EPA

Neyðarástand eða ekki – Eitthvað þarf að gera

Krafa hefur verið uppi í samfélaginu um að stjórnvöld lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum en þau hafa ekki enn séð ástæðu til þess að gera það. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þó ekki útilokað það og boðar jafnframt víðtækar aðgerðir í loftslagsmálum.

Þjóðir, bæir og borgir víðsvegar um heiminn hafa lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og hefur þrýstings gætt hér á landi að íslensk stjórnvöld geri slíkt hið sama. Þau hafa svarað og ekki talið ástæðu til að lýsa yfir neyðarástandi og telja að aðgerðirnar tali sínu máli. Ekki eru allir á sama máli og hafa hinir ýmsu hópar haldið áfram að hvetja stjórnvöld að taka þetta skrefinu lengra.

Þann 2. maí síðastliðinn samþykktu breskir þingmenn að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Tillagan var samþykkt af þingmönnum en ber þó enga skyldu til ríkisstjórnar til athafna. Tillagan var samþykkt án atkvæðagreiðslu. Skotar hafa einnig lýst yfir neyðarástandi, sem og Írar og borgir og bæir í mörgum löndum, til að mynda í Ástralíu, Belgíu, Kanada, Tékklandi og Frakklandi. 

En hvað felst í því að lýsa yfir neyðarástandi og eru boðaðar aðgerðir jafnvel nægar? Ekki eru allir sammála um svörin við þessum spurningum og kannaði Kjarninn hvað stjórnvöld ætla að gera og hvað hinir ýmsu hópar í samfélaginu, sem láta sig málið varða, hafa um það að segja.

Það sem þarf að horfa til eru aðgerðir

Í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að íslensk stjórnvöld leggi áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum og að þau hafi sett sér markmið um árangur í þeim efnum. Þar sé lögð höfuðáhersla á að koma aðgerðum í framkvæmd sem fyrst. Þannig náist árangur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé lögð mikil áhersla á loftslagsmál og hafi ríkisstjórnin sett fram viðamikla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

„Umhverfisráðherra fagnar alþjóðlegri sem innlendri umræðunni um neyðarástand og loftslagsmál og því hvernig hún hefur lyft loftslagsmálunum enn hærra. Það er mikilvægt. Hann hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hann útiloki ekki að neyðarástandi verði lýst yfir hér á landi en að það sem fyrst og fremst þurfi að horfa til séu þó aðgerðir,“ segir í svari ráðuneytisins.

Segir aðgerðaáætlunina alls ekki ganga nógu langt

Margir vilja þó ekki við þessi svör una. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir í samtali við Kjarnann að samtökin ítreki áskorun sína að stjórnvöld lýsi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum. Á síðasta aðalfundi Landverndar í lok apríl var skorað á íslensk stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga.  Þá var ályktað að það verði að útfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með tölulegum og tímasettum markmiðum. Hún verði að ná til allra sviða samfélagsins í takt við alvarleika vandans.

Í greinargerð Landverndar segir að nokkur lönd hafi nú þegar lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og að Ísland þurfi að gera það sama. Losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi aukist hratt og sé mun meiri á hvern íbúa landsins en í nágrannalöndunum. Jafnframt er bent á að ríkisstjórn Íslands hafi sent frá sér aðgerðaáætlun í loftslagsmálum síðastliðið haust og að sú áætlunin sé mikilvægt skref í baráttunni. Hún gangi hins vegar alls ekki nógu langt; sé ómagnbundin, án tímasettra markmiða og einskorðist við of fáa samfélagsgeira.

Yfirborð sjávar mun hækka með hlýnun jarðar og er það aðeins ein af afleiðingum loftslagsbreytinga.

Telur ríkisstjórnina ekki vera að standa sig

„Grípa þarf til mun hraðari og víðtækari samdráttar í losun fyrir 2030 ef markmið um kolefnishlutleysi 2040 eiga að nást. Með því að setja töluleg og tímasett markmið fyrir öll svið samfélagsins er fyrst mögulegt að ná samdrætti í losun og  kolefnishlutleysi.

Stjórnvöld þurfa að setja skýran ramma og áætlun um hvernig það á að gerast,“ segir í greinargerð Landverndar.

Auður segir að þau hjá Landvernd hafi sent áskorunina á sex ráðherra í ríkisstjórninni og að þau hafi fengið þau svör að erindið væri móttekið. Ekki hafi heyrst frekar frá ráðuneytunum.

„Ég tel að langflestir geri sér grein fyrir því að ríkisstjórnin sé ekki að standa sig í þessum málum,“ segir Auður. Hún telur að þrátt fyrir það að lýst sé yfir neyðarástandi dugi það ekki í sjálfu sér en geri ákveðnu viðhorfi hærra undir höfði.

Kolefnishlutlaust Ísland í síðasta lagi árið 2040

En hvaða aðgerðir eru þetta sem stjórnvöld tala um? Í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins kemur fram að ríkisstjórnin hafi sett sér markmið um kolefnishlutlaust Ísland í síðasta lagi árið 2040, sem sé metnaðarfullt markmið og gangi lengra en alþjóðlegar skuldbindingar Íslands geri ráð fyrir.

