbótar vegna eldri styrkja. Til viðbótar greiddu fyrirtækin Eskja og Fiskimið, sem eru í eigu sömu aðila, 400 þúsund krónur umfram leyfilega hámarksfjárhæð í styrk til Sjálfstæðisflokksins á árinu 2013.
Í útdrætti úr ársreikningi Sjálfstæðisflokksins vegna ársins 2017 sem birtur var á vef Ríkisendurskoðunar í síðasta mánuði kom fram að flokkurinn hefði fengið of háa styrki frá Ísfélagsfjölskyldunni það árið og verið grert að endurgreiða 500 þúsund krónur vegna þessa. Í útdráttum sem birtir eru á vef Ríkisendurskoðunar vegna fyrri ársreikninga mátti sjá að sömu fyrirtæki höfðu áður gefið sameiginlega upphæð sem var yfir lögbundnu hámarki. Kjarninn sendi fyrirspurn 28. nóvember síðastliðinn og spurðist fyrir um hvort það hefði verið skoðað aftur í tímann hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið of háa styrki frá tengdum aðilum. Það hafði ekki verið gert fyrr en eftir ábendingu Kjarnans og niðurstaða slíkrar skoðunar var sú að flokkurinn hafði fengið styrki frá tengdum aðilum sem voru yfir lögbundnu hámarki árum saman.
Kjarninn spurði einnig hvort að dæmi væri um að tengdir aðilar hefðu gefið öðrum stjórnmálaflokkum fé sem væri yfir því sem lög heimila. Þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað.
Tengdir aðilar máttu gefa 400 þúsund
Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka mátti lögaðili ekki gefa einstökum stjórnmálaflokki meira en 400 þúsund krónur árlega. Í lögunum var tekið fram að tengdir aðilar teldust sem einn ef „sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.“
Lögunum var breytt fyrir nokkrum dögum síðan. Í þeim breytingum fólst meðal annars að hámarksframlag sem hver og einn einstaklingur eða lögaðili má gefa stjórnmálaflokkum var hækkað í 550 þúsund krónur og að hugtakið „tengdir aðilar“ var samræmt við skilgreiningar á slíkum í annarri löggjöf, svo sem í hlutafélaga-, einkahlutafélaga-, ársreikninga- og samkeppnislöggjöf. Í greinargerð með frumvarpinu sagði: „Þar sem vart er hægt að hugsa sér nánari tengsl lögaðila en móður- og dótturfélög er lagt til að aðilar í slíku réttarsambandi teljist tengdir í skilningi laganna. Tillagan er jafnframt í samræmi við tilmæli ÖSE, sem fram koma í úttektarskýrslu stofnunarinnar frá 2. mars 2018.“
Of hátt samkvæmt breyttum lögum líka
Sama hvora skilgreininguna er stuðst við þá liggur fyrir að stjórnmálaflokkar eiga að telja saman framlög tengdra aðila. Það gerði Sjálfstæðisflokkurinn ekki.
Ísfélag Vestmannaeyja er í eigu Fram ehf. Það félag er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og barna hennar. Fram á einnig fjárfestingafélagið Kristinn ehf., sem á allt hlutafé í Ísam ehf. og 73,5 prósent hlut i Odda prentun og úmbúðir ehf. Félögin eru því augljóslega tengd, enda í eigu sömu fjölskyldu.
Þrátt fyrir það gaf Ísfélagið Sjálfstæðisflokknum 400 þúsund krónur árin 2015, 2016 og 2017. Ísam gaf honum sömu upphæð öll ári og Oddi gaf flokknum 100 þúsund krónur. Samanlagt framlag þessarra þriggja tengdu aðila var því 900 þúsund krónur hvert ár, eða 500 þúsund krónum meira en lög heimila. Sjálfstæðisflokkurinn þarf þess vegna að endurgreiða Ísfélagsfjölskyldunni alls 1,5 milljónir króna. Hann hefur nú þegar endurgreitt upphæðina vegna ársins 2017 til Ísfélagsins og Odda.
Til viðbótar þarf hann, líkt og áður sagði, að endurgreiða eigendur fyrirtækjanna Eskju og Fiskimiða, 400 þúsund krónur vegna ofgreiddra styrkja á árinu 2013.
Stærstu eigendur Morgunblaðsins
Félög tengd Ísfélaginu eru ekki bara á meðal helstu styrktaraðila Sjálfstæðisflokksins. Þau eru líka stærstu eigendur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og áðurnefnt félag, Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, á 16,45 prósent hlut.
Aðkoma fjölskyldunnar að rekstri Morgunblaðsins hófst árið 2009 þegar hún myndaði bakbeinið í hópi aðila, að mestu tengdum sjávarútvegi, sem keypti Árvakur. Nokkrum mánuðum síðar réðu nýir eigendur Davíð Oddsson, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem ritstjóra. Hann gegnir því starfi enn.
Árvakur tapaði 284 milljónum króna á árinu 2017. Frá því að nýir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009, og fram að síðustu áramótum, hefur félagið tapað um 1,8 milljarði króna. Hluthafar Árvakurs, meðal annars Ísfélagsfjölskyldan, hafa sett inn rúmlega 1,4 milljarða króna inn í Árvakur hið minnsta á því tímabili.