Getur aldrei verið sjálfstætt markmið flokks að lifa af
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, segir nýja flokka koma og í slíku umróti skipti flokkar sem feykist ekki um í „örvæntingarfullri leit að vinsældum“ máli. Hann segir stjórnmálaflokk sem hræðist breytingar og forðist nýja hugsun muni visna upp. Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki slíkur flokkur.
„Hið pólitíska landslag hefur breyst mikið á 90 árum, en sennilega hafa breytingarnar orðið hvað mestar á undanförnum áratug. Ný framboð koma og fara líkt og dægurflugur. Flokkar eru stofnaðir um eitt mál eða sérhagsmuni ákveðins hóps. Í slíku umróti skiptir miklu að þeir flokkar sem eiga djúpar rætur í sögu þjóðar og breiðan hóp fylgismanna standi í fæturna, en feykist ekki undan í örvæntingarfullri leit að vinsældum.“
Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, íaðsendri grein í Fréttablaðinu í dag í tilefni af 90 ára afmæli flokksins.
Breytingarnar sem Bjarni vísar í að hafi orðið á síðasta áratug fela í sér algjöra kúvendingu á íslenska flokkakerfinu frá árinu 2013. Sögulega hafa fjórir flokkar verið undirstaðan í íslenskum stjórnmálum. Kerfið sem var við lýði hérlendis frá lýðveldisstofnun og fram á eftirhrunsárin er oft kallað 4+1 kerfið. Það samanstóð af flokkum sem í dag heita Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri græn og oft einum tímabundnum til viðbótar, sem endurspeglaði með einhverjum hætti stemmningu hvers tíma. Dæmi um það var til dæmis Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistinn, Borgaraflokkurinn, Þjóðvaki og Frjálslyndi flokkurinn.
Gjörbreyting hefur orðið á hinu pólitíska kerfi frá kosningunum 2013, en í þeim fór samanlagt fylgi hefðbundnu flokkanna fjögurra datt niður í 74,9 prósent. Í kosningunum 2016 féll það svo niður í 62 prósent og 65 prósent ári síðar. Í kosningunum 2017 fjölgaði flokkunum sem eiga fulltrúa á Alþingi um einn. Þeir eru nú átta og hafa aldrei verið fleiri.
Skoðanakannanir benda til þess að meiri líkur séu á því að enn einn flokkurinn myndi bætast við flóruna ef kosið yrði í dag en að flokkunum á þingi fækkaði. Framtíðin virðist vera átta til níu flokka Alþingi. Í síðustu könnunum mælist fylgi gamla fjórflokksins 59-61 prósent.
Getur aldrei verið sjálfstætt markmið að lifa af
Bjarni fer um víðan völl í greininni. Hann fjallar um hvaðan Sjálfstæðisflokkurinn kemur, hvað hann hefur gert og hvert hann stefnir. Bjarni segir tilveru flokksins byggja á því að rækta sambandið við almenning og eiga við hann erindi. „Til þess þarf að slípa og móta hugmyndir í takt við nýja tíma og áskoranir – skapa sýn til framtíðar. Það getur aldrei verið sjálfstætt markmið fyrir stjórnmálaflokk að lifa af í umróti samtímans. Stjórnmálaflokkur sem hefur engan annan tilgang verður aldrei hreyfiafl breytinga – verður aldrei kjölfesta sem öll samfélög þurfa á að halda.“
Í grein Bjarna er bent á að Sjálfstæðisflokkurinn er ein stærsta fjöldahreyfing landsins og að á landsfundum komi saman fulltrúar allra sjálfstæðisfélaganna, Þar sé oft duglega tekist á um málefnin og komist að niðurstöðu sem flestir geta sætt sig við. „Þetta hefur verið aðalsmerki okkar sjálfstæðismanna, að geta tekist á um stefnumálin. Styrkurinn felst í því að virða niðurstöðu meirihlutans og standa þétt saman í baráttunni. Við, kjörnir fulltrúar flokksins, sækjum mikinn kraft og stuðning í almenna flokksmenn sem hafa ítrekað sýnt að þegar á þarf að halda stendur þeim enginn á sporði. Það er markmið okkar sjálfstæðismanna að þótt flokkurinn eldist gangi hann stöðugt í endurnýjun lífdaga. Við treystum ungu fólki til trúnaðarstarfa og teljum mikilvægt að fulltrúar flokksins endurspegli breitt bakland og fjölbreytileika. Þannig höfum við lagt áherslu á að jafna hlut karla og kvenna í trúnaðarstöðum. Árangurinn á sveitarstjórnarstiginu er sérstaklega ánægjulegur, en alls sitja 57 konur í sveitarstjórnum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, eða um helmingur allra fulltrúa okkar.“
Á þingi er staða kynjanna innan Sjálfstæðisflokksins hins vegar ekki jafn jöfn. Af 16 þingmönnum hans eru fjórar konur. Sem stendur er ein þeirra ráðherra.