Lögð verði áhersla á þátttöku allra geira samfélagsins og almennings í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda því verkefnið sé af þeirri stærðargráðu að allir þurfi að taka þátt.

„Sem dæmi um aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í má nefna að nýverið samþykkti ríkisstjórnin loftslagsstefnu Stjórnarráðsins sem er ætlað að vera fyrirmynd fyrir aðrar ríkisstofnanir og fyrirtæki og hafa margfeldisáhrif út í samfélagið. Kolefnisgjald hefur verið hækkað í áföngum síðan ríkisstjórnin tók við, vinna stendur sem hæst við breytingar á landsskipulagsstefnu þar sem áhersla er m.a. lögð á loftslagsmál í skipulagi, tryggt hefur verið með reglugerðum að gert sé ráð fyrir hleðslu rafbíla við allt nýbyggt húsnæði á landinu og vinna við stofnun Loftslagssjóðs er í fullum gangi,“ segir í svarinu.

Á næstunni verða kynntar aðgerðir á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar sem varða meðal annars orkuskipti í samgöngum, kolefnisbindingu og jafnframt hvað varðar samstarf stjórnvalda við atvinnulífið á þessu sviði.

Bent er á að í Bretlandi hafi umræðan um neyðarástand orðið til þess að almenningur þrýstir á stjórnvöld að setja sér metnaðarfyllri markmið og þau skoði nú að setja sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2050. Íslensk stjórnvöld ætli sem fyrr segir að ná sama markmiði tíu árum fyrr og vinni nú samkvæmt því. „Grundvallaratriðið eru og verða aðgerðir, þær eru það sem öllu máli skiptir,“ segir í svari umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. 

Ungmenni mótmæla aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum 15. mars 2019.
Bára Huld Beck

Unga fólkinu stendur ekki á sama

Ungt fólk hefur staðið fyrir loftslagsverkfalli á föstudögum í fleiri vikur og mánuði og eru þátttakendurnir hvergi bangnir og halda ótrauðir áfram. Í svari forsvarsmanna verkfallsins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að þau hafi krafist þess frá upphafi að ríkisstjórnin lýsi yfir neyðarástandi og þar með tekið þá afstöðu að það eigi að gera.

„Umfram það er ábyrgð verkfallsins að fá vekja athygli á málstaðnum og þrýsta á þau sem eru í ráðandi stöðu þegar kemur að breytingum til að sporna gegn loftslagsvánni að grípa til aðgerða og lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum,“ segir í svarinu.

Táknræn viðurkenning á raunverulegum vanda

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sömuleiðis hvatt stjórnvöld til að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Þá telja þau að í yfirlýsingu neyðarástands felist táknræn viðurkenning á raunverulegum vanda loftslagskrísunnar sem við stöndum nú frammi fyrir.

Stúdentaráð samþykkti einróma yfirlýsinguna og hvetur ríkisstjórn, þingheim, bæjarfélög og stofnanir til að gera slíkt hið sama. „Þegar neyðarástand ríkir þurfa aðgerðir að vera svo veigamiklar og kröftugar að þær geti mætt vánni sem steðjar að okkur af fullum krafti.“

Þau telja enn fremur að atvinnulíf og stjórnvöld þurfi að taka höndum saman af alvöru og ráðast í róttækar aðgerðir til að ná fram breytingum. Þrátt fyrir endurnýjanlega orkugjafa á Íslandi sé hlutfallsleg losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum um það bil tvöföld miðað við önnur lönd í Evrópu og haldi áfram að aukast. Ísland sé augljóslega þannig statt að gera þurfi miklu meira til að takast á við vandann.

Yfirlýsing Stúdentaráðs HÍ

Stúdentaráðið bendir á að ráðstöfun 2,5 prósent vergrar landsframleiðslu allra þjóða sé ráðlegging skýrslu IPCC. Þetta megi taka til fyrirmyndar og ættu stjórnvöld að gera breytingar á eyrnamerktu fé í aðgerðir gegn loftslagsógninni.

Prestar hvetja stjórnvöld einnig til að lýsa yfir neyðarástandi

Ekki er það einungis unga fólkið og umhverfisverndarsamtök sem hafa sýnt vilja til þess að íslenska ríkið lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum heldur hafa umboðsmenn Drottins tekið undir með þeim. Prestar Þjóðkirkjunnar hvöttu stjórnvöld í byrjun maí síðastliðins til að lýsa yfir neyðarástandi. Verkefnisstjóri umhverfismála kirkjunnar segir brýnt að endurheimta votlendi í jörðum kirkjunnar, efla skógrækt og rafbílavæða Þjóðkirkjuna.

Á nýafstaðinni prestastefnu var samþykkt viðamikil ályktun um umhverfismál þar sem stjórn Þjóðkirkjunnar er meðal annars hvött til að gera úttekt á jörðum í kirkjunnar, stunda á þeim skógrækt í stórum stíl og endurheimta votlendi. Kirkjan er hvött til að kolefnisjafna ferðir sínar innan þriggja ára, hætta með aksturspeninga og skipta út bensínbílum fyrir rafbíla. Þá er tekið undir áskorun Landverndar um að stjórnvöld eigi að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar