Mynd: Samsett

Ríkisstjórnin kynnti nýtt skattþrep fyrir lægstu tekjurnar

Í tillögum um breytingar á skattkerfinu sem ríkisstjórnin kynnti aðilum vinnumarkaðarins í morgun voru lagðar til jafnar skattalækkanir upp á nokkur þúsund krónur á mánuði á alla einstaklinga með tekjur upp að 900 þúsund krónum. Stærstu stéttarfélögin hafa þegar hafnað tillögunum og segja þær gera vonir um að glæður hlaupi í kjaraviðræður að engu.

Ríkisstjórnin kynnti hugmyndir um nýtt lægsta skattþrep á fundum sínum með forsvarsmönnum vinnumarkaðarins í dag, samkvæmt heimildum Kjarnans. Það skattþrep yrði þá fyrir lægstu tekjurnar.

Viðmælendur Kjarnans segja að útfærslan yrði hins vegar þannig að um sömu skattalækkun yrði að ræða í krónum talið, nokkur þúsund krónur á hvern einstakling, upp að 900 þúsund króna tekjum á mánuði.

Verkalýðshreyfingin bjóst við því að kynntar yrðu skattalækkanir fyrir lægst launuðustu hópanna sem myndu telja í tugum þúsunda króna á mánuði. Því er ljóst að tillögur stjórnvalda í skattamálum eru ekki að fara hleypa glæðum í viðræðurnar að nýju að óbreyttu.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem VR, Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur sendu frá sér síðdegis í dag kom fram að stéttarfélögin lýsi „reiði og sárum vonbrigðum“ með þær tillögur sem ríkisstjórnin kynnti á fundi með forseta og varaforsetum Alþýðusambands Íslands í dag, þeim Drífu Snædal, Kristjáni Þórði Snæbjörnssyni og Vilhjálmi Birgissyni. Vilhjálmur gekk út af fundinum.

Auglýsing

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sátu Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­mála­ráð­herra, Katrín Jak­obs­dótt­ir for­­sæt­is­ráð­herra, Sig­­urður Ingi Jó­hanns­­son, samgöngu- og sveit­­ar­­stjórn­­­ar­ráð­herra og Ásmund­ur Ein­ar Daða­son, fé­lags- og barna­­mála­ráð­herra fundinn og kynntu tillögur hennar. Auk skattatillagna voru ræddur hugmyndir tengdar aðgerðum á húsnæðismarkaði, meðal annars um aukin stofnframlög til óhagnaðardrifinna leigufélaga, og úrbætur á félagslegum kerfum.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við RÚV að honum litist ágætlega á tillögur ríkisstjórnarinnar.

Umfangsmiklar breytingartillögur lagðar fram

Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum vikum lagt fram sínar eigin skattatillögur. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti fyrir nokkrum vikum tillögur sem í fólst að hér á landi yrðu jögur skatt­þrep, lagður verði á hátekju­skatt­ur, tek­inn verði upp að nýju auðlegðarskattur og skatta­yf­ir­lit aukið veru­lega til að fjár­magna þessar til­lög­ur.

Þann 7. febrúar var svo kynnt skýrsla Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og um tíma ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, unnu fyrir Eflingu stéttarfélag um skattkerfisbreytingar. Stefán ræddi þær í þættinum 21 á Hringbraut í síðustu viku og sagðist þar vongóður um að tillögur þeirra myndu koma til framkvæmda. 

Mikill samhljómur var með henni og þeim tillögum sem samþykktar voru í miðstjórn Alþýðusambands Íslands en skýrslan sýndi ítarlegri útfærslur og kostnaðarmat tillögurnar sem lagðar voru til. Þær helstu voru að hér þyrfti að koma á stígandi skattkerfi með fjórum til fimm skattþrepum, hækka þyrfti fjármagnstekjuskatt til samræmis við það sem almennt tíðkast á hinum Norðurlöndunum og breyta skattlagningu rekstrarhagnaðar til samræmis við skatt á launatekjur. Þá þyrfti að bæta framkvæmd reiknaðs endurgjalds sjálfstætt starfandi aðila þannig að endurgjaldið verði einnig látið taka til fjármálastarfsemi, leggja þarf á stóreignaskatt með frítekjumarki fyrir eðlilegt verðmæti íbúðarhúsnæðis, sumarhúsa og einkabifreiða og sanngjörn auðlindagjöld „fyrir allar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.”