Segir stjórnmálaflokka ekki mega hræðast breytingar
Að Sjálfstæðisflokknum hefur verið sótt frá úr ýmsum áttum að undanförnum. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og einn þeirra sem er hvað oftast nefndur sem líklegur formannsframbjóðandi kjósi Bjarni Benediktsson frá að hverfa í nánustu framtíð, ræddi þá stöðu nýverið í sjónvarpsþættinum Mannamál á Hringbraut. Þar sagði hann m.a.: „Það sem er nýtt og við höfum aldrei haft er þú ert með fyrrum formenn sem eru svona gagnrýnir á Sjálfstæðisflokkinn. Eru bara að hamast í því mjög lengi. Við erum annars vegar með Þorstein Pálsson, sem er farinn í annan flokk, og svo Davíð Oddsson.“
Þorsteinn Pálsson, sem var formaður Sjálfstæðisflokksins 1983 til 1991, var á meðal þeirra Sjálfstæðismanna sem gengu úr flokknum eftir að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var dregin til baka án þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014. Þorsteinn sagði að svik á loforði um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, sem gefið hafði verið í aðdraganda kosninga 2013, hafi verið „ein stærstu svik sem gerð hafa verið í íslenskum stjórnmálum“. Þorsteinn kom síðar að stofnun Viðreisnar og hefur verið ötull gagnrýnandi á störf Sjálfstæðisflokksins á síðustu árum. Gagnrýni Þorsteins hefur að megin stefi verið sú að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki nægilega alþjóðlegur og of íhaldssamur.
Davíð Oddsson var formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1991 til 2005 og hefur síðastliðinn tæpan áratug verið ritstjóri Morgunblaðsins. Úr því sæti hefur hann iðulega gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vera ekki nægilega íhaldssaman og of alþjóðasinnaðan.
Sú gagnrýni náði ákveðnu hámarki nýverið þegar Davíð skrifaði leiðara í Morgunblaðið sem í stóð að stjórnmálaflokkar væri ekki eilífir og að það þyrfti ekki endilega að vera harmsefni ef Sjálfstæðisflokkurinn hætti að vera til. Í kjölfarið líkti Davíð Sjálfstæðisflokknum við danska Íhaldsflokkinn, sem eitt sinn skipti verulegu máli en er nú að berjast við að fá þrjú prósent atkvæða. Málflutningur Davíðs undanfarin misseri hefur átt mun meira sameiginlegt með því sem t.d. Miðflokkur Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar stendur fyrir en áherslum margra í Sjálfstæðisflokknum. Síðustu dæmi slíks eru afstaðan til þriðja orkupakkans svokallaða og nýrra þungunarrofslaga, en hluti þingmanna Sjálfstæðismanna kaus með þeirri löggjöf sem var auk þess lögð fram sem stjórnarfrumvarp og samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á þingi.
Bjarni fjallar bæði um meinta íhaldssemi Sjálfstæðisflokksins og svarar gagnrýni á skort hans á alþjóðahyggju í grein sinni. Þar kemur skýrt fram að Bjarni sjálfur telur flokkinn ekki afturhalds- eða kyrrstöðuflokk eins og sumir gagnrýnendur hans sem gengu til liðs við Viðreisn telja hann vera. „Stjórnmálaflokkur sem er á flótta undan samtíðinni, hræðist breytingar, forðast nýja hugsun og hleypur undan áskorunum framtíðarinnar, mun visna upp. Slíkur stjórnmálaflokkur hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið. Þvert á móti,“ segir í grein Bjarna.
Þá segir Bjarni að alþjóðaviðskipti og alþjóðleg samvinna hafi verið og verði alltaf einn af hornsteinum sjálfstæðisstefnunnar. Markmiðið í upphafi var að Íslendingar yrðu þjóð á meðal þjóða. „Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn rutt brautina fyrir það alþjóðasamstarf sem skipt hefur þjóðina hvað mestu. Ólafur Thors var forsætis- og utanríkisráðherra þegar Ísland sótti um aðild að Sameinuðu þjóðunum, Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra þegar Ísland gekk í NATO og forsætisráðherra þegar við gerðumst aðilar að EFTA. Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var gerður. Afstaða okkar sjálfstæðismanna til alþjóðlegrar samvinnu hefur alltaf verið skýr og einörð. Við höfum staðið vörð um fullveldið og nýtt þá möguleika sem sjálfstæðið gefur okkur í alþjóðlegu samstarfi.“