Tekjur Reykjavíkurborgar vegna fasteignaskatta aukast þrátt fyrir að skattprósentan lækki
Reykjavíkurborg fékk rúmlega tveimur milljörðum krónum meira í innheimta fasteignaskatta í fyrra þrátt fyrir að hafa lækkað fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði um tíu prósent og aukið afslætti aldraðra og öryrkja. Alls greiddu borgarbúar 18,4 milljarða króna í fasteignaskatta.
Reykjavíkurborg innheimti 18,4 milljarða fasteignaskatta á síðasta ári. Það var rúmum tveimur milljörðum krónum meira en á árinu 2017. Þetta kemur fram í ársreikningi borgarinnar sem birtur var í gær.
Þrátt fyrir að hafa lækkað fasteignaskatta í fyrra þá hafa tekjur vegna þeirra, annars vegar fasteignagjöld vegna íbúðar- og atvinnuhúsnæðis og hins vegar lóðaleiga, aukist.
Ástæðan er einfaldlega sú að fasteignaverð í höfuðborginni hefur hækkað mikið og þar sem álagningin er hlutfall af fasteignamati þá fjölgar krónunum sem fasteignaeigendur í Reykjavík borga þrátt fyrir að skattprósentan hafi lækkað.
Tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignasköttum voru þannig 11,6 milljarðar króna árið 2013 og hafa því hækkað um 58,6 prósent frá því ári. Frá ársbyrjun 2013 hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 77 prósent.
Jákvæður rekstur síðustu ár
Í ársreikningi Reykjavíkurborgar kemur fram að rekstrarhagnaður A-hluta hennar, þess hluta sem rekinn er fyrir skatttekjur, hafi verið 4,7 milljarðar króna í fyrra. Það er svipuð niðurstaða og var árið áður, þegar afkoman var jákvæð um tæpa fimm milljarða króna. Árið 2016 var líka hagnaður, upp á 2,6 milljarða króna.
Árið 2015 var A-hlutinn rekinn með 13,6 milljarða króna tapi. Ástæða þess var að lífeyrisskuldbindingar borgarinnar jukust um 14,6 milljarða króna á árinu 2015 vegna nýrra tryggingafræðilegra forsendna. Þær voru allar gjaldfærðar á því ári.
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir að borgarsjóður skili 3,6 milljarða afgangi á þessu ári.
Sveitarfélög landsins eru með tvo megintekjustofna. Annars vegar rukka þau útsvar, sem er beinn skattur á tekjur sem rennur til þess sveitarfélags sem viðkomandi býr í. Hins vegar rukka þau fasteignaskatt.
Slík gjöld eru aðallega tvenns konar. Annars vegar er fasteignaskattur (0,18 prósent af fasteignamati á íbúðarhúsnæði og 1,65 prósent af fasteignamati á atvinnuhúsnæði) og hins vegar lóðarleiga (0,2 prósent af lóðamati á íbúðarhúsnæði og eitt prósent af lóðamati á atvinnuhúsnæði). Auk þess þurfa íbúar að greiða sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva sem hluta af fasteignagjöldum sínum.
Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði var lækkaður um tíu prósent á árinu 2017 úr 0,20 í 0,18 prósent. Auk þess voru afslættir aldraðra og öryrkja af slíkum gjöldum auknir. Í sáttmála þess meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur sem tók við völdum í júní 2018 kom fram að til standi að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á kjörtímabilinu úr 1,65 prósentum í 1,60 prósent. Það hefur þó enn ekki verið gert.
Lægri skattprósenta en meiri tekjur
Á síðustu árum hafa fasteignaskattar skipað æ stærri sess í þeim tekjum sem Reykjavíkurborg aflar. Árið 2013 námu tekjur borgarinnar vegna þeirra 11,6 milljörðum króna. Sú skattheimta skilaði því 6,8 milljörðum krónum minna í kassann það árið en í fyrra.
Á milli áranna 2017 og 2018 jukust tekjur vegna fasteignaskatta um tæplega 2,1 milljarð króna. Það þýðir að hlutfallsleg hækkun milli ára er 12,7 prósent þrátt fyrir að skattprósentan hafi lækkað.
Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillögu í borgarstjórn síðla árs í fyrra um að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði úr 1,65 prósent í 1,60 prósent. Sú tillaga var felld með atkvæðum borgarfulltrúa meirihlutans í Reykjavík, sem samanstendur af Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar. Samkvæmt stefnu meirihlutans stendur þó til að lækka skatta á atvinnuhúsnæði niður í 1,6 prósent fyrir lok kjörtímabilsins, sem lýkur árið 2022.