Árið 2018: Opinbera yfirstéttin heldur tugprósenta launahækkunum sínum
Þingmenn, ráðherrar, aðstoðarmenn ráðherra, biskup og ýmsir aðrir háttsettir embættismenn fengu að halda tugprósenta launahækkunum sem kjararáð hafði skammtað þeim. Sömu sögu var að segja af forstjórum opinberra fyrirtækja. Og Kauphallarforstjórar voru að meðaltali með 17föld lágmarkslaun. Kjarninn heldur áfram að fjalla um árið 2018.
Á kjördag 2016 voru laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra hækkuð umtalsvert. Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Aðstoðarmenn ráðherra hafa líka fengið duglega launahækkun á undanförnum árum. Sumarið 2016 voru laun skrifstofustjóra í ráðuneytum hækkuð um allt að 35 prósent. Eftir þá hækkun eru laun aðstoðarmanna, sem miða við þau laun, um 1,2 milljónir króna á mánuði.
Í desember hækkaði kjararáð svo laun biskups, Agnesar Sigurðardóttur, um tugi prósenta. Í úrskurði vegna þessa kom fram að biskup skuli hafa tæplega 1,2 milljónir í mánaðarlaun auk 40 fastra yfirvinnueininga. Ein eining er 9.572 krónur og laun biskups því eftir hækkun alls 1.553.359 krónur á mánuði.
Hækkunin var afturvirk til 1. janúar 2017, samkvæmt úrskurðinum. Um áramót fékk biskup því eingreiðslu fyrir síðasta árið en sú upphæð nemur 3,3 milljónir króna.
Allar þessar hækkanir gerðu það að verkum að verkalýðshreyfingunni fannst eðlilegt að horfa til þeirra þegar hún setti fram sínar kröfur vegna komandi kjarasamninga. Þannig fór hún meðal annars fram á að lágmarkslaun yrðu hækkuð um yfir 40 prósent á gildistíma næsta kjarasamnings.
Mikið reiði en launin látin halda sér
Þrátt fyrir hina miklu gagnrýni sem sett hefur verið fram á ákvarðanir kjararáðs þá hefur ekki verið undið ofan af hinum miklu hækkunum.
Vegna þessa ástands skipaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra starfshóp til að fjalla um málefni kjararáðs þann 19. janúar síðastliðinn. Hópurinn skilaði af sér rúmum mánuði síðar og í niðurstöðu hans kom fram að kjararáð hafi í ákvörðunum sínum um kjör æðstu stjórnenda ríkisins farið langt umfram viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá árinu 2015, ákvarðanir þess verið óskýrar, ógagnsæjar og ekki samræmst fyrirmælum í lögum um störf ráðsins. Lagði starfshópurinn til að kjararáð yrði lagt niður og útafkeyrsla þess yrði leiðrétt.
Það breytti því ekki að skaðinn var skeður. Hinar óhoflegu launahækkanir höfðu sett kjarasamninga í uppnám. Ekki bætti úr skák þegar fréttir bárust af því á síðustu vikum að laun æðstu stjórnenda og stjórna opinberra fyrirtækja hefðu hækkað um tugi prósenta strax í kjölfar þess að ákvarðanir um kjör þeirra hafi verið færðar undan kjararáði og til stjórnanna sjálfra.
Mesta úlfúð vakti hækkun launa forstjóra Landsvirkjunar um 700 þúsund krónur á mánuði á ársgrundvelli. Þau eru ný 2,7 milljónir króna. Þar sem launahækkun hans tók gildi um mitt síðasta ár er hækkunin á mánaðarlaununum líkast til mun hærri, eða yfir einni milljón króna. Laun stjórnarmanna í Landsvirkjun hækkuðu um tæp 50 prósent. Samanlagt deildu fimm stjórnarmenn með sér 525 þúsund krónum til viðbótar á mánuði.
Þetta var ákveðið af starfskjaranefnd Landsvirkjunar, sem í sitja þrír stjórnarmannanna. Einn þeirra er Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar. Hann var skipaður í það starf af Bjarna Benediktssyni, sem skipaði hann einnig sem formann kjararáðs árið 2014.
Kjararáð fékk líka launahækkun
Þá greindi Kjarninn frá því í mars síðastliðnum að þann 14. september 2017, daginn áður en að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk, sendi Jónas Þór, sem formaður kjararáðs, bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og falaðist eftir launahækkun fyrir ráðið. Samkvæmt lögum er það ráðherra sem ákveður laun ráðsins hverju sinni. Í bréfi Jónasar var farið fram á að laun þeirra sem sitja í ráðinu yrðu hækkuð um 7,3 prósent og að sú hækkun yrði afturvirk til 1. ágúst sama ár.
Þessi beiðni var rökstudd með því að laun kjararáðs hefðu ekki hækkað frá því sumarið 2016 og að mánaðarleg launavísitala Hagstofu Íslands hefði hækkað um áðurnefnda prósentutölu frá því að síðasta hækkun hafði átt sér stað.
Bréfinu var ekki svarað í rúman tvo og hálfan mánuð. Í millitíðinni fóru fram kosningar og 30. nóvember 2017 tók ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við valdataumunum á Íslandi. Í fjármála- og efnahagsráðuneytið settist Bjarni Benediktsson.
Sex dögum eftir að hann tók við embætti, þann 6. desember, barst Jónasi svarbréf frá ráðuneytinu. Í því var honum greint frá að fallist hafði verið á tillögu hans um launahækkun kjararáðs og að hún myndi gilda frá 1. ágúst 2017.
Kauphallarforstjórarnir fengu sitt
Þá eru ótaldir forstjórar stærstu skráðu félaga landsins. Það eru alls 16 forstjórar yfir félögunum sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað. Þeir eru allir karlar. Kjarninn tók saman í mars launakjör þeirra úr birtum ársreikningum og hvernig þau hafa þróast á undanförnum árum. Niðurstaðan var sú að meðal Kauphallar-forstjórinn var með 4,7 milljónir króna í mánaðarlaun. Það voru tæplega 17földlágmarkslaun.
Mánaðarlaun forstjóra í Kauphöllinni Íslands á árinu 2017:
- Árni Oddur Þórðarson 7,8 milljónir á mánuði
- Finnur Árnason 6,4 milljónir króna á mánuði*
- Eggert Kristófersson 5,9 milljónir á mánuði
- Helgi Bjarnason 5,9 milljónir á mánuði**
- Gylfi Sigfússon 5,6 milljónir króna á mánuði
- Stefán Sigurðsson 4,7 milljónir á mánuði
- Björgólfur Jóhannsson 4,6 milljónir króna á mánuði
- Hendrik Egholm 4,5 milljónir á mánuði
- Sigurður Viðarsson 4,3 milljónir á mánuði
- Vilhjálmur Vilhjálmsson 4,2 milljónir á mánuði
- Hermann Björnsson 4,2 milljónir á mánuði
- Orri Hauksson fjórar milljónir á mánuði
- Finnur Oddsson 3,8 milljónir á mánuði
- Guðjón Auðunsson 3,7 milljónir króna á mánuði
- Garðar Hannes Friðjónsson þrjár milljónir á mánuði
- Helgi S. Gunnarsson 2,8 milljónir á mánuði
*Laun fyrir rekstrarárið 2016/2017
**Settist í stól forstjóra um mitt ár 2017