Til viðbótar væri nauðsynlegt að efla skattaeftirlit og herða eftirfylgni skattrannsókna og dóma.

Áttu að lækka skatta um tugi þúsunda

Tillögur Stefáns og Indriða eiga að færa láglaunafólki og lífeyrisþegum á milli 20 og 29 þúsund króna lækkun á staðgreiðslu á mánuði og samkvæmt þeim myndu um 90 prósent framteljenda fá skattalækkun. Þannig myndu allir með tekjur að um 900 þúsund krónum á mánuði fá skattalækkun ef tillögunum yrði hrint í framkvæmd, samkvæmt skýrslunni. Nettó kostnaður við það að hrinda þeim í framkvæmd væri um 30 milljarðar króna.

Auglýsing

Ljóst er að þær tillögur sem kynntar voru á fundinum í morgun eru fjarri því að skila þeim upphæðum sem stefnt var að í skýrslunni.

Þess má geta að Samfylkingin lýsti í morgun yfir stuðningi við skattahugmyndir Alþýðusambandsins og flokkurinn hvatti til þess að unnið yrði eftir þeim hugmyndum við útfærslu breytinga á skattkerfinu.

Staðan mjög viðkvæm

Eins og stendur eru kjaraviðræður því í algjörum hnút og staðan mjög viðkvæm. Í síðustu viku lögðu Samtök atvinnulífsins fram tilboð sem hljóðaði upp á að laun upp að 600 þúsund krónum á mánuði myndu hækka um 20 þúsund krónur á mánuði hvert ár samningsins, sem gert var ráð fyrir að gilti til þriggja ára. Hærri laun áttu að hækka um 2,5 prósent.

Efl­ing, VR og verka­lýðs­fé­lög Akra­ness og Grinda­vík­ur sögðu tilboðið leiða til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólks. Þau lögði fram gagntil­boð á föstudag þar sem komið var „til móts við kaup­hækk­­­un­­­ar­­­boð Sam­­­taka atvinn­u­lífs­ins, með því skil­yrði að yfir­­­völd setji fram og standi við skatt­­­kerf­is­breyt­ing­­­ar.“ Sam­tök atvinnu­lífs­ins höfn­uðu gagntil­boð­inu.

Það mun mikið mæða á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á næstu misserum vegna stöðunnar á vinnumarkaði.
Mynd: Bára Huld Beck.

Á laugardag var haft eftir Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, í  Morg­un­blað­inu að það virtist fyrirliggjandi að deilur á vinnumarkaði myndu ekki leysast án umtalsverðrar aðkomu stjórnvalda. Val­kostir stjórn­valda væru skýr­ir: ann­að­hvort verði þau „með vinnu­mark­að­inn í fang­inu út kjör­tíma­bilið eða fá vinnu­frið og byggja upp betra, rétt­lát­ara og stöðugra sam­fé­lag.“

Ríkisstjórnin mögulega ekki að spila öllu út

Viðmælendur Kjarnans vilja ekki útiloka að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í morgun, og stór hluti verkalýðshreyfingarinnar hefur þegar beinlínis hafnað sem nægjanlegum, geti tekið breytingum.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi ítrekað sagt að aðkoma hennar að deilum á vinnumarkaði eigi að hefjast þegar einhvers konar sátt hafi náðst milli fulltrúa deilenda, en að ríkið eigi ekki að leysa deiluna eitt og sér.

Því sé það mat sumra viðmælenda innan verkalýðshreyfingarinnar að ríkisstjórnin sé ekki að spila út öllum spilunum sínum núna.

Hafi þeir rangt fyrir sér, og að þessar tillögur sem kynntar voru í morgun, feli í sér allt sem ríkisstjórnin ætlar að leggja fram til lausn á vinnumarkaðsdeilunni liggur fyrir að líkur á harðari átökum, með mögulegum verkföllum, hafa aukist verulega í dag.

Ríkisstjórnin mun kynna skattatillögur sínar á blaðamannafundi klukkan 17 í dag.

Kanntu vel við Kjarnann?

Við á Kjarnanum þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar