Mynd: xd.is

Sjálfstæðisflokkurinn fékk of háa styrki árum saman

Sjálfstæðisflokkurinn fékk styrki sem voru umfram lögbundið hámark frá tengdum aðilum árin 2013, 2015, 2016 og 2017. Að mestu leyti er um styrki frá Ísfélagsfjölskyldunni, sem á meðal annars stóran hlut í Morgunblaðinu, að ræða. Ríkisendurskoðun hefur farið fram á að flokkurinn endurgreiði styrkina.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn þarf að end­ur­greiða 1,4 milljón króna til styrk­veit­enda vegna þess að flokk­ur­inn fékk styrki frá tengdum aðilum sem voru umfram leyfi­legt hámark á árunum 2013, 2015 og 2016. Þessar greiðslur koma til við­bótar því að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur þegar end­ur­greitt 500 þús­und krónur vegna styrkja sem hann fékk á árinu 2017 frá tengdum aðil­um. Alls hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn því fengið 1,9 millj­ónir króna í styrki sem voru umfram leyfi­legt hámark frá tengdum aðil­um.

Þorri umræddra ofgreiðslna á styrkjum kom frá Ísfé­lags­fjöl­skyld­unni svoköll­uðu. Þ.e. fyr­ir­tækjum sem eru í Guð­bjargar Matth­í­as­dóttur og fjöl­skyldu henn­ar. Þau eru Ísfé­lag Vest­manna­eyj­una, Oddi prentun og umbúðir ehf. og Ísam ehf. Alls greiddu fyr­ir­tæki í eigu fjöl­skyld­unnar hálfri milljón króna umfram leyfi­legt hámark til Sjálf­stæð­is­flokks­ins á árunum 2015, 2016 og 2017. Flokk­ur­inn er þegar búinn að greiða fyr­ir­tækja­sam­stæð­unni til baka vegna of hárra styrk­veit­inga hennar vegna árs­ins 2017 en þarf nú að greiða henni eina milljón króna til við­bótar vegna eldri styrkja. Til við­bótar greiddu fyr­ir­tækin Eskja og Fiski­mið, sem eru í eigu sömu aðila, 400 þús­und krónur umfram leyfi­lega hámarks­fjár­hæð í styrk til Sjálf­stæð­is­flokks­ins á árinu 2013.

Í útdrætti úr árs­reikn­ingi Sjálf­stæð­is­flokks­ins vegna árs­ins 2017 sem birtur var á vef Rík­is­end­ur­skoð­unar í síð­asta mán­uði kom fram að flokk­ur­inn hefði fengið of háa styrki frá Ísfé­lags­fjöl­skyld­unni það árið og verið grert að end­ur­greiða 500 þús­und krónur vegna þessa. Í útdráttum sem birtir eru á vef Rík­is­end­ur­skoð­unar vegna fyrri árs­reikn­inga mátti sjá að sömu fyr­ir­tæki höfðu áður gefið sam­eig­in­lega upp­hæð sem var yfir lög­bundnu hámarki. Kjarn­inn sendi fyr­ir­spurn 28. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn og spurð­ist fyrir um hvort það hefði verið skoðað aftur í tím­ann hvort Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefði fengið of háa styrki frá tengdum aðil­um. Það hafði ekki verið gert fyrr en eftir ábend­ingu Kjarn­ans og nið­ur­staða slíkrar skoð­unar var sú að flokk­ur­inn hafði fengið styrki frá tengdum aðilum sem voru yfir lög­bundnu hámarki árum sam­an.

Kjarn­inn spurði einnig hvort að dæmi væri um að tengdir aðilar hefðu gefið öðrum stjórn­mála­flokkum fé sem væri yfir því sem lög heim­ila. Þeirri fyr­ir­spurn hefur ekki verið svar­að.

Tengdir aðilar máttu gefa 400 þús­und

Sam­kvæmt lögum um fjár­mál stjórn­mála­sam­taka mátti lög­að­ili ekki gefa ein­stökum stjórn­mála­flokki meira en 400 þús­und krónur árlega. Í lög­unum var tekið fram að tengdir aðilar teld­ust sem einn ef „sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hluta­fjár, stofn­fjár eða atkvæð­is­réttar í báðum eða öllum lög­að­il­un­um, enda nemi eign­ar­hlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hluta­fé, stofnfé eða atkvæða­fjölda í við­kom­andi lög­að­il­um. Sama á við ef ein­stak­lingar eða lög­að­il­ar, sem eiga meiri hluta hluta­fjár, stofn­fjár eða atkvæð­is­réttar í lög­að­ila og hver um sig á a.m.k. 10% hluta­fjár, stofn­fjár eða atkvæð­is­réttar í lög­að­il­an­um, eiga ásamt við­kom­andi lög­að­ila meiri hluta hluta­fjár, stofn­fjár eða atkvæð­is­réttar í öðrum lög­að­ila. Til eign­ar­hluta og atkvæð­is­réttar ein­stak­linga í lög­að­ilum sam­kvæmt þessum tölu­lið telst jafn­framt eign­ar­hlutur og atkvæð­is­réttur maka og skyld­menna í beinan legg.“

Ísfélagsfjölskyldan, sem styrkti Sjálfstæðisflokkinn umfram lögbundið hámark árum saman, er stærsti einstaki eigandi Morgunblaðsins.
Mynd: Bára Huld Beck

Lög­unum var breytt fyrir nokkrum dögum síð­an. Í þeim breyt­ingum fólst meðal ann­ars að hámarks­fram­lag sem hver og einn ein­stak­lingur eða lög­að­ili má gefa stjórn­mála­flokkum var hækkað í 550 þús­und krónur og að hug­takið „tengdir aðil­ar“ var sam­ræmt við skil­grein­ingar á slíkum í annarri lög­gjöf, svo sem í hluta­fé­laga-, einka­hluta­fé­laga-, árs­reikn­inga- og sam­keppn­is­lög­gjöf. Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu sagði: „Þar sem vart er hægt að hugsa sér nán­ari tengsl lög­að­ila en móð­ur- og dótt­ur­fé­lög er lagt til að aðilar í slíku rétt­ar­sam­bandi telj­ist tengdir í skiln­ingi lag­anna. Til­lagan er jafn­framt í sam­ræmi við til­mæli ÖSE, sem fram koma í úttekt­ar­skýrslu stofn­un­ar­innar frá 2. mars 2018.“

Of hátt sam­kvæmt breyttum lögum líka

Sama hvora skil­grein­ing­una er stuðst við þá liggur fyrir að stjórn­mála­flokkar eiga að telja saman fram­lög tengdra aðila. Það gerði Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn ekki.

Ísfé­lag Vest­manna­eyja er í eigu Fram ehf. Það félag er í eigu Guð­bjargar Matth­í­as­dóttur og barna henn­ar. Fram á einnig fjár­fest­inga­fé­lagið Krist­inn ehf., sem á allt hlutafé í Ísam ehf. og 73,5 pró­sent hlut i Odda prentun og úmbúðir ehf. Félögin eru því aug­ljós­lega tengd, enda í eigu sömu fjöl­skyldu.

Þrátt fyrir það gaf Ísfé­lagið Sjálf­stæð­is­flokknum 400 þús­und krónur árin 2015, 2016 og 2017. Ísam gaf honum sömu upp­hæð öll ári og Oddi gaf flokknum 100 þús­und krón­ur. Sam­an­lagt fram­lag þess­arra þriggja tengdu aðila var því 900 þús­und krónur hvert ár, eða 500 þús­und krónum meira en lög heim­ila. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn þarf þess vegna að end­ur­greiða Ísfé­lags­fjöl­skyld­unni alls 1,5 millj­ónir króna. Hann hefur nú þegar end­ur­greitt upp­hæð­ina vegna árs­ins 2017 til Ísfé­lags­ins og Odda.

Til við­bótar þarf hann, líkt og áður sagði, að end­ur­greiða eig­endur fyr­ir­tækj­anna Eskju og Fiski­miða, 400 þús­und krónur vegna ofgreiddra styrkja á árinu 2013.

Stærstu eig­endur Morg­un­blaðs­ins

Félög tengd Ísfé­lag­inu eru ekki bara á meðal helstu styrkt­ar­að­ila Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Þau eru líka stærstu eig­endur Árvak­urs, útgáfu­fé­lags Morg­un­blaðs­ins. Ísfé­lagið á sjálft 13,43 pró­­­sent hlut og áður­­­nefnt félag, Hlynur A, í eigu Guð­­­bjargar Matt­h­í­a­s­dótt­­­ur, á 16,45 pró­­­sent hlut.  

Aðkoma fjöl­skyld­unnar að rekstri Morg­un­blaðs­ins hófst árið 2009 þegar hún mynd­aði bak­beinið í hópi aðila, að mestu tengdum sjáv­ar­út­vegi, sem keypti Árvak­ur. Nokkrum mán­uðum síðar réðu nýir eig­endur Davíð Odds­son, fyrr­ver­andi for­mann Sjálf­stæð­is­flokks­ins, sem rit­stjóra. Hann gegnir því starfi enn.

Árvakur tap­aði 284 millj­ónum króna á árinu 2017. Frá því að nýir eig­endur tóku við rekstr­inum árið 2009, og fram að síð­ustu ára­mót­um, hefur félagið tapað um 1,8 millj­arði króna. Hlut­hafar Árvak­urs, meðal ann­ars Ísfé­lags­fjöl­skyld­an, hafa sett inn rúm­lega 1,4 millj­arða króna inn í Árvakur hið minnsta á því tíma­bili.Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